08.12.1966
Neðri deild: 23. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (1758)

72. mál, skipun prestakalla

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Með þessu frv., sem hér er til umr., er gert ráð fyrir allróttækri breyt. á skipun prestakalla í landinu, einni þeirri róttækustu, sem gerð hefur verið. Ég vil þakka hæstv. kirkjumrh. þá tillitssemi við okkur þm. að senda okkur strax í sumar þetta frv. í því formi, sem prestakallanefndin gekk frá því. Síðan hefur frv. að vísu tekið nokkrum breyt. Ég álít, að það sé til fyrirmyndar hjá þessum hæstv. ráðh., að hann hefur sent þm. a. m, k. nokkrum sinnum mál til athugunar, sem honum hefur borið að bera fram hér á Alþingi. Þetta álít ég, að sé til fyrirmyndar, og fleiri ráðh. mættu iðka þetta.

Það er nú vafalaust ýmislegt til bóta frá gildandi lögum í þessu frv., en ég hygg að annað í því geti frekar orkað tvímælis. Ég sé, að með frv. er gert ráð fyrir að fækka prestaköllum um 20. Þessi prestaköll eru öll í sveitum landsins. Nú hefur að vísu ekki tekizt á undanförnum árum að fá presta í öll þessi köll, og hafa því sum þeirra engan prest haft í lengri eða skemmri tíma. Ég hygg, að slíkt ástand hafi ekki verið því fólki að skapi, sem skipað hefur þá söfnuði, þar sem svona hefur verið ástatt. Ég verð að segja það, að mér hefði þótt nógu langt gengið í fækkun prestakalla, a. m. k. í bili, að leggja þau prestaköll niður, þar sem ómögulegt hefur verið að fá prest um lengri tíma, og að það hefði vel mátt láta þau prestaköll standa óbreytt, þar sem prestar hafa setið rólegir í embættum og jafnan tekizt að fá nýja, þegar köllin hafa losnað.

Þegar ég segi þetta, hef ég í huga það, sem næst mér er og ég hef helzt kynni af. Ég sé, að frv. gerir ráð fyrir, að það eigi að leggja niður 2 prestaköll í Árnessýslu, 1 í Rangárvallasýslu og 1 í Vestur-Skaftafellssýslu. Ég man ekki eftir því, að þessi köll hafi verið nokkurn tíma prestslaus, nema Þingvellir, sem voru það um alllangt skeið, og ég hefði ekki talið óeðlilegt, þar sem svo stóð á, að prestakallanefndin vildi leggja niður embætti á þeim stöðum, en þar sem prestsþjónustan er og hefur verið fyrir hendi, yrði leitað álits safnaðarmanna um þá ráðagerð, en það hygg ég, að hafi ekki verið gert. Ég veit a. m. k. ekki til þess, að það hafi verið kannað í þeim prestaköllum, hvort fólkið gæti sætt sig við það að missa prestinn sinn eða sameinast öðru prestakalli.

Embætti, sem staðið hafa í margar aldir og menn eru enn fúsir til að þjóna, eiga samkv. þessu frv. að leggjast niður og fólkið á að missa embættismann, sem flestum hefur fundizt nokkurt hald og traust í að hafa og í flestum tilfellum er eini vel menntaði maðurinn í byggðarlaginu, a. m. k. sem almenningur telur sig geta leitað til um ýmiss konar hjálp, sem menntaður maður hefur tök á að leysa fram yfir þá, sem hafa ekki notið langrar skólagöngu. Það hefði varla mátt minna vera en spyrja fólkið um álit þess, og ef það hefði ekki viljað missa prestinn sinn, hefði allt fengið að vera óbreytt.

