25.10.1966
Neðri deild: 7. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (1740)

33. mál, lausn deilu framreiðslumanna og veitingamanna

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er um að ræða, er flutt til staðfestingar á brbl., sem voru út gefin 15. júlí s.l. til lausnar á deilu framreiðslumanna og veitingamanna.

Um þetta mál hefur mikið verið skrifað í blöð, og ég ætla, að allir hv. alþm. hafi fengið bréf frá framreiðslumönnum um þetta mál, þar sem skorað er á hv. alþm. að fella þetta frv., því að framreiðslumenn segja, að lögin hafi verið gefin út að óþörfu. Það eru ef til vill fleiri en þeir, sem hafa þá skoðun, en þeir, sem gerst þekkja til málanna, telja, að brýna nauðsyn hafi borið til að stöðva þessa deilu, sem upp kom milli veitingamanna og framreiðslumanna um háannatímann, þegar ferðamannastraumurinn hingað til lands var sem mestur.

Á síðari árum hefur ferðamannastraumurinn aukizt mjög hingað til landsins, og Íslendingar hafa reynt síðari árin að gera ferðamannastrauminn hingað að atvinnugrein og hafa nokkrar tekjur þar af, eins og aðrar þjóðir hafa gert. Flugfélögin og skipafélögin njóta einnig góðs af því, ef ferðamenn koma til landsins, og þjóðarbúið fær gjaldeyri.

Það gæti vel verið, að einhverjir segðu sem svo: Ferðamennirnir hefðu nú getað komið jafnt fyrir því, þó að deilan hefði ekki verið leyst, vegna þess að framreiðslumenn buðu undanþágur og það var hægt að veita gestum nauðsynlega þjónustu þrátt fyrir þessa deilu vegna undanlátssemi framreiðslumanna, að þeir voru tilbúnir að veita undanþágur. Ég kynnti mér þetta atriði, og það kom í ljós, að undanþágurnar nægðu alls ekki til þess, að hægt væri að taka á móti ferðamönnum eins og vera ber. Eins og fram kemur í umsögn flugfélaganna, ferðaskrifstofanna og ferðamálaráðs, hefði ferðamannastraumurinn hingað til lands stöðvazt að mestu, ef deilan hefði ekki verið leyst með einum eða öðrum hætti.

Brbl. kveða svo á, að deilan verði leyst með gerðardómi, að hæstiréttur tilnefni 3 menn í gerðardóm, sem kveði á um kaup og kjör faglærðra framreiðslumanna og barnanna í veitingahúsum. Í þessum gerðardómi eru: Halldór Þorbjörnsson sakadómari, og er hann formaður, Emil Ágústsson borgardómari og Svavar Pálsson endurskoðandi. Formaður segir, að störfum gerðardómsins sé langt komið, en ekki lokið, svo að það virðist nú vera, að þetta hafi verið nokkuð erfitt og vandasamt verk, sem dóminum hefur verið fengið í hendur, að því skuli ekki enn vera lokið. Gerðardómurinn skal við ákvörðun þóknunar og starfskjara hafa hliðsjón af samningi frá 4. júní 1965 milli Sambands veitinga- og gistihúsaeigenda og Félags framreiðslumanna, svo og þeim kauphækkunum og kjarabótum, sem sambærilegar stéttir hafa orðið aðnjótandi frá því 4. júní 1965.

Þetta eru aðalatriðin í löggjöfinni, og í 7. gr. segir, að lög þessi öðlist þegar gildi og gildi þar til nýir samningar takist milli Sambands veitinga- og gistihúsaeigenda og Félags framreiðslumanna, þó eigi lengur en til 1. febr. 1967.

Það væri nú ekki ástæða til að segja öllu meira um þessi lög, ef ekki lægi fyrir bréf framreiðslumanna og það, að því hefur verið haldið fram, að lögin hafi verið gefin út að þarflausu. Þess vegna er eðlilegt, að það sé nokkru nánar greint frá því, hvernig málin stóðu, og færð rök fyrir því, hvernig farið hefði, ef ekkert hefði verið gert.

Eins og ég gat um áðan, hefur ferðamannastraumurinn aukizt mikið hin síðari ár og margt verið gert til að gera það mögulegt. Á s.l. sumri voru til gistirúm fyrir 1419 gesti, og hefur gistirúmafjöldinn tvöfaldazt á fáum árum. Þetta hefur gerzt vegna þess, að byggð hafa verið ný gistihús og að skólarnir hafa verið teknir í notkun yfir sumarið, til þess að hægt væri að taka á móti fleirum gestum. Hefur þetta gefizt vel, og tekjur þjóðarinnar af ferðamönnum hafa aukizt af þessum ástæðum. Ferðamálaráð, sem stofnað var með lögum frá Alþingi 1964, hefur skipulagt ferðamálin og nú þegar unnið þarft verk, með því að ferðamálasjóður hefur fengið nokkurt fjármagn til umráða til þess að lána til bygginga og endurbóta á gistihúsum og bæta aðstöðu í skólum til þess að taka á móti gestum.

