13.12.1966
Neðri deild: 27. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

88. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég skal aldrei fullyrða neitt um, hvað lögfræðingar geta verið snjallir í að mistúlka lög, en hitt sýnist mér nokkurn veginn ótvírætt, að ef menn vilja reyna að túlka lög rétt, þá liggur alveg í augum uppi, hvernig eigi að túlka þessi lög, ef þau verða samþ. eins og þau liggja fyrir nú. Í 3. gr. stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Af því fé, sem ráðstafað verður úr sjóðnum á ári hverju, má eigi verja meiru en 1/3 hluta til styrkveitinga.“ Þetta er alveg skýrt, að af því fé, sem ráðstafað er á hverju einasta ári, það er undantekningarlaust, þá skal ekki vera meira en 1/3 hluti til styrkveitinga. Svo kemur 4. gr.: „Af stofnframlaginu greiðast 20 millj. kr. árið 1966, og skal stjórn framleiðnisjóðs ráðstafa þeirri fjárhæð að fengnum till. framleiðsluráðs landbúnaðarins til vinnslustöðva landbúnaðarins vegna endurbóta, sem gerðar hafa verið á árinu 1966.“ Það er nákvæmlega sama orðið, sem þarna er notað, að ráðstafa, í báðum tilfellum. Hlýtur ákvæðið í 3. gr. að taka yfir þetta þarna. Það á að ráðstafa þessum 20 millj. árið 1966, og 3. gr. mælir fyrir, að það má ekki vera meira en 1/3 hluti styrkur. Þetta er alveg skýrt.

Ég veit ekki, hvers konar lögfræðingar eru, sem hæstv. ráðh. hefur samband við. Hann á það til hérna stundum að vitna til einhverra og einhverra lögfræðinga, en ég held bara, að þeir lögfræðingar, sem hann vitnar þarna til, skilji þá ekki lög. Ég get trúað hins vegar, að þessir lögfræðingar hefðu sagt við hann: Ef ríkisstj. lýsir yfir, að það eigi að skilja þetta svona, getur það ef til vill bjargað því. Ég gæti trúað, ef eitthvert vit væri í kollinum á þessum lögfræðingum, að þeir hefðu sagt: Jú, ef það liggur yfirlýsing fyrir um, að ríkisstj. skilji þetta svona, mundum við treysta okkur til þess fyrir dómstólunum að reyna að verja það, og ef þeim skilningi hefði ekki verið mótmælt, að þetta ætti að vera sem sé öðruvísi en lagabókstafurinn ákveður, ríkisstjórnin hefði lýst yfir einhverjum anda þarna inn í lögin, blásið inn einhverjum anda þarna, sem ekki væri í samræmi við bókstafinn. — En nú skulum við bara gera ráð fyrir öðru. Nú skulum við gera ráð fyrir því, að hér á Alþ. komi fram hinn skilningurinn, að það sé ekki hægt að óbreyttum þessum lögum að láta meira en 1/3 hluta fara til styrkveitinga árið 1966, við skulum segja, að ég lýsi því hér yfir, að það sé ekki hægt að skilja lögin öðruvísi. Þá kemur fram tvenns konar skilningur frá hálfu þeirra, sem eiga hér að ákveða eftir á, hvernig eigi að skilja þessi lög, og ef dómararnir ættu svo að dæma á eftir, ef t.d. stjórn framleiðnisjóðs yrði kærð fyrir að hafa veitt úr sjóðnum meira til styrkja á árinu 1966 heldur en lög heimiluðu, þá mundi náttúrlega dómarinn yfirvega, hvor skilningurinn á þessu væri réttur. En hvað mundi gera út um það? Það mundi ekki gera út um það, að annar væri bara almennur þm. og hitt væri til dæmis ráðh., sem hefði lýst yfir. Það, sem gerði út um það, væri lagabókstafurinn. Þess vegna geta menn ekki dæmt eftir öðru. Þess vegna sé ég það bókstaflega ekki, hvað það á eiginlega að þýða að byrja að afgr. lög þannig, að þau séu óskýr. Á þetta að vera einhver vottur um það, að orð einnar ríkisstj. sé orðið hærra en lög frá Alþingi? Er ein ríkisstj. að færa sig svo upp á skaftið, að hún sé að segja, að sá skilningur, sem hún leggi í lög, skuli gilda? Ég vil minna hæstv. ráðh. á, að dómstólarnir eiga eftir stjórnarskránni að vera óháðir ríkisstj., og ef einn dómstóll leyfir sér að fara að dæma þvert á móti lögum, af því að einn ráðh. hefur lýst yfir einum skilningi, einn þm. öðrum skilningi, og dómstólarnir fella síðan dóm bara til þess að þóknast ríkisstj., þá er komið mjög illa lögum og rétti í landinu. Það hefur gengið nógu langt venjulega af hálfu ríkisstj. að vilja ráða svona hlutum, þannig að mér finnst, að svo lítið ætti ein ríkisstj. að geta gert til þess að reyna að hafa lög, sem hún sjálf er að afgr. í stjórnarfrv., í samræmi við það, hvernig hún vill láta skilja það, að hún breyti þessu. Því í ósköpunum fær hún ekki nefndina til að koma fram með litla brtt. þarna, eins og ég var að benda á áðan: á ári hverju eftir 1966? Þá er hún ekkert bundin við það, hvernig þetta eigi að vera á árinu 1966. Ég veit ekki, hvort metnaður hæstv. ríkisstj. er orðinn svo mikill, að hún geti ekki lotið svo lágt að breyta lögum eftir sínum skilningi, hún vilji bara geta lýst því yfir, að hún skilji lögin þveröfugt við lagabókstafinn.