13.02.1967
Neðri deild: 40. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (1848)

81. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Eins og hv. þdm. er kunnugt, var kjaradeila verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda sumarið 1964 m.a. leyst með loforði ríkisvaldsins um ákveðna lagasetningu á Alþ. næsta haust á eftir. Í framhaldi af þessu samkomulagi var hinn 10. maí 1965 aukið í lög um húsnæðismálastofnun ríkisins ákvæði, þar sem heimilað er að veita efnalitlum meðlimum verkalýðsfélaga sérstök viðbótarlán til húsbygginga. Til þessara sérstöku viðbótarlána við hin venjulegu lán húsnæðismálastofnunarinnar var heimilt að verja 15—20 millj. kr. á ári. Í framkvæmd hafa réttindin til þessara lána verið einskorðuð við félagsmenn verkalýðsfélaga, sem eru í Alþýðusambandi Íslands. En með því frv., sem við hv. 5. þm. Vestf. höfum lagt fram á þskj. 104 og hér er til umr., er lagt til, að sú breyting verði gerð á 3. gr. l. um húsnæðismálastofnun ríkisins, að tekið sé fram, þar sem greint er frá því, að efnalitlir meðlimir verkalýðsfélaga eigi rétt á viðbótarlánum, að þau réttindi nái einnig til iðnnema, þannig að við svo hljóðandi setningu í S. gr. laganna: „Heimilt er þó að veita hærra lán til efnalítilla meðlima verkalýðsfélaga“ — bætist: „þar með taldir iðnnemar.“

Um það verður naumast deilt, að iðnnemar eru lægra launaðir en félagsmenn verkalýðsfélaga, sem rétt eiga til þeirra viðbótarlána, sem ætluð er efnalitlum félagsmönnum verkalýðsfélaganna, og því ósanngjarnt, að þeir njóti minni réttar en aðrir í þessu sambandi. Rétt til viðbótarlánanna öðlast þeir, sem iðnnám stunda, ekki fyrr en þeir hafa lokið námi og eru orðnir félagsmenn í iðnsveinafélögum, en þau eru aðilar að Alþýðusambandi Íslands. Hins vegar verður raunin oft sú, að þá kemur þeim þessi réttur ekki að haldi, vegna þess að margir þeirra hafa fyrir fjölskyldu að sjá, meðan á iðnnáminu stendur, og hafa á námsárunum orðið að basla við að eignast íbúð. Á þeim tíma, sem þeir eru iðnnemar og standa í því að útvega sér eigið húsnæði, njóta þeir því ekki viðbótarlánanna, en þegar sá réttur er fenginn að loknu námi, geta þeir ekki notað hann, sem íbúð hafa eignazt, vegna þess að lánin eru aðeins veitt út á íbúðirnar, áður en þær eru teknar í notkun. Aðstaða fjölmargra iðnnema er því sú, að þegar þeir þurfa flestum fremur á viðbótarlánum að halda, eiga þeir ekki kost á þeim, vegna þess að samtök þeirra eru ekki í Alþýðusambandi Íslands. En þeir eiga ekki heldur kost á að njóta lánanna, þegar þeir eru orðnir iðnsveinar, vegna þess að þá hafa þeir tekið íbúðir sínar í notkun margir hverjir.

Iðnnemar hafa leitað eftir því að fá fulla aðild að viðbótarlánunum og gerðu samþykkt um þetta mál á síðasta þingi sínu, og Alþýðusamband Íslands hefur einnig sýnt málstað þeirra þann skilning, að þing þess samþykkti s.l. haust ályktun til stuðnings iðnnemum í þessu máli. Við flm. þessa frv. gerum okkur ljóst, að margt þyrfti að lagfæra í lögunum um húsnæðismálastofnun ríkisins og jafnvel þyrfti í sambandi við viðbótarlánin að samþykkja fleira en aðild iðnnema. T.d. þyrfti að hækka fjárveitinguna, sem til þessara sérstöku lána er veitt, en vegna þess að við teljum, að aðild iðnnema að viðbótarlánunum sé svo sjálfsagt réttlætismál og svo brýnt, höfum við talið rétt að blanda því sérstaka atriði ekki saman við aðrar nauðsynlegar lagfæringar á l., og eru því í því frv., sem hér liggur fyrir, einungis till. um, að iðnnemar fái tryggðan rétt til viðbótarlána þeirra, sem ætluð eru tekjulitlum félagsmönnum verkalýðsfélaga, og væntum þess, að svo ríkur skilningur sé fyrir hendi á þessu réttlætismáli iðnnema, sem ern tekjulægri en flestir aðrir, að samstaða fáist meðal hv. þdm. um samþykkt þessa frv.

Ég leyfi mér svo að lokum, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.