07.02.1967
Neðri deild: 36. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í C-deild Alþingistíðinda. (1854)

82. mál, gerðabækur ríkisstjórnar

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur gefið viðvíkjandi þeim bókunum, sem fram hafa farið öðru hverju á ríkisstjórnarfundum undanfarna áratugi, og eins, að meðan hann var utanrrh., skuli hann hafa skráð að mestu sín viðtöl. En ég er hræddur um, að þetta sé glompótt hjá ýmsum öðrum. Það er náttúrlega úrslitaatriðið í þessu sambandi, á hvern hátt almenningur eða Alþ. sem fulltrúi almennings fær að fylgjast með og hafa eftirlit með því, sem ríkisstjórnir gera á hverjum tíma. Þetta er atriði, sem ég legg höfuðáherzlu á í sambandi við 3. gr. Vissulega koma fyrir ýmis atriði í ríkisstj., sem menn kannske aldrei kæra sig um, að vitað sé um. Það hefur alltaf komið fyrir. En um öll þau atriði a.m.k., sem eðlilegt er og menn gera kröfu til að vitnist og það liggi fyrir um, hvað gerzt hafi, er alveg nauðsynlegt, að það sé ekki bara lokað niður og enginn aðili fái siðar meir að kíkja á þetta. Á einhvern hátt verður að tryggja, að fólkið sjálft í landinu eða þess kjörnu fulltrúar hafi aðgang að þessu. Ég legg til í 3. gr., að eftir að 15 ár hafi liðið, skuli þessar gerðabækur þannig opinberar, að þær liggi á Þjóðskjalasafninu eða afrit af þeim og menn hefðu þar aðgang að þeim. Ég meinti ekki, að þær yrðu prentaðar, eins og gert er t.d. í Bandaríkjunum. En það eru náttúrlega ýmsir möguleikar til í þessu sambandi. En það allra minnsta, sem manni finnst þó að ætti að vera, væri annars vegar, að t.d. alþm. hefðu aðgang þarna að, hins vegar, að þeir vísindamenn, sem leggja stund á þessi fræði síðar meir, hafi aðgang þarna að. Ég álít, að einhver lög verði að setja um þetta og eitthvert aðhald verði að skapa að ríkisstj. á hverjum tíma, hverjar sem þær eru, að það sé hægt að vita nokkurn veginn um, hvernig þessir hlutir hafa gerzt.

Þá talaði hæstv. ráðh. um, að Stefán Jóhann kæmi í sinni bók inn á þann langa aðdraganda að þessu. Um þann aðdraganda var mér kunnugt, löngu áður en bók Stefáns Jóhanns kom út. Cordell Hull skrifar í sínum endurminningum mjög greinilega um það og segir þar beinlínis, að Stefán Jóh. Stefánsson sem utanrrh. Íslands hafi farið fram á það við Bandaríkin í des. 1940, að það væri athugað um vernd Íslands, þannig að þá lágu fyrir bandarískar heimildir um þann aðdraganda löngu áður, í mörg ár. Og ég var hér ekki að gera þennan aðdraganda að neinu leyti að umtalsefni. Það er vitað, það kvisaðist líka út um hann, við sögðum frá því í Þjóðviljanum í febr. 1941, að þetta leynimakk ætti sér stað á bak við tjöldin. Og ég hef meira að segja séð í sumum bókum, að það, að þessu hafi verið ljóstrað upp, eins og sagt hefur verið, hafi haft áhrif í þá átt að draga það, að hernámið fór hér fram, sem gerðist 24. júní, 25., 26. og þessa dagana, sem ég var hér að ræða um. Og virðist vera, að eftir fyrstu viðræðurnar 24. júní séu þessi fyrirmæli gefin. Brezka ríkisstj. hefur sent fyrirskipanir til brezka konsúlsins á Íslandi um að sjá um, að íslenzki forsrh. bæði um herverndina. Og viðtal fer fram 25. júní í Washington, þar sem sagt er frá viðtalinu 24. júní hér heima, og þar er haft eftir forsrh., að hann hafi svarað, að margir einstaklingar í íslenzku ríkisstj. væru með þessu skrefi, væru hlynntir þessu skrefi, sem lagt væri til að stiga, en hann, forsrh. sjálfur, væri andvígur því, og sem nr. 2 er komið inn á þessar hugmyndir, sem hafi verið síðasta haust. 27. júní er svo talað um afstöðu þingsins áður og ríkisstj. gæti ekki tekið þessa ábyrgð á sig, án þess að ráðgast við þingið, þannig að þarna þurfum við að fá helzt fleiri vitni um, hvað gerðist í þessum efnum. Hv. 1. þm. Vestf. á ekki sæti hér í hv. d., svo að hann getur ekki tekið þátt í þessum umr., en gæti náttúrlega gefið sínar yfirlýsingar um þetta.

