01.11.1966
Neðri deild: 10. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (1695)

10. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þegar ég tók við embætti dómsmrh. um miðjan nóv. 1963, lá fyrir þinginu frv. til l. um breyt. á áfengislögum, sem undirbúið hafði verið í dómsmrn. og þáv. dómsmrh., núv. hæstv. forsrh., flutti fyrir hönd ríkisstj. Frv. það var samið, eins og ég sagði, á vegum dómsmrn., en á grundvelli till., sem fram komu í álitsgerð nefndar, sem skipuð var af menntmrh. í júnímánuði það ár, 1963, í samráði við dómsmrn. í tilefni atburðar, sem gerðist í sambandi við ferðir æskufólks í Þjórsárdal um hvítasunnuhelgina 1963. Undir meðferð málsins varð nokkur ágreiningur um þetta stjfrv., og n., sem hafði málið til meðferðar, gerði á því nokkrar breytingar. En eins og fram kom í því, sem ég sagði áðan, stefndi þetta frv. aðallega að breytingum á áfengisl. í sambandi við æskufólk, rétt þess til þess að kaupa áfengi, fara með áfengi og neyta áfengis á opinberum veitingastöðum. Ég held, að ég muni það rétt, að sumir hafa viljað lækka aldurinn til kaupa á áfengi í n. og til aðgangs að veitingastöðum, þar sem vínveitingar eru hafðar um hönd, en hvað sem því líður, varð niðurstaða málsins á þingi sú, að þetta frv. hlaut aldrei afgreiðslu, en hins vegar gerði sameinað Alþingi ályktun, sem gerð er grein fyrir í aths. þessa frv. hér, ályktun um það að kjósa nefnd 7 alþm. til þess að rannsaka svo sem verða má ástandið í áfengismálum þjóðarinnar og eðli og orsakir þessa mikla vandamáls. Skal n. jafnframt kynna sér framkvæmd áfengisvarna, starfsemi bindindissamtaka og endurskoða eftir þörfum gildandi löggjöf um áfengismál. Að loknum athugunum sínum skal n. gera rökstuddar till. um þær úrbætur, er hún telur nauðsynlegar og framkvæmanlegar.

Áfengismálanefndin, þessi sem kosin var á þinginu, lauk störfum á s.l. sumri og sendi dómsmrn. skýrslu um starf sitt með bréfi, dags 28. júní s.l. Hún skilaði einnig frv. til l. um breyt. á gildandi áfengisl., og eftir að þær till. n. höfðu verið til athugunar í dómsmrn., tók ríkisstj. þá ákvörðun að leggja þessar till. n., sem hún hafði skilað í frv.-formi, óbreyttar fyrir Alþ., og þær felast í því frv. til l. um breyt. á áfengisl., sem hér liggur nú fyrir til umr.

Ég hef séð það sums staðar á prenti, að það þyki ekki mikið bragð að þessum till. n. til breytinga á áfengisl. En ég tel þetta töluvert á misskilningi byggt og n. hafi ekki að þessu leyti notið fyllilega sannmælis, vegna þess að hún hafði ýmis önnur verkefni, og það var að safna margs konar fróðleik og skýrslum um ástand áfengismála hér á landi og gera till. til úrbóta, jafnvel sem ekki þyrfti breytingar á lögum til. Okkur er öllum ljóst, að hér er um mikið vandamál að ræða, og skiptir miklu máli, bæði að þingi og öðrum aðilum, sem að þessu máli vinna fyrst og fremst, takist og þjóðinni í heild að koma betri skipan á þessi mál og ráða betur við, ef ég má svo að orði komast, vandamál áfengisnautnar í landinu heldur en raun ber vitni um fram til þessa.

Ég vil af þessu tilefni alveg sérstaklega vekja athygli á till. áfengismálan., sem fylgir í hennar ýtarlegu álitsgerð á bls. 31, því að þar koma fram ýmsar ábendingar n. til úrbóta í áfengismálunum, sem ekki snerta breytingar á áfengislöggjöfinni sjálfri, og ég tel, að margar af þeim séu ekkert síður þýðingarmiklar en þær brtt., sem gerðar eru á sjálfum áfengisl. M. a. gefur n. ábendingar um, að efna þurfi til viðtækra vísindalegra áfengismálarannsókna hér á landi, bæði félagslegra og læknisfræðilegra, og kanna möguleika á samvinnu við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina um slíkar rannsóknir, og n. telur rétt, að komið verði á fót sérstakri rannsóknastofnun í áfengismálum og verði nú þegar valdir sérfróðir menn til þess að gera till. um skipulag slíkrar stofnunar.

