25.10.1966
Neðri deild: 7. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (1713)

11. mál, lax- og silungsveiði

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Í núgildandi l. um lax- og silungsveiði segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Eigi má leggja silunganet né hafa ádrátt í sjó nær ósi straumvatns en 5 metra, enda gangi lax í það vatn.“ Í frv., sem hér liggur fyrir, 4. gr. þess, er lagt til, að þessu verði breytt og framvegis verði ákvæðið þannig: „Eigi má leggja net né hafa ádrátt í sjó nær ósi straumvatns en 1000 m, ef meðalvatnsmagn ár er innan við 100 m á sek., en 2000 m, sé vatnsmagnið meira.“

Hér er lagt til, að tekinn sé réttur af mönnum, sem eiga lönd að sjó, á því svæði, sem hér um ræðir, til þess að veiða fyrir sínu landi, réttur, sem þeir nú hafa. En ég sé ekki í þessu frv. nein ákvæði um það, hvernig eigi að bæta mönnum fyrir upptöku þessara réttinda, og ég vil biðja hv. landbn., sem fær málið til athugunar, að skoða þetta atriði sérstaklega, bæta úr þessu. Það mætti hugsa sér þetta t.d. þannig að ákveða, að þeir menn, sem eiga lönd að sjó, svo nærri ósi straumvatns sem hér er tiltekið í 4. gr. frv., skyldu verða þátttakendur í arði af veiði í þeim ám, sem falla til sjávar svo nærri þeirra landareignum, þeir skyldu eiga hlut í arði af veiði í þeim straumvötnum. Það má líka hugsa sér að bæta þetta með öðrum hætti, en einhverjar bætur verður að ætla þessum mönnum.

Ég vakti máls á þessu sama atriði í fyrra, þegar málið var hér til umr., og vil endurtaka það nú og óska þess ákveðið, að hv. landbn. athugi þetta mál.