13.02.1967
Neðri deild: 40. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í C-deild Alþingistíðinda. (1871)

96. mál, verkfræðiráðunautar ríkisins á Norður-, Austur- og Vesturlandi

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 191, er flutt af okkur tveim þm., hv. 2. þm. Sunnl. og mér, og hefur áður verið flutt hér í hv. d. sama efnis og nú.

Við flm. þessa frv. áttum fyrir nokkrum árum sæti í stjórnskipaðri n., sem nefnd var staðsetningarnefnd ríkisstofnana, en í þeirri n. áttu sæti auk okkar Ásgrímur Hartmannsson bæjarstjóri á Ólafsfirði, Gunnlaugur Jónasson bankaritari á Seyðisfirði, Jónas Guðmundsson framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga og Jóhann Gunnar Ólafsson sýslumaður og bæjarfógeti á Ísafirði, en síðar í hans stað Sturla Jónsson hreppstjóri á Suðureyri. Þessi n. gerði ýmsar till. til ríkisstj., og meðal þeirra till. var þetta frv., sem hér liggur fyrir um verkfræðiráðunauta ríkisins á Norður-, Austur- og Vesturlandi.

Mál þetta var alllengi til athugunar í rn., en hefur ekki verið flutt af ríkisstj., og þá þótti okkur hv. 2. þm. Sunnl. rétt og skylt fyrir okkur sem nm. að hlutast til um, að Alþ. fengi aðstöðu til þess að kynnast þessu frv. og taka til þess afstöðu. Það var, eins og ég sagði áðan,flutt á síðasta þingi, en varð þá ekkí útrætt. Ég ætla, að því hafi verið vísað til n., ef ég man rétt, en nál. ekki komið, a.m.k. hlaut það ekki afgreiðslu í þinginu.

Eins og kunnugt er, hefur ríkið með höndum miklar verklegar framkvæmdir í almannaþágu um land allt, svo sem vegagerð, hafnargerð, lagningu síma, byggingu ýmissa húsa vegna opinberrar þjónustu o.s.frv. Þessum verklegu framkvæmdum víðs vegar um land er stjórnað af ríkisstofnunum, sem eru staðsettar hér í höfuðborginni, og þessar ríkisstofnanir hafa í sinni þjónustu sérfróða menn, verkfræðinga og aðra, og annað starfsfólk, sem einnig er staðsett hér, og héðan er öllum þessum framkvæmdum stjórnað. Þar eru gerðar rannsóknir og áætlanir um framkvæmdirnar og þeim síðan stjórnað frá þessum eina stað, hvar sem þær eiga sér stað á landinu, eða fjarstýrt héðan, eins og það er stundum orðað. Sendimenn frá þessum ríkisstofnunum eru svo meira eða minna á ferðinni um landið, einkanlega á sumrin, þegar vegir eru færir, til þess að gera athuganir og áætlanir og hafa með höndum umsjón framkvæmda.

Mér er það í barnsminni, þegar það gerðist fyrir 50 árum eða þar um bil á Norðausturlandi, að tvær steinsteyptar nýgerðar brýr hrundu. Það var brú yfir Miðfjarðará á Strönd og Hölkná í Þistilfirði, mikil mannvirki. Þær hrundu, þessar brýr, skömmu eftir að þær höfðu verið byggðar. Það var mikið um þetta talað þá, og það var álit margra hinna eldri manna, að þetta hefði komið af því, að verkfræðingarnir, sem héðan komu til þess að ákveða brúarstæðin, væru ekki nógu kunnugir, hefðu komið á staðinn að sumarlagi, þegar vötn eru lítil, og ekki gert sér grein fyrir því, hve þessi vötn verða mikil í vorleysingum, og að þeim hefði þótt það ótrúlegt, þegar þeir, sem nærri bjuggu þessum vötnum, sögðu þeim, hvað þau gætu orðið mikil. En hvort sem þetta var ástæðan eða ekki, varð sú niðurstaðan, að vatnavextir í leysingum tóku þessar brýr. Menn töldu það vera vegna þess, að þeir, sem þarna lögðu á ráðin, hefðu ekki verið nógu kunnugir. Og það gefur auga leið, að það getur verið erfitt fyrir mann, þótt sérfróður sé og vel lærður á sínu sviði, að eiga að ákveða á skrifstofu sinni í Reykjavík vegastæði hér og þar um landið og hafa t.d. aldrei sjálfur séð snjóalög á Norðurlandi, eins og þau geta orðið í skammdeginu, eða fyrir mann að ákveða stað fyrir hafnargarð eða bryggju, sem aldrei hefur séð brimskaflinn á hafnarstað, eins og hann verður, þegar hafrótið er mest um vetur. Þetta gefur auga leið. Um þetta hefur oft verið talað manna á milli og að það væri æskilegt, að þeir, sem um þessi mál eiga að fjalla, væru staðsettir víðs vegar um landið, þar sem hægt er að vera í snertingu við náttúruöflin, eins og þau eru á þeim tíma árs, þegar þau láta mest til sín taka.