Það hefur ekki unnizt af minni hálfu sérstakur tími til að vinna að þessu máli, en um þetta eins og aðrar ábendingar mun dómsmrn. að sjálfsögðu vera reiðubúið til samstarfs við alla þá aðila, sem hér eiga hlut að máli, eins og áfengisvarnaráðið, samtök, sem vinna gegn áfengisneyzlu í landinu, Stórstúkuna og aðra aðila.

Nefndin vekur athygli á nauðsyn þess að auka almenna fræðslu um áfengismál, að efla beri eftir megni alla æskulýðsstarfsemi, sem miðar að hollri tómstundaiðju og áfengislausu skemmtanalífi æskulýðsins, með fjárframlögum hins opinbera og á annan gagnlegan hátt og setja lög um það efni, og leggja beri áherzlu á hófsemi í vínveitingum í opinberum móttökum og veizlum og takmarka veizlur og móttökur, þar sem áfengi er veitt, að efla þurfi löggæzlu á samkomum, stórauka tolleftirlit um allt land, rannsaka til hlítar allar áfengiskærur og hraða dómsmeðferð, framfylgja af festu refsiviðurlögum við áfengislagabrotum, smáum og stórum, ekki sízt þegar ungmenni eiga í hlut. Um þetta atriði vil ég segja það, að löggæzla hefur á undanförnum árum verið efld verulega, einmitt eins og lagt er til hérna, en það segir ekki það, að það þurfi ekki að efla hana í stórum mæli. Og ég hygg einmitt, að það sé eitt af verkefnunum fram undan að hafa meira hreyfanlega löggæzlu, þá væntanlega af hálfu ríkisins, t.d. vegna erfiðleika, sem koma upp á síldarstöðvunum og vertíðunum, sem mönnum er kunnugt um, en tækni nýrra tíma gerir mögulegt að hafa miklu meira á takteinum en verið hefur fram til þessa. Tolleftirlitið hefur verið stóraukið og breytingar orðið á í þeim efnum, eins og hv. þm. er, hygg ég, fullkunnugt um. Að rannsaka til hlítar allar áfengiskærur og hraða dómsmeðferð, — um það vil ég segja aðeins nú, að ég mun innan mjög skamms tíma leggja fyrir þingið ýtarlega skýrslu um afgreiðslu og meðferð dómsmála í landinu, sem nær yfir 5 ára tímabil, frá 1961–1965. Þar kemur fram mjög ýtarlegt yfirlit um þessi mál dómsmálanna, meðferð áfengismálanna einnig, og það hafa þegar verið gerðar ráðstafanir til þess að flýta meðferð dómsmálanna og afgreiðslu á sviði áfengismálanna, eins og ég mun þá nánar gera, gera grein fyrir.

Þá bendir n. á, að menntmrn. beiti sér fyrir samtökum eigenda félagsheimila um skipulega notkun þeirra í þágu menningar- og félagsstarfsemi, ásamt viðhlítandi ráðstöfunum til þess að koma í veg fyrir áfengisneyzlu í félagsheimilum, svo sem fyrir er mælt í reglum um styrkveitingar til þeirra. Þetta mál hygg ég, að hafi verið til athugunar í menntmrn., en sé alveg tímabær ábending.

Svo er 7. liðurinn, sem bent er á, að gera þurfi ráðstafanir til að draga úr drykkjuskap og óreglu á síldarhöfnum og öðrum verstöðvum. Að því vék ég nokkuð áðan. Það er sennilega fyrst og fremst aukin löggæzla og mikið aukin löggæzla, sem þar þyrfti að koma til greina. Vinna þarf að sem víðtækastri læknisþjónustu vegna ofdrykkju á grundvelli laga um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra.

Þá hefur áfengismálanefnd orðið sammála um að leggja til, að tilteknar breytingar verði gerðar á nokkrum greinum áfengisl., og það eru einmitt þær breytingar, sem felast í þessu frv. Ég hef viljað vekja sérstaka athygli á þessu, til þess að það fari ekki á milli mála, að það var margt annað verkefni áfengismálanefndarinnar heldur en gera aðeins till. um breytingar á áfengisl., og ég tel margar ábendingar hennar mjög athyglisverðar og geta leitt til úrbóta á þessu máli og beri að leggja fullt kapp á að sinna þeim. Ég fyrir mitt leyti og það rn., sem ég hef til umráða í því sambandi, mun ekki draga af mér eða mínu rn. og vil heita fullum stuðningi þeim aðilum, sem hér eiga hlut að máli, til þess að vinna að framgangi þeirra mála.

