09.12.1966
Neðri deild: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í C-deild Alþingistíðinda. (1766)

72. mál, skipun prestakalla

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki verða mjög langorður. Það eru aðeins nokkur atriði, sem mig langar til að drepa á.

Ég er dálítið hissa á þeim skilningi, sem fram kemur í þessum umr., eins og í ræðu síðasta ræðumanns, að með þessu frv. sé verið að taka presta af söfnuðunum. Það er alls ekki um það að ræða. Það er ekki verið að taka presta af fólkinu, það er aðeins verið að vinna að því með þessu frv., að fólkið í landinu fái betri þjónustu hvað þetta snertir en hefur verið. Þess vegna get ég alls ekki fallizt á þann skilning, sem kom fram í ræðu þessa hv. þm.

Það er talað um það einnig og gagnrýnt bæði af hv. 3. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Vestf., að söfnuðirnir hefðu ekki verið spurðir, ekki verið leitað til þeirra um þessar breytingar. Hæstv. kirkjumrh. benti á það áðan, að n., sem undirbjó þetta mál, hefði ferðazt um gervallt landið og talað við fólkið. Ég veit það raunar, að hún hefur hitt hverja einustu sóknarnefnd í landinu, a. m. k. þær, sem þessar breyt., sem hér eru lagðar til, snerta að einhverju leyti. Ég vil einnig benda á það, að kirkjuþing hefur lagt blessun sína yfir þetta frv. Það kom frá kirkjuþingi svo til alveg í sama formi og það liggur nú fyrir Alþ. En hvernig er kirkjuþing samansett? Þar sitja fulltrúar frá prestum, og þar sitja einmitt fulltrúar frá söfnuðunum, menn, sem söfnuðirnir kjósa til þess að fjalla um mál eins og þessi. Það er þess vegna engan veginn hægt að segja, að það sé gengið fram hjá söfnuðum með flutningi þessa frv. Það er síður en svo. Ég vil svo minna á það líka, að prestakallaskipunin er ákvörðuð af Alþ. Það er Alþingis að gera út um það, hvernig prestakallaskipunin í landinu er. Alþ. getur náttúrlega leitað til þeirra, sem það óskar, um umsagnir og álit, en ég minni á það, sem allir hv. þm. vita, að það er hins háa Alþ. að ganga frá þessum málum.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að við ættum að lofa söfnuðum að hafa sína presta. Já, við eigum að gera það. Og ég vil ekki líta svo á, eins og ég sagði áðan, að það sé verið að taka presta af fólkinu með þessu frv. Hver tók t.d. prestinn af fólkinu, sem býr í Öræfunum? Hver tók prestinn af fólkinu, sem býr í Flatey á Breiðafirði? Hver tók prestinn frá fólkinu, sem átti kirkjusókn að Brjánslæk og Hrafnseyri, Árnesi á Ströndum? (SE: Það er prestur þar.) Já, það er prestur þar annað veifið. (SE: Hann er þar núna.) En Grímsey? Það hefur enginn tekið þessa presta af þessu fólki. Það er prestslaust, vegna þess að það hefur ekki verið sótt um þessi prestaköll. Og þetta hefur verið svona í fjölmörg ár, að það hefur enginn sótt um þessi prestaköll og fleiri, þrátt fyrir það þó að þau hafi verið auglýst hvað eftir annað. Alþ. hefur ekki tekið þessa presta af fólkinu. Nú er einmitt lagt til með þessu frv., að þetta fólk fái betri prestsþjónustu en það hefur haft á undanförnum árum.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði hér nokkuð um prestskosningar. Ég skal ekkert fara út í það mál, þær eru ekki hér til umr. nú, en ég vil aðeins benda á það, að prestskosningar eru allfrábrugðnar öðrum kosningum í þessu landi. Eftir núgildandi löggjöf getur prestur fengið kall, þegar hann er 25 ára gamall, og stundum er gerð á þessu undanþága, þannig að yngri menn fá prestsembætti en þetta. Prestar eiga að láta af störfum eins og aðrir opinberir starfsmenn í okkar þjóðfélagi, þegar þeir eru sjötugir. Það kemur fyrir, að prestur situr í sama prestakalli og getur setið í 45 ár. Það getur jafnvel skeð og gerist líka, að fólk úr þessu prestakalli flytur í annað prestakall, kemur þar að, sem nýlega var búið að kjósa prest, og það getur meira að segja orðið þannig, að það verði æðimargir í þessu þjóðfélagi, sem aldrei geta kosið prest eftir þessu skipulagi. Það væri allt annað að tala um prestskosningar, ef t.d. væri kosið á 6–10–12 ára millibili. Þá er í raun og veru hægt að tala um kosningar.

