31.10.1966
Neðri deild: 9. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (1716)

25. mál, verðjöfnunargjald af veiðarfærum

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. það til l. um verðjöfnunargjald af veiðarfærum, sem hér liggur fyrir til umr., á sér nokkurn aðdraganda, og ég vil leyfa mér að byrja með því að fara nokkrum almennum orðum um málið og aðdraganda þess.

Við Íslendingar teljum okkur mikla fiskveiðaþjóð og tölum oft um okkur sem mestu fiskveiðaþjóð heims, og það er sennilega nokkuð til í því. A. m. k. eru það gífurleg verðmæti, sem til þess að gera fámenn stétt sjómanna og útgerðarmanna dregur á land í okkar þjóðarbú, og þetta ræður af líkum, þar sem við erum fámenn eyþjóð til þess að gera á stóru og vogskornu landi nyrzt í Atlantshafi. Við höfum lagt áherzlu á það að eignast góðan skipakost til fiskveiðanna. Við lærðum snemma að smíða okkar eigin skip, minni skipin, fiskibátana og eikarskipin, og nú eru í uppsiglingu ný fyrirtæki í landinu, sem stefna að því, að við séum einnig menn til þess að smíða ný stálskip, sem nú hafa tekið við af gömlu og minni tréskipunum. Og margs konar viðbúnað hefur þessi þjóð að sjálfsögðu lagt í til þess að gefa þessum skipastól aðstöðu í höfnum og við fiskvinnslustöðvar, verksmiðjur til úrvinnslu o.s.frv., sem ég þarf ekki nánar að rekja.

En svo einkennilega vill til, að þessi mikla fiskveiðaþjóð virðist eiga mjög erfitt með að komast upp á lagið með að gera sín eigin veiðarfæri. Hér á landi hafa á 3–4 áratugum risið upp veiðarfæragerðir, sem allar hafa sætt þeim sorglegu örlögum að gefast upp nema ein, eins og nú standa sakir. Bæði fyrr og síðar hefur þetta verið mönnum áhyggjuefni, stjórnarvöldum og ríkisstj., og það var í framhaldi af þessu, sem núv. ríkisstj. ákvað að láta rannsaka þetta mál til nokkru meiri hlítar en áður hafði gert verið. Þess vegna var það, að iðnmrh. skipaði 16. sept. 1964 nefnd manna til þess að framkvæma sérfræðilega athugun á því, hvort ekki sé tímabært, að íslenzkum veiðarfæraiðnaði verði búin sömu kjör og öðrum íslenzkum iðnaði og hliðstæðum erlendum iðnaði, og einnig var óskað eftir athugun á því, hvort stefna beri að stórfelldri aukningu umrædds iðnaðar með þátttöku erlends fjármagns eða aukningu í áföngum með innlendu fjármagni. Í n. völdust ágætir menn, fulltrúar frá Fiskifélagi Íslands, Félagi ísl. iðnrekenda, Landssambandi ísl. útvegsmanna og Iðnaðarmálastofnun Íslands. Þessi n. skilaði áliti ári síðar, í sept. 1965, og þessi álitsgerð hefur verið prentuð sem heild sem fskj. nr. 1 með þessu máli. Í henni má rekja sögu veiðarfæraiðnaðarins hér á landi, og í henni er margháttaður fróðleikur, sem þetta mál varðar og ég skal ekki eyða tíma þingsins til að fara nánar út í, en vísa til þess. En fyrir utan hinn almenna fróðleik um þróun veiðarfæraiðnaðar og örlög hinna ýmsu veiðarfæragerða hér á Íslandi er einnig að finna till. n. og margvíslegar álitsgerðir annarra aðila, sem n. leitaði til, bæði innflytjenda á veiðarfærum og stofnana útvegsmanna og annarra.

Niðurstöður n. eru í stórum dráttum þær, að veiðarfæraiðnaður sé í flokki örfárra iðngreina, sem búa við lakari kjör en meginhluti iðnaðar og sjávarútvegs í landinu. N. telur sig hafa sýnt fram á það í álitsgerð sinni, að íslenzkur veiðarfæraiðnaður njóti lakari rekstrarkjara af hendi hins opinbera heldur en aðrar þær innlendar atvinnugreinar, sem eðlilegt er að gera samanburð við. N. telur einnig, að samanburður hennar á starfskjörum innlends og erlends veiðarfæraiðnaðar sanni það, að veiðarfæraiðnaðurinn hér væri verr settur en sams konar iðnaður erlendis. N. segir m. a. orðrétt á bls. 32, með leyfi hæstv. forseta:

„Það gildir því einu, hvert lítið er til samanburðar, íslenzkur veiðarfæraiðnaður er og hefur verið alger hornreka í atvinnulífi þjóðarinnar.“

Síðan er að finna sameiginlegar till. n. á bls. 33–34 í álitsgerð hennar. Þær eru nokkuð almenns eðlis, niðurstöður n., en ég tel rétt, að við rifjum þær aðeins upp.

