17.11.1966
Neðri deild: 17. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (1816)

60. mál, umferðarlög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það mál, sem hér er um að ræða, er vissulega mikið vandamál, sem nauðsynlegt er að athuga gaumgæfilega og finna leiðir til þess að koma í veg fyrir hin tíðu slys, sem eru orðin í meðferð dráttarvéla. Slysunum hefur fjölgað, m.a. vegna þess, að dráttarvélafjöldinn hefur margfaldazt. Og þetta frv., sem hér er um að ræða, er vissulega þess eðlis, eins og að hefur verið vikið, að sjálfsagt er að athuga það gaumgæfilega. En ég er hræddur um, að þetta frv. út af fyrir sig, þótt það verði lögfest, nái of skammt. Hér er talað um aldurstakmark, 14 ára aldur. Og það er talað um hin tíðu slys unglinganna, og það er hörmulegt að fá fréttir af þessum slysum. En það eru ekki aðeins unglingarnir, sem verða fyrir slysum af dráttarvélunum, það eru einnig menn á bezta aldri og eldri menn. Og eins og fram kemur í skýrslu Slysavarnafélagsins og sjá má glögglega af henni, eru unglingaslysin færri en slysin hjá þeim eldri.

Ef við byrjum 1958, eru fjögur banaslys. Það er bóndi, 28 ára gamall, og kona, 28 ára, varð undir dráttarvél. Enn fremur varð bóndi undir dráttarvél 14/11, og 27/12 varð bóndi enn fremur undir dráttarvél. M.ö.o.: 1958 er þetta allt fullorðið fólk. 1959 verður 1 banaslys, 5 ára barn lendir í driföxli. Það hafði hlaupið þarna fyrir, fullorðinn maður ók vitanlega vélinni. 1960 verður 1 slys. Ellefu ára drengur varð undir dráttarvél í skurði. 1961 verða tvö banaslys. Drengur, 10 ára, varð undir dráttarvél og beið bana, og drengur, 2 ára, varð undir dráttarvél, sem drengur ók, og beið bana, hljóp fyrir dráttarvélina. 1962 tvö slys: dráttarvél valt og varð bóndi undir henni, og 34 ára gamall maður féll af dráttarvél og lærbrotnaði. 1963 varð 1 banaslys, 48 ára gamall maður. 1964 eitt banaslys, bóndi 51 árs, og slys, bóndi varð undir dráttarvél og slasaðist alvarlega. 1965 urðu 3 banaslys og 2 slys. 27. apríl: bóndi varð undir dráttarvél og beið bana. 18. maí: Bóndi varð undir dráttarvél og beið bana. 27. ágúst : Drengur, 3 ára, varð undir dráttarvél og beið bana. Fullorðinn maður ók vélinni og drengurinn hljóp fyrir hana. Svo var það, að maður varð undir dráttarvél og slasaðist lítillega, tveir fullorðnir, og aftur fullorðinn maður. 1966 eru 5 banaslys og 4 slys. 17. maí varð 16 ára drengur undir dráttarvél og beið bana. 27. júlí: 15 ára drengur varð undir dráttarvél og beið bana. 28. júlí: 14 ára drengur beið bana í dráttarvélaslysi. 15. sept.: 16 ára drengur varð undir dráttarvél og 8. nóv. 16 ára drengur. 1966 5 banaslys, og þetta eru allt piltar 14—16 ára, sem verða fyrir þessum slysum. M.ö.o.: Þetta frv. nær ekki til þess aldurs, sem þarna er um að ræða. Og slysin fjögur, sem eru auk þess á þessu ári, eru á fólki, sem er yfir þessum aldri.

Ég vek aðeins athygli á þessu vegna þess, að það er auðsýnt, að sú viðleitni, sem höfð er í frammi með flutningi þessa frv., sem vitanlega er góðra gjalda verð, — það sýnir sig, að það þarf fleira til að koma, og 14 ára aldurinn virðist ekki vera sá hættulegasti eða alvarlegasti, og jafnvel drengir, sem eru undir þeim aldri, eða á aldrinum 12—14 ára, mundu kannske alveg eins sýna aðgæzlu eins og 14—15 ára. Það er a.m.k. víst, að það er almennt í sveitunum, að drengir á aldrinum 11—14 ára aka dráttarvélum, og slysin á þeim aldri eru mjög fá skv. þessari skýrslu Slysavarnafélagsins.

Ég held, að um leið og það er nú athugað, hversu unglingarnir virðast vera ungir, þegar þeir aka dráttarvélum, er jafnvel einnig rétt að athuga. hvað menn mættu vera gamlir, þegar þeir aka dráttarvélum. En það, sem helzt kæmi að gagni, væri það að hafa námskeið fyrir unglingana og fyrir þá, sem aka dráttarvélum, og beinlínis kenna meðferð þeirra. Síðan þarf að tryggja það, eins og kom fram hér áðan, að þessar vélar séu í fullkomnu lagi. Og mér finnst það alveg fráleitt, að dráttarvélar séu ekki af ábyrgum aðilum skoðaðar árlega og það sé tryggt að stýrisútbúnaður og bremsuútbúnaður sé í fullkomnu lagi. Það er vitanlega alveg sjálfsagt.

En eins og hæstv. dómsmrh. gat um hér áðan, eru þessi mál í ýtarlegri athugun. Það eru allir sammála um, að hér er mikið vandamál á ferðinni, og það ber að gera allt, sem unnt er, til þess að auka öryggið á þessu sviði. Það vitanlega erum við allir sammála um. Flutningur þessa frv. spillir a.m.k. ekki fyrir því máli. Við erum að ræða þessi mál í dag vegna þess, að frv. var flutt, og það út af fyrir sig getur aldrei verið nema til góðs, að við ræðum þessi mál og hugleiðum þau, enda þótt þessi mál séu nú í ráðuneytunum í fullkominni athugun. Og eins og hér var getið um áðan, er eðlilegt, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, kynni sér, um leið og hún ræðir þetta frv., hvað sú athugun, sem nefndir ráðuneytisstjórar hafa með höndum, er langt komin, og vissulega er eðlilegt og sjálfsagt, að allt verði gert til þess að leysa þetta mál farsællega og allir taki höndum saman um það.