31.10.1966
Neðri deild: 9. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (1728)

25. mál, verðjöfnunargjald af veiðarfærum

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði í ræðu hæstv. ráðh., sem mig langar til að víkja örlítið að. Almennt um svarræðu hans vildi ég segja það, að hún væri magrari en ég hafði búizt við, og það var gripið á færri ádeiluefnum í þeim ræðum, sem hér hafa átt sér stað út af þessu frv., en ég fyrir fram hefði ætlað. En það er önnur saga.

Hæstv. ráðh. sagði, að raunverulega væri þetta verðjöfnunargjald til hagræðis smærri bátunum, því að það væri borgað af stóru síldveiðibátunum, sem hefðu mjög sæmilega afkomu nú. Mér finnst þetta skjóta nokkuð skökku við það álit, sem komið hefur fram hér hjá tveimur hv. þm. úr stuðningsliði ríkisstj., sem ég mundi halda og veit raunar að eru fyrst og fremst talsmenn hinna smærri báta. Á ég þar við Matthías Bjarnason og Guðlaug Gíslason. Þeir hafa báðir tekið undir þá gagnrýni, sem komið hefur fram á frv. þessu úr röðum stjórnarandstæðinga, og ég tel, að það sé vafalaust gert af umhyggju fyrir afkomu þeirra smærri báta, sem þeir hafa fengizt mikið við útgerð á. Ég held enn fremur að stjórn L.Í.Ú. hefði ekki gert þá ályktun samhljóða, sem gerð var s.l. föstudag, þar sem frv. þessu er mótmælt, ef þetta væri sérstaklega í hag smærri bátunum, þar sem sannarlega kreppir nú mest að með útgerðina. Það er staðreynd, að þetta áætlaða verðjöfnunargjald mun nema einhvers staðar um 5 millj. kr. Ég veit ekki nákvæmlega tölu þeirra báta, sem koma til með að borga þetta, en ég er ekki fjarri því að álykta sem svo, að útvegsmenn á Akranesi, sem gerðu ályktun um þetta mál fyrir nokkrum dögum, hafi farið nokkuð nærri sannleikanum, þegar þeir staðhæfa, að þetta geti þýtt nokkurra tugþúsunda króna skattlagningu á meðalbát.

Mér sýnist af þeim undirtektum, sem mál þetta hefur fengið hér við 1. umr. í fyrri d., að mjög sé tvísýnt um, að það geti náð fram að ganga, og raunar útilokað eftir þær yfirlýsingar, sem tveir stjórnarstuðningsmenn hafa hér gefið, og vil ég fagna því.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði í frumræðu minni áðan, að leiðir verði athugaðar til þess að tryggja, að blómlegur veiðarfæraiðnaður verði hér rekinn í framtíðinni. Á því er mjög mikil þörf. En sú leið, sem það frv. gerir ráð fyrir, sem hér er verið að ræða, er, eins og flestir eru sammála um, sem hafa talað, útilokuð og ófær við þær aðstæður, sem nú eru fyrir hendi um rekstur útgerðarinnar í landinu.