31.10.1966
Neðri deild: 9. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (1724)

25. mál, verðjöfnunargjald af veiðarfærum

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en vil, með leyfi hæstv. forseta, vekja athygli á ályktun, sem Útvegsmannafélag Akraness gerði í sambandi við þetta mál, en hún er svo hljóðandi:

„Útvegsmenn, saman komnir á fundi á Akranesi, mótmæla einróma 2% viðbótartolli eða hærri prósentu af erlendum veiðarfærum umfram það, sem nú er. Ef nauðsynlegt þykir að styrkja innlendan veiðarfæraiðnað, verður að gera það á annan hátt en þann að skattleggja veiðarfæri útvegsmanna, sem þeir kaupa á frjálsum markaði frá útlöndum. Útvegsmenn furða sig á því, að hæstv. ríkisstj. skuli láta sér detta í hug að leggja á nýjan skatt, sem skipta mun tugum þúsunda á hverja meðalstóra útgerð, sem þegar er ofhlaðin af sköttum og alls konar kröfum og að öllu óbreyttu ekkert sjáanlegt nema stöðvun framundan.“

Það er ekki undarlegt, þó að þessi till. hafi verið gerð af útvegsmönnum á Akranesi, og er ég þeim þakklátur fyrir það að sýna strax í verki skoðun sína á þessu máli, sem hér er á ferðinni.

Það mun vera um ár síðan eða rúmlega það, að skipuð var n. til þess að athuga útgerð vélbátaflotans til fiskveiða til markaðsöflunar fyrir hraðfrystihúsin, og hefur sú n. nýlega skilað álitsgerð. Það er í kjölfar þess, sem það álit birtist, sem hæstv. ríkisstj. sendir þessum vélbátaflota, sem ekki er annað sjáanlegt en muni stöðvast, þessa kveðju, að leggja 2% toll ofan á veiðarfæri þau, sem hann þarf að nota. Þetta sýnir ásamt fleiru, hvernig hæstv. ríkisstj. býr að þessari atvinnugrein og hvert horfir með hana og hver viðbrögð hæstv. ríkisstj. eru gagnvart því að leysa vanda þessarar atvinnugreinar.

Það er svo annar kapítuli, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur komið fram gagnvart iðnaðinum í landinu. Það þarf ekki að eyða mörgum orðum að því. Á síðari árum hefur fyrir aðgerðir stjórnarvaldanna mjög hallað á iðnaðinn, svo að mörg fyrirtæki, sem ráku blómlegan atvinnurekstur, eru nú stórkostlega að draga saman sinn atvinnurekstur eða að stöðvast. Þessi íslenzki atvinnurekstur hefur orðið að eiga í harðri samkeppni við erlendan atvinnurekstur, og það þarf ekki að eyða orðum að því, að við þau kjör, sem atvinnurekstur á Íslandi býr um lánsfé, um það gengi, sem nú er á krónunni, og aðrar aðstæður, er algerlega vonlaust fyrir íslenzkan iðnrekstur að keppa við atvinnurekstur erlendra þjóða, enda þarf engan að undra það, þó að iðnaðurinn í þessu landi sé ekki orðinn fær. um samkeppni við atvinnurekstur háþróaðra iðnaðarþjóða, sem hafa mikið fjármagn og eru búnar að vélvæða og undirbúa eða koma sínum rekstri fyrir á margra áratuga skeiði og jafnvel alda, og það er furðulegt, að stjórnvöld landsins láta sér detta það í hug, að iðnaðurinn í landinu geti keppt við þetta, eins og nú er ætlazt til. Árangurinn er að verða sjáanlegur alls staðar, og þetta frv. er gott dæmi um það.

Annars finnst mér, að það, sem þetta frv. er einkennandi fyrir og ætti sannarlega skilið að vera innrammað vegna þess, er það, að þarna er undirstrikuð stjórnarstefnan, eins og hún er í framkvæmd. Það var s.l. vor, sem ríkisstj. tók sig til og gerði ráðstafanir til að fella niður niðurgreiðslur og gera aðrar slíkar ráðstafanir í sambandi við fjárlagaafgreiðslu og hækka verð á öllu rafmagni með rafmagnsskatti, og þá var alltaf viðkvæðið, að það skipti engu máli um verðlagið. Nú aftur er rokið til þess, að smjörlíkið, sem var hætt að greiða niður í vor, það er farið að greiða það niður nú. Nú tekur ríkisstj. sig til og ákveður niðurgreiðslur upp á hundruð milljóna með nokkurra daga millibili, svo að segja eftir að hafa sett hvert atriðið inn í verðlagið við afgreiðslu síðustu fjárlaga og á s.l. vori. Þetta er nákvæmlega sama, sem hér er að gerast. Nú er ríkisstj. orðin hrædd við stefnu sína gagnvart iðnaðinum, og þá er rokið til og á að leggja skatt á sjávarútveginn, sem er að drepast og er að stöðvast. Eftir nokkra daga kemur svo hæstv. ríkisstj. með annað frv. Það verður að stoð við þann flota, sem á að greiða skattinn, sem þeir eru að leggja á með frv. þessu. Þannig er stefnan. Það er eitt í dag og annað á morgun, bara eftir því, hvað þeir óttast í það og það skiptið. Í vor voru þeir hræddir um, að þeir hefðu ekki nóga peninga. Þá var hætt að borga niður smjörlíkið. Nú telja þeir sig hafa nóga peninga, en eru hræddir við, að smjörlíkið sé orðið of hátt í verði, og þá er farið að greiða það niður. Í dag er stjórnin að reyna að koma því í gegnum þingið að leggja skatt á útgerðina. Eftir nokkra daga kemur hún með annað frv. um að styðja útgerðina.

Þannig er stefna ríkisstj., eitt í dag og annað á morgun. Þetta er árangurinn af því stjórnleysi, sem hér hefur ríkt, að hver atvinnuvegurinn á fætur öðrum er að gefast upp. Þetta er aðeins sönnunargagn, en ekkert annað.