09.12.1966
Neðri deild: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (1765)

72. mál, skipun prestakalla

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Það var í umræðunum í gær, að ég lét nokkur orð falla um þetta mál. Það, sem ég hafði fyrst og fremst við frv. að athuga, var það, og mér þótti sá galli mestur á því, að gert var ráð fyrir að taka presta af þeim söfnuðum og úr þeim prestaköllum, þar sem þjónandi prestar hafa yfirleitt verið stöðugir í kallinu og alltaf verið hægt að fá prest til að þjóna, þegar kallið hefur losnað. Ég var ekki að finna að því, þó að viss prestaköll, sem hafa ekki haft prest um langt skeið, væru sameinuð öðrum prestaköllum. En hitt finnst mér vera dálítið einkennilegt, að rifa nú upp úr prestaköllum presta, sem hafa unað þar vel, án þess að söfnuðirnir væru um það spurðir. Ekki veit ég til þess, að söfnuðirnir sem heild hafi verið um þessi mál spurðir. Ef það hefði verið gert og söfnuðirnir talið þessa breytingu eðlilega og þeir viljað við það sætta sig, þá var öðru máli að gegna.

Hæstv. kirkjumrh. hefur í ræðu sinni áðan getið um þessi prestaköll, sem prestslaus hafa verið, og mannfjölda í þeim. Ég sé ekki betur en þegar það er lagt saman, þá séu það þó nokkrar þúsundir manna, sem í þessum prestaköllum búa. Ég álít, að það sé dálítið óeðlilegt, og ég fyrir mitt leyti er þeirri stefnu andvígur að kippa úr dreifbýlinu þeim stoðum, sem enn þá eru þar því til styrktar, og það tel ég að prestarnir séu.

Hæstv. kirkjumrh. talaði um það, að sér hefði líkað ræða mín allvel, þangað til ég kom að því, að ég teldi, að þetta gengi nokkuð í sömu stefnu og um fækkun bænda. En sannleikurinn er sá, að ég gat ekki stillt mig um að minnast á það, að sú stefna, sem hæstv. ríkisstj. hefur haft, er sú að sameina t.d. sveitarfélög, steypa þeim saman. Ég veit ekki betur en að á vegum ríkisstj. hafi verið skipuð nefnd til þess að vinna að því að fækka sveitarfélögunum og steypa þeim saman í stórar heildir. Ég er ekki viss um, að þetta sé neitt gæfuspor fyrir sveitirnar. Það kann að vera eðlilegt að gera það á vissum stöðum, að steypa saman sveitarfélögum, en að gera það í heild með valdboði, það hygg ég sé ekki heppilegt. Sama er að segja með prestaköllin. Það má vel vera, að sums staðar sé eðlilegt að sameina prestaköll, en að gera það með valdboði, það tel ég óheppilegt og er því algerlega andvígur.

Ég verð að minna á það, að það er einn af stuðningsmönnum hæstv. kirkjumrh., sem talaði um, að það þyrfti að fækka bændum um helming, Guðjón Sigurðsson að nafni, sem allir kannast við, svo að ég var ekki að fara með neina skreytni, þó að ég minntist á þetta. Mér fannst þetta allt ganga sömu stefnuna.

Hv. 3. þm. Reykv. hélt hér aftur langa ræðu núna og gerði nokkrar athugasemdir við mál mitt í gær og fannst ég hafa verið allsveitamannslegur, eins og hann orðaði það. Ég veit ekki, hvað það á að merkja, en ég man eftir því, þegar ég var strákur, þá var þetta eins konar skammaryrði á þann, sem var úr sveit. Og kannske á það að merkja það enn í dag hjá hv. þm. Ég skammast mín ekki fyrir það að vera sveitamaður, og ég ætla að halda fram hlut sveitanna alveg eindregið, hvað sem hann og aðrir segja um það. Ég held að það sé meira atriði fyrir okkar þjóð að reyna að halda landinu öllu í byggð og styrkja fámenn sveitarfélög heldur en að rífa það niður, tæta fólkið í burtu með ýmsum aðgerðum, sem gerðar eru af hálfu þess opinbera, m. a. með því að taka presta burt úr prestaköllunum, þar sem þeir hafa vel unað og fólkið viljað hafa þá. Þetta er einn þátturinn í því að leggja byggðirnar í auðn, og á meðan ég er hér málsvari fyrir mitt byggðarlag, mun ég standa á móti því þó að ég fái viðurnefnið sveitamaður út á það. Ég skammast mín ekki fyrir það og var þakklátur í raun og veru fyrir það viðurnefni.

