24.10.1966
Neðri deild: 6. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (1797)

31. mál, verðlagsmál

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 3, landsk. þm. og hv. 5. þm. Austf. leyft mér að flytja frv. um verðlagsmál. Tilgangurinn með þessu frv. er að aðstoða við að stöðva verðbólguna, hindra þær tíðu verðlagshækkanir, sem átt hafa sér stað hjá okkur, og ef svo ótrúlega skyldi vilja til, að hæstv. ráðh. hefðu áhuga á þessu máli, væri máske gott, að hæstv. forseti léti þá vita, að það væri verið að ræða mál, þar sem lagt væri til að beita ráðum, sem mundu verulega duga til þess að stöðva verðbólguna. Það er engu líkara en menn kjósi að ræða þau mál helzt utan þingveggjanna, en ekki hér, þar sem möguleikinn er til þess að ráða við það. Ég held, að það væri þess vegna mjög gott, að hæstv. ráðh. væru hér viðstaddir, þegar þessi mál eru rædd.

Hæstv. forsrh. lætur í Morgunblaðinu birta nú á sunnudaginn þætti úr ræðu, þar sem hann m. a. spyr, og er það sett upp með stórri millifyrirsögn í Morgunblaðinu: „Af hverju er svo erfitt að halda hér föstu verðlagi?“ Og ég held, að það sé óhætt að svara honum því, fyrst hæstv. forsrh. hefur ekki gert sér þetta ljóst, að það er af því, að þeir, sem völdin hafa, vilja verðbólgu. Og við skulum athuga það mál nánar, þannig að það komi alveg greinilega í ljós, hvar orsökin er.

Það er alveg rétt, sem hæstv. forsrh. segir í þeirri ræðu, að til þess að kryfja eitthvert mál til mergjar og til þess að geta læknað einhverja meinsemd þarf að grafast fyrir um orsakir hennar. Hvað hefur verið eitt höfuðáhugamál núv. hæstv. ríkisstj.? Það hefur verið eitt höfuðáhugamál hennar að afnema allt, sem heitir verðlagseftirlit, að afnema öll þau lög, sem hamlað hafa þróun verðlags í landinu, sem þýðir að gefa verzlunarvaldinu í landinu og braskinu einkarétt til þess að hækka verðlag eins og því þóknast, gefa þar með hinni svonefndu verzlunarstétt svo að segja einkarétt til þess að hrifsa svo að segja fyrirhafnarlaust til sín gróða í fyrsta lagi á kostnað almennings í landinu og alveg sérstaklega launþeganna og í öðru lagi á kostnað sjávarútvegsins. Nú veit ég, að hæstv. ríkisstj. mundi, ef hún talaði, halda því fram, að það væri aðeins verið að gefa verzlunarstéttinni eða t.d. heildsölunum — skulum við fyrst og fremst segja — frelsi með þessu móti, frelsi, sem þessi stétt hafi farið á mis við fram að þessu. Og við skulum athuga, hvernig þetta stendur gagnvart öðrum stéttum í þjóðfélaginu og öðrum aðilum, hvernig þetta er viðvíkjandi verkalýðnum, viðvíkjandi launþegum í landinu. Hafa þau frelsi til þess að segja: Nú vil ég láta mitt kaup vera þetta og þetta — eða þurfa þau að berjast fyrir slíku frelsi? Í hvert skipti sem verkalýðurinn hefur hreyft sig á undanförnum árum til þess að hækka sín laun og þó venjulega aldrei meira en til þess að láta þau nokkurn veginn jafnast á við dýrtíðina, hefur kveðið hér við, að nú væri þjóðfélagið að farast. Og verkalýðurinn hefur orðið að berjast svo að segja með hnúum og hnefum til þess að fá það fram, að hann fengi sitt kaup hækkað til jafns við verðlagið. Hvernig hefur það verið með sjávarútveginn? Það er vitað, að allar verðlagshækkanir í landinu hafa á vissan máta gerzt á kostnað sjávarútvegsins. Hann hefur að vísu um tíma getað borið þetta nokkuð, vegna þess að verðlag á útfluttum vörum hefur hækkað um tíma. En heildsalastéttin hefur ekki spurt að því, hún hefur hækkað verðlag í landinu alveg án tillits til hagsmuna sjávarútvegsins, og sjávarútvegurinn, sem hefur ekki getað hækkað verðlag á sínum vörum sjálfkrafa gagnvart erlendum kaupendum, hefur orðið að fara fram á við ríkisstj. og berjast fyrir því að fá hinar og þessar uppbætur og annað slíkt, til þess að hann gæti lifað og haldið áfram. En verzlunarvaldið í landinu, hvernig hefur það staðið í þessum efnum? Það hefur ekki þurft að berjast. Það hefur ekki þurft að sækja undir neitt, ekki einu sinni verðlagsráð eða slíkt. Það hefur fengið algert frelsi til þess að ráða verðinu og setja verðið eins og því þóknaðist, og aðfarirnar, sem það hefur við það, skal ég koma nánar inn á seinna. Gagnvart verzlunarvaldinu í landinu hefur verið sagt af hálfu hæstv. ríkisstj.: Þú skalt smyrja á eins og þér þóknast. Þú mátt ná í þann gróða, sem þú getur hamstrað til þín. Það er enginn aðili í þjóðfélaginu, sem ætlar að hindra þig í þessu frelsi. Þú skalt hafa þetta frelsi fram yfir alla aðra aðila í þjóðfélaginu, sem verða að taka ýmis tillit eða verða að berjast á ýmsan máta. Og hvernig hefur síðan heildsalastéttin og þeir, sem í kringum hana standa, notað þetta frelsi, notað þessi einkaréttindi? Jú, hún hefur notað það til að græða, og þessum gróða hefur verið eytt á ákaflega vitlausan hátt hér á Íslandi.

Það hefur verið lögð áherzla á það stundum, að það hefði aukizt mjög framleiðslutækni hjá okkur og það hefði mikið verið fjárfest í atvinnutækjum. Það er rétt hvað snertir sjávarútveginn. En hafa þeir peningar komið frá verzlunarvaldinu í landinu? Nei, þeir hafa ekki komið þaðan. Gróðinn, sem verzlunarvaldið hefur fengið að hrifsa til sín, hefur ekki farið til þess að kaupa þau nýju atvinnutæki, til þess að við hefðum betri atvinnutæki í sjávarútveginum. Hann hefur fyrst og fremst farið í fínar villur, í bíla, helzt nýja árgerð á hverju ári, í fínar skrifstofur, hallir og bákn, sem við höfum séð í kringum okkur hér í Reykjavík, í það ópraktískasta, sem hægt er að hugsa sér út frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar. Við þessu hafa engar hömlur verið settar, því að fjármagninu af þeim gróða, sem skapazt hefur hjá heildsalastéttinni, hefur ekki verið beint inn á þær brautir, að sjávarútvegurinn væri aukinn eða iðnaðurinn væri aukinn. Sjávarútvegurinn hefur orðið að bjarga sér sjálfur, og iðnaðurinn hefur þvert á móti verið drepinn niður, meira að segja þannig, að iðnaðarfyrirtæki hafa hætt störfum til þess að gerast innflytjendur á t.d. raftækjum og öðru slíku. Öll afskipti ríkisins hafa gengið út á það að gefa verzlunarstéttinni aðstöðu á kostnað iðnaðar og sjávarútvegs og svo auðvitað á kostnað almennings, alveg sérstaklega launþega.

