24.10.1966
Neðri deild: 6. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (1793)

30. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Samkv. gildandi lögum eru hér á landi 113 nafngreindar hafnir eða lendingarbótarstaðir, sem eiga rétt til ríkisframlags og ríkisábyrgðar. Á þriðjungi þessara hafna eða hafnarstaða eða því sem næst hafa raunar litlar eða engar framkvæmdir átt sér stað, þótt lögfestir séu, og ekki líklegt, að þær eigi sér stað í náinni framtíð, a. m. k. ekki í stórum stíl. En á öðrum stöðum hafa átt sér stað framkvæmdir meiri eða minni.

Ríkisframlagið, sem greiða ber að lögum með nánar tilteknum skilyrðum, er að jafnaði 40% af framkvæmdakostnaði, og jafnframt er heimilt að veita ríkisábyrgð fyrir lánum hafnarsjóða allt að 60% af kostnaði. Við flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 31, leggjum til, að ríkisframlagið verði hækkað úr 40% upp í 50, 60 eða 70%. Við leggjum til, að höfnunum sé skipt í þrjá flokka: A-, B- og C-flokk. Í A-flokki greiði ríkið 50%, í B-flokki 60% og í C-flokki 70% af hafnargerðarkostnaðinum með það fyrir augum, að hafnarsjóðir eða sveitarfélög hafi sem jafnasta fjárhagslega aðstöðu til að koma upp undirstöðumannvirkjum hafnargerðar. Er þá gert ráð fyrir, að ábyrgðarheimildin breytist í samræmi við þetta, eins og eðlilegt er.

Við leggjum til í öðru lagi, að gerðar verði með lögum ráðstafanir til þess, að greiddar verði að fullu á næstu þremur árum þær skuldir, sem ríkið er í nú við einstaka hafnarsjóði, en þær munu nú eða um næstu áramót nema um 55 millj. kr. samtals, eftir því sem upplýst hefur verið, og eru til orðnar vegna þess, að ríkissjóður hefur orðið á eftir með greiðslur á sínum hluta kostnaðarins.

Í þriðja lagi viljum við binda það í lögum, að ríkissjóður greiði eftirleiðis að fullu sinn hluta af framkvæmdakostnaðinum ár hvert á hverjum stað, þannig að hafnirnar fái jafnóðum það sem ber úr ríkissjóði og ekki myndist nýr skuldahali. Gert er ráð fyrir, að samin verði sérstök framkvæmdaáætlun um hafnargerðir til tveggja ára í senn og um fjármagnsþörf vegna framkvæmdanna.

Um form frv. og efni að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til grg. á þskj. 31.

Það er í samræmi við löngu yfirlýstan vilja Alþ. að hækka ríkisframlagið til hafnargerða, þótt dregizt hafi um of að gera það. Það er ein aðalundirstaða landsbyggðar, að viðhlítandi hafnir séu á mörgum stöðum og dreifðar um strandlengjuna. Slíkt hafnakerfi á ströndinni er ásamt vitakerfinu skilyrði þess, að hægt sé að nýta fiskimiðin kringum landið og halda uppi sómasamlegum flutningum á sjó með þeim hætti, sem tækni nútímans krefst og gerir mögulegt. Hafnarstaðirnir við firði og víkur þessa eylands eru hinir náttúrlegu byggðakjarnar, sem myndazt hafa á 19. og 20. öld, en undirstaða hvers og eins þessara byggðakjarna er höfnin.

Við flm. þessa frv. höldum því fram, sem Alþ. hefur raunar viðurkennt fyrir löngu, að það sé bæjar- og sveitarfélögum eða hafnarsjóðum þeirra yfirleitt eða flestum ofviða að greiða 60% af kostnaði við nauðsynleg hafnarmannvirki hver á sínum stað. Fyrir allmörgum árum voru tvær hafnir á Suðvesturlandi gerðar að landshöfnum. En það þýðir það, að ríkið lætur gera hafnarmannvirkin og leggur fram framkvæmdafé, en ekki hlutaðeigandi sveitarfélag eða sveitarfélög. Á síðasta þingi var svo bætt við þriðju landshöfninni, en hafnarsjóður sá, sem þar átti hlut að máli, skuldaði þá ríkisábyrgðasjóði nálega 14½ millj. kr. í vöxtum og afborgunum, sem ríkið hafði orðið að greiða fyrir hafnarsjóðinn. En mjög víða er svipaða sögu að segja, sem von er.

