11.04.1967
Neðri deild: 64. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (1702)

10. mál, áfengislög

Fram. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Allshn. hefur haft þetta frv. til l. um breyt. á áfengisl. til meðferðar alllengi og hefur rætt það á nokkrum fundum sínum, og hefur n. ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. Meiri hl. n. leggur til, að á frv. verði gerðar nokkrar breytingar, og þar er höfuðbreytingin sú, að meiri hl. n. leggur til, að b-liður í 1. gr. falli niður, en samkv. frv. átti að bætast við 12. gr. áfengisl., framan við 7. mgr., að hvert veitingahús, er vínveitingaleyfi hefur, skuli halda uppi fullkominni þjónustu án vínveitinga a. m. k. eitt laugardagskvöld af hverjum fjórum eftir kl. 8 síðdegis samkv. reglum, er ráðh. setur að fengnum till. áfengisvarnaráðs. Meiri hl. n. telur, að þetta ákvæði muni ekki verða til neinna bóta, og leggur því til, að það falli niður. Að öðru leyti eru till. meiri hl. n. í þá átt, að í stað aldursákvæðis 21 árs komi 20 ára, og sömuleiðis eru ákvæði um það í sambandi við, að bannaðar séu áfengisauglýsingar, að það er fyllra orðalag, sem n. leggur til, heldur en er í frv., eins og fram kemur í brtt. n. á þskj. 425. Það þótti einnig rétt að bæta hér við í 6. gr., en þar segir, að ungmennum yngri en 18 ára er óheimil dvöl eftir kl. 8 að kvöldi á veitingastað, þar sem vinveitingar eru leyfðar, nema í fylgd með foreldrum sínum. N. leggur til, að við það bætist: „eða maka“, því að í sumum tilfellum er gift kona jafnvel innan við 18 ára aldur, ef hún er gift manni, sem er orðinn 21 árs. Telur n. það vera meira frjálsræði, að hún fái að fara út með manni sínum án þess að þurfa að hafa foreldrana með sér.

Undir nál. meiri hl. skrifa 4 nm., en einn nm. var fjarverandi, þegar nál. var gefið út, hv. 5. landsk. þm., en hann stóð að till. meiri hl. n. Björn Fr. Björnsson var fjarstaddur afgreiðslu málsins í n., en einn nm., Skúli Guðmundsson, lýsti sig andvígan þessum till. og skilaði séráliti um frv., sem hann eðlilega sjálfur mælir fyrir.

Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þessar brtt., en eins og fram kemur í frv., er það samið af áfengismálanefnd, sem kosin var af Alþ. 13. maí 1964, og er frv. árangur af störfum þeirrar n., og hafa þm. haft þetta frv. og öll þau fskj., sem því hafa fylgt, og álit áfengismálanefndar, svo að ég sé enga ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta frv., en hef skýrt brtt. meiri hl. nefndarinnar.