Ég álít, að það væri viðkunnanlegra, þegar hæstv. ríkisstj. barmar sér yfir því, að það sé hættulegt ástand í landinu, verðbólga sé að kaffæra atvinnuvegina, verkamenn megi helzt ekki hækka sitt kaup, að þeir taki þátt í því hér á Alþingi að ræða um, hvernig á þessu stendur. Af hverju hefur ríkisstjórn á Íslandi ekki samsvarandi áhuga og ríkisstjórnir í okkar nágrannalöndum, við skulum segja Bretlandi og öðrum slíkum, á því að reyna að halda verðlagi niðri? Í báðum þessum löndum er það fyrst og fremst auðmannastétt, sem ræður, en það eru mismunandi hlutar úr auðmannastétt, sem hafa stjórnartaumana í sínum höndum og beita þeim. Hvernig stendur á, að við Íslendingar höfum lifað meiri verðbólgu og hraðari t.d. á undanförnum 10 árum eða undanförnum 5 árum eða 6 árum en nokkur önnur þjóð í Evrópu? Ég skal skýra það, og ég vil óska eftir, að hæstv. ríkisstj. komi með svör, ef hún hefur aðrar orsakir að henda á en þær, sem ég bendi á.

Hverjir eru hagsmunir þeirra manna, sem ráða stefnu ríkisstjórna í Englandi og öðrum slíkum löndum hvað snertir verðbólguna? Þær stéttir, sem fyrst og fremst ráða í efnahagslífinu í þessum löndum, eru iðjuhöldar og einkabankar, stundum mjög samrunnir í voldugt vald, fjármálavald. Þessir aðilar, þeir iðjuhöldar, sem eiga hin stóru verksmiðjubákn í þessum löndum, og þeir bankar, sem lána fé til þeirra og oft eru samrunnir þessum stóriðjuhöldum, hafa hagsmuni af því að halda verðlagi niðri, til þess að þeirra fyrirtæki geti keppt erlendis með það, sem þau selja. Það eru framleiðsluatvinnuvegirnir, það eru framleiðendurnir, eða ef við viljum orða það svo, það eru stóriðjuhöldarnir og einkabankarnir, sem ráða efnahagspólitík þessara landa og geta stjórnað því, að það er sæmileg festa í efnahagsmálum þessara landa og verðbólgan í þessum löndum þess vegna tiltölulega hæg, og þegar ég tala um hæga verðbólgu, þá meina ég frá 2–5%. Það er sem sé vegna þess, hvaða hluti úr auðmannastéttinni það er, sem þarna ræður. Í engu af þessum löndum er það t.d. verzlunarauðvald, heildsalar og slíkir, sem ræður verðlaginu, — engu af þeim. Hér á Íslandi aftur á móti erum við aftur úr, erum við hálfri öld á eftir í efnahagsþróuninni og í þeirri pólitísku þróun hvað það snertir, hvaða aðilar það eru, sem ráða efnahagsþróuninni hér. Hér á Íslandi er það fyrst og fremst heildsalavaldið, sem ræður efnahagsþróuninni, og það ræður henni vegna þess, að þótt bæði íslenzkur iðnaður og íslenzkur sjávarútvegur hafi skoðað t.d. Sjálfstfl. sem sinn flokk, er það verzlunarauðvaldið fyrst og fremst, heildsalavaldið í Reykjavík, sem hefur ráðin í Sjálfstfl., hefur undirtökin þar, fyrst og fremst vegna þess, að þeir eiga það blað, sem er voldugast málgagn fyrir þennan flokk, sem sé Morgunblaðið, sem frá upphafi hefur verið eign verzlunarauðvaldsins í Reykjavík. Ég vil benda á þetta alveg sérstaklega til þess að benda á þær pólitísku orsakir þess, að verðbólga á Íslandi er hraðari en í öllum öðrum löndum í kring, að það eru aðrir aðilar innan auðmanna- og atvinnurekendastéttar, sem ráða þróuninni í Englandi, Skandinavíu og öðrum slíkum löndum en hér á Íslandi, og þetta þurfa m. a. þeir atvinnurekendur, sem hafa áhuga á sjávarútvegi eða áhuga á þróun íslenzks iðnaðar, að skilja til fullnustu.

Ég veit, að ég væri spurður að því, ef hæstv. forsrh. væri hér nærri, hvernig standi á því, að þessi þróun skuli ekki aðeins hafa gengið fyrir sig, á meðan Sjálfstfl. hefur verið aðalvaldaflokkur í ríkisstjórn nú síðustu 6–7 árin, heldur líka áður fyrr, og það er alveg rétt spurning. Svarið við því er, að það eru tveir flokkar á Íslandi, sem hafa sérstakan áhuga á verðbólgu. Það er annars vegar Sjálfstfl. vegna þeirra sterku áhrifa, sem verzlunarvaldið í Reykjavík hefur í honum, og hins vegar Framsfl. vegna þeirra sterku áhrifa, sem S.Í.S. eða stjórnendur þess hafa í þeim flokki. Það er þetta, sem gerir það að verkum, að allan tímann, af því að alltaf eru þessir tveir sterkustu flokkarnir á Íslandi, sem hafa verið við völd undanfarið, hefur aldrei verið hægt, t.d. fyrir þá verkalýðsflokka, sem með þeim hafa unnið, að fá fram þá stefnu, sem hentugust væri fyrir launþega í þessum málum, af því að alltaf hafa hagsmunir verzlunarvaldsins í Reykjavík runnið saman í þeim voldugu áhrifum Sambands ísl. samvinnufélaga annars vegar og heildsalavaldsins í Reykjavík hins vegar. Og þegar mest hefur þótt þurfa við, hafa þessir tveir flokkar tekið höndum saman og stjórnað saman einir og séð um verðbólguþróunina einir og eiga kannske eftir að gera það, þegar þeim hefur þótt verkalýðsflokkarnir vera of mikill þrándur í götu. Hins vegar hefur aldrei verið sleppt eins lausum taumunum í þessum efnum, — verðbólgan gekk tiltölulega hægar hér áður fyrr, og það var reynt að þvælast fyrir um hraða göngu hennar, — en aldrei hefur þetta gengið eins hratt og síðustu 8 árin. Aldrei hefur vald verzlunarvaldsins í Reykjavík, heildsalavaldsins verið annað eins síðustu 5–6 árin, enda hefur kenningin um algert frelsi til handa þeirri stétt aldrei verið prédikuð af öðrum eins eldmóði og þegar viðreisnarstjórnin tók við.