Þarna sjáum við, að um atriði, sem þó eru orðin 25 ára gömul, getur greint á, hvað gerzt hafi og hvað næstæðstu menn Íslands hafi sagt á þessum tíma. En hitt, sem hæstv. forsrh. heldur nú, að það hljóti að vera alger misskilningur, að þarna hafi verið beitt einhverri þvingun og þetta orðalag: „að sjá um, að íslenzka ríkisstj. bæði um,“ hljóti að vera á einhverjum misskilningi byggt, þá vil ég samt minna hann á, að það eru líka aðrar heimildir til frá þessum tíma, og það ern sjálf Alþingistíðindin frá þinginu 7.—9. júlí 1941 og orðréttar ræður, sérstaklega ýmissa þm. Sjálfstfl., t.d. Sigurðar Hlíðars, þar sem hann beinlínis segir, að hann hafi verið á móti því, að við bæðum um þessa hervernd, og hann hafi haldið, þegar hann kom hingað, að hann mundi greiða atkv. á móti henni, en hann sæi, að hnífurinn stæði á hálsi okkar og það gæti jafnvel farið svo, að hann neyddist til að greiða atkv. með henni. Ég man það ekki nákvæmlega orðrétt, en þetta var nokkurn veginn meiningin í hans orðum. Það er því ýmislegt, sem verður að athuga, þegar farið verður að taka þessa hluti sagnfræðilega. Hitt er alveg rétt hjá honum, hvað snertir skýringar á hvötunum, að um það má náttúrlega endalaust deila. Og hvað snertir hans skýringu á orðum Churchills, sem okkur ber saman um, hver hafi verið, í júlíbyrjun í brezka þinginu, fullnægja þau hvorum tveggja tilganginum, að gera aðstöðu Bandaríkjanna gagnvart Þjóðverjum betri og að afsaka sjálfan sig gagnvart sínum imperíalistum, sem vissulega kærðu sig ekki um að sleppa tökunum á Íslandi, en voru neyddir til þess.

Það var hins vegar mjög gott að fá þær yfirlýsingar hæstv. forsrh., að hann áleit eðlilegt, að þetta yrði föst venja í ríkisstjórnunum framvegis, að svona ætti að fara að, skrá ákvarðanir þær, sem teknar eru á ríkisstjórnarfundum. Ég held, að það væri líka mjög heppilegt. Ég skil vel, að það er ekki hægt að skrá umræður, en að skrá afstöðu manna, þegar ágreiningur er um einhvern hlut, eins og t.d. við skulum segja ef það hefði verið skráð í gömlu þjóðstjórninni, hver afstaða manna hefði verið viðvíkjandi t.d. hugsanlegu banni á Þjóðviljanum eða einhverju slíku, þá þyrftu menn ekki að deila um þetta í dag. Um hvatirnar gegnir hins vegar allt öðru máli, og um það geta menn rifizt endalaust.

Hitt aftur á móti, held ég, að sú n., sem athugar þetta frv., ætti mjög gaumgæfilega að athuga, spursmálið um birtingu á þessu, á hvern hátt almenningi eða fulltrúum almennings eða vísindamönnum sé tryggður aðgangur að þessum hlutum. Ég býst vart við, að það séu í öðrum ríkjum bein lagaleg fyrirmæli um svona gerðabækur, það hefur viðast hvar þótt sjálfsagður hlutur, þó að svo hafi ekki verið hér heima hjá okkur. En um það atriði, sem fjallað er um í 3. gr., finnst mér þurfa að taka endanlega ákvörðun og vil vonast til, að sú n., sem þetta frv. fer til, athugi það mjög gaumgæfilega.