Við Íslendingar höfum alltaf þolað illa valdboð, og mér er ekki grunlaust um, að svo sé enn. Ég held líka, að sveitafólkið telji þessa ráðstöfun, ef samþykkt verður, heldur litla tillitssemi víð sig og valdboð, sem illt verði að þola. Sannleikurinn er sá, að góður sveitaprestur hefur alltaf yfrið nóg að starfa, þó að söfnuður hans sé ekki fjölmennur. Hann er oftast eða mjög oft a. m. k. leiðandi maður í menningar- og félagsmálum. Ýmsir okkar mestu skörungar á þeim sviðum hafa verið sveitaprestar. Það hafa líka margir prestar látið stjórnmál til sín taka og verið á þeim vettvangi hinir mikilhæfustu forustumenn, án þess að embættisfærsla þeirra eða sálgæzlustörf biðu af því nokkurn hnekki, svo að mér sé kunnugt um. Ég álit það misráðið og raunar illa gert gagnvart dreifbýlisfólkinu að fækka þeim, sem vilja og geta veitt því andlega forustu, en engir hafa til þess betri aðstöðu en prestar, því að þeir hafa fjölbreytta menntun, eru yfirleitt miklir áhugamenn um fegrun mannlífsins og vilja efla trú og siðgæðisþroska fólksins, en slíks er alltaf og alls staðar mikil þörf. Ég er þeirrar skoðunar, að það beinlínis borgi sig fjárhagslega, þó að ekki væri litið á málið frá öðru en því sjónarmiði, — það borgi sig beinlínis fjárhagslega að efla á meðal þjóðarinnar sterka siðgæðisvitund og trú á guð. Þannig muni þjóðinni farnast bezt á öllum sviðum. Það sé því beinlínis skylda alþm. og ríkisstj. að efla kirkju landsins, því að sé kirkjan sterk og hafi hún mörgum dugandi og áhugasömum mönnum á að skipa, getur hún bjargað mörgum frá óláni, sem þjóðfélagið annars verður að taka á sínar herðar eða standa undir á einn eða annan hátt. Nú má segja, að sú hætta sé minni í dreifbýlinu en í borgum og bæjum og því sé m. a. enn minni ástæða til að halda uppi öflugu kirkjulegu starfi, þar sem fólkið er fátt. En í flestum löndum er það svo, að dreifbýlið er talið veita borgunum nýtt og heilbrigt blóð, þegar bæjarmenningin er að úrkynjast, og í það horf vill alls staðar sækja, þar sem mikið fjölmenni er saman komið.

Við Íslendingar þurfum að treysta bönd borgarbúanna sem allra mest og sterkast við dreifbýlið í landi okkar og styrkja þá, sem eru í dreifbýlinu, til að halda velli. Einn þátturinn í því gæti verið sá að leyfa dreifbýlinu að halda sínum embættismönnum og vera ekki með smásálarskap. Ég álít það smásálarskap, ef þessi prestafækkun er gerð af einhverjum sparnaðarástæðum, en svo á nú kannske ekki að vera, það heitir ekki þannig í frv., því að það á að leggja í sjóð þau laun, sem hefðu annars runnið til presta í þessum prestaköllum, og ég álít, að það eigi alls ekki að vera að reikna, hver fjöldi þeirra eigi að vera, eftir einhverri höfðatölu íbúanna á hverjum stað, eins og ég hygg að m. a. hafi verið lagt nokkuð til grundvallar, þegar þetta frv. var í smíðum. Ég álít, að kirkjumálin séu vanrækt hér á Íslandi og of lítið sé til þeirra veitt. Það eru núna á fjárlagafrv. um 43 millj. kr., sem fara til kirkjumála. Það er ekki 1% af heildarupphæð fjárlaganna, það sem fer til kirkjumála, ef ég kann að reikna rétt. Ég sé, að það er tvisvar sinnum hærri fjárupphæð, sem þarf að nota til þess að innheimta tolla og skatta í landinu, en það, sem nú fer til eflingar trúar og siðgæðis, svo að aðeins eitt dæmi sé tekið.

Það er tímanna tákn, að um leið og ráðstafanir eru gerðar í þá átt að fækka prestum úti um landsbyggðina, eru stofnuð þar víða önnur embætti og stofnanir, — þar á ég við bankaútibúin, sem þjóta nú upp hvarvetna um landið. Ekki ætla ég að hafa á móti þeim, og ég tel, að sú þjónusta, sem þau halda uppi og þau veita, sé nauðsynleg og hennar sé veruleg þörf. En dansinn kringum gullkálfinn er talsvert dýr og ekki talinn eftir, en þjónusta við íslenzku þjóðkirkjuna er af mörgum a. m. k. talin eftir, og hennar starfsmönnum á nú að fækka verulega úti um byggðir landsins.