Þegar Sjálfstfl. þess vegna í dag og hæstv. ríkisstj. og meiri hl. hennar hugsar um þessi mál og er jafnvel að ganga til verkalýðshreyfingarinnar til þess að biðja hana um að hjálpa sér í þessum efnum, er rétt fyrir hæstv. ríkisstj. að muna eftir, hvað hún gerði 1961. Verkamenn höfðu fengið hækkað sitt kaup nokkuð, og íslenzkar afurðir fóru hækkandi á erlendum markaði. Kauphækkunin var mjög eðlileg. En hvað gerir hæstv. ríkisstj. þá? Hún grípur til sérstakrar hefndarráðstöfunar, þeirrar hefndarráðstöfunar að lækka gengi á íslenzkri krónu að tilefnislausu og þveröfugt við öll efnahagsleg lögmál. Gengislækkunin í ágúst 1961 var eingöngu hefndarráðstöfun á móti verkalýðshreyfingunni í landinu, en engin venjuleg efnahagsleg ráðstöfun og átti engin venjuleg efnahagsleg rök. Þar kom í ljós það, sem var höfuðatriðið hjá hæstv. ríkisstj., það var að reyna að koma í veg fyrir hækkun kaupgjalds og hóta verkalýðshreyfingunni með því að lækka gengið, svo framarlega sem kaupgjald væri hækkað. En hins vegar var enginn áhugi á hinu, að koma í veg fyrir hækkun verðlags, heldur var þvert á móti gripið til þess óyndisúrræðis að hækka allt verðlag í landinu til þess að sýna verkalýðnum fram á, að svona skyldi farið að við hann, ef hann dirfðist að hækka sitt kaup. En hver einasta heiðarleg stjórn í Evrópu, og það þarf ekki annað en að líta í skýrslur Hagráðs til þess að sjá það, hefur skoðað það sem sitt hlutverk að hjálpa til þess, að kaupgjald fái að hækka og verðlag hækki minna en kaupgjaldið, eins og skýrslur frá öllum löndum Evrópu, sem Hagráð fjallar um, sýna. Hér á Íslandi aftur á móti átti að beita hefndarráðstöfun, ef verkalýðurinn hækkaði kaupið, í staðinn fyrir að reyna að sýna fram á, að þótt verkamenn hækki svona kaupið, er samt hægt að halda verðlaginu niðri.

Hæstv. forsrh. spyr í þessari ræðu, sem hann flutti, um úrræðin og á erfitt með að finna þau. Það voru til úrræði, þegar ríkisstj. kom til valda. Þau úrræði voru afnumin, verðlagstakmarkanir voru afnumdar. Jafnt Eimskipafélagi Íslands, heildsölunum og öllum öðrum var gefið frelsi til þess að hækka verðlag á frögtum, verðlag á vörum, rétt eins og þeim þóknaðist. Það má vel vera, að ýmis þessi úrræði hafi verið léleg, þeim hafi verið lélega beitt. Það var ákaflega oft í þeirri gömlu verðlagsnefnd, að Sjálfstfl. og Framsfl., þeirra fulltrúar þar, stóðu saman um að hækka verðlagið í sífellu. Og það hefði þurft að gera ráðstafanir til þess að sjá um, að þessum úrræðum yrði beitt betur, en það hefði ekki verið gert með því að afnema þau.

Hæstv. forsrh. segir síðan, og Morgunblaðið setur sem fyrirsögn í þessari ræðu, að þeir hafi reynt öll úrræði nema atvinnuleysi. Ég hef fyrir satt, að það hafi verið meiningin upphaflega að beita líka þessu úrræði og ýmsir efnahagssérfræðingar ríkisstj. hafi verið ákveðnir í því, að það skyldi leitt atvinnuleysi hér yfir. Hvort sem það stafar af því, að hæstv. ríkisstj. sér, að engri ríkisstj. mundi verða auðið langlífis á Íslandi með því að koma á atvinnuleysi, eða hinn, að síldin eins og stundum áður hefur gripið fram fyrir hendurnar á henni, hefur samt til allrar hamingju farið svo, að þetta hefur orðið mjög blómlegt tímabil fyrir okkur hvað atvinnu snertir. Atvinna hefur, a. m. k. á Suðvesturlandi og Austurlandi, verið alveg sérlega mikil. Hins vegar er atvinnuleysi ekki ráð til þess að halda niðri verðlagi. Þar misskilur hæstv. forsrh. algerlega í þessari ræðu, sem Morgunblaðið birtir, efnahagsleg úrræði. Atvinnuleysi getur verið nokkurt ráð til þess að reyna að halda niðri kaupgjaldi, sem sé harðvítugt kúgunarráð til þess að skapa fátækt. En þó er mér nær að halda, að atvinnuleysi, þótt ekki væri nema takmarkað á Íslandi í dag, mundi fyrst og fremst þýða harðvítuga baráttu fyrir kauphækkun í dagkaupi, því að það veit hver maður og viðurkennir hver einasti þingflokkur, að enginn maður fær lifað af dagkaupinu nú, þannig að um leið og eftirvinna, næturvinna og helgidagavinna félli niður, eins og mundi vera það fyrsta, sem gerðist í atvinnuleysi, mundu menn fara í harðvítugan slag til þess að knýja fram hækkun á dagkaupi, þannig að atvinnuleysi er ekki einu sinni óbrigðult úrræði til þess að halda niðri kaupgjaldi.

Ég held þess vegna, að það þurfi að ræða þessi mál af dálítið meira viti en mér sýnist gert í þeirri ræðu, sem hæstv. forsrh. lætur birta eftir sig í Morgunblaðinu.

Nú viljum við, sem skoðum okkur hér meðal samningafulltrúa stórs hluta úr verkalýðshreyfingunni, leggja nokkuð til þessara mála með því frv., sem hér er lagt fram, og reyna að sýna af hálfu verkalýðshreyfingarinnar, að frá okkar hálfu sé vilji til staðar til þess að reyna að stöðva verðbólguna og hindra þá ógæfusamlegu verðlagsþróun, sem hér hefur orðið í landinu. Og það, sem felst í þessu frv. okkar, er í fyrsta lagi að ákveða, að með verðlagsákvarðanir fari 7 manna nefnd, með því að hafa 7 menn í verðlagsnefnd sé tryggt, að verkalýðshreyfingin eigi þar einnig sína fulltrúa. Það er að vísu hægt með ýmsu öðru móti, en það er hægt með þessu móti og hefur venjulega verið gert með þessu móti.

Í öðru lagi er ákveðið í 2. gr., að verðlagsnefnd skuli ákveða hámarksverð á öllum vörum og verðmæti og það skuli vera regla verðlagsnefndar að beita þessu valdi til þess að koma í veg fyrir vöxt verðbólgu og dýrtíðar og því aðeins sleppa að ákveða hámarksverð á vissum sviðum, að samkomulag sé um slíkt í nefndinni. M. ö. o.: þeir fulltrúar, sem verkalýðshreyfingin eigi í þessari n., sem vafalaust verða minni hl., geti hindrað, að því sé sleppt að ákveða verðlag á vissum þáttum vöru og þjónustu, þannig að það verði ákveðið verð á öllum þessum hlutum, ef fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar fallast á það. Hitt aftur á móti getum við náttúrlega ekki sett þarna inn, að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar skuli ráða því verðlagi, sem ákveðið sé, og ég hef áður bent á, hvaða hættur felast í því. En það eru þá a. m. k. hlutir, sem gerast fyrir opnum tjöldum, þannig að almenningur fær þá að fylgjast með því, hverjir það eru í þjóðfélaginu, sem vilja hækkandi verðlag og ákveða hækkandi verðlag.

Þetta er aðalatriði þessa frv., og ég álít, að með því að gera þetta, stíga þetta spor, sé a. m. k. farið að taka upp aftur þá stefnu að reyna að sporna við hækkun verðlags í staðinn fyrir að beita ríkisvaldinu til þess að hækka verðlagið, eins og gerzt hefur á undanförnum 5–6 árum.

