07.11.1966
Neðri deild: 12. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (1808)

42. mál, barnaheimili og fóstruskóli

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 10. landsk. þm. að flytja hér frv. um aðstoð ríkisins við rekstur og byggingu almennra barnaheimila og um fóstruskóla. Ég hef flutt þetta frv. áður, en ég held, að það sé þó rétt, að nokkur grein sé gerð fyrir því.

1. gr. þessa frv. fjallar um það, að ríkið aðstoði þá aðila, er reka almenn barnaheimili. Það er talið upp: vöggustofur, dagheimili og vistheimili. Ég skal geta þess, að Bandalag kvenna í Reykjavík, þar sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka m.a. og fleiri eiga sæti, hefur tekið mjög eindregið undir þetta frv. og flutt þær hrtt. við það, að þarna sé einnig bætt við um leikskóla. Sannleikurinn er sá, að uppeldi barna svo að segja frá vöggunni og til þess að barnaskólinn byrjar fer í mjög ríkum mæli í þéttbýlinu að verða nauðsyn, sem ríkið og bæirnir þurfa að láta til sín taka. Reykjavíkurbær hefur gert sér grein fyrir þessu, og fleiri og fleiri bæir úti um allt land eru að skilja þetta og eru að koma upp svona barnaheimilum, vöggustofum og öðru slíku, en það gengur alls staðar of hægt. Meira að segja í ríkasta bænum af þessum öllum, í Reykjavík, gengur framkvæmdin á öllu þessu miklu seinna en áætlað var. Það er þess vegna alveg greinilegt, að ríkið verður að fara að finna til sinnar skyldu til þess að hjálpa til við þetta, á sama hátt og ríkið finnur til sinnar skyldu gagnvart því að koma upp barnaskólum og sjá um, að barnaskólar séu reknir. Þetta eru raunverulega eins konar barnaskólar, hara fyrir þetta yngri börn, og hvað þéttbýlið snertir er þetta að verða sífellt nauðsynlegra. Það er gengið út frá því, að ríkið greiði, — við höfum látið þá tölu standa, sem við settum inn fyrir þrem árum, — 600 kr. á mánuði fyrir hvert barn sem rekstrarstyrk til viðkomandi barnaheimilis, en segjum þó, að að jafnaði skuli það vera ekki minna en einn þriðjungur kostnaðar, sem nú mundi að vísu vera nokkru meira en 600 kr. Þá var gengið út frá, að kostnaður við hvert barn, t.d. hér í Reykjavík, yrði um 1800 kr. Og við höfum nú bætt inn í frv. frá því, sem áður var, að ríkinu væri einnig skylt að lána að kostnaðarlausu skólahúsnæði að sumri til afnota fyrir barnaheimili, ef það þykir hentugt og ef það húsnæði er ekki notað til annars. Víða úti um land háttar svo til, að skólarnir þar væru mjög vel nothæfir í þessu skyni á sumrin og gætu auðveldað bæjarfélögum eða áhugafélögum, sem þar eru, að koma upp slíkum barnaheimilum. Við tökum fram, að aðilar að þessum barnaheimilum geti jafnt verið sveitarfélög, áhugafélög, opinberar stofnanir eða atvinnufyrirtæki. Það er ekki aðeins, að bæir hafi sýnt mikinn áhuga á þessu, það hafa verið sérstök félög, t.d. verkakvennafélög eins og í Hafnarfirði og kvenfélög þannig víðar. Það hefur líka komið fyrir og ætti að koma fyrir í ríkara mæli, að opinberar stofnanir eða atvinnufyrirtæki gerðu þetta. Meira að segja hér í Reykjavík fyndist mér, að þau stóru fyrirtæki, sem hér eru mörg og þurfa oft á miklum vinnukrafti að halda, sem ekki hvað sízt ungar konur láti í té, — við skulum segja t.d. vélritun og allt annað slíkt, — það þyrfti að vera miklu, miklu meira af slíku og gæti verið mjög góð samvinna á milli slíkra fyrirtækja um að koma upp þess háttar barnaheimílum. Nú er það ákaflega algengt t.d., að ungar konur, sem um tíma hafa unnið hér t.d. í bönkunum, skrifstofum eða öðru slíku, um leið og þær hafa síðan stofnað heimili og farið að eignazt börn, hafa þær orðið að hætta þarna alveg vinnu, og hefur þá oft verið mjög nauðsynlegt, eins og nú er fyrir ungar fjölskyldur, að bæði hjónin gætu unnið úti, en eingöngu vegna skorts á barnaheimilum hefur oft hver ung kona orðið að sitja yfir sínu barni og sleppa því að hjálpa til að vinna fyrir heimilinu, eins nauðsynlegt og það hefur verið frá efnahagslegu sjónarmiði.

1. gr. fjallar þess vegna um reksturinn á barnaheimilunum og aðstoð ríkisins við hann.

2. gr. fjallar um að aðstoða sveitarfélög, sem hafa yfir 1000 íbúa, við að byggja barnaheimili, og þar er ákveðið, að hafa skuli sama hátt og ríkið hefur viðvíkjandi barnaskólunum að öllu leyti.

Í 3. gr. er gengið út frá, að sveitarfélög, sem hafa undir 1000 íbúum, geti orðið þessa réttar aðnjótandi, ef félmrn. heimili það.