Bankastjórum, bankaráðsmönnum, gjaldkerum, riturum og fulltrúum, ef ég kann þá að nefna öll þessi embætti, fjölgar stöðugt. Gróði bankanna eykst á ári hverju. Þetta er mikil gróska, og færi betur, að hún yrði þjóðinni til hamingju. Sama er að segja um sölu áfengis. Útsölustöðum fjölgar úti um landið til þæginda fyrir viðskiptavinina, sölustjórum fjölgar og öðrum starfsmönnum og viðskiptin aukast, en að sama skapi eykst líka óhamingja margra manna, glæpum fjölgar, siðleysi vex, slys margfaldast. Ofurlítil ölmusa er lögð fram af áfengisgróðanum til styrktar bindindisstarfi og til hjálpar áfengissjúklingum, með eftirtölum af margra hálfu, þó að vitað sé, að líklega kemur jafnlítið fé þjóðinni hvergi að meira gagni en á þessu svíði. Mörgum hugsandi mönnum ofbýður rótleysi og friðleysi þeirrar kynslóðar, sem nú býr í landinu og hefur betri veraldleg skilyrði en nokkur önnur áður til að lifa hamingjusömu lífi. Fólkið þráir frið og öryggi. Kirkjan getur hjálpað til að ná þessum gæðum, ef hún fær að beita sér, en hún getur ekkert eða a. m. k. mjög takmarkað, ef hún er svipt starfskröftum eða ef starfsmönnum hennar er fækkað og fjármunir skornir mjög við nögl.

Það er gott og sjálfsagt, að stofnuð séu hvers konar mannúðar- og líknarfélög, og það er sjálfsagt að styðja slíka starfsemi. En það, sem þó varðar mestu, er að rækta í æsku landsins það hugarfar, þann sálar- og siðgæðisþroska, sem leitt getur kynslóðirnar fram hjá refilstigum óhollra nautna og ódyggða. Menn getur greint á í trúmálum og haft misjafna persónulega afstöðu til einstakra starfsmanna kirkjunnar, svo sem eðlilegt er, og þannig erum við sjálfsagt allir gerðir. En slík viðhorf eru einnig margvísleg til annarra stofnana og starfsmanna, þótt að menningar- og líknarmálum vinni. Mín skoðun er sú, að það væri mjög skynsamlegt að efla hina 1000 ára gömlu menningarstofnum, kirkju landsins, til að hafa forustuhlutverk, eins og henni er skylt, til að vekja þjóðina til hærra siðgæðis og vernda æskuna fyrir glapstigum og ginningum, sem eru samfara bættum efnahag og auknum tómstundum, sem æskan hefur nú. Eftir því sem starf kirkjunnar og prestanna verður meira metið af valdhöfunum og almenningi, þeim mun fleiri dugandi og gáfaðir menn munu mennta sig til þess að vinna þeirri stofnun gagn. Þjóðin þarf að eiga margs konar sérfræðinga fyrir ráðgjafa á hinum ýmsu sviðum. Þessum sérfræðingum og ráðunautum er alltaf verið að fjölga. Hér þarf ekki síður presta til þess að leiða kynslóðirnar fram hjá forarpyttum spillingar og lasta. Ég hygg, að hver einasti guðfræðilega menntaður maður muni hafa sterkan áhuga á því að vinna slíkt verk, og ég tel, að íslenzka þjóðin eigi ekki að spara til þess nokkrar millj. kr., að slíkt verk sé unnið.

Mér dettur ekki í hug, að kirkjan sé, hafi verið eða verði gallalaus, og þjónar hennar verða auðvitað alltaf háðir því að gera ýmislegar skyssur eins og aðrir menn. En hvar er sú stofnun nú í okkar þjóðfélagi, sem við getum betur treyst til varðstöðu um heilbrigða samfélagshætti manna og til að leiða fólk til hollra lífsnautna? Ég verð að játa það, að ég veit ekki af slíkri stofnun. Ég þekki ekki aðra stofnun henni fremri til þeirra hluta. Ég vil því eindregið hvetja þá n., sem þetta frv. fær til athugunar, að íhuga vel, hvort sú stefna muni henta þjóðinni, sem í frv. felst, þ.e.a.s. sá þátturinn í frv., sem er um það að fækka starfsmönnum kirkjunnar, og hvort það er ekki nóg afhroð, sem dreifbýlið verður að gjalda nú á tímum hinna miklu breytinga í þjóðlífinu, þótt það verði ekki einnig að láta af hendi sína fáu andlegu leiðtoga, prestana, með lagaboði frá Alþ. Mér dettur ekki í hug að hafa á móti því, að ýmsar skynsamlegar breytingar séu gerðar á skipan kirkjumála og prestakalla. En ég er viss um það, að ef starfsmönnum fækkar í kirkjunni, minnkar það, sem gert verður. Það kemur engin kraftblökk í stað þeirra presta, sem hverfa frá starfi, eins og gerðist á síldarbátunum, og þar var hægt að fækka mönnum vegna kraftblakkarinnar. En það gerist ekki í kirkjunni. Tækninni verður sáralítið beitt við kirkjuleg störf, þó að ég hafi nú að vísu heyrt einstaka mann minnast á það og halda því fram, að það sé vel hægt að nota hljómplötur og grammófón við ýmsar kirkjulegar athafnir og spara þannig fé og mannafla. (Gripið fram í: Við getum farið á bílum á milli kirknanna.) Jú, það er satt, það er fyrir löngu komið, sem betur fer.