Það, ef maður vill orða það mildilega, sem valdið hefur verðbólgunni hér, er, að það vantar allt aðhald að þeim, sem verðlagsþróuninni ráða, að verzluninni í landinu. Það vantar allt aðhald að verzluninni. Í skýrslunni, sem Efnahagsstofnunin sendir til Hagráðs, er aftast í henni tafla nr. 32, þar sem sagt er frá, hver meðalárshækkun hafi verið á smásöluverði í hinum stærri og smærri iðnaðarlöndum Evrópu og Norður-Ameríku 1960–1965. Og þessi meðalárshækkun smásöluverðs í þessum löndum er frá 1.3% t.d. í Bandaríkjunum upp í hæst 5.5% í Danmörku. Þetta er meðalhækkunin á smásöluverðlagi í þessum löndum. Á Íslandi er samkv. þessari sömu skýrslu, miðað við vísitölu neyzluvöruverðlags, þessi hækkun 12.4%, meðalhækkun á ári eftir skýrslu Hagráðs. Hvernig fer það fram í þessum löndum, þessum stærri og smærri iðnaðarlöndum Evrópu, að verðlaginu sé haldið niðri? Það fer þannig fram, að þarna á sér stað allharðvítug samkeppni stórra aðila, sem reka sína verzlun með nýtízku sniði. Það eru venjulega stór verzlunarhús, sem náttúrlega kaupa allt inn í heildsölu og hafa verulega mikið vörumagn á boðstólum og berjast alveg vægðarlaust hvert við annað um, hvert verðlag skuli vera, og reyna að lækka verðlag til þess að slá samkeppandann út, en eru það stór í sniðum, að þau geta hagnýtt alla nýtízkutækni. Þetta hefur þýtt í þessum löndum, að það hefur fækkað í sífellu þeim, sem við verzlunina fást, og hún færist meira og meira á fáar hendur. Þetta er þróun, sem gengur fyrir sig í öllum kapítalistískum þjóðfélögum, — þróun, sem tæknin og skipulagið útheimtir.

Þessi þróun hefur ekki gerzt hér á Íslandi. Hér hefur úreltum háttum í verzlun verið við haldið með verðbólgunni. Hagsmunir stórrar kaupmannastéttar hafa valdið því og pólitískt vald hennar, að það hefur engin raunveruleg framför orðið í þessum efnum hvað skipulag snertir. Eini aðilinn, sem raunverulega hefur nokkurn verulegan stórrekstur í þessum efnum, er Samband ísl. samvinnufélaga. Og það hefur leitt til þess, að Sjálfstfl. er öðru hverju að reyna að nota þau slagorð, að Sambandið sé auðhringur, sem er algerlega rangt, eingöngu vegna þess að Sambandið er stór aðili þarna. Ef venjuleg kapítalistísk þróun hefði fengið að eiga sér stað hér á Íslandi, væri meginið af þessum heildsölufyrirtækjum, sem hér eru búin að hjara í ein 30 ár, búið að slá sér saman í eina stóra heild til þess að geta keppt eins og menn. Það hafa þeir ekki gert, m. a. vegna þess, að það hefur ekki verið neitt aðhald að þeim til þess að gera þetta.

Hvað var það, sem þurfti að gera, til þess að kaupgjald hækkaði? Það, sem þurfti að gerast, var að hafa slíkt aðhald að verðlaginu, að verðlag fékk ekki að hækka. Og þeir menn, sem seldu vöruna, urðu að velja um það að koma sínum rekstri skynsamlega fyrir eða hætta. Það er þetta aðhald, sem hefur vantað allan tímann. Og það er þetta aðhaldsleysi, sem hefur valdið því, að 40% af nýju vinnuafli streymir til verzlunar og þjónustu, eins og hæstv. viðskmrh. upplýsti, en fer ekki í atvinnugreinarnar á Íslandi. Ef ríkisstj. hefði haft áhuga á því að halda verðlaginu niðri, hefði hún skapað svo skarpt aðhald að verzluninni, að hún hefði orðið að skipuleggja sig í sífellu, skapa sér nýja tækni og gerast fullkomnari í sínum rekstri og stærri í sniðum. En þetta er ekki gert. Það er beinlínis verðbólgan, sem heldur við úreltri og afturhaldssamri tækni og skipulagi í öllum þessum efnum.

Menn vildu þá kannske halda, að fyrst ekki myndist svo og svo margir stórir aðilar, sem berjast í þessum efnum, sé þó a. m. k. blessuð frjálsa samkeppnin að verki, menn hafi þó öryggi fyrir því, að fyrst það séu ákaflega margir, — hvað ætli það séu margir? — ég vona, að hæstv. ríkisstj. eigi eftir að upplýsa það, hún veit, hve margir bændur eru á landinu, en hvað skyldu vera margir t.d. bara hérna í Reykjavík, sem fást við þessa verzlun og þjónustu? Ætli það séu ekki 2000–2500? Það gætu vafalaust færri annað því. Menn ætla þá kannske, að það væri þó a. m. k. blessuð frjálsa samkeppnin að verki á milli allra þessara smáu. En hvernig er það? Er frjálsa samkeppnin þarna að verki? Við skulum alveg slá því föstu, m. a. vegna þess að hæstv. ríkisstj. talar stundum um frjálsa samkeppni og í Morgunblaðinu eru stundum skrifaðir leiðarar um frjálsa samkeppni, að hún er ekki til. Hæstv. ríkisstj. ætti að vera fullkomlega kunnugt um það. Það er alger hringur myndaður um verðlagninguna hjá kaupmannastéttinni í landinu eða a. m. k. hér í Reykjavík, — hringur, þar sem heildsalarnir stjórna. Heildsalavaldið skipuleggur álagninguna. Það er ekki ríkið, það hefur hæstv. ríkisstj. séð um. Ríkið hefur afnumið verðlagseftirlitið, en verðlagseftirlitið er bara í annarra höndum. Verðlagseftirlitið er í höndum heildsalanna í Reykjavík. Þeir ráða því. Og ef einhverjum blessuðum kaupmanni dytti nú í hug að ætla að fara að nota frjálsa samkeppni, t.d. reyna að fara að lækka vöruverð og leggja minna á en aðrir, hvað gerist þá? Í Alþýðublaðinu, öðru stjórnarblaðinu, blaði hæstv. viðskmrh., þriðjudaginn 18. okt. er á 2. síðu fyrirsögn, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Verzlun neitað um vörur vegna lágrar álagningar.“ Og þar er sagt frá því, að það sé fluttur inn barnafatnaður alla leið frá Hong Kong, það er frjáls verðlagning á honum, og einum kaupmanni hafi dottið í hug að fara að selja þennan barnafatnað með 45% álagi. Almennt mun vera á þeim hlutum af svipuðum efnum, sem verðlagseftirlit er á, leyft 42%, og mönnum finnst þetta kannske alveg nóg álagning. Heildsalavaldið í Reykjavík neitaði þessum kaupmanni um að fá vörur samkv. Alþýðublaðinu, vegna þess að aðrir legðu á 50%, og þessi kaupmaður skyldi ekki fá vöru aftur, nema því aðeins að hann legði líka á 50%. Þetta er upplýst í Alþýðublaðinu, öðru stjórnarblaðinu. Það er því verðlagsnefnd til, en það eru heildsalarnir, sem útnefna hana og ráða henni og eru þar sjálfir. Og svo framarlega sem einhver dirfist að ætla að vinna að því á Íslandi að lækka verðlag, skal honum bannað að fá vörur. Og þetta er ekki eina dæmið um slíkt.

Finnst mönnum nú ekki, þegar það er upplýst og það af stjórnarblöðunum, að svona sé komið, að það sé ákveðin klíka starfandi í landinu, sem pínir fram hækkun á verðlagi, sem skipuleggur hækkun á verðlagi og refsar mönnum, svo framarlega sem þeir ætla að reyna að halda verðlagi niðri, — er þá ekki tími til kominn, að það sé tekið fram fyrir hendurnar á þessu? Spurningin stendur „faktiskt“ ekki um það í dag með þessu frv., hvort það eigi að koma á verðlagseftirliti, heldur hvort ríkið eigi að hafa þetta verðlagseftirlit eða hvort það skuli vera einkaréttur nokkurra heildsala í Reykjavík.

