08.12.1966
Neðri deild: 23. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (1757)

72. mál, skipun prestakalla

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að fara að rökræða við hv. 3. þm. Reykv. almennt um þetta mál, en það var eitt atriði, sem ég vil nota tækifærið til að koma á framfæri, og það er, að hv. þm. fann að því og taldi til hneykslis, að stofnað hefði verið embætti prests á vegum þjóðkirkjunnar suður í Kaupmannahöfn, og vildi skýra það svo, að honum væri ætlað það aðalstarf að reka kristilegan áróður meðal stúdenta þar. (EOl: Ég sagði heiðingjatrúboð.) Hvernig sem hv. þm. orðaði það, vildi hann gera lítið úr þessu starfi og nánast gera það hlægilegt. Þannig stendur á, að ég hef nú á nokkurra vikna fresti komið til Kaupmannahafnar og svo að segja ætíð, ekki undantekningarlaust, en oftast nær, bæði þegar ég kom og fór, rekizt á þann mann, sem hér er um að ræða, séra Jónas Gíslason, úti á flugvelli, þar sem hann ýmist hefur verið að taka á móti sjúkum mönnum, sem hafa komið með flugvélum, eða fylgja sjúkum mönnum heim á leið, sem höfðu verið á spítölum þar. Það þekkja allir, sem kunnugir eru í Kaupmannahöfn, að þangað leitar mikill fjöldi af fársjúku fólki, margir, sem aldrei hafa áður komið á þennan stað, sem er fjölmennur og stór, lítt viðráðanlegur í þeirra augum. Að sjálfsögðu hefur af hálfu sendiráðsins hingað til verið reynt að greiða fyrir þessu fólki, sumt af því á kunningja þarna, sem hafa tekið á móti því og reynt að hjálpa því, en sannast að segja hafa sendiráðsmenn ekki haft tíma til að sinna þessu fólki eins og skyldi. Og þótt ekki væri annað en sú fyrirgreiðsla, sem séra Jónas Gíslason veitir þessu fólki, er hún ekki þess eðlis, að til aðhláturs sé vekjandi hér á Alþingi. Ég þori að fullyrða, að með þessu vinnur hann ómetanlegt mannúðarstarf, sem reynslan sé búin að sýna, að mjög rík þörf hafi verið fyrir. Ég hef einmitt vegna þess, sem ég hef séð til hans í þessum ferðum, spurt nánar eftir hans störfum, ekki hann sjálfan, heldur aðra, og þeir hafa sagt, að hann sé vakinn og sofinn, fyrst og fremst til að greiða fyrir og aðstoða þetta fólk.

Hv. þm. vildi að vísu lítið gera úr þörf fyrir sérstakan sjúkrahúsprest hér í Reykjavík. Ég játa, að um það má deila, vegna þess að hér geta menn náð til þeirra presta, sem þeir geta talað við. Í Kaupmannahöfn eru Íslendingar yfirleitt einstæðingar, skilja ekki mál þarlends fólks, og fyrir utan móttöku og aðstoð utan sjúkrahúss er það einnig ómetanlegt starf, kærleiksstarf, að presturinn, sem þarna er settur, heimsækir þetta fólk og reynir að veita því alla þá fyrirgreiðslu, sem hann getur. Vegna þess að ég hef kynnt mér þetta mál alveg sérstaklega og séð sumt af því með eigin augum, vil ég ekki, að ummæli hv. þm. standi athugasemdalaust að þessu leyti.