01.11.1966
Neðri deild: 10. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (1803)

38. mál, sala Vola í Hraungerðishreppi

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Þetta litla frv. á þskj. 40 er flutt af mér og hv. varaþm. Ragnari Jónssyni. Það er um það að veita ríkisstj. heimild til þess að selja Gísla Högnasyni bónda á Læk í Hraungerðishreppi eyðijörðina Vola. Þessi jörð er hjáleiga, ein af mörgum, sem liggja undir prestssetrið Hraungerði, og er eign kirkjujarðasjóðs. Þarna hefur ekki verið búið s.l. 50 ár. Áður fyrr var þarna búskapur, ef búskap skyldi telja, því að býlið var ekki fært um það að veita sómasamlegt lífsuppeldi þeim, sem þar störfuðu, vegna þess, hversu það er landlítið og lélegir landkostir.

Land þessa býlis liggur að mörkum jarðarinnar Læks, og bóndinn þar, sem er myndarlegur og dugandi bóndi, hefur óskað eftir að fá þetta keypt, því að landið hjá honum er helzt til lítið, og að auki er sá galli á, að þar er erfitt til uppþurrkunar, en hins vegar eru möguleikar allgóðir til uppþurrkunar landsins í Vola. Þess vegna hefur þessi ósk komið fram frá þessum bónda, en hann hefur s.l. 14 ár haft ábúð á þessu koti.

Hér er prentuð sem fskj. með frv. umsögn hreppsnefndarinnar í Hraungerðishreppi, sem mælir einróma með því, að sala þessa eyðibýlis fari fram til Gísla Högnasonar.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en vil leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.