31.10.1966
Neðri deild: 9. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (1719)

25. mál, verðjöfnunargjald af veiðarfærum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Með frv. þessu sýnist mér vera lagt til að taka upp nokkuð nýja stefnu til aðstoðar þeim, sem eiga í vanda í sambandi við sinn atvinnurekstur. Með frv. er lagt til, að lagður verði nokkur tollur á innflutt veiðarfæri í því skyni að aðstoða innlenda veiðarfæragerð.

Hæstv. ráðh. hefur flutt hér nokkra greinargerð um það, hvernig ástatt er nú orðið fyrir íslenzkri veiðarfæragerð, og efast ég ekkert um, að skýrsla hans í þeim efnum var rétt, og hefði þó eflaust mátt bæta þar ýmsu við, sem ekki hefði sagt neitt betra um ástandið en hann sagði. Ég sem sagt dreg það ekki í efa, að það er full þörf á því að aðstoða innlenda veiðarfæragerð, eins og komið er. Og ég er hæstv. iðnmrh. algerlega sammála um það líka, að það er mikil þörf á því fyrir Íslendinga að eiga sína eigin veiðarfæragerð í landinu, og að því ber að stefna, og það á að reyna að haga málum þannig, að veiðarfæragerð sé rekjanleg í landinu með eðlilegum hætti. En þessi stefna, sem hér er lagt inn á með þessu frv., að leggja til, að sjávarútvegurinn, eins og ástatt er nú fyrir honum, taki á sig að greiða úr vandamálinu með auknum fjárframlögum, það virðist mér vera óheillavænleg stefna og óeðlileg. Það er ekki aðeins innlendur veiðarfæraiðnaður, sem á í vök að verjast. Alveg eins er ástatt með innlenda skipasmíði. Það vitum við allir, sem hér erum, að innlend skipasmíði fær ekki staðizt samkeppni við erlenda, eins og nú er háttað verðlagi í okkar landi. Það er með öllu útilokað. Ef meiningin er að taka upp þá stefnu, sem raunverulega felst í þessu frv., sýnist mér það gefa auga leið, að næsta frv. á eftir þessu verði um það að leggja toll á innflutt skip og hækka þau þannig í verði, afla þannig fjár í sérstakan verðjöfnunarsjóð og nota þá upphæð til þess að styrkja með innlenda skipasmíði. Og það er ekki aðeins innlend skipasmíði, sem á í vök að verjast. Við vitum, að um alllanga hríð hefur verið starfandi hér í landi iðnaður, sem unnið hefur að því að gera vélar og tæki fyrir hinn mikla síldariðnað okkar. Þessar vélar hafa reynzt vel og hafa víða verið settar upp. En þessi iðnaður hefur þurft að láta í minni pokann að undanförnu. Hann hefur ekki staðizt samkeppnina við erlendan iðnað. Og síldarverksmiðjurnar eða þeir, sem þær eiga, hafa vitanlega tekið upp á því að flytja meira og meira inn af þessum vélum og tækjum, sem byggð hafa verið í Noregi og öðrum nágrannalöndum okkar. Eftir þessari nýju stefnu ætti að sjálfsögðu að hækka tolla og gjöld af slíkum innflutningi, leggja í sérstakan verðjöfnunarsjóð og bæta upp þessum iðnaði. Þeir yrðu nokkuð margir verðjöfnunarsjóðirnir, sem yrðu myndaðir, ef ætti að fara inn á þessa braut, og ég held, að hliðarspor eins og þetta sé ekki rétt og það eigi ekki að fara inn á það.

Ég held, að rétt sé að viðurkenna það, að svo er nú ástatt um íslenzka útgerð, að hún hefur ekki aðstöðu til þess að taka á sig aukin útgjöld, þó að um það sé að ræða að reyna að bjarga innlendri veiðarfæragerð úr þeim vanda, sem hún er komin í, heldur eigi að gera kröfur um það að reyna að aðstoða innlenda veiðarfæragerð með öðrum hætti en lagt er til í þessu frv.

