31.10.1966
Neðri deild: 9. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í C-deild Alþingistíðinda. (1730)

25. mál, verðjöfnunargjald af veiðarfærum

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að blanda mér í þessar umr. á þessu stigi málsins. En það var hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG), sem kom mér af stað, þegar hann talaði um það áðan, að það mundu vera opinber gjöld, sem væru að sliga Hampiðjuna. Ég skrapp fram á skrifstofu Alþingis og gáði í skattskrána, og mér telst til, að samanlögð gjöld Hampiðjunnar á þessu ári til hins opinbera, þ. e. til ríkis og borgar, séu rúmlega 643 þús. kr. En samkvæmt því, sem hæstv. iðnmrh. upplýsti hér áðan, er gert ráð fyrir, að framleiðsla fyrirtækisins sé um 413 tonn, og þá er auðvelt að sjá af þessum tveimur tölum, að það eru ekki opinber gjöld, sem sliga þetta fyrirtæki. Ég vildi aðeins upplýsa þetta að gefnu tilefni, en hef ekki hugsað mér að ræða þetta mál á þessu stigi málsins. En ég styð eindregið þá till., sem fram er komin, að vísa málinu til sjútvn.