13.12.1966
Neðri deild: 27. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

88. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Björn Pálsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Það er raunar ekki hægt annað en að taka undir það með hv. 3. þm. Reykv., að það er dálítið erfitt að skilja þessi lög, því að þeirra eigin menn skildu þetta ekki í nefndinni, þeir gátu ekki gefið okkur upplýsingar um það. Sannleikurinn er sá, að það er ákaflega leiðinlegt í sjálfu sér fyrir nefndina að afgr. endanlega frv. þannig, að það sé ekki auðskilið, hvað við er átt. Í sannleika sagt áttu þessar 20 millj. ekkert erindi þarna inn í, ef þær eiga að vera óafturkræft framlag hliðstætt við hagræðingarfé frystihúsanna. Það átti ekkert sérstakt erindi inn í þennan framleiðnisjóð, það var nægilegt að setja það á fjárlögin. Ég man ekki betur, ég las fjárlögin einu sinni, ég kann þau raunar ekki utan að þrátt fyrir það, en mig minnir, að þessar 20 millj. séu á fjárlögunum fyrir 1967, sem við erum að samþykkja núna. Mig minnir það. Og þá hafði í raun og veru enga þýðingu að setja þessar 20 millj. þarna inn, aðra en þá, að það er tekið fram, að það eigi að greiðast á árinu 1966. Það er það eina, að það sé þá lagaleg heimild. Ég geri nú ráð fyrir því, að það yrði ekki tekið strangt á því, ef búið yrði að samþykkja það inn á fjárlög fyrir árið 1967, þó að það yrði greitt fyrir áramótin nú.

Ég skal ekki segja það, ef væri farið í mál út af svona hlut, sem er jafnóskýr og þetta, hvernig eigi að framkvæma hann, hvað dómstólar gerðu. Það má vel vera, að skýring nefndar eða ráðh. ráði þar úrslitum. Og ég hygg, að það væri dálítill vafi á því, ef það lægi ekki fyrir yfirlýsing ráðh., hvað við er átt. En náttúrlega með jafnlítinn hlut og þetta, þá ætti að vera hægt að ganga þannig frá frv., og það hefðum við vitanlega getað, ef það hefði legið ljóst fyrir, hvað stjórnin ætlaði sér, að þetta sé alveg skýrt og óumdeilanlegt.

Hæstv. ráðh. gat um, að það ætti að greiða á árinu 1967 10 millj. Satt að segja hef ég ekki tekið eftir því, að þessar 10 millj. séu á fjárlögum, vera má, og það er vafalaust lagaleg heimild að greiða þetta, þegar búið er að samþykkja sérstök lög, þó að það sé ekki á fjárlögum fyrir árið 1967, á fjárlögum, sem við erum að samþykkja. En það er nú svona, það er ekki svo glöggt, hvað við er átt hér, og ég skildi það svo, að þetta ætti að koma inn á fjárlög fyrir árið 1968, fjárlögin, sem næst verða samþykkt. En ráðh. upplýsir, að það sé átt við hitt, að það eigi að greiða það á næsta ári, þó að það sé ekki komið inn á fjárlög nú, hvort sem það verður sett við 3. umr. eða alls ekki sett inn á fjárlög og greitt bara eftir sérstökum lögum. En þrátt fyrir það, þó að það komi að ári, þá er það nú ekki mikið, sem gert verður við það, því að það verður sennilega ekki greitt fyrr en síðari hluta ársins, þannig að ég skil ekki, að verði mikið gert við þessa upphæð árið 1967. Og rétt er það hjá ráðh., að það er alltaf hægt að breyta lögum, það er náttúrlega alltaf hægt að framlengja þetta framlag, það verður að hækka eða lækka, eftir því sem Alþingi ákveður í hvert sinn, og jafnvel afnema. En skoðun okkar var sú, þessara tveggja, sem flytjum þessa brtt., að ef á annað borð væri farið í að mynda þennan framleiðnisjóð, sem vafalaust getur gert talsvert gagn, ef rétt er með farið, jafnvel þó að það megi deila um, hvort það er rétt að hafa sjóðina svo óskaplega marga og sérstaka stjórn fyrir hvern sjóð og sérstakt bókhald, það getur verið alltaf álitamál og eru kannske orðnir fullmargir sjóðir í þessu landi, — að þá, ef á annað borð er farið að mynda sérstakan sjóð fyrir landbúnaðinn, við skulum segja til að auka framleiðnina, gera hann léttari í rekstri og hagkvæmara rekinn, þá held ég, að veiti ekkert af 50 millj. kr. stofnframlagi. En hitt er rétt, að það er náttúrlega hægt að bæta við eitthvað síðar. En það væri alveg eins hægt, þó að það væru bara samþykktar 10 millj. fyrir árið 1967 og svo væri næsta þing. Það má alltaf segja svo, það er eilíflega hægt að halda áfram að breyta. Skoðun okkar er sú, að ef á að stofna þennan sjóð, þessara tveggja, sem flytjum þessa till., — ég geri nú ekki ráð fyrir því, að ég tali meira fyrir því, — að það veiti ekkert af 50 millj. til þess.