Ég skal fyllilega játa það, að ég er ekki hér kominn með till. um það, hvað skuli gera innlendri veiðarfæragerð til aðstoðar, svo að gagni megi verða. En augljóslega er þó þar um margt að ræða, sem til greina gæti komið. En aðalatriðið er þó, að verðlagsþróunin innanlands hefur orðið slík á undanförnum árum, að það hlýtur til þess að leiða, að svo að segja allur iðnaður í landinu hlýtur að gefast upp í samkeppni við innflutning. Þar er líka um að ræða innlendan iðnað, sem framleiðir fyrir erlendan markað og fyrir nokkrum árum hafði ágætan rekstrargrundvöll, en hefur það ekki lengur og er að gefast upp. Það mætti í þessum efnum t.d. minna á það, að innlenda veiðarfæragerðin, sem á í vök að verjast nú, verður að standa undir hinum óheyrilega háu vöxtum, sem eru á Íslandi og eru miklu hærri en veiðarfæragerð í öðrum löndum þarf yfirleitt að rísa undir. Hæstv. ríkisstj. var ekkert hissa á því heldur fyrir 10 mánuðum eða í ársbyrjun að standa fyrir því með tillöguflutningi hér á Alþingi, að það yrði að hækka allt rafmagnsverð í landinu um 10–15%, af því að því var haldið fram, að ríkissjóður væri farinn að hallast, vantaði peninga, og þá yrði að létta af honum ákveðnum útgjöldum, og þá var auðvitað hlaupið í það að hækka rafmagnsverðið í landinu. Auðvitað hlaut það að bitna á öllum iðnaði í landinu eins og öðrum. Þannig hafa ýmsar ráðstafanir verið gerðar að undanförnu til verðhækkana, bæði í sambandi við rafmagn, haldið uppi háum vöxtum og ýmsu fleiru, sem vitanlega hefur lagt pinkla á þennan iðnað eins og annan í okkar landi. Og ég held, að það væri miklu nær að snúa sér að því að hlífa þessari innlendu framleiðslu við háum útgjöldum af vöxtum og í sambandi við óhagstæð lánakjör, óeðlilega hátt rafmagnsverð, sem knúið hefur verið fram jafnhliða hinni almennu verðlagsþróun, sem átt hefur sér stað í landinu, og mörgu öðru fleira, auk þess sem vitanlega þarf að taka á heildarvandamálinu, sem er það, að það er orðið með öllu útilokað, að innlendur iðnaður geti keppt við erlendan iðnað í því verðhlutfalli, sem orðið er hér innanlands við það, sem er í okkar viðskiptalöndum.

Ég skal ekki tala hér langt mál við 1. umr. þessa máls, það verður eflaust rætt hér aftur síðar. Ég vil aðeins lýsa því yfir, að ég er mótfallinn þessu frv. Ég tel hér beitt röngum úrræðum, því að skoðun mín er sú, að sá aðili, sem hér er lagt til að eigi að standa undir útgjöldunum, sé ekki fær um það, hvorki bátaútgerðin né togaraútgerðin geta það. Það er því í rauninni engin leið að fara inn á þessa braut. Auk þess er ég alveg sannfærður um það fyrir mitt leyti, að þau úrræði, sem er að finna í þessu frv., eru alls ófullnægjandi fyrir veiðarfæragerðina í landinu, sérstaklega með tilliti til þess, ef dýrtíðin á að halda áfram með svipuðum hraða og verið hefur. Ég lýsi því yfir andstöðu minni við þetta frv.

Ég tók eftir því, að hæstv. iðnmrh. sagði í ræðu sinni, að raunverulega væri hér um að ræða sjávarútvegsmál, því að fyrst og fremst væri þetta hagsmunamál sjávarútvegsins, sem hér væri um að tefla. Og það má til sanns vegar færa. Ég a. m. k. hef enga löngun til að mótmæla því, því að ég álít, að það sé mikið hagsmunamál fyrir íslenzkan sjávarútveg, hvernig fer um innlenda veiðarfæragerð. En þá er ég líka á þeirri skoðun, að þetta mál ætti að fara í sjútvn. og hún ætti að fjalla um málið, sé það í raun og veru fyrst og fremst sjávarútvegsmál. Ég styð því þá till., sem hér hefur komið fram frá hv. 11. landsk., að þetta mál gangi til sjútvn. og hún fái aðstöðu til þess að gera sínar aths. við frv. og kanna málið allt, en tel, að það eigi ekki heima í iðnn.