Svo koma fram margvíslegar þýðingarmiklar ábendingar í álitsgerðinni, umsagnir færustu manna, sem hafa með höndum forustu á sviði fræðslumála, og það eru skólastjóraumsagnirnar allar, sem getið hefur verið um víða í blöðum og þm. hafa haft fyrir sér, og ég ætla ekki að fara að rekja þær, en ég tel, að þær hafi sína þýðingu, einnig umsagnir sérfræðinga og lækna og t.d. till. og ábendingar frá Stórstúku Íslands, sem getið er á bls. 61 í skýrslunni. Þar eru fjórir höfuðliðir. Stórstúka Íslands telur, að áfengissala og áfengisveitingar eigi engar að vera í landinu, en gerir sér hins vegar ljóst, að skilyrði til þess, að svo megi verða, eru ekki fyrir hendi sem stendur. Ég tel þetta þýðingarmikla yfirlýsingu frá Stórstúku Íslands. Það er enginn vafi á því, að fyrir þeim mönnum, sem að Stórstúkunni standa, vakir öllum tvímælalaust það, sem sagt er í upphafi, að þeir telja, að áfengissala og áfengisveitingar eigi engar að vera í landinu, þar af leiðandi ætti að vera bann, ekkert áfengi á boðstólum og ekkert áfengi flutt inn. Um þetta hefur verið deilt um áratugaskeið með litlum árangri, og ég tel Stórstúkuna að þessu leyti hafa sýnt skarpskyggni og vera lífræna í skoðunum sínum að viðurkenna, að skilyrði til þess, að svo megi verða, eru ekki fyrir hendi sem stendur. Þetta dregur á engan hátt, að mínum dómi, úr vilja eða ásetningi Stórstúkunnar að vinna að sínu höfuðmarkmiði, en hún vilji stefna að því á raunhæfari hátt en stundum hefur verið haldið að hægt væri með því bara að setja á bann. Svo segir hún í framhaldi af þessu, að leggja beri áherzlu á, að allar aðgerðir hins opinbera í áfengismálum miði að því að draga úr áfengisþjóðarinnar, ekki sízt æskulýðsins. Í öðru lagi segir hún, að ljóst sé, að heilbrigt fordæmi fær miklu áorkað til bóta í þessum efnum. Hið opinbera verður þess vegna að hætta öllum vínveitingum í veizlum sínum eða boðum. Jafnframt á að vinna að því við félög og samtakahópa, að þeir veiti ekki vín á árshátíðum eða öðrum samkomum sínum. Í þriðja lagi sé nauðsynlegt að efla bindindissemi með þjóðinni og þann hugsunarhátt, sem er undirstaða sannrar bindindissemi. Til þess þarf m. a. að efla bindindisboðun og bindindisfræðslu innan skóla og utan og hefja af opinberri hálfu sterkan áróður gegn hvers konar áfengisneyzlu. Þyrfti þá að styrkja starfsemi þeirra félaga, er vinna að bindindismálum, og koma upp föstum erindrekstri. Það opinbera hefur á undanförnum árum veitt aukið fé á fjárl., bæði fyrr og nú, til aukinnar bindindisstarfsemi í landinu. Og í fjórða lagi segir: Það mun verða til mikilla bóta frá því, sem nú er, ef núgildandi áfengislöggjöf væri túlkuð og framkvæmd fastar og nákvæmar og í meira samræmi við tilgang sinn að takmarka og draga úr neyzlu áfengra drykkja. Þetta eru fjórir höfuðþættir, sem Stórstúka Íslands bendir á, en síðan telur hún upp í 22 liðum ýmsar ábendingar, sem hún telur nauðsynlegt að vinna að til þess að sporna gegn hinum alvarlegu áhrifum og vandamáli áfengisnautnar í landinu. Ég tel ekki ástæðu til að telja það upp hér, enda hafa hv. þm. þann langa lista fyrir sér í álitsgerð frá Stórstúkunni.