Ég veit, að þetta er ekki eina dæmið um, hvernig farið er að á þeim sviðum, sem snerta hina svokölluðu frjálsu verzlun. Það er ekki aðeins hringur um verðlagsmyndun á þessum sviðum. Eins og menn vita, eru hér þrjú olíufélög. Og einn maður, sem kaupir olíu til síns húss, ætlaði að skipta um olíufélag, sem hann verzlaði við, ætlaði að fá olíu frá öðru félagi, ekki að vísu vegna þess, að olían væri neitt ódýrari þar, olíufélögin öll þrjú stunda ekki frjálsa samkeppni hvert á móti öðru, þau halda öll sama verði á henni. Nei, hann ætlaði ekki að fá ódýrari olíu, það vissi hann, að var enginn möguleiki á, því að í þessu landi frjálsrar samkeppni og frjálsrar álagningar er enginn möguleiki á neinni samkeppni þar. En hann bjóst við að fá betri þjónustu á annan hátt hjá því olíufélagi, sem hann ætlaði að fara til. Þá segir fulltrúi þess olíufélags honum: Nei, við getum ekki tekið við þér, góði, þú verður að vera hjá þínu gamla olíufélagi. Það má ekki breyta svona til. — Þetta gerðist suður í Hafnarfirði, einhvers staðar nærri því gamla Kálfatjarnarþingi, og e. t. v. muna einhverjir menn eftir því, að í annálum segir, ég held árið 1699, þá hafi bóndi nokkur að nafni Hólmfastur Guðmundsson verið hýddur á Kálfatjarnarþingi fyrir það, að hann hafi keypt hjá vitlausum kaupmanni, ekki hjá þeim kaupmanni, sem hann átti að kaupa hjá. Ég man nú ekki lengur, hvort það var Hafnarfjarðarkaupmaður eða Keflavíkurkaupmaður, en það var a. m. k. hjá þeim vitlausa kaupmanni, þeim sem hann mátti ekki verzla við, og Knud Storm, sem þá var Hafnarfjarðarkaupmaður og líklega hefur orðið af bisnessinum, hafði það í gegn á þessu þingi að láta flengja Hólmfast, og síðan samþykktu menn á þessu þingi mikla og góða traustsyfirlýsingu til Knuds Storms Hafnarfjarðarkaupmanns fyrir, hve vel hann hefði annazt og frómlega alla verzlun við landsmenn.

Olíufélögin í dag skipta ekki upp eftir svæðum, a. m. k. er það ekki komið þannig enn þá. En það er greinilegt, að þau eru farin að skipta eftir persónum, þannig að þessi persóna á að verzla við þetta olíufélag og hin persónan við hitt. Og ef þessar persónur ætla að flytja sig á milli kaupmanna, skulu þær reka sig á það, að það fá þær ekki. Það er hver sauður rekinn inn í sinn bás, svo að segja, til þess að vera rúinn þar, smalað, rekið inn og skipt upp á milli sín. Þetta er verzlunarástandið í frelsinu, verzlunarfrelsinu á Íslandi í dag. Ef menn héldu, að það væri máske miklu betra á öðrum sviðum, þegar menn kæmu út fyrir vöruna og hvernig hún skiptist, t.d. þegar menn kæmu að húsnæðissviðinu, gætu hv. þm. kynnt sér Vísi miðvikudaginn 10. okt. Þar er fyrirsögnin á forsíðunni : „11 þús. kr. á mánuði fyrir íbúð. 30 þús. kr. í lykilgjald.“ Og það er upplýst í þessu stjórnarblaði, að til þess að komast inn í íbúð verði menn að borga 11 þús. kr. á mánuði eftir að hafa borgað þetta lykilgjald, 30 þús. kr., og mikið má vera, ef svo og svo mikið af þessu hefur ekki orðið að borgast fyrir fram. Þetta er ástandið, eftir að húsaleigulög hafa nú verið afnumin, allt verðlagseftirlit með húsaleigu, eitt af fyrstu verkum helmingaskiptastjórnarinnar, Framsóknar og Sjálfstfl., þegar þeir stjórnuðu hér eftir 1950, og síðan hefur verið algert frelsi á þessu sviði með þessum afleiðingum, sem Vísir þarna upplýsir. Það hefur verið barizt fyrir því af hálfu þeirra, sem hafa áhuga á að hækka verðlag í landinu og leyfa því að hækka og fela það undir því fagra orði „frelsi“, að allar hömlur væru afnumdar, þannig að þeir, sem eitthvað gætu selt, gætu lagt á það eins og þeim þóknaðist. Og þetta er nú þessi pólitík búin að leiða okkur að. Það eru raunverulega samsæri mynduð í landinu um verðlagshækkanirnar og þeim mönnum straffað, sem lækka verðlag eða reyna að gera það, og fólkið í landinu eiginlega bundið á höndum og fótum við þau félög, sem það einu sinni hefur lent í að verzla við.

Kannske vill nú einhver segja: En blessuð ríkisstj. er nú búin að sjá að sér. Það á að verða stöðvun á öllu saman nú. — Já, ég heyrði einhverja auglýsingu um, að mjólkin hefði verið lækkuð. Af hverju var það gert? Var það ekki af því, að einhver erlend vara hafði hækkað í verði og ríkisstj. bjóst við, að vísitalan mundi hækka þess vegna? Þá vil ég spyrja: Er sem sé óbeint verið að borga niður hækkunina á útlendri vöru? Það þýðir, að ef einhverjir kaupmenn í landinu, eins og t.d. þessi heildsali, sem vill ráða álagningunni og straffa mönnum, ef þeir selja ódýrara, ef hann hefur álitið, að hann þyrfti að hækka sína vöru, — álítur ríkisstj., að hún eigi að taka peninga ríkissjóðs til þess að borga niður afleiðingarnar af hækkun þessa kaupmanns? Það á að taka þá peninga, sem innheimtir eru af almenningi, og nota þá til þess þannig óbeint að bæta þessum kaupmanni upp í staðinn fyrir að stöðva þessa hækkun. Hví að láta þessum mönnum haldast uppi að hækka verðlagið? Mér sýnist ekki mikil alvara í því að vilja skapa neina stöðvun þannig. Það er hægt að henda peningum ríkissjóðs í heildsalavaldið og kaupa niður verðlagið í landinu. En það þýðir ekki að stöðva það á kostnað þessa heildsalavalds, sem ríkisstj. hefur þó í sínum eigin blöðum nægar sannanir fyrir, hvernig þeir nota sitt vald, sitt svokallaða frelsi.

Mér sýnist, að það, sem gerist í okkar landi nú, sé einokun verzlunar- og braskstéttarinnar um að flá almenning með aðstoð ríkisstj. Og meðan svona stendur, þýðir lítið að koma og tala um, að nú vilji menn stöðva allt verðlag. Ég veit að vísu, að þetta að mynda hringa og svona einokanir, það tíðkast úti í heimi. Það eru voldugir einokunarhringar, sem eru starfandi þar, Standard Oil og aðrir slíkir, halda uppi harðvítugri einokun. En það, sem gerist hér heima hjá okkar smáu körlum, er, að þeir álíta, hvað höfðingjarnir þar úti í heimi, þeir stóru einokunarhringar, hafast að, það geti þeir leyft sér að gera hér heima líka. En munurinn er bara sá, að þessir stóru einokunarhringar hafa skapað svo og svo miklar framfarir, tæknilegar og skipulagslegar framfarir í þeirri verzlun, sem þeir eru með, sem gera það að verkum, að vörurnar hafa orðið oft og tíðum ódýrari, vegna þess að þeir hafa líka verið með fullkominni tækni og skipulagi að keppa við aðra, sem voru líka með fullkomna tækni og skipulag. Hér aftur á móti er þetta allt saman látið vera gamaldags, í sama gamla sukkinu, en bara verðlag alltaf hækkað til þess að viðhalda gömlu óreiðunni, gamla stjórnleysinu, og þannig skapaðar sífellt örari og meiri verðlagshækkanir á Íslandi en nokkurs staðar annars staðar í nágrannalöndum okkar.

