31.10.1966
Neðri deild: 9. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (1718)

25. mál, verðjöfnunargjald af veiðarfærum

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki hér við 1. umr. málsins að flytja langt mál í sambandi við þetta frv. til l. um verðjöfnunargjald af veiðarfærum, en ég vil ekki láta hjá líða að lýsa því yfir, að ég er andvígur þessu frv. og mun greiða atkv. á móti því, þegar það kemur hér síðar til afgreiðslu í Alþ., þó að ég eðlilega vilji, að það fái þinglega meðferð og fari til n. til athugunar.

Hæstv. iðnmrh. fylgdi þessu frv. úr hlaði og vitnaði mjög ýtarlega í álit veiðarfæranefndar, sem hann skipaði og hefur verið gerð hér allmjög að umræðuefni. En ég vil taka undir þann kafla í ræðu hv. síðasta ræðumanns, að ég furða mig á því, þegar nefnd kannar mál jafnýtarlega og veiðarfæranefndin gerði og skilaði áliti, meiri hl. n., 3 menn af 4, en fjórði maðurinn skilar séráliti, og það má segja, að það hafi verið rétt hjá hæstv. iðnmrh., að annar nm. gerði það að varatill. sinni að leggja verðjöfnunargjald á veiðarfæri, þá finnst mér það furðu sæta, að þrátt fyrir það, að fulltrúar Fiskifélags Íslands og Landssambands ísl. útvegsmanna leggja gegn því, sé tekin upp þessi stefna í málinu.

Það, sem mér finnst ekki hafa komið fram hér við þessar umr. og sennilega ekki mjög mikið við umr. um veiðarfæragerð í landinu, er það, að í veiðarfæragerð hefur orðið stórfelld breyting á undanförnum árum, veiðarfæragerð í flestum löndum hefur breytzt undarlega hratt, það hafa verið tekin upp ný efni, gerviefni, sem hafa leitt af sér stórlækkandi kostnað í sambandi við veiðarfærin, og við verðum að segja hverja sögu eins og hún er, að veiðarfærin eru einn af fáum útgjaldaliðum íslenzkrar útgerðar, sem vegna tæknibreytinga hefur í raun og veru lækkað, því að við leggjum miklu meira í veiðarfærin en við gerðum áður og þó alveg sérstaklega á sviði síldveiðanna. Ef þessi tækniþróun hefði ekki komið til og gerviefnin, stæðum við ólíkt verr að vígi í dag. En í sambandi við þetta er yfirleitt alltaf hreyft af talsmönnum þess eina iðnfyrirtækis, sem framleiðir veiðarfæri í landinu, að þar sé um óheilbrigðan viðskiptamáta að ræða, það sé „dumping“ í viðskiptum. Á það er ég ekki trúaður, og þrátt fyrir allt það, sem hefur verið skrifað og talað um undirboð í þessu sambandi, hef ég ekki getað sannfærzt um það. Það kemur fram í fskj. með þessu frv., á bls. 57, vitnað til álitsgerðar prófessors Árna Vilhjálmssonar, þar sem hann vitnar í bréf Esbjerg Tovværksfabrik til vararæðismanns Íslands í Esbjerg, dags. 27. nóv. 1964, en þar segir svo:

„Viljum við undirstrika kröftuglega, að ákvarðanir okkar um verðlagningu vara til Íslands ráðast af því verði, sem önnur lönd, fyrst og fremst Portúgal, setja.“

Og prófessor Árni Vilhjálmsson bætir við:

„Í þessum orðum felst viðurkenning á því, að þetta fyrirtæki hefur boðið vöru til sölu til Íslands á lægra verði heldur en það tekur á heimamarkaði.“

Mér finnst þetta furðuleg fullyrðing, því að vitað er, að sú sísalfiskilína, sem flutt er inn frá Esbjerg Tovværksfabrik og er notuð hér á Íslandi, er ekki seld í Danmörku. Sú gerð er ekki notuð í Danmörku, og þess vegna er það um tómt mál að tala í þessum dúr og reyna að læða því inn, að það sé um undirboð að ræða til þess að útiloka íslenzkan veiðarfæraiðnað.