Þær eru í fyrsta lagi, að þar sem veiðarfæraiðnaðurinn býr að mörgu leyti við svipaðar starfsaðstæður í grundvallaratriðum og sjávarútvegurinn, þ. e. verður að hlíta ástandi heimsmarkaðarins hverju sinni, er eðlilegt, að hann njóti sem næst sömu kjara og sjávarútvegurinn hvað gengi krónunnar snertir. Með þessu er raunar verið að segja, að afnám mismunar þess, er ríkt hefur undanfarin 2 ár, sé ekki einungis æskilegt, heldur fyrst og fremst réttlætismál. Þetta þýðir í framkvæmd, að sérhver hækkun innlends framleiðslukostnaðar, sem sjávarútveginum er bætt í einu eða öðru formi, verði einnig látin ná til veiðarfæraiðnaðarins. Mismunun þá, er ríkt hefur frá ársbyrjun 1964, er tiltölulega auðvelt að meta til fjár. N. leggur því til, að nú þegar komi til framkvæmda leiðrétting, er nemi sem næst 4.8% af söluverði afurða starfandi fyrirtækja í veiðarfæraiðnaði vegna ársins 1964 og fyrir árið 1965, og framvegis verði gerðar hliðstæðar leiðréttingar.

Í öðru lagi segir n.: „Eins og rækilega hefur verið bent á hér að framan, hlaut veiðarfæraiðnaðurinn illa meðferð á dögum uppbótakerfisins og hefur ekki borið sitt barr síðan. Hefur þessi meðferð ásamt óvissunni um rekstrargrundvöll hindrað vöxt hans og viðgang og gert honum þar af leiðandi örðugt um vik að taka þátt í hinni hörðu þróun, er átt hefur sér stað í framleiðslu veiðarfæra undanfarið, með því að endurnýja véla- og tækjakost, svo sem nauðsynlegt hefði verið. Til þess að jafna metin og leiðrétta á einhvern hátt áralangt misrétti, er það till. n., að fyrirtækjum þeim, er starfa að framleiðslu veiðarfæra og efnis til þeirra, verði greitt nokkurt framlag, er hjálpi þeim til að laga sig að breyttum framleiðsluaðferðum og breyttri eftirspurn veiðarfæra. Upphæð framlagsins verði metin með hliðsjón af innkaupsverði nauðsynlegra véla og tækja.“

Í þriðja lagi mælir n. með því, að veiðarfæraiðnaður verði aðstoðaður við útvegun hagstæðra lána með ríkisábyrgð, ef þörf krefur.

Í fjórða lagi telur n. loks rétt, að athugað verði, hvort til greina komi að undanþiggja ný fyrirtæki í veiðarfæraiðnaði tekjusköttum um ákveðið árabil, t.d. 3 ár, í því skyni að örva til stofnunar nýrra fyrirtækja í greininni.

Auk þessara ofangreindu till. um breytingu á kjörum veiðarfæraiðnaðarins er svo vísað til kafla í nál. varðandi undirbúningsrannsóknir í þágu veiðarfæraiðnaðar.

Eins og fram kemur, stóðu allir nm. að ofangreindum till., en einn nm., Árni Vilhjálmsson, gerir í sérstökum álitsviðauka grein fyrir till. sínum um breytingar á kjörum veiðarfæraiðnaðarins, og formaður n., Sveinn Björnsson, hefur lýst yfir, eins og segir í álitinn stuðningi við till. Árna sem varatillögur. En sértillaga Árna Vilhjálmssonar prófessors var í meginefnum sú, að veiðarfæraiðnaði sé tryggð aðstaða, sem jafngildi 15% nettótollvernd, en það var hans mat, að með slíkri aðstöðu væri þessari iðngrein sköpuð viðunandi aðstaða miðað við aðrar atvinnugreinar og þá m. a. og kannske fyrst og fremst sjávarútveginn.