Hugmyndin um kristnisjóð er ágæt, ef honum verða fundnir fleiri tekjustofnar en þeir, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég tel, að það mætti skattleggja gróða bankanna kirkjunni til eflingar eða kristnisjóði til eflingar. Það er ekki nema réttmætt, að af dansinum kringum gullkálfinn drjúpi nokkur fengur til kirkjunnar.

Í eitt af þeim prestaköllum, sem við Sunnlendingar eigum nú að missa, kom ungur prestur fyrir 1–2 árum. Þá man ég eftir því, að það var rætt um það af ýmsum háttsettum aðilum, að réttast væri að láta kallið standa óveitt, þar til prestakallaskipuninni yrði breytt. Þessu undi fólkið ekki, sem þar býr, og heimtaði sinn prest. Það fékk ungan, efnilegan mann, áhugasaman um sitt starf, og þó að hann sé ekki í fjölmennu prestakalli, veit ég ekki betur en hann sé alltaf að starfi, stöðugt að starfi. Hann syngur messur í sínum kirkjum, eins og honum ber að gera. Hann talar huggunarorð til þeirra, sem eru deyjandi, og hinna, sem sakna ástvina sinna. En þar fyrir utan kennir hann æskunni og býr unga fólkið undir lífið. Þetta er mikið starf, og þetta er göfugt starf, sem sveitafólkið vill ekki missa. Þó að kirkjusóknin sé á ýmsum stöðum talin vera dræm, er það nú svo, að til kirkjunnar leita flestir, þegar á reynir, og þangað eiga flestir rammar taugar. Það liggja rammar taugar milli flestra Íslendinga og kirkjunnar. Það má vitanlega deila um þá stofnun eins og aðrar stofnanir. Hún er eins og aðrar stofnanir, sem menn hafa komið upp, vitanlega ekki gallalaus og verður aldrei. En við komum heldur aldrei upp neinni stofnun, sem verður gallalaus. Mér þykir heldur ótrúlegt, að fólkið, sem ég var að segja frá, í þessu prestakalli, sem fékk þennan ágæta prest hlaðinn af orku og áhuga, sætti sig vel við það að láta taka hann af sér, þegar hann er nýtekinn til starfa þarna.

Það er svo sem enginn dreifbýlisvinátta í þessu frv., þó að ég sé ekki að halda því fram, að það sé byggt upp á neinum fjandskap við dreifbýlið. Ég er ekki að halda því fram. En það kemur ekki heldur fram í því nein sérstök dreifbýlisvinátta. Það kemur fram í því sama stefnan gagnvart prestastéttinni og víða hefur kveðið við á síðustu árum úr viðreisnarherbúðunum gagnvart bændum, þar sem það er talið eitt snjallasta úrræðið til þjóðþrifa að fækka bændum. Bændastéttin og prestastéttin hafa löngum verið samferða og lifað saman súrt og sætt í þessu landi. Nú er stefnan sú að smáeyða þessum stéttum.

Ég á erfitt með það að ljá slíkri stefnu lið mitt og mun ekki ljá þeim þætti í þessu frv. lið, sem fjallar um það að fækka prestum. Margt annað í þessu frv. er gott og gagnlegt, og ég get tekið undir hugmyndina um kristnisjóð, þann þáttinn, verið honum samþykkur og fleiru í frv.

En ég mun ekki geta stutt það, að prestum dreifbýlisins verði fækkað. Ég tel, að það þurfi að auka starf kirkjunnar, bæði í borg og sveit. Ég tel, að þjóðin hafi efni á því að gera þetta og það muni borga sig, jafnvel fjárhagslega. Ég tek það fram, að það muni borga sig fjárhagslega og gera þjóðina sterkari, bæði andlega, siðferðilega og fjárhagslega.