Hv. 3. þm. Reykv. ásakaði okkur prestana fyrir það, að við prédikum ekkert gegn spillingaröflunum í þjóðfélaginu, fjárplógsstarfsemi og öðru slíku. Ég hygg, að hann hafi sagt þetta vegna þess, að hv. þm. er ókunnugur prédikunum presta. og ég ráðlegg honum að taka sig nú til og fara að sækja kirkjur, og ég er alveg viss um það, að hann þarf ekki lengi að sitja þar til þess að heyra, að það er prédikað á móti fjárplógsstarfsemi í okkar kirkju enn í dag.

Annars gladdi mig mjög að heyra það, hversu þessi hv. þm., — ég raunar vissi það, — var vel að sér í Passíusálmunum okkar, þeim gimsteinum, og Vídalínspostillu. Og það gladdi mig líka, þegar þessi hv. þm. er að tala um sjóði, bæði hérna megin og hinum megin. Þetta gefur mér þá bendingu, að þessi hv. þm. trúir á aðalatriði kristinnar trúar, trúir á eilífðina. En hvernig hann ætlar að samræma þessa trú sinni kommúnistísku trú, það veit ég ekki, og það vissi ekki heldur frúin, sem kom frá Rússlandi fyrir nokkrum árum hingað til lands, því að hún sagði, að þetta tvennt væri gersamlega ósamrýmanlegt, eilífðartrú kristindómsins og kommúnisminn. Ég held, að það væri bezt fyrir Þjóðviljann að vera ekki að birta útdrætti úr ræðum þessa hv. þm. Ég veit ekki nema hann gæti gert honum óleik með því, ef þetta fréttist austur fyrir tjaldið.

Hann minntist á það, þessi hv. þm., að það mundu hafa verið seld hlutabréf til ágóða fyrir Hallgrímskirkju. Þetta er misskilningur hjá hv. þm. Þetta eru ekki hlutabréf. Það hafa verið seld svonefnd gjafabréf, og þau eru raunar ekkert annað en kvittun fyrir því fjárframlagi, sem hver og einn lætur af hendi rakna til þessarar kirkjubyggingar.

Ég get svo látið máli mínu lokið, en ég vil þó aðeins endurtaka það, sem ég sagði í gær, að mér finnst það algerlega forkastanlegur málflutningur, þegar því er haldið fram, að þetta frv. sé flutt f fjandskaparskyni við strjálbýlið og bændastéttina. Hvernig er hægt að álíta, að það hafi hvarflað að þeim mönnum, sem unnu að þessu frv., og hæstv. kirkjumrh. að flytja þetta frv. til að fjandskapast við strjálbýlið? Þetta er svo fjarstætt því rétta, að það er eiginlega furðulegt, að gætinn og hógvær þm., eins og hv. 2. þm. Sunnl. er, skuli flytja mál sitt á þessa lund. Það getur auðvitað vel verið, að Framsfl. ætli að gera þetta mál að pólitísku áróðursmáli. Það má vel vera. En ég trúi því ekki fyrr en á reynir, að hann geri það, því að hér er alls ekki um pólitískt mál að ræða. Og ég mótmæli því algerlega, að það sé stefna Sjálfstfl. að fækka bændum um helming. Þó að einhver maður, sem fylgir Sjálfstfl., hafi talað um það einhvern tíma og einhvers staðar, þá er það algerlega rangt, að það sé stefna Sjálfstfl.