Ég vil ekki segja, að þetta sé beinlínis meginástæðan til þess, að n. sú, sem ég hef hér rætt um, samdi það frv., sem fyrir liggur, en ein ástæðan var þetta, að það var álitið, að það væri heppilegt að koma því svo fyrir, að sérfróðir menn, sem eiga að gera áætlanir um framkvæmdir í fjarlægð frá höfuðborginni og síðan að stjórna þeim, væru staðsettir nær þeim landssvæðum, sem þar er um að ræða, og hefðu þannig aðstöðu til þess að framkvæma betri rannsóknir byggðar á reynslu.

Efni þessa frv., sem n. samdi og hér liggur fyrir, er samkv. 1. gr. frv., að ráða skuli 3 verkfræðiráðunauta til starfa í tilteknum umdæmum, einn í Norðurlandsumdæmi, annan í Austurlandsumdæmi, þriðja í Vesturlandsumdæmi. Það er gert ráð fyrir, að verkfræðiráðunautur Norðurlandsumdæmís hafi aðsetur á Akureyri, verkfræðiráðunautur Austurlandsumdæmis í Egilsstaðakauptúni og verkfræðiráðunautur Vesturlandsumdæmis á Ísafirði og að umdæmi hans taki yfir Vestfirðingafjórðung norðan Gilsfjarðar. Gert er ráð fyrir því, að þessir verkfræðiráðunautar hafi undir yfirumsjón vega- og vitamálastjóra umsjón með vega- og hafnarmannvirkjagerð í umdæmum sínum og á sama hátt með höndum undirbúningsrannsóknir og áætlanagerð í sambandi við slík mannvirki, svo og viðhald þeirra, að því leyti sem ríkið lætur slíkt til sín taka, en að yfirstjórn þessara mála sé eftir sem áður í höndum stofnananna hér í Reykjavík. Það er einkum gert ráð fyrir því, að þarna sé um að ræða vega- og hafnarmannvirki og að verkfræðiráðunautarnir og skrifstofur þeirra heyri undir vegamálastjórn og vitamálastjórn, sem sé undir tvo aðila, og má vera, að mönnum þyki við fyrstu sýn, að það sé ekki alls kostar eðlilegt. En á það má benda í því sambandi, að t.d. sýslumenn landsins heyra undir fleiri en eitt rn. vegna starfa sinna og taka við fyrirmælum frá þeim, og er komin reynsla á, að slíkt er ekki til baga.

Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að verkfræðiráðunautur geti gegn hæfilegri þóknun til ríkisins verið til ráðuneytis bæjarstjórnum, sýslunefndum og sveitarstjórnum við mannvirkjagerð í umdæmi sínu, þar sem því verður við komið og ríkisstj. samþykkir. Það er sem sagt einn þáttur þessa máls að aðstoða á þennan hátt bæjar- og sveitarfélögin, sem oft eiga erfitt með að fá verkfræðilega aðstoð nærri sér, og talið er, að það mundi verða þeim til mikils hagræðis, ef þau ættu beinan aðgang að þessum verkfræðiráðunautum ríkisins í landsfjórðungnum. Þess er svo að geta, að hér er rætt aðeins um Norðurland, Austurland og Vestfirði, en ekki Suðurland eða Vesturland sunnan Gilsfjarðar, og er þá ætlazt til þess, að önnur landssvæði njóti starfa þjónustustofnananna hér í Reykjavík.