Við vitum vel, að það er hörð samkeppni innan þeirra landa, sem við kaupum veiðarfæri frá, og þá ekki sízt Japans. Síðan kemur Portúgal til greina. Og hin harða samkeppni, sem verður fyrst á milli hinna einstöku fyrirtækjasamsteypna í Japan og síðan aftur frá Portúgal, gerir það að verkum, að veiðarfærin lækka stórkostlega, og við höfum notið af því góðs, og við höfum sannarlega þurft á því að halda.

Ég ætla ekki að leggja gegn því, ef stjórnvöldin telja þörf á því og telja það óumflýjanlegt að styrkja og styðja íslenzkan veiðarfæraiðnað. En þá finnst mér, að það verði að gerast eftir öðrum leiðum en þeirri að skattleggja útgerðina, því að við vitum það mætavel, bæði ríkisstj. og allir alþm., að útgerðin á við erfiðleika að etja.

Ég ætla ekki að syngja hér neinn söng um óðaverðbólgu, eins og síðasti ræðumaður var að gera. Ég hygg, að það sé ósanngjarnt að kenna ríkisstj. eða Alþ. um óðaverðbólguna. Ég held, að þjóðin í heild eigi stærstu sökina, hvar sem menn eru staddir og í hvaða stétt sem menn eru, og það hafa engir betur tekið undir þann söng um óðaverðbólguna heldur en flokksbræður hv. ræðumanns, sem hér var í pontunni á undan mér. En hitt er staðreynd af margvíslegum ástæðum, að viss hluti útgerðarinnar á við mikla erfiðleika að etja, sérstaklega bátastærðin frá 45–120 tonn, og það er fyrst og fremst vegna þess, að þessi stærð báta, sem áður hafði sína beztu afkomu á síldveiðum, hefur orðið að hætta síldveiðum að verulegu leyti og hefur því orðið að sinna bolfiskveiðunum eingöngu. En við vitum, að síldveiðin hefur gengið mun betur. Þar hafa verðhækkanir orðið mestar á undanförnum árum, þó að það hafi syrt nú í álinn. En það hefur ekki orðið sú sama hækkun á bolfiskaflanum, og þetta er höfuðástæðan fyrir því, hvernig komið er hag þessarar útgerðar. Ég fyrir mitt leyti get ekki fellt mig við, að atvinnuvegur, sem á við jafnmikla erfiðleika að etja, það sé verið að leggja á hann nýja skatta, á sama tíma og fyrir liggja till. um, að hann þarfnist margvíslegrar aðstoðar.

Út af því, sem iðnmrh. sagði, þegar hann minnti á bréf Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda, þá má vel vera, að forustumenn Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda, sem undir bréfið skrifa, telji sig hafa ráð á því að borga þennan skatt, og þá auðvitað gera þeir það með ljúfu geði, en annað hefur mér heyrzt koma úr þeirri átt undanfarin ár. En forustumenn Landssambands ísl. útvegsmanna og þar með taldir sumir menn innan Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda eru algerlega á móti því að setja skatt á veiðarfæri, og á síðasta stjórnarfundi í Landssambandi ísl. útvegsmanna voru samþ. með shlj. atkv. mótmæli gegn þessum skatti. Og útvegsmenn almennt eru andvígir þessum skatti. Við höfum orðið varir við það fjölmargir, bæði við persónulega og ýmsir af forustumönnum í Landssambandi ísl. útvegsmanna, að útvegsmenn almennt mótmæla því, að þessi skattur sé lagður á.

Ég skal ekki eins og ég sagði í upphafi, flytja hér lengra mál um þetta. Ég tel eðlilegt, að þetta mál fái þinglega afgreiðslu og fari til n. En bágt á ég með að sætta mig við það, þegar lagt er fram mál, sem á að skattleggja einn atvinnuveg fyrir annan, að vísa eigi málinu til þeirrar nefndar, sem á að njóta peninganna, sem er iðnaðurinn og vísa þessu máli til iðnn., eins og hæstv. ráðh. lagði til. Ég hefði talið sanngjarnara og eðlilegra, að það mál færi til þeirrar n., sem fer þó með sjávarútvegsmál í hv. þd. Þess vegna leyfi ég mér að flytja þá brtt. við till. hæstv. iðnmrh., að þessu frv. verði vísað til sjútvn.