Það er þess vegna ekki til neins að afsaka sig með því, að þetta sé nú einu sinni eðlilegt í kapítalistísku skipulagi, að kaupmenn og aðrir slíkir og heildsalar geti hækkað sína vöru. Þetta gerist ekki í öllum auðvaldsþjóðfélögum. Þetta gerist bara í auðvaldsþjóðfélögum, sem eru stjórnlaus og gamaldags og þar sem verið er að reyna að halda við ófæru fyrirkomulagi, vegna þess að sú stétt, sem er orðin aftur úr í þessum efnum, hefur það mikil pólitísk völd, eins og heildsalastéttin í þessu sambandi, að hún getur valdið þjóðinni stórskaða, jafnt verkamönnum, sjávarútvegsmönnum og iðnrekendum, og staðið þannig í vegi fyrir þróun og framförum í íslenzkum sjávarútvegi og íslenzkum iðnaði og er að byrja að drepa hvort tveggja. Þessir fjötrar verzlunarvaldsins eru að byrja að kyrkja sjávarútveginn og iðnaðinn á Íslandi. Sumt af iðnaðinum er þegar stöðvað, sumt af hraðfrystihúsunum er þegar stöðvað, meginhlutinn af bátum undir 100 tonnum er þegar dauðadæmdur, togararnir eru að leggjast niður. Tímabil þessarar ríkisstjórnar er að verða stjórn hinnar miklu skipasölu úr landi, þar sem aðrar stjórnir reyndu að útvega sem mest af skipum til Íslands.

Ég sýndi fram á það áðan, að það aðhald, sem sterkt fjármálaauðvald, vald iðjuhöldanna og bankadrottnanna í auðvaldsþjóðfélögunum í kringum okkur er, það aðhald væri ekki til hér á Íslandi og verzlunarvaldið fengi þess vegna að ráða eins og það vildi. Fyrst þetta vald var ekki til hér, þurfti ein ríkisstjórn, sem vildi viðhalda festu í okkar gjaldeyri, að taka að sér það hlutverk að vera þetta vald, og það vildi ríkisstj. samkv. sinni yfirlýsingu upphaflega vera. Hæstv. ríkisstj. lýsti því yfir, þegar hún kom til valda, að kaupgjald mætti hækka í landinu, en atvinnurekendur yrðu að bera það sjálfir, verðlagið yrði ekki hækkað. Þetta var hárrétt yfirlýsing, og ef hæstv. ríkisstj. hefði staðið við þessa yfirlýsingu, hefði hún framfylgt því, sem er heilbrigt frá kapítalistísku sjónarmiði séð í efnahagsþróun eins lands. En hún gafst upp við þetta. Yfirlýsing hennar var rétt einmitt gagnvart sjávarútveginum og iðnaðinum á Íslandi, þeir iðnrekendur og aðrir slíkir, sem vildu fallast á kauphækkanir, yrðu að bera þetta sjálfir. En það sýndi sig bara, að þegar á átti að herða, var vald heildsalanna sterkara en vald iðnrekenda og sjávarútvegs, og af því stafar ógæfan þessi 5 ár.

Hér er talað um það, að gengið falli, sem einhvern sjálfsagðan og eðlilegan hlut. Erlendis, við skulum segja í Bretlandi, þykir það „katastrófa“, þá þykir það ægilegt. Brezk ríkisstjórn, brezkir iðjuhöldar, brezkir bankar skoða það sem hræðilegt, ef pundið eigi að falla. Þeir berjast á móti því, þeir tryggja sér jafnvel aðstoð erlendis til að berjast á móti því. Hér er raunverulega búið að fella krónuna með þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið á verðlagssviðinu á undanförnum 5 árum, frá 1961. Það er búið að fella krónuna. En það hefur ekki verið gert. Krónan hefur misst sinn kaupmátt að svo og svo miklu leyti, næstum að helmingi, innanlands, en hún heldur honum gagnvart sterlingspundi og annarri útlendri mynt. Þess vegna gerist það í dag, að það streymir úr landinu sá erlendi gjaldeyrir, sem þjóðin hefur eignazt í ríkara mæli en nokkru sinni fyrr í sinni sögu, vegna þess að það er stórkostlega ábatavænlegt að kaupa erlendan gjaldeyri á því verði, sem hann er skráður í dag. Hver Íslendingur, sem fer erlendis, veit ósköp vel, að þar er allt miklu ódýrara en hér heima, enda auglýsa flugfélögin sérstakar flugferðir til London til innkaupa, af því að það er ódýrara að fljúga til London og til baka aftur og kaupa þar en að verzla í öllu valfrelsinu hér heima. Og menn geta séð auglýsingu um þetta í Morgunblaðinu, ef þeir ekki hafa tekið eftir því áður, enda býst ég við, að aldrei í sögu Íslands hafi farið fram önnur eins sóun á gjaldeyri og á þessum síðustu árum, aldrei meiri eyðsla.

Hins vegar er það gefið mál, að hæstv. ríkisstj. mun skirrast við að skrá gjaldeyrinn, eins og hún hefur raunverulega skráð hann innanlands, vegna þess að hún vill ekki gera það fyrir kosningar. En það er jafnöruggt, að það verður fyrsta verkið eftir kosningar, og það vita menn. Og ef það væri nokkurn tíma hægt að ræða við ríkisstj. um verðlagsmál, þá mundi ég vilja heyra hennar skoðun á því og sérstaklega hennar efnahagssérfræðinga, hvort henni yfirleitt dettur í hug, að það sé hægt að stöðva verðlag á Íslandi á því gengi, sem er í dag. Ég vil vonast til þess, að þegar fjhn. eða aðrar nefndir í þessu þingi byrja í þessari hv. d. að ræða þessi mál, kalli þær fyrir sig efnahagssérfræðinga ríkisstj. og láti þá svara þeim spursmálum, því að mér þykir undarlegur sá efnahagssérfræðingur, sem ekki mundi svara því þannig, að það að halda áfram þeirri gengisskráningu, sem er í dag, mundi þýða að drepa svo og svo mikið af íslenzkum iðnaði og íslenzkum sjávarútvegi, enda hefur það verið svo, að sú heildsalastétt, sem ráðið hefur stefnunni í þessu landi, hefur alltaf með vissum fresti orðið að fella gengið, þegar hún hefur verið búin að hækka verðlagið innanlands, vegna þess að hún hefur ekki efni á því að drepa sjávarútveginn, af því að sjávarútvegurinn útvegar henni allan þann gjaldeyri, sem hún þarf að nota. Og eins og menn vita, er það eini hluturinn, sem þjóðnýttur er í dag, hvað þessa hluti snertir á verzlunarsviðinu, það er allur gjaldeyririnn á Íslandi. Hann er þjóðnýttur til handa heildsalastéttinni. Hann er tekinn allur af sjávarútveginum og afhentur heildsalastéttinni til innkaupa. Það er, eins og menn vita, ekkert frelsi í sambandi við meðferð gjaldeyrisins frá hálfu sjávarútvegsins á Íslandi. Ég kem inn á þetta vegna þess,að ég býst við, að þetta eigi að vera huldumál fyrir ríkisstj. Hún vill ekki láta ræða um þetta. En ég álít, að hér á Alþingi eigi hún að standa fyrir svörum um það, hvort hún álíti gengið raunverulega vera fallið eða ekki.