Ég skal ekki rekja nánar efni þessa frv., enda liggur það hér fyrir og er í höndum þm. En ég vil leyfa mér að lesa stuttan kafla úr því áliti frá n., sem á sínum tíma fylgdi þessu frv. til ríkisstj. Þar segir svo m.a.:

„Frv. þetta er byggt á þeirri skoðun, að æskilegt sé, að opinberar framkvæmdir séu, eftir því sem við verður komið, sjálfstæð starfsemi í hverjum landsfjórðungi eða landshluta, og þá jafnframt því áliti, að stjórn þessara mála og sérþekkingu á þeim sé nú um of safnað saman í höfuðstað landsins. Í frv. er gert ráð fyrir,“ segir enn fremur í áliti n., „að skipaðir verði sérstakir verkfræðiráðunautar í þjónustu ríkisins, einn fyrir Norðurland, annar fyrir Austurland og þriðji fyrir Vestfirði, enda hafi þeir fast aðsetur hver í sínu umdæmi.“ Enn fremur segir svo í þessu áliti: „Að sjálfsögðu yrði ríkið að sjá verkfræðiráðunautunum fyrir hæfilegum starfsskilyrðum á hverjum stað, svo sem skrifstofuhúsnæði og starfskröftum til aðstoðar eftir því, hve mikil verkefnin reynast, m.a. sérfræðilegri aðstoð, ef á henni þarf að halda. Á það verður að leggja áherzlu, er til kemur,“ segir n., „að þannig verði að þessari starfsemi búið, að hægt sé að fá vel hæfa menn og áhugasama til að gerast verkfræðiráðunautar. Er sennilegt, að samvinna sú á milli ríkis og sveitarfélaga, sem frv. gerir ráð fyrir, geti miðað í þá átt, ef vel er á haldið. En árangur af þeim ráðstöfunum, sem hér er um að ræða, verður að miklu leyti undir því kominn,“ segir n., „hvernig til tekst um val ráðunautanna. Verkfræðingar þeir, sem skipa sæti verkfræðiráðunauta á Akureyri, Ísafirði og Egilsstöðum, verða að vera þess umkomnir að vera sjálfstæðir í starfi, þannig að þeim megi yfirleitt treysta eigi síður en hinum, sem starfa í aðalstöðvunum í Reykjavík, enda þótt yfirstjórnin syðra hafi úrskurðarvald og gefi fyrirmæli, ef á þurfi að halda.

Í frv. er gert ráð fyrir, að sett verði ákvæði um það í reglugerð, að hve miklu leyti verkfræðiráðunautar eða skrifstofur þeirra skuli hafa með höndum fjármál í sambandi við störf sín. Er þar einkum átt við útborganir vegna framkvæmda. Hér er um mikilsvert mál að ræða, sem n. telur ekki rétt að gera ákveðnar till. um að svo stöddu. Hún telur það aðalatriðið í þessu máli, að verkfræðistofnunum á Akureyri, Ísafirði og Egilsstöðum verði komið á fót á þann hátt, sem um er rætt í frv. þessu og grg., en starfshættir þeirra og verksvið verði síðan að skapa smátt og smátt með hliðsjón af reynslu. Mætti þá svo fara, að stofnanir þessar yrðu, er tímar líða, alveg sjálfstæðir aðilar, hver í sínum landshluta, gagnvart fjárveitingavaldi og ríkisstj. „Ef sæmilega tekst til,“ segir enn fremur í nál., „verður að ganga út frá því, að verkfræðiráðunautar á Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum létti störfum af hlutaðeigandi yfirstofnunum í Reykjavík og ekki þurfi því að verða verulegur kostnaðarauki af því fyrirkomulagi, sem hér er stungið upp á. Hins vegar telur n., að því mundi verða vel tekið af mörgum. Mikið gagn ætti að geta af því orðið fyrir hlutaðeigandi landshluta, ef rétt er á haldið.“

Þetta, sem ég nú hef lesið, eru kaflar úr því áliti frá staðsetningarnefnd ríkisstofnana, sem fylgdi frv. til hæstv. ríkisstj. Ég hef áður rætt þetta mál, þegar það var til meðferðar á síðasta þingi, og tel ekki ástæðu til þess að flytja um það lengri ræðu. Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.