Meðal stofnana, sem n. skrifaði bréf og óskaði eftir áliti, er Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda og Landssamband ísl. útvegsmanna. Ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að taka hér örfá atriði úr bréfi Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda, en undir það rita Loftur Bjarnason formaður og varaformaður Hafsteinn Bergþórsson. Þar segir m. a.:

„Reynsla íslenzkrar togaraútgerðar af íslenzkum veiðarfæraiðnaði hefur verið mjög góð, og á það skal bent, að í síðari heimsstyrjöldinni hefði íslenzk togaraútgerð verið í molum, ef hans hefði ekki notið við, bæði vegna þess, að illmögulegt var að fá botnvörpur erlendis, og þær, sem keyptar voru, voru úr ónýtu efni, en það leiddi aftur til ómetanlegs aflatjóns. Á þessum árum sá íslenzk veiðarfæragerð einnig bátaflotanum fyrir öllu efni í fiskilínur. Vörur þessar voru og hafa alltaf verið úr fyrsta flokks efni og lögun t.d. botnvarpanna eftir óskum kaupenda. Hins vegar hefur oft og tíðum farið svo, að þegar keypt hafa verið net erlendis, hefur þurft að breyta þeim meira og minna hér heima með auknum kostnaði. Þetta hefur skeð þrátt fyrir það, að hérlendir umboðsmenn erlendra framleiðenda hafi sent þeim heilar botnvörpur framleiddar hér til þess að láta hnýta eftir þeim.“

Á öðrum stað í sama bréfi segir, að þáv. sjútvmrh., sem var Emil Jónsson, hafi leitað eftir því við samtökin, að þau keyptu að öðru jöfnu botnvörpur gerðar hér heima, ef verð og gæði væru sambærileg, og um það var skjótlega boðað til félagsfundar í Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda um málið og þar samþ. að snúa sér bréflega til allra meðlima félagsins, þar sem spurzt var fyrir um, hvort þeir væru því samþykkir að beina innkaupum á botnvörpum til Hampiðjunnar h/f hér á eftir, að því tilskildu, að hún selji slíkar botnvörpur á samkeppnisfæru verði, enda séu gæði varanna hliðstæð. Svör bárust frá öllum aðilum nema tveimur, og hafa þau verið send sjútvmrh. Voru þau öll jákvæð að undanteknu einu, sem var óljóst, og í svari eins stærsta aðilans að félaginu segir, að æskilegt væri að leita fyrir sér um það, hvaða kjör hún, þ. e. Hampiðjan, gæti veitt, ef samtök gætu orðið um það, að allur togaraflotinn skipti við hana, og ef í ljós kæmi, að hún treysti sér til þess að lækka verð verulega við þær kringumstæður, þá að kanna, hvort ekki reyndist unnt að standa allir að þeim viðskiptum. Og svo segir enn, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er álit vort, að þarna sé komið að einu veigamesta atriðinu varðandi framtíð veiðarfæraiðnaðar á Íslandi. Ef hann byggi eigi við lakari kjör en erlendur veiðarfæraiðnaður og ef hann enn fremur ætti vís ákveðin lágmarksviðskipti, sem hann gæti miðað rekstur sinn við, verður að teljast svo til víst, að hann fengi fyllilega staðizt alla samkeppni. Að þessu teljum við æskilegt, að stefnt sé. Jafnframt viljum við lýsa þeirri skoðun vorri, að ómetanlegt öryggi er að því fyrir íslenzkan sjávarútveg, að öflug veiðarfæragerð sé í landinu og hún geti skapað erlendum aðilum svo harða samkeppni, að vér njótum ætíð hagstæðasta veiðarfæraverðs. Vér erum þeirrar skoðunar, að ef erlendum framleiðendum tækist að knésetja íslenzkan veiðarfæraiðnað, t.d. með óréttmætum viðskiptaháttum, yrði þess ekki langt að bíða, að allt verðlag veiðarfæra mundi stórhækka. Loks skal á það lögð áherzla, hvílíkt öryggi er að því að hafa veiðarfæragerð í landinu sjálfu, ef svo skyldi fara, að truflanir yrðu á flutningum vegna styrjalda eða af öðrum ástæðum. Jafnframt eiga íslenzkir útvegsmenn þá auðveldara með að hafa áhrif á það, að gerð og efni þeirra veiðarfæra, sem þeir nota, sé þeim að skapi, og einnig er mikið hagræði að þessu í sambandi við vöruinnkaup, þ.e.a.s. að því leyti að geta hvenær sem er fengið vöruna jöfnum höndum, í stað þess að þurfa hver og einn að liggja með miklar vörubirgðir. Vér teljum mjög æskilegt, að íslenzk veiðarfæragerð njóti nægilegs stuðnings í einhverri mynd af hálfu íslenzkra stjórnvalda, svo að starfsemi hennar geti haldið áfram og aukizt og eflzt og þannig gegnt því mikilvæga hlutverki, sem nauðsynlegt er, að hún gegni fyrir íslenzkan sjávarútveg.“