Þegar hv. 3. þm. Reykv. fer að tala hér um kirkjumál, þá byrjar það þannig, að hann skammar kirkjuna og prestana, en svo endar hann með því, að hann vitnar í mestu höfuðklerka íslenzku þjóðarinnar og réttilega telur það hinn mesta vísdóm og sanna speki, sem þeir hafa haldið fram,eins og Hallgrímur Pétursson og Jón Vídalín, og ég heyri, að hann er vel að sér í þessum fræðum, miklu betur en ég. Ég skal játa það, að ég hef aldrei verið mikill trúmaður og ég hef aldrei sótt vel kirkjur og ekki lesið mikið um guðfræði. Ég veit, að hv. 3. þm. Reykv. er miklu betur að sér í þessu en ég, sveitamaðurinn, en það er sjálfsagt eitt einkennið á sveitamanninum að vera illa að sér í þessum hlutum.

Hann segir, að Mammon sé orðinn einn að höfuðguðum nútímans, og hann segir, að kirkjan dansi með. Nú veit ég ekki, á hvern hátt hún dansar með, annan en þá þann, að hún reynir að byggja sín hús upp, og það verður hún líka að gera af veraldlegum hlutum. Kirkjur eru ekki byggðar nema fyrir fé. Og af hverju er verið að byggja kirkjurnar? Er það bara af eintómri hræsni? Ég hygg, að íbúar Reykjavíkur séu ekki af eintómri hræsni að byggja sér kirkjur. Þeir eru að því, af því að þeim finnst þeir þurfa að hafa þær, og þeir hlusta þar á það orð, sem einmitt hv. 3. þm. Reykv. var að vitna í, þeirra Hallgríms Péturssonar og Jóns Vídalíns. Ég held, að hv. þm. hlusti kannske verr á þá, sem nú flytja þetta orð í kirkjunum, heldur en þegar Hallgrímur Pétursson var uppi. Þá sjaldan ég hlusta á þessa menn, eru þeir einmitt að berjast fyrir bættu siðgæði og berjast á móti því, að Mammon sé notaður á þann hátt, sem oft er gert.

Ég held, að okkur sé alveg eins þörf á því nú og ekki síður en á dögum Hallgríms Péturssonar, að kirkjan sé öflug, og hún þarf að vera öflug fjárhagslega líka. Fjárhagslega fátæk kirkja getur ekki beitt sér til neins. Ég álít, að kirkjan þurfi að vera fjárhagslega sterk, þá geti hún betur beitt sér að þeim verkefnum, sem henni ber að sinna. Það verður alltaf að fara saman andlegur kraftur og veraldlegur.

Ég sný ekki aftur með það, að ef kirkjan getur ekki hjálpað okkur í því rótleysi og friðleysi, sem nútímakynslóðin á við að stríða, þá veit ég ekki um neina aðra stofnun, sem getur það fremur, og ekki hefur a. m. k. hv. 3. þm. Reykv. né aðrir, sem um þessi mál hafa talað, bent á aðra stofnun. Jú, hann hefur verið að nefna félagsmálafulltrúa og einhverja slíka fulltrúa. Það er vafalaust gott. En ég hygg, að þeir geti ekki komið í staðinn fyrir þessa aldagömlu, sterku stofnun. Ef hún getur ekki hjálpað fólkinu í þessu rótleysi, sem gengur nú yfir kynslóðina, þá held ég, að það geti ekki aðrir. Og við eigum að sameinast um að styðja það og styrkja og hafa áhrif á, hvernig þessi stofnun vinnur.

Svo held ég, að ég láti máli mínu lokið. Eins og ég sagði í gær, er það fyrst og fremst það, sem ég hef við frv. að athuga, að það á að rýra hlut dreifbýlisins. Það á að taka frá dreifbýlinu hóp af menntuðum mönnum, sem geta orðið því til styrktar, og sameina prestaköll. Þetta getur átt við á vissum stöðum, þar sem prestaköll hafa verið prestslaus um langan tíma og enginn fengizt til þess að þjóna kallinu. En þar sem slíku er ekki til að dreifa, þar mátti þetta standa óbreytt enn um sinn, og þess vegna tel ég, að hér sé ekki rétt á málum haldið.