16.02.1967
Neðri deild: 42. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í C-deild Alþingistíðinda. (1901)

116. mál, uppsögn varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Við þm. Alþb. í þessari hv. d. höfum leyft okkur að flytja frv. á þskj. 216 um uppsögn varnarsamnings á milli Íslands og Bandaríkjanna. Alþb.-menn í Ed. standa einnig að þessu frv., þó að þeir geti ekki flutt það.

Þetta frv. gengur í stuttu máli út á það, að ríkisstj. skuli falið að æskja endurskoðunar á varnarsamningnum á milli Íslands og Bandaríkjanna frá 5. maí 1951 skv. heimild í 7. gr. samningsins og síðan segja samningnum upp, þegar endurskoðunarfresturinn, sem í samningnum er ákveðinn, leyfir það. Jafnframt er í 2. gr. sett sú ákvörðun, að þar sem þessi samningur var um leið með sérstökum lögum látinn öðlast lagagildi á Íslandi, skuli þau lög falla úr gildi, þegar samningnum er sagt upp. Og í 3. gr. er ákveðið, að þær framkvæmdir, sem herinn hér á landi nú stendur að, sérstaklega framkvæmdirnar í Hvalfirði, skuli þá stöðvaðar