Gengið er fallið. Verðlagið innanlands og utanlands hlýtur að breytast. Spurningin er bara hvenær og hver gerir það. En menn verða að horfast í augu við staðreyndirnar, eins og þær eru. Ég segi þetta vegna þess, að ég vil, að það komi alveg greinilega fram, hvers konar feluleikur það er, þegar verið er að tala við verkalýðssamtökin um það í dag, hvort þau vilji ekki stöðva núna allt saman, stöðva fram yfir kosningar, þangað til hægt sé að lækka gengið af þeim aðilum, sem þá tækju höndum saman.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er till. um að reyna það, sem hægt er, til þess að stöðva þessa hluti, stöðva þessa verðlagsþróun. Og ég vil leyfa mér að lýsa eftir því, hver sé afstaða flokkanna hér á þingi til þessa frv., hver sé afstaða Sjálfstfl., hver sé afstaða Framsfl., og ég býst við, að Alþfl. muni tilgreina sína afstöðu, þegar þar að kemur. En hins vegar hefur hæstv. viðskmrh. á síðasta ári, eftir að Alþýðusambandið og verkalýðsfélögin lögðu sitt fram til þess að reyna að stöðva verðlagsþróunina, gefið yfirlýsingu í Alþýðublaðinu, 17. júlí 1965, þar sem hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„En verðlagseftirliti og öllum öðrum hugsanlegum ráðum verður að beita til þess að koma í veg fyrir verðhækkanir, er eyði áhrifum þeirra kauphækkana, sem um hefur verið samið.“

Alþfl. virtist þar taka eindregna afstöðu með verðlagseftirliti. Og áður en lagt verður út í næstu kosningar, á þjóðin heimtingu á að vita það, hver er afstaða þingflokkanna í þessum efnum. Eru menn með því að beita hörðu verðlagseftirliti, eða eru menn á móti því? Ég álít, að það dugi enginn feluleikur í þeim efnum. Ef Sjálfstfl. og Framsfl. þegja þunnu hljóði í þessum efnum eða gefa yfirlýsingar um það, að þeir séu á móti verðlagseftirliti, þýðir það vart annað en að þeir flokkar muni taka höndum saman eftir næstu kosningar til þess að lækka gengið, eins og þeir gerðu 1950, og láta verðlagsþróunina ganga sinn gang. Ég vil samt benda á, að slíkt er að vísu hægt, en sú kollsteypa mun ekki vara í 5 ár, eins og sú kollsteypa, sem núv. ríkisstj. hefur tekið. Það, að hún hefur getað staðið í 5 ár, sú kollsteypa, stafar af því, að verðlag hækkaði erlendis á okkar útflutningsvörum. Núna stöndum við frammi fyrir verðlækkunum, og svona eitursprautur, eins og hægt er að gera með slíkum gengislækkunum, sem núna er búið að undirbúa mundu duga máske í 3 ár, og þá sjáum við, út í hvað er komið í landinu, þannig að hér er um hluti að ræða, sem geta gersamlega eyðilagt efnahagsþróun Íslands, ef svona á að halda áfram.

Það er ekki fyrst nú, sem við vöknum til skilnings um þetta. Við höfum flutt svona frv. alloft, og við fluttum þetta frv. m. a. í fyrra. Það var svæft þá, það fékkst ekki rætt hér í þinginu. Það kom ekki í ljós, hvaða afstöðu flokkarnir hafa í því. Og hvað gerðist? Strax eftir að var samið í fyrra, þá byrjuðu hækkanirnar undireins. Reykjavíkurbær, meiri hl. Sjálfstfl., reið á vaðið, hækkaði undireins og búið var að semja. Þetta hefur verið svona ár eftir ár. Hér á þingi stendur meiri hl. á móti því, að verðlagseftirlit sé sett í lög, og svo byrja jafnvel þær opinberu stofnanir á vægðarlausum verðhækkunum.

Það gerðist annað líka í fyrra, sem er athyglisvert fyrir stefnuna í öllum þessum málum. Þegar Landsvirkjunin samdi um það lán, sem hún tók, var m. a. sett sú skuldbinding inn í það lán, sem meiri hl. síðan samþykkti, að verðlagi frá hálfu Landsvirkjunar á rafmagni í heildsölu skyldi vera hagað þannig, að miðað við heildarverðmæti eigna Landsvirkjunarinnar skyldi það ekki vera minna en 8% á ári, sem yrði tekið þannig sem gróði til þess að leggja í alls konar sjóði. Og þá var þó búið að skrifa upp gömlu hálfafskrifuðu Sogsvirkjunina og allt saman slíkt til endurnýjunarmats, meta það allt saman upp með tilliti til nútímans, færa þetta sem allra hæst í verði: Það er gerður samningur við erlenda aðila um, að í lánssamningi skuli það ákveðið, að verðlag skuli hækka sem mest í þessum efnum. Þetta er sú nýja stefna, svo að segja flutt inn af því útlenda valdi.

Hvernig var þetta hér áður fyrr? Þegar lög um Sogsvirkjunina voru samþ. hér á Alþ. fyrir nokkrum áratugum, voru menn það gamaldags, að menn hugsuðu um, að það væri gott yfirleitt fyrir almenning, að það væri lág álagning. Og það var sett þá í lög, að það mætti ekki leggja í heildsölu meira á rafmagnið en 5%. Það var sett hámark 5% og var þannig frá upphafi þangað til nú, að Landsvirkjunin var stofnuð. Þegar Landsvirkjunin er stofnuð, er samið við útlendan aðila, útlendan lángefanda um það, að það megi ekki leggja minna á en 8%. Og eignin er skráð eins hátt og hægt er, til þess að sú álagning verði sem allra mest í krónutölu.

Það er mikil breyting, sem orðið hefur á móral í þessum efnum. Einu sinni höfðu menn þá hugmynd hér á Alþ. t.d., að við reistum okkar rafmagnsstöðvar til þess að reyna að útvega almenningi ódýrt rafmagn. Þetta er úrelt kenning í dag. Í dag reisa menn rafmagnsstöðvar, þar sem útlendingar fyrirskipa, að menn verði að græða svona og svona mikið á almenningi í landinu, það skuli svína á honum í skráningu eignanna sem allra mest. Þegar lög um Sogsvirkjun voru sett og Ljósafossvirkjunin, sem Reykjavikurbær átti, var seld Sogsvirkjuninni, var Ljósafossvirkjunin seld með því verði, sem þá var búið að skrifa hana niður á, sem var ekki nema hluti af því verði, sem hún þá var raunverulega í, miðað við verðbólguna. Af hverju seldi Reykjavíkurbær Ljósafossvirkjunina svona ódýrt inn í Sogsvirkjunina, sem Reykjavík og ríkið áttu? Af því að menn vildu stuðla að því, að rafmagnsverð gæti verið sem lægst.

