18.04.1967
Efri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (1690)

119. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Snemma á þessum vetri var flutt brtt. við jarðræktarlög, þess efnis að styrkja vatnsveitur á bújörðum um 1/3 af kostnaði.

Það hefur dregizt nokkuð að afgreiða þetta frv. í landbn., en núna fyrir tveim dögum eða svo varð landbn. ásátt um það að leggja til, að þessu máli yrði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Ég vil leyfa mér að lesa þessa dagskrá, með leyfi hæstv. forseta, þar sem hún er mjög stutt, en skýrir þetta mál nokkurn veginn:

„Þar sem ákvæði l. nr. 93 1947, um aðstoð til vatnsveitna, taka ekki til annarra sveitabýla en þeirra, sem stofna vatnsveitufélög, og þar sem öflun neyzluvatns krefst yfirleitt mikils stofnkostnaðar, er ástæða til, að sveitabýli, þótt þau hafi ekki aðstöðu til að eiga aðild að vatnsveitufélagi, geti átt kost á fjárhagslegri aðstoð úr ríkissjóði til vatnsveitna vegna heimilisnota, og í trausti þess, að ríkisstj. láti athuga fyrir næsta reglulegt Alþ., hvernig slík fjárhagsaðstoð verði bezt tryggð með lagaákvæðum, tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá.“

Landbn. sá ekki ástæðu til að leggja til að opna jarðræktarlög að þessu sinni. Hins vegar er það rétt, sem fram kemur í dagskrártill., að það eru til sveitabýli í landinu, sem geta ekki notið aðstoðar til vatnsöflunar, vegna þess að ákvæði l. frá 1947, sem hér er vitnað til, gera ekki ráð fyrir, að sveitabýli geti komizt undir styrk, sem þau lög ákveða, nema því aðeins að þrjú býli standi saman um félagsstofnun. En styrkur til slíkra félaga getur numið hálfum kostnaði af aðalstofnveitu. Til þess að bæta úr fyrir þessum einstöku býlum hefur fjvn. á síðari árum tekið það ráð að koma nokkuð til móts við þau með sérstökum fjárveitingum á fjárl. Þetta er bæði mjög óþægilegt og naumast framkvæmanleg aðferð, til þess að allir sitji við sama borð, og þess vegna er lagt til, að þetta mál verði athugað með það fyrir augum að bæta úr því misrétti, sem þarna hefur verið alla tíð síðan lögin um þessa aðstoð frá 1947 voru samþ. Ég vænti þess, að ég þurfi ekki að skýra þetta mál frekar og legg til, að þessi till. verði samþ.