Þannig lýkur bréfi Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda, en í bréfi Landssambands ísl. útvegsmanna segir í niðurlagi, með leyfi hæstv. forseta:

„Sem svar við þeirri fsp. yðar, hvort stefna beri að stórfelldri aukningu íslenzks veiðarfæraiðnaðar, viljum vér taka fram, að vér erum þeirrar skoðunar, að æskilegt sé, að veiðarfæraiðnaður sé í landinu, en þó því aðeins, að hann geti, miðað við núverandi tollaákvæði, keppt að gæðum og verði við innflutt veiðarfæri. Innlend veiðarfæraframleiðsla ætti að hafa betri aðstöðu í samkeppni við erlend veiðarfæri vegna betri þekkingar á markaðsþörf hér.“

Þannig lýkur því bréfi, sem er undirritað fyrir hönd stjórnar Landssambands ísl. útvegsmanna af Sverri Júlíussyni og Gunnari Hafsteinssyni.

Þegar þessi álitsgerð, sem ég hef vitnað til og ég veit, að hv. þm. hafa kynnt sér, lá fyrir, var það ákveðið innan ríkisstj. að biðja þrjá ráðuneytisstjóra, sem voru í þeim rn., sem þessi mál vörðuðu sérstaklega, að gefa ríkisstj. álitsgerð á grundvelli þeirrar könnunar, sem nú þegar hafði farið fram. Þessir ráðuneytisstjórar voru Gunnlaugur Briem, Brynjólfur Ingólfsson og Þórhallur Ásgeirsson. Þeir skiluðu ýtarlegri álitsgerð í tvennu lagi, Gunnlaugur Briem og Brynjólfur Ingólfsson, sem vorn mjög eindregið þess hvetjandi, að af hálfu opinberra aðila væru gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja tilveru og framtíð íslenzkrar veiðarfæragerðar, og Þórhallur Ásgeirsson einnig till., sem hnigu í sömu átt, þó að þær væru með nokkuð öðru sniði.

Eftir þessa álitsgerð bað ég forstjóra Efnahagsstofnunarinnar um, að stofnun hans tæki málið til meðferðar, álitsgerð n. og umsagnir ráðuneytisstjóranna. Sú rannsókn, sem að tilhlutun forstöðumanns Efnahagsstofnunarinnar fór fram, var aðallega í því fólgin að kanna til hlítar reikninga og rekstur og starfsaðferðir Hampiðjunnar til þess að geta metið, hvort grundvallaðar væru þær óskir, sem fram hefðu komið af hennar hálfu og annarra aðila til leiðréttingar á aðstöðu þessa iðnaðar. Mjög ýtarleg álitsgerð þess eðlis barst frá prófessor Árna Vilhjálmssyni. En forstjóri Efnahagsstofnunarinnar segir svo í bréfi til mín — með leyfi hæstv. forseta — í sambandi við þetta:

„Að mínum dómi væri það hin mesta ógæfa, ef rekstur Hampiðjunnar legðist niður, og gæti þetta haft hin alvarlegustu áhrif í þá átt að draga úr viðleitni til eflingar heilbrigðs iðnrekstrar í landinu. Hér er um að ræða grein, þar sem íslenzkur iðnaður hefur betri eðlileg rekstrarskilyrði en í flestum öðrum greinum, en hefur átt örðugt uppdráttar vegna ríkjandi stefnu í efnahagsmálum á undanförnum áratugum og að öllum líkindum einnig vegna undirboða erlendra aðila. Allt bendir til þess, að Hampiðjan hafi verið rekin af hagsýni og dugnaði, og þrátt fyrir margvísleg áföll er fjárhagur fyrirtækisins enn tiltölulega traustur. Neyðist slíkt fyrirtæki til þess að leggja upp laupana, virðist loku fyrir það skotið, að um nokkra þróun veiðarfæraiðnaðar geti verið að ræða hér á landi um langa framtíð.“