Ég nefni þessi dæmi aðeins til þess að sýna fram á, hvers konar breyting er að verða á öllu viðskiptasiðferði í landinu og öllum hugsunarhætti líka frá hálfu hins opinbera. Áður var sá hugsunarháttur ríkjandi, að menn væru að gera hlutina til þess, að almenningi liði vel og hann fengi vissa þjónustu með þessu. Nú er hugsunarhátturinn: Það skal svína á almenningi, það skal græða á almenningi, og það er aðalatriðið. Það er höfuðatriðið, og ef löggjafinn íslenzki setur slíkt ekki í lög, skal sá útlendi lánveitandi setja það í lög. Þetta er breytingin á móralnum, sem orðið hefur á Íslandi. Þetta er dæmið um gróðasýkina, sem er að heltaka þjóðlífið, þá gróðasýki, sem m. a. hefur valdið því, að allt verðlagseftirlit var afnumið og heildsalastéttinni í Reykjavík sagt að græða hver sem betur geti. Og svo að ég enn einu sinni segi það við hæstv. stóla ríkisstj., af því að þessari íslenzku atvinnurekendastétt hefur yfirleitt gengið illa að stjórna íslenzka atvinnulífinu og haft lítið vit á því og hefur lengst af þurft að fá ráð annars staðar frá, þá er rétt að taka það fram, að í einu auðvaldsskipulagi nær það engri átt, að allir græði, það er ekki hægt. Það er ekki hægt að reka nokkurn atvinnurekstur, ef allir eiga að græða. Í auðvaldsskipulagi verða menn að haga því þannig, ef það skipulag á að standast, að gróðinn lendi á þeim sviðum, þar sem hann er þýðingarmestur og kemur að mestu gagni. T. d. þegar það er prédikað og framkvæmt í dag á Íslandi, að það skuli allir græða á húsbyggingum og menn skuli reyna að svína á þeim, sem byggja hús, alveg eins og hægt sé, eins og mórallinn er í dag, er það hreint brjálæði frá kapítalísku sjónarmiði að gera slíkt. Það þýðir að hækka húsaleiguna eða húsakostnað, hækka þar af leiðandi kaupgjald og drepa sjávarútveginn eða útflutninginn.

Auðmannastéttin í Danmörku hefur staðið að því allan tímann að halda niðri verði á húsnæði, og húsaleigulög eru enn í gildi þar. Það hefur verið talið sjálfsagt til þess að koma í veg fyrir, að verkamenn þurfi að heimta miklu hærra kaup, til þess þar með að koma í veg fyrir, að útflutningsafurðirnar þurfi að hækka svo mikið, að Danmörk geti ekki keppt á erlendum markaði. En hér á Íslandi hefur verið prédikað, að allir skuli græða á öllum. Það er fagnaðarboðskapurinn, sem er að gereyðileggja þjóðfélagið, ekki bara siðferðislega, — menn sæju kannske ekki eftir því, sem stjórna þessu þjóðfélagi, — en það er að eyðileggja það efnahagslega líka. Það er hægt að reka okkar sjávarútveg og iðnað og sjá um, að okkar framleiðsla gangi, ef menn láta viss svið í þjóðfélaginu verða þannig, að það sé enginn gróði á þeim, heldur aðeins þjónusta. Menn hafa skilið það, að menn eiga ekki að græða t.d. á skólakennslunni. Menn eiga ekki að græða á vissum störfum, sem ríkið álítur að það eigi að hafa sem þjónustu, og slík svið þjóðfélagsins þurfa að verða mörg, m. a. húsnæðið, til þess, á meðan menn á annað borð hafa auðvaldsskipulag, að atvinnuvegirnir, sem halda þessu þjóðfélagi upp, — til þess að gróðinn fari til þeirra.

Það mætti t.d. vel þjóðnýta alla verzlun í okkar þjóðfélagi og væri mjög skynsamlegt að gera það, hindra allan gróða í henni til þess að tryggja m. a., að sjávarútvegur og iðnaður og landbúnaður geti gengið. Ísland mundi ekki fara á hausinn þess vegna, þvert á móti. Öll verzlun gæti vel verið þjónustustarfsemi. Ég er ekki beinlínis að reyna að kenna herrum auðvaldsskipulagsins íslenzka, hvernig þeir eigi að reyna að stjórna því, þótt ég hafi stundum reynt það. Ég er að benda þeim á, hvernig þeir geti stjórnað því ofurlítið skynsamlegar en þeir gera í dag. Og það er vegna þess að ég álít það nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga, að við getum viðhaldið okkar gömlu, þjóðlegu atvinnuvegum. Landbúnaðinum verður viðhaldið, án hans getum við ekki verið, en sjávarútvegurinn og iðnaðurinn eiga að haldast. Ef við látum verzlunarstéttinni með sinni pólitík haldast uppi að drepa það hvort tveggja, kemur að vísu nokkurt útlent auðvald hér inn í landið, eins og nú er byrjað á, en það endar með því, að Íslendingar fara að flytjast burt af landinu. Það endar með því. Ef Ísland verður innlimað, eins og öll hugsun þeirra manna, sem ráðið hafa pólitíkinni á undanförnum árum gengur út frá, sem efnahagsleg heild í aðrar stærri heildir, eins og Efnahagsbandalagið og eitthvað annað slíkt, þýðir það, að við verðum eyðilagðir sem sjálfstæð þjóð. Um leið og hinn efnahagslegi sjálfstæðisgrundvöllur er horfinn, verður komið hér svo og svo mikið atvinnuleysi, sem þýðir, að fólk flyzt burt til annarra landa, þar sem það þykir öruggara um að geta komizt af. Ef við kunnum ekki í tíma okkar fótum forráð, brjótum við þessa atvinnuvegi undir fótum okkar, og það er það, sem er að gerast. Það er byrjað. Það kemur eyðing til með að vofa t.d. yfir Norðurlandi núna, það er alveg greinilegt. Það kemur til með, ef svona heldur áfram, að verða atvinnuleysi líka í Reykjavík og Hafnarfirði þrátt fyrir allar framkvæmdirnar við Búrfell og alúminíumverksmiðju og í Hvalfirði, ef svona heldur áfram, enda veit ég ekki betur en nú þegar í kvöld sé fundur hjá verkalýðsfélögunum í Hafnarfirði til þess að ræða um atvinnuástandið þar, og hjá verkakonum er þegar orðið atvinnuleysi, þannig að þetta mál með verðlagsþróunina og þá „ídjótísku“ pólitík, sem rekin hefur verið í þeim efnum á undanförnum 5 árum, er miklu, miklu alvarlegra mál en bara leysa það með nýrri gengislækkun eftir næstu kosningar, nýjum eitursprautum í þjóðarlíkamann. Það er mál, sem snertir alla framtíð landsins.

Ég sé, að það muni vera lítil von til þess, að hæstv. ríkisstj. vilji ræða verðbólgumálin. Hún hefur mikinn áhuga á þeim í orði kveðnu, en engan áhuga nema á að auka verðbólguna í verki.

Ég legg nú til, þegar þessari umr. lýkur, að þessu frv. verði vísað til heilbr.- og félmn. Ég skal að vísu viðurkenna, að með tilliti til þess, að ef menn gengju út frá því, að ríkisstj. væri einhver alvara í sambandi við hennar snakk um verðlagsmál núna, mundi þetta frv. kannske frekar eiga heima í fjhn. út frá því, hvað það er grundvallandi um alla framtíðarpólitíkina. En ég held, að það hafi alltaf áður verið í heilbr.- og félmn. Það á þar heima formlega séð, og ég geri það að minni till., að það fari þangað, þegar þessari umr. lýkur.