12.12.1966
Neðri deild: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

88. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Við skjótan yfirlestur á þessu frv. sýnist mér, að með því sé stigið spor í rétta átt, þótt það sé að vísu stutt, skrefið. Ég vil minna á í þessu sambandi, að þm. Framsfl. í Ed. Alþ. hafa nú og á fyrri þingum flutt frv. um framleiðnilánadeild, fyrst við Framkvæmdabanka íslands og nú á þessu þingi við Framkvæmdasjóð Íslands. Það hefur ekki fengizt samþ. En hér hefur hæstv. ríkisstj. tekið þátt úr því frv. upp í stjfrv., sem hún nú flytur og hér liggur fyrir. Það hefur komið fyrir áður, að hæstv. ríkisstj. hefur notað þannig efni úr frv., sem aðrir hafa flutt, og tekið þau upp sem sín mál síðar. Það er ekki nema gott eitt um það að segja. En hins vegar, eins og ég sagði, hefur hún tekið aðeins nokkurn þátt úr þessu frv. framsóknarmanna um framleiðnilánadeildina. Þar var gert ráð fyrir stofnun, sem sinnti þörfum aðalatvinnuveganna yfirleitt, og allt er það þannig víðtækara og miklu stærra í sniðum heldur en það frv., sem hér liggur fyrir.

Það eru mikil verkefni, sem bíða úrlausnar á þessu sviði, endurbóta í rekstri á landbúnaði eins og öðrum atvinnugreinum, mikil verkefni, sem þessi sjóður þarf að sinna, og mér finnst því vera nokkuð naumt skammtað fé til hans, þar sem það eiga aðeins að vera 10 millj. á ári næstu 3 árin. Það verða ekki gerð nein stórvirki með því framlagi, og má um þetta segja, að smátt sé skammtað smjörið hjá hæstv. ríkisstjórn. En ég vildi vænta þess, að hv. þn., sem fær þetta mál til athugunar, reyndi að ráða á þarna einhverja bót, fá eitthvað meira í þennan sjóð og helzt varanlegri tekjur en gert er ráð fyrir í frv. Það er gert ráð fyrir því, að 20 millj. verði þar að auki greiddar út á þessu ári til vinnslustöðva landbúnaðarins, eins og þar segir, og mun það vera í samræmi við það, sem samið var um á milli Stéttarsambands bænda eða framleiðsluráðs í haust og ríkisstj. um þetta 20 millj. kr. framlag. Nú er kominn 12. des. og þetta frv. er hér á frumstigi í þinginu, og ég vildi því spyrja hæstv. ráðh., hvort það væri öruggt, að þessar 20 millj. yrðu greiddar ekki aðeins þessum sjóði, heldur út til vinnslustöðvanna fyrir áramót. Ég vildi leyfa mér að spyrja hann um það, hvort það sé öruggt, að það verði gert fyrir þann tíma.