Ég skal svo aðeins víkja lauslega að nokkrum atriðum sjálfs frv. Það er í stórum dráttum svipað og frv. það, sem ríkisstj. lagði fyrir þingið 1963, og aldurstakmarkið er það sama, það er ekki fært niður úr 21 árs aldri.

Það er nýmæli, sem kemur fram í 1. gr. b-lið, að hvert vínveitingahús, er vínveitingaleyfi hefur, skal halda uppi fullkominni þjónustu án vínveitinga a. m. k. eitt laugardagskvöld af hverjum 4 eftir kl. 8 síðdegis samkv. reglum, sem ráðh. setur að fengnum till. áfengisvarnaráðs. Það er kunnugt, að það hefur verið mikið vandamál á undanförnum árum fyrir æskufólk landsins og ekki sízt í margmenninu að hafa aðgang að samkomustöðum, dansstöðum, þar sem vínveitingar eru ekki hafðar um hönd. Það hafa verið gerðar um þetta tilraunir með einstök veitingahús hér í höfuðborginni, en gefizt upp við þær. Nú leggur áfengismálan. til, að þetta sé tekið inn í lög, að hverjum sem fær heimild til þess að hafa vínveitingar í veitingahúsi sé skylt fjórða hvern laugardag að hafa og reka þar veitingastarfsemi án áfengisveitinga. Ég skal ekki kveða upp neinn dóm um það, hvort þetta sé atriði, sem muni í reyndinni verða verulega til bóta eða ekki, en ég hef þó, eins og ríkisstj. í heild, tekið upp þessar till. n. alveg óbreyttar. Ég tel hins vegar, eins og annars staðar er bent á í nál. áfengismálanefndarinnar, að eitt veigamesta atriðið, sem við getum gert, sé að vinna að aukinni hófsemi og bindindi æskufólksins og skapa því aðstöðu til heilbrigðra skemmtana, þar sem áfengi er ekki haft um hönd. Fyrir mitt leyti held ég, að við verðum að stíga miklu stærra og ákveðnara spor í þessu sambandi heldur en gert hefur verið fram til þessa. Það var gerð tilraun með rekstur Lídós fyrir æskulýðinn hér í Reykjavík, eins og mönnum er kunnugt um, en ég hygg, að ríki og á fyrsta stigi Reykjavíkurbær, stærsta borgin, ættu að stefna að því að koma upp góðum dansstað fyrir æskulýðinn, og hann verður sjálfsagt að vera með allri nýtízkugerð, því að æskulýðurinn er nýtízkulegur, og miðað sé við mismunandi aldur æskulýðsins, annars vegar innan við 16 ára aldur, yngra fólkið, og síðan fólkið, sem er fyrir ofan 16 ára aldur og upp til myndugsaldurs. Það er enginn vafi á því, að ef þetta á að vera gert á nýtízkulegan hátt og þannig, að æskan meti það og þakki, fer í þetta stórkostlega mikið fé, og þá verðum við hér á Alþ. að vera reiðubúnir til þess að leggja þetta fé fram alveg sérstaklega og tengja þetta ekkert við félagsheimilasjóð eða neitt slíkt og þá láta reyna á það, að höfuðborgin af sinni hálfu vilji líka leggja fram stórfé í þessu skyni. En ef við getum afhent æskunni svona danshús og skemmtanastað, eigum við að gera þá kröfu til hennar og samtaka hennar, að hún geti rekið þetta, þegar hún þarf ekki að standa undir neinum stofnkostnaði. Er mín skoðun, að stefna eigi að þessu á þessu sviði og til þess þurfi stórátök, bæði af hálfu þings og sveitarfélaga, og það væri eðlilegt, að slík tilraun væri athuguð fyrst af ríkinu og höfuðborginni. Það getur vel verið, að mér missýnist í þessum efnum, og það eru margir góðir menn, sem geta lagt á betri ráð, en í meginatriðum held ég, að við ættum að sýna þann myndarskap að afhenda æskunni húsnæði, sem hún metur að verðleikum, og gera þá sterkar kröfur til hennar, að hún standi sig um myndarlegan rekstur á slíku húsnæði, og enda þótt við leggjum í þetta gífurlega mikið fé, mun þjóðin fá það margfalt endurgoldið.

Ég skal svo ekki fylgja þessu máli úr hlaði með fleiri orðum, en leyfi mér að leggja til, herra forseti, að þessu máli verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari 1. umr. og hv. allshn.