Að öllu þessu athuguðu hafði ríkisstj. mál þetta til meðferðar innan sinna vébanda og ræddi málið einnig við fulltrúa útvegsmanna, og þegar á allt var litið, virtist helzt til greina koma einn eða fleiri af níu liðum, sem taldir eru upp í hinni almennu grg. frv.: 1) Að tollur á veiðarfærum, sem nú eru framleidd í landinu, verði hækkaður, og þá kom fram innan ríkisstj. sú hugmynd, að yrði hann hækkaður, yrði það gert með þeim sérstaka hætti, að tekjur af þessari tollahækkun renni í aflatryggingasjóð sjávarútvegsins eða þeim verði varið til þess að greiða vátryggingaiðgjöld af fiskiskipum eða með öðrum hliðstæðum hætti, eða allar tolltekjurnar, vegna þess að það mun vera milli 2 og 4% tollur á veiðarfærum eins og nú er. 2) Veiðarfæraiðnaði séu tryggð fjárfestingarlán til langs tíma hliðstætt því, sem verið hefur um fiskiskipabyggingar innanlands. 3) Veiðarfæraiðnaðurinn njóti í bili a. m. k. forgangs um hagræðingarlán úr iðnlánasjóði, þar sem skilyrði til hagræðingarláns eru talin vera fyrir hendi. 4) Heimiluð sé lenging greiðslufrests á innfluttum hráefnum til veiðarfæragerðar. 5) Heimild til gjaldfrests á innfluttum veiðarfærum sömu tegundar og framleidd eru í landinu sé afnumin. 6) Notuð sé heimild tollskrárlaga til þess að setja undirboðstoll á veiðarfærainnflutning, t.d. frá Danmörku, fyrst í stað. 7) Innflutningur veiðarfæra sömu tegundar og framleidd eru í landinu sé um stundarsakir tekinn af frílista og háður leyfum og eftirliti með það sérstaklega fyrir augum, að hinu opinbera gefist tækifæri til að ná meiri yfirsýn þessara mála, enda verði hagamuna útvegsins að fullu gætt og fái útvegsmenn að tilnefna sérstaka fulltrúa við framkvæmd þessara tímabundnu leyfisveitinga. 8) Tryggt sé, að sú útgerð, sem nýtur beinna fjárframlaga úr ríkissjóði, kaupi a. m. k. að öðru jöfnu innlend veiðarfæri. 9) Greitt verði verðjöfnunargjald af öllum innfluttum veiðarfærum.

Um það er svo ekki að orðlengja, að að athuguðu öllu þessu urðu niðurstöður ríkisstj. að undirbúa og leggja fyrir Alþ. frv. það, sem hér liggur nú fyrir um verðjöfnunargjald af veiðarfærum, en ganga fram hjá öðrum atriðum nema þeim, sem nú skal greina og ekki þurfa löggjafar við. En um það segir í grg., að jafnframt því sem þetta frv. sé lagt fram, sé að sjálfsögðu víð það miðað, að beitt verði þeim aðgerðum öðrum, sem áður hefur verið gerð grein fyrir og framkvæmanlegar eru án aðgerða Alþ., eftir því sem efni standa til. Ríkisstj. mun beita sér fyrir, að veiðarfæraiðnaði verði tryggð fjárfestingarlán, að veiðarfæraiðnaður njóti hagræðingarlána, að endurskoðaður verði afgreiðslufrestur á innfluttum hráefnum til veiðarfæragerðar annars vegar og greiðslufrestur á innfluttum veiðarfærum hins vegar, og loks, að tryggt sé, að útgerð, sem nýtur beinna fjárframlaga úr ríkissjóði, kaupi að öðru jöfnu innlend veiðarfæri.

Sú leið, sem hér er farin, var að áliti ríkisstj. talin sú, sem sennilega mundi mæta minnstri mótspyrnu af hálfu útvegsmanna, því að enda þótt það sé skoðun allra ráðh. þessarar ríkisstj., að hér sé um ekkert sérstakt iðnaðarmál að ræða, heldur fyrst og fremst hagsmunamál útvegsins, vitum við það, að útvegurinn er þannig staddur nú, að hann á erfitt með að taka á sig hvers konar auknar byrðar, hversu litlar sem þær kunni að vera. En það verður auðvitað að metast, hve miklu er þá fórnað á móti öryggi framtíðarinnar fyrir rekstur þessarar atvinnugreinar.