Í 4. gr. er fjallað um, að komið skuli upp fóstruskóla í Reykjavík eða ríkið skuli réttara sagt reka þann fóstruskóla, sem nú er fyrir hendi. Það er vitanlegt, að sá skóli hefur átt allerfitt uppdráttar og skólastjórinn, sú kona, sem lengi hefur stjórnað þeim skóla, hefur lagt einmitt mikla áherzlu á það, hve gífurleg nauðsyn sé á því, að hægt sé að kenna og útskrifa miklu fleiri fóstrur en nú er. Við vitum allir, hvernig hefur verið viðvíkjandi kennaraskólanum og því að útskrifa kennara fyrir stálpuðu börnin og unglingana. En skorturinn á fóstrum hefur verið mjög tilfinnanlegur í þessu efni. Við verðum að muna það, að eftir að meiri hl. af allri okkar þjóð er samansafnaður í þéttbýli í kringum þessa borg, sem við erum í, er okkar þjóðfélag orðið svo gerbreytt frá því, sem áður var, að fjölmörg ný störf, sem við áður vart þekktum, hljóta að koma upp. Hér eru komnir upp aðilar t.d., sem við höfum kallað — að vísu ekki með góðu íslenzku orði — félagsmálaráðunauta. Hér er komið upp svo og svo mikið af sálfræðingum, sem starfa við barnaskólana. Hér eru öll þau vandamál, sem þéttbýli yfirleitt skapar, farin að verða mjög alvarlegt þjóðfélagslegt viðfangsefni fyrir okkur. Og sannleikurinn er, að einmitt fóstrurnar við þessi barnaheimili gegna satt að segja ákaflega miklu af þeim störfum, sem mæðurnar oft gegndu í gamla daga. Maður verður var við það, ef maður kynnist þessum hlutum, að einmitt ef það eru verulega góðar fóstrur á slíkum barnaheimilum, kenna þær börnunum t.d. fjöldann allan af gömlum íslenzkum vísum og söngvum, sem heimilunum satt að segja oft og tíðum láist að kenna, og ekki sízt meðan ameríska sjónvarpið var algerlega yfirgnæfandi, voru áhrifin frekar þannig, að það skemmdi fyrir, að menn gætu varðveitt þá gömlu íslenzku erfð í þessum efnum, heldur en hitt, þannig að það að búa að góðum fóstruskóla, geta haft við hann góða kennara og geta vakið mikinn áhuga hjá ungum stúlkum á því að verða fóstrur, er ákaflega þýðingarmikið, og þar ætti ríkið að hjálpa til og ýta undir.

Það er rétt, að í þessari 4. gr. er talað um frá hálfu okkar flytjenda, að það skuli starfa skólastjóri og minnst tveir fastir kennarar. Í þeim brtt., sem Bandalag kvenna í Reykjavík hefur sent inn við þetta frv., um leið og það mælir með því, leggur það til, að þessu sé breytt þannig, að í staðinn fyrir orðin „minnst tveir fastir kennarar“ komi: fastir kennarar eftir þörfum auk stundakennara. — Ég vil vekja athygli á því, og er ég vissulega sammála því, ef sú n., sem þetta fer til, getur fallizt á þá breytingu. Ég vil vekja sérstaka athygli á því, ekki sízt vegna þess, að sérstaklega í þessari d. eru einvörðungu karlmenn og karlmenn í svo yfirgnæfandi meiri hl. hér á Alþ., að okkur hættir stundum við að taka of lítið tillit til þess, sem konurnar segja í þessum efnum.

Með þessu frv., þegar það hefur verið flutt á undanförnum árum, hafa komið mjög ákveðin meðmæli frá kvennasamtökum, þar sem allir pólitískir flokkar eiga sína fulltrúa og þar sem öll þessi kvennasamtök hafa verið algerlega sammála um að mæla með framgangi þessa frv. Þarna hefur stjórn Bandalags kvenna í Reykjavík og bandalagið sjálft sent inn mjög eindregin meðmæli ár eftir ár. Þarna hefur Kvenréttindafélag Íslands og stjórn þess gert mjög ákveðnar ályktanir og samþ. að skora á Alþ. að samþykkja þetta frv. Þarna hafa Menningar- og friðarsamtök íslenzkra kvenna sömuleiðis sent inn mjög ákveðin tilmæli í þessum efnum. Ég vil mjög eindregið vonast til þess, að nú, sökum þess að eftir gamalli reynslu er oft vænlegast að fá ýmsum góðum málum framgengt á síðasta þingi fyrir kosningar, að hv. þm. taki þessu máli vel og fáist til þess að afgreiða það í einni eða annarri mynd. Ég er ekki endilega að gera kröfu til þess að öllu leyti og við flm., að svo langt sé farið sem við hér leggjum til, en hitt held ég að væri alveg óhjákvæmilegt, að þingið sýndi lit á því að taka undir þessi mál, að byrja á því, að ríkið styrki þessa aðila og sýni sinn áhuga og taki t.d. upp samninga við Fóstruskólann og athugi, hvort það mundi ekki vera mikill grundvöllur einmitt fyrir þessu, þannig að menn verulega kynni sér þetta mál og láti þetta ekki fara í ruslakörfuna enn einu sinni. Ég held, að sá helmingur kjósenda, sem konurnar eru, ætlist til þess, að við verðum a.m.k. að nokkru leyti við þeirra kröfum í slíkum efnum.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, herra forseti, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.