08.11.1966
Neðri deild: 13. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í C-deild Alþingistíðinda. (1751)

53. mál, siglingalög

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, felur ekki í sér miklar efnisbreytingar, er fyrst og fremst flutt vegna þess frv., sem hér var lagt fram í gær um heimild fyrir ríkisstj. til að staðfesta fyrir Íslands hönd alþjóðasamþykkt um takmörkun á ábyrgð útgerðarmanna, sem gerð var í Brüssel 10. okt. 1957, og er þetta frv. fylgifrv. við það. En nauðsynlegt var talið vegna íslenzkra hagsmuna, að Ísland gerðist aðili að alþjóðasamþykkt þessari um takmörkun á ábyrgð útgerðarmanna. Þetta frv. er borið fram jafnframt frv., sem hæstv. utanrrh. gerði grein fyrir hér í gær, til að fá fram nauðsynlegar breytingar á siglingalögunum, er aðild okkar að þessari umræddu alþjóðasamþykkt þýðir.

Ég tel ekki þörf á að gera frekari grein fyrir máli þessu, umfram það, sem gert var í málinu í heild í umr. um fyrrgreint frv. hér í hv. þd. í gær, en vísa að öðru leyti til mjög ýtarlegrar grg., sem frv. fylgir, og legg til, að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til hv. sjútvn.