31.10.1966
Neðri deild: 9. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í C-deild Alþingistíðinda. (1731)

25. mál, verðjöfnunargjald af veiðarfærum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. gerði nokkra aths. við það, sem ég sagði, að hæstv. stjórn hefði ekki tekið hinar sameiginlegu tillögur veiðarfæraiðnaðarnefndarinnar upp í frv. Þar er ekki að finna í hennar sameiginlegu tillögum neitt um þetta verðjöfnunargjald, ekki beint a. m. k., og ég hins vegar gerði ekki þessar till. nefndarinnar að umtalsefni. En ég get lýst því yfir, að ég tel eðlilega 1. till. n., að þegar komi til framkvæmda leiðrétting, sem nemi sem næst 4.8% af söluverði afurða starfandi fyrirtækja í þessum iðnaði vegna ársins 1964. Nefndin hefur reiknað það út, að þá hafi gengisskráningin verið orðin skökk sem þessu nemur. Það er þarna 3. liðurinn, það virðist vera sjálfsagt, enda sagði hæstv. ráðh., að stjórnin væri að nokkru leyti búin eða hefði í hyggju að greiða fyrir veiðarfæraiðnaðinum með útvegun hagstæðra lána. Og það er gott. Það kemur einmitt fram þarna í athugasemdunum, að hæstv. stjórn virðist hafa opnað augun fyrir því, að það hafi eitthvað að segja fyrir atvinnureksturinn að njóta hagstæðra lána, m. a. til hagræðingar. En það er nú í þriðja skipti á þessu þingi, sem framsóknarmenn flytja frv. um framleiðnilánadeild, áður við Framkvæmdabankann, held ég, og núna við Framkvæmdasjóðinn, og þarna virðist koma fram loks nokkur skilningur hjá hæstv. stjórn á því, að þetta sé hlutur, sem þurfi að koma. Það er sjálfsagt að fagna því, og ég vona, að það verði þá fleiri fyrirtæki, sem njóta þess, en þessi veiðarfæraiðnaður. Þess vildi ég óska.

Aftur 4. liður í sameiginlegum till. n., að athuga að undanþiggja ný fyrirtæki í veiðarfæraiðnaði tekjusköttum um ákveðið árabil, það er hlutur, sem mér finnst ástæða til að gera aths. við. Ég fæ ekki séð, að það væri sanngjarnt, þó að komi nýtt fyrirtæki á einhverjum stað, að láta það hafa ívilnun í tekjuskatti fram yfir eldri fyrirtæki, sem hafa haldið þar uppi atvinnu, kannske um langt árabil, og átt við ýmsa erfiðleika að etja. En hæstv. ráðh. sagði, að það hefði verið gerð einhver breyting á afskriftareglum við skattaframtal, og það finnst mér viðkunnanlegra heldur en gera þannig upp á milli fyrirtækja að láta þau borga mismunandi tekjuskatt eftir því, hvort þau eru ung eða gömul.

En þá er það hv. 2. landsk. (BF). Hann sagðist hafa gáð — mér skildist í skattskrána — og séð, hvað Hampiðjan þarf að borga. En hvað er það margt af gjöldum, sem hvíla á fyrirtækjum, sem koma þar fram, og hvað er margt af sköttum og alls konar álögum á fyrirtæki, sem ekki eru þar, en álbræðslan var leyst undan að greiða á síðasta vori hér á hinu háa Alþingi? Það er þetta, sem ég vil óska eftir að n. upplýsi, safni gögnum um þetta og rannsaki þetta til hlítar. Þeir eru nefnilega ekki fáir skattarnir hér á landi, sem hvíla bæði á einstaklingum og fyrirtækjum. Það var núna fyrr í þessum mánuði, þá var birt hér t.d. í blöðum auglýsing um lögtök frá bæjarfógetanum í Hafnarfirði og sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu, og þar segir, eins og venja er til hjá embættismönnum, sem eru að innheimta gjöld á þann hátt, með leyfi hæstv. forseta: „Að undangengnum úrskurði í dag verða lögtök gerð án frekari fyrirvara“ o.s.frv. „á kostnað gjaldenda fyrir ógreiddum þinggjöldum, þ. e.“ Og svo kemur upptalning, ákaflega löng, og ég taldi saman, hvað þarna væri um marga skatta eða margar tegundir af gjöldum að ræða, og þau eru 30, þessi gjöld, sem hann er að auglýsa þarna að verði tekin lögtaki innan skamms, þau eru 30. En nú er sægur af alls konar gjöldum, sem ekki eru þarna með, eins og aðflutningsgjöld, sem eru innheimt af vörunum, þegar þær koma til landsins, og alls konar skattar. Ég hafði hugsað mér við tækifæri að reyna að finna eitthvað frekar út um þetta, hvað þeir væru margir skattarnir og gjöldin, sem hvíla bæði á einstökum mönnum og fyrirtækjum hér á landi, en talan er ákaflega há. Þau eru miklu fleiri en þessi 30, sem sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu ætlar að taka lögtaki, miklu, miklu fleiri. Þetta er náttúrlega ekki allt á fyrirtækjum, þessi gjöld, sumt eru persónuleg gjöld, ég skal játa það. En þau eru samt ákaflega mörg, og allan þorrann af þessum gjöldum var álbræðslan leyst frá að greiða, en á hins vegar að greiða dálítið framleiðslugjald, takmarkað þó mjög, ef ég man rétt. Og það er þetta, sem ég vil undirstrika, að hv. sjútvn. afli sem fyllstra upplýsinga um það, hvað slíkur iðnaður eins og veiðarfæraiðnaðurinn þarf að borga af gjöldum, sem álbræðslan var leyst frá að greiða