Verðjöfnunargjaldið á innfluttum veiðarfærum er samkv. 2. gr. ákveðið 2% af tollverði hinna innfluttu veiðarfæra, og verðjöfnunargjaldið, sem þannig innheimtist, á að leggjast í sérstakan sjóð, verðjöfnunarsjóð veiðarfæra, og skal fé sjóðsins varið til eflingar veiðarfæraiðnaði í landinu.

Í 4. gr. er ákvæði, að iðnmrh. setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þ. á m. um stjórn og vörzlu verðjöfnunarsjóðs og ráðstöfun á fé hans. Það kynni að vera, að þm. vildu óska eftir því, að nánari ákvæði væru þegar um starfsemi sjóðsins í sjálfum 1. Út af fyrir sig get ég fallizt á það. Það kemur auðvitað til athugunar undir meðferð málsins. En að svo stöddu var látið við þetta sitja, og meginhugsun ríkisstj. er sú, að þær reglur, sem hér yrðu settar um þennan verðjöfnunarsjóð og ráðstöfun fjár hans, miðuðu að því að auðvelda fyrirtækjum að koma upp veiðarfæragerðum hér í landinu á fyrstu árunum og að styrkja þær til þess að mæta þeim miklu tæknibreytingum, sem hafa átt sér stað og eiga sér stað á þessu sviði. Þannig mundu veiðarfæragerðir eða þeir, sem vildu efna til veiðarfæragerðar, geta notið úr þessum sjóði styrks. En nágrannar okkar, eins og Norðmenn, veita gífurlega mikið fé til styrktar veiðarfæragerðum þar í landi, og eru mörg dæmi um það annars staðar frá.

Spurningin er þá aðeins um það, hvort hér sé farið of hart í sakirnar og lagt of hátt gjald á hin innlendu veiðarfæri. Það er mín skoðun, að með 2% gjaldi sé varlega farið í þessa hluti og það út af fyrir sig eigi ekki að þurfa að neinu verulegu leyti að íþyngja íslenzkum útvegi, því að þetta gjald rennur í öðru formi til útvegsins og til þess að skapa öryggi fyrir þessa atvinnugrein í framtíðinni, og það verður að ætla, að ef sómasamlega verður að slíkum iðnaði búið, eins og ég hef margvikið að, eigum við Íslendingar sannarlega að geta búið til eins góð og eins ódýr veiðarfæri fyrir útgerðina hér í landi og við getum keypt frá öðrum þjóðum. Við eigum að hafa mesta sérþekkingu á þessu sviði hér sjálfir.

Hitt er svo annað mál, að við höfum oft átt í erfiðleikum með að koma upp stórum fyrirtækjum, þar sem mikill vélakostur er, og eins og nú er orðið þarf mikla vélvæðingu. Þess vegna hefur þróunin hjá okkur oft orðið á eftir því, sem er hjá öðrum þjóðum. En aðstaða okkar hefur auðvitað gífurlega breytzt á undanförnum árum á mörgum sviðum, sem ég þarf ekki að rekja, og ég álít, að það sé orðið tímabært, að við ekki aðeins nú gerum ráðstafanir til þess, að það lognist ekki út af íslenzka veiðarfæragerðin í landinu, heldur sé sköpuð aðstaða til þess, að það vaxi upp nýr og öflugur veiðarfæraiðnaður í þessu landi, og það væri að mínu áliti langæskilegast og viðkunnanlegast, að það gæti orðið með þeim hætti, að það sköpuðust einmitt samtök á milli þeirra atvinnugreina, sem hér hafa átt hlut að máli, útvegs, iðnaðar og innflytjenda, til sameiginlegra og stórra átaka, sem ekki yrðu gerð öðruvísi en með slíkum samtökum. En slík stórátök og samstaða á milli þessara aðila mundi skapa langódýrust veiðarfæri fyrir útgerðina og bezta og örugga aðstöðu í framtíðinni.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta frv., en leyfi mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hvað á ég nú að segja, — það ætti eðlilega að fara bæði til sjútvn. og iðnn., en það er nú vist ekki vaninn að vísa máli þannig, og ég sem iðnmrh. mundi leggja til, að því yrði vísað til iðnn., en legg það að öðru leyti undir vald forseta.