Ég ætla ekki að rekja það hér, sem gerzt hefur í sambandi við ríkisábyrgðasjóð á þessu sviði í seinni tíð. En það er í meginatriðum það, að samið hefur verið við sveitarstjórnirnar um að minnka vanskilaskuldir hafnarsjóðanna vegna ógreiddra vaxta og afborgana með því að láta sveitarfélögin gefa út ný skuldabréf, jafnframt því sem eitthvað var að fullu afskrifað. Síðan mun hafa verið reynt að ná af hlutaðeigandi sveitarfélögum upp í afborganir meira eða minna af því, sem þau eiga að fá af jöfnunarsjóðsfé til almennra þarfa. En þó að þetta hafi verið gert, hefur auðvitað ekki verið hægt með því að breyta þeirri bláköldu staðreynd, sem hér er undirrótin, að sveitarfélögin hafa ekki bolmagn til að greiða 60% af kostnaðinum, a. m. k. ekki meðan hafnirnar standa enn ófullgerðar og ekki farnar að bera nema að litlu leyti þann árangur, sem vænta má síðar í sambandi við eflingu atvinnulífs á þessum stöðum.

Ég hef veitt því athygli og vil vekja athygli á því hér í hv. d., að á árinu 1965 hefur samkv. gögnum, sem við þm. höfum nýlega fengið í hendur, ríkisábyrgðasjóður orðið að greiða vexti og afborganir fyrir 30 hafnir á þessu ári, þ.e.a.s. árinu 1965, og er þá ekki sú höfnin meðtalin, sem nú er orðin landshöfn. Hér er um nettógreiðslur ríkisábyrgðasjóðs að ræða, þ.e.a.s. ekki meðtalið það, sem lagt hefur verið út til bráðabirgða og endurgreitt síðar á árinu á einhvern hátt. Þetta eru nokkuð misjafnar upphæðir, sú hæsta hátt á 3. millj. fyrir eina höfn, aðrar nokkur hundruð þúsunda eða nokkrir tugir þús. og sums staðar minna. Í reikningum standa svo upphæðir frá eldri árum, sem þessir og aðrir hafnarsjóðir hafa ekki getað greitt af tekjum sínum.

Ef þetta frv. verður að lögum, hækkar framlag ríkissjóðs, en ríkisábyrgðalánin lækka. Komist ríkisframlagshækkunin í framkvæmd og einnig það, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að ríkissjóður standi í skilum, er meiri von um, að hafnarsjóðirnir geti endurgreitt vexti og afborganir af ríkisábyrgðalánum, sem eins og ég sagði yrðu lægri en fyrr, og kæmust hjá að stofna til vanskilaskulda við ríkisábyrgðasjóð eða þyrftu a. m, k. minna að gera að því en nú er og verið hefur.

Ég vil svo segja það að lokum, að ef það reynist rétt, sem nýlega hefur verið gefið í skyn hér á hinu háa Alþ.,hæstv. ríkisstj. muni gera upp sinn hug að því er hafnarl. varðar, áður en þessu þingi lýkur, viljum við vænta þess, flm., að samstarf geti tekizt um framgang þessa máls, sem hér liggur fyrir, í einu eða öðru formi, sem telja má viðunandi. En svo sem kunnugt er, höfum við flutt þetta mál eða svipað mál oft áður á undanförnum þingum.

Samþykkt þessa frv. mundi að líkindum hafa í för með sér nokkur viðbótarútgjöld úr ríkissjóði vegna hækkunar ríkisframlagsins. Þau viðbótarútgjöld yrðu þó minni en í fljótu bragði virðist, af því að þau mundu jafnframt létta á ríkisábyrgðasjóði, eins og ég hef áður vikið að. Við, sem eigum sæti hér á hinu háa Alþ., verðum að minnast þess við afgreiðslu þessa máls og minnumst þess vonandi, að uppbygging hafnanna með tilliti til krafna nútíðar og framtíðar er lífsnauðsyn fyrir landið í heild og einstakar byggðir þess.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.