24.10.1966
Neðri deild: 6. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (1798)

31. mál, verðlagsmál

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það hefur mikið verið rætt um verðlag og laun á undanförnum mánuðum og missirum, og það ekki að ástæðulausu. Fyrir tveimur árum voru sett lög með fallegu nafni, sem hétu „lög um verðtryggingu launa“. Þá var tekin upp aftur verðlagsuppbót á laun. Og í þeim skrifum og þeim ræðum, sem ég hef fylgzt með að undanförnu, hefur mér virzt, að menn litu svo á, að nú þurfi menn ekki að kvarta undan því, að þeir fái ekki launahækkun í samræmi við verðlagshækkanirnar. Þetta tryggi lögin frá 1964. Og mér virtist votta fyrir því hjá hv. 3. þm. Reykv. hér áðan, að hann væri þessarar skoðunar, það ætti að heita svo, að verðlagsuppbót héngi í því að mæta verðhækkunum. Og ég vona, að hann leiðrétti það, ef ég hef misskilið hann. En þetta held ég, að sé almenn skoðun manna, að með þessum lögum hafi mönnum verið tryggt það, að þeir fengju hlutfallslega sömu hækkun á laun og verðlagið hækkar í landinu. Nú erum við búnir að fá tveggja ára reynslu af þessum lögum. Og ef maður virðir nú fyrir sér þessi tvö ár, t.d. frá 1. sept. 1964 til 1. sept. 1966, kemur í ljós samkv. þeim eina mælikvarða, sem hægt er að nota á verðlag, — það er vísitala vöru og þjónustu, — að verðlagið hefur hækkað um 24.32% á þessu tímabili, eða úr 185 stigum í 230 stig á réttum tveimur árum. Það reiknast mér, að séu 24.32%. Þetta eru verðlagshækkanirnar í landinu. Hverjar eru kauphækkanirnar? Eru þær þá ekki eins, fyrst við búum víð lög um verðtryggingu launa? Nei, ekki aldeilis. Menn fá ekki nema 15.25% hækkun á laun sín núna 1. sept. s.l. frá því, sem var 1. sept. 1964. Menn fá tæplega 2/3 eða rúmlega 60% af þeim raunverulegu verðhækkunum, sem orðið hafa á lífsnauðsynjum manna. Þær grunnkaupshækkanir, sem hafa átt sér stað, hafa ekki verið til þess að fá hlutdeild í tekjuaukningu þjóðarinnar. Nei, þær hafa fyrst og fremst þurft að mæta því, að verðlagsuppbót á laun hefur ekki verið nema partur af því, sem hún ætti að vera, ef hún hefði verið rétt reiknuð. Ég vil nota þetta tækifæri, sem mér gefst, til þess að koma þessari aths. strax að, að menn haldi því ekki lengur fram, að mönnum sé borgið hvað snertir verðlagið í landinu, því að þeir fái það í verðlagsuppbótum á launin sín. Nei, þeir fá það ekki. Jafnvel þó að menn færu nú að miða við vísitölu framfærslukostnaðar, svo vitlaus sem hún er, með húsnæðisliðinn eins og hann er og skattana og fjölskyldubæturnar og allt það, sem er nú enginn mælikvarði á verðlag í landinu, — jafnvel þótt það væri miðað við vísitölu, hefur hún hækkað á þessum tveimur árum um 21.47%, þegar kaupgjaldsvísitalan eða kaupgjaldið hækkar um 15.25%.