Árið 1950 var tala ferðamanna hingað til lands 4383, 1955 9107, 1960 12806, 1962 16835, 1964 22383 og 1965 28879. Gjaldeyristekjur af ferðamönnum voru 1950 845134 kr., 1955 voru gjaldeyristekjurnar 2 millj. 208 þús. kr., 1960 voru gjaldeyristekjurnar 17 millj. 208 þús., 1963 56 millj. 325 þús. og 1965 82 millj. 107 þús., þannig, að þetta stefnir í rétta átt, og það er þegar farið að muna um þær gjaldeyristekjur, sem þjóðin fær af ferðamönnum, og í rauninni er það miklu meira en þetta, vegna þess að útlendir ferðamenn borga stundum farseðla með íslenzkum peningum, sem þeir hafa þá fengið hér í bönkunum, ef þeir hafa dvalizt hér nokkurn tíma, og raunverulegar gjaldeyristekjur eru þess vegna líklega nokkuð miklu meiri en þarna kemur fram. Það er þess vegna talsvert í húfi, að því sé ekki stefnt í hættu og það eyðilagt, sem unnið hefur verið upp undanfarin ár, og ég hygg, að allir hv. alþm. séu sammála um, að það beri að koma í veg fyrir það, að þessi vísir að atvinnugrein verði eyðilagður. Það er einnig dýrt að byggja og reka hótel, og satt að segja veitir þeim ekkert af því yfir sumarmánuðina að njóta þeirra tekna, sem af ferðamönnum koma, og það má segja það einnig, að þeim mun meira sem kemur af ferðamönnum, þeim mun meira fái barþjónarnir og framreiðslumennirnir.

Þessum lögum, sem eru sett til lausnar á kjaradeilunni, deilu, sem er ekki raunveruleg kjaradeila, — þessum lögum er ekki stefnt að öðrum aðilanum, því að það veit enginn um það fyrir fram, hvernig dómurinn verður, þegar hann verður upp kveðinn, hvort hann heggur nærri framreiðslumönnum eða veitingamönnum. En lögin leystu deiluna, skáru á þennan hnút, sem stefndi ferðamálunum í hættu, og það var aðalatriðið. Þótt veitingamenn viti ekki um, hvernig niðurstaðan verður, vildu þeir, að deilan væri leyst, og kemur það fram í umsögn þeirra, að þeir töldu nauðsynlegt, úr því að ekki fékkst samkomulag á milli deiluaðilanna, að skorið væri á hnútinn. En nú, eftir að bréf framreiðslumannanna var sent inn í Alþingi, hef ég spurzt fyrir um það hjá veitingamönnunum, hjá ferðamálaráði, hjá ferðaskrifstofunum, hvaða álit þessir aðilar hafi á því, hvort þessi lög hafi verið nauðsynleg eða hvort þau hafi verið sett aðeins af stráksskap, og umsagnir liggja hér fyrir um þetta frá Sambandi veitinga- og gistihúsaeigenda, frá Pétri Daníelssyni veitingamanni, frá Loftleiðum í sambandi við flutninga á farþegum, frá Flugfélagi Íslands, frá ferðamálaráði, frá Félagi íslenzkra ferðaskrifstofa. Ef einhver hv. þm. mundi nú hér á eftir taka undir með framreiðslumönnum og segja, að lögin hafi verið óþörf, held ég, að ég verði að lesa upp úr umsögnum þessara aðila, sem ég nefndi, því að þar er rökstuðningur fyrir því, hvernig hefði farið fyrir ferðamálunum á s.l. sumri, ef deilan hefði ekki verið leyst. En ég held ég bíði með það, því að það er nokkuð langt mál, það er frá mörgum aðilum, þangað til ef ástæða er til þess. En það segir nokkuð, að þessir aðilar hafa allir gefið jákvæða umsögn um, að það hafi borið nauðsyn til þess að leysa deiluna, ekki endilega með þeim hætti, sem gert var með brbl., eða eins og þau eru orðuð, en það hafi verið nauðsynlegt að leysa deiluna. Og það lá fyrir, að samkomulag fékkst ekki á milli veitingamanna og framreiðslumanna í þessu máli. Það var búið að reyna til fulls og umsögn aðilanna lá fyrir um það, og þarf ekki að rökstyðja það frekar.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að svo komnu máli að hafa fleiri orð um þetta frv., en legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. samgmn. og 2. umr.