31.10.1966
Neðri deild: 9. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í C-deild Alþingistíðinda. (1725)

25. mál, verðjöfnunargjald af veiðarfærum

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Áður en lýkur 1. umr. um þetta frv., vil ég lýsa ánægju minni yfir þeim umr., sem hér hafa átt sér stað. Mig grunaði alls ekki, að veiðarfæraiðnaðurinn í landinu ætti svo marga góða vini sem raun ber vitni um hér í d. Hér hefur hver hv. þm. komið fram á eftir öðrum til þess að lýsa yfir stuðningi sínum við íslenzkan veiðarfæraiðnað og hversu þýðingarmikið það sé, að hann fái að þróast og eflast í landinu. Þetta er kapítuli út af fyrir sig, sem er afskaplega ánægjulegur og ástæða til að gleðjast yfir, áður en þetta mál fer til nefndar.

Út af fsp. hv. 5. þm. Reykv. vil ég svara honum því, að ríkisstj. hefur ekki tekið fyrir virðulegt bréf hr. forstjóra Agnars Kristjánssonar fyrir Kassagerðina.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að hefja nú umr. við hinn nýja álbarón, hr. Skúla Guðmundsson, en ég er anzi hræddur um, að við hefðum veitt veiðarfæragerðinni lítinn stuðning með því að bjóða henni upp á rafmagnssamninga eins og álbræðslunni, sem skuldbindur sig til að taka tiltekið magn af rafmagni, hvort sem það verður notað eða ekki notað, í mjög ríkum mæli, og greiða það 25 ár í erlendum gjaldeyri.

Það hefur nú komið fram nýr reikningsmeistari í Framsfl., sem steig úr pontunni áðan, hr. þm. Halldór Sigurðsson, og segir, — hann hefur það að vísu eftir útgerðarmönnum á Akranesi, en gerir enga aths. við það, — að hver meðalstór útgerð þurfi að borga tugi þúsunda kr., ef hún á að borga 2% gjald af veiðarfærakostnaði. Hefur þessi hv. þm. hugleitt það, hvað meðalstór útgerð muni borga í veiðarfærakostnað? Ég held honum væri hollt að gera það, og þeim hefði verið hollara að gera það á Akranesi, áður en slíku er slegið fram. Sumir bátar okkar veiða nú næstum því allt árið á síldveiðum, og af dýrum síldarnótum, sem mér er sagt að kosti kannske 1.2 millj. kr., væri gjaldið 24 þús. kr. Hvað vilja hv. þm. áætla, að slík nót endist að meðaltali? Mér er sagt, að það sé ekkert ósanngjarnt, að hún endist að meðaltali 3 ár. Þetta er mér sagt. Það kann að vera, að hún endist skemur eða lengur. En þegar stunduð er með svona veiðarfærum veiði af bátum allt árið, sjá menn, hvað það er fráleitt, að meðalstór útgerð borgi tugi þús. kr. af þessu gjaldi. En minni bátarnir einmitt og línubátarnir, sem menn eru að óska eftir að geti fengið meiri aðstoð, mundu fyrst og fremst hafa hag af því, að þessi verðjöfnunarsjóður væri myndaður, því að mest framlagið til hans kæmi frá síldveiðunum, eins og nú er ástatt. Innfluttu veiðarfærin eru í langsamlega mestum mæli veiðarfæri til síldveiða. Það kemur fram í skjölum málsins, að þar eru hinar verulega stóru upphæðir. Þá mundi þetta þýða, að með því að styrkja íslenzka veiðarfæragerð, svo að hún gæti haldið áfram, sem fram til þessa hefur aðallega framleitt veiðarfæri einmitt fyrir bátana, að þetta yrði bátunum til hags og að vissu leyti tilfærsla, því að þetta er ekki tekið úr útgerðinni, eins og hv. þm. hafa gert ráð fyrir, heldur er þetta tilfærsla innan útgerðarinnar og til þess að skapa grundvöll að framtíð íslenzkrar veiðarfæragerðar.

Það er misskilningur hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., að ríkisstj. hafi ekki tekið neitt tillit til þeirra till., sem veiðarfæranefndin gerði og hann vitnaði réttilega til á bls. 34. 3. till. er: „Þá mælir n. með því, að veiðarfæraiðnaðurinn verði aðstoðaður með útvegun hagstæðra lána með ríkisábyrgð, ef þörf krefur.“ Ég lýsti því yfir, að ríkisstj. mundi beita sér fyrir því, að íslenzkur veiðarfæraiðnaður fengi sömu aðstöðu til fjárfestingarlána og íslenzka bátasmíðin hefur haft, en það er 75% af kostnaðarverði bátanna, og til fjárfestingar, sem nýr veiðarfæraiðnaður legði í, ætti hann samkv. þessu að fá sömu aðstoð um fjárfestingarlán, og það er miklu meira en menn almennt eiga að venjast hér á landi. Ég lýsti því einnig yfir, að ríkisstj. vildi beita sér fyrir og hún hefur beitt sér fyrir því, að íslenzkur veiðarfæraiðnaður fái hagræðingarlán og sitji fyrir um hagræðingarlán, og þetta er þegar að koma til framkvæmda. Og það eru lán með lægri vöxtum og betri kjörum en almenn iðnaðarsjóðslán. Ríkisstj. hefur einnig átt hlut að máli um, að sú veiðarfæragerð, sem nú er, hefur fengið heimild til þess að taka erlend lán, eftir því sem hún hefur óskað eftir, og Framkvæmdabankinn hefur aðstoðað hana í því og ábyrgzt þessi lán. Þetta vildi ég segja um þetta.

Í 4. lið segir: „Loks telur n. rétt, að athugað verði, hvort til greina komi að undanþiggja ný fyrirtæki í veiðarfæraiðnaði tekjusköttum um ákveðið árabil, t.d. 3 ár, í því skyni að örva til stofnunar nýrra fyrirtækja í greininni.“ Þetta var athugað. Þetta mundi að sjálfsögðu ekkert hjálpa Hampiðjunni, sem er eina veiðarfæragerðin, sem lifir enn eftir hér á landi, því að hér er verið að tala um ný fyrirtæki, en ríkisstj., að athuguðu máli, gerði annað. Það hefur verið gjörbreytt afskriftum iðnfyrirtækja, frá því að þessi till. kom fram, sem gerir auðvitað miklu þýðingarminna það atriði fyrir ný fyrirtæki, hvort þau fá einhvern tíma, 3 ár á fyrstu árum sínum, að vera skattfrjáls eða ekki.

Það er svo rétt, að það er ekki farið inn á þá 1. till., sem n. leggur til, að nú þegar komi til framkvæmda leiðrétting til jafns við sjávarútveginn, er nemur 4.8% af söluverði afurða starfandi fyrirtækja í veiðarfæraiðnaði vegna ársins 1964 o.s.frv. En aftur á móti er efnislega einnig verið að fara eftir 2. liðnum, að reyna að jafna metin, þó að menn geti greint á um það, hvernig það sé gert, en það er verið að skapa grundvöll að því, að veiðarfæragerð, þeirri einu, sem er starfandi, verði veitt aðstoð og lagður grundvöllur að nýjum veiðarfæragerðum. Þess vegna vil ég leiðrétta þennan misskilning, að ekkert hafi verið eftir þessu farið.

Í n. var svo till. um 15% nettó-tollvernd, og hún var studd sem varatill. af öðrum manni í n., tveim af fjórum. Þessa leið hins vegar hefur ríkisstj. ekki farið. Mér hefur skilizt, að enginn hv. þm., sem hér hafa talað, hafi tekið undir hana.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð að svo stöddu.