14.02.1967
Neðri deild: 41. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í C-deild Alþingistíðinda. (1889)

109. mál, sala Skarðs í Snæfjallahreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv., sem ég flyt hér á þskj. 205, er um heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja eyðijörðina Skarð í Snæfjallahreppi bóndanum á Tyrðilmýri, en þar hefur farið fram mikil ræktun að undanförnu. Innan ekki langs tíma verður allt ræktanlegt land fullnýtt og eykst þá þörfin mjög fyrir annað og stærra beitiland, og tel ég því mjög eðlilegt, að eyðijörðin Skarð, sem engin líkindi eru til að verði byggð aftur, verði seld bóndanum til þess að tryggja betur búskap hans á Tyrðilmýri. Ég vil einnig geta þess, að þetta er nyrzta jörðin á Snæfjallaströnd, sem er í byggð í Norður-Ísafjarðarsýslu, og það hafa verið gerðar í þessum hreppi miklar ræktunarframkvæmdir og búskapur hefur þar aukizt og dafnað mjög á síðustu árum, og tel ég rétt að verða við þeirri beiðni að tryggja betur stækkun búa á þessum stað, og ,ég hygg, að þessi eyðijörð verði ekki betur nýtt en að selja hana bóndanum á Tyrðilmýri.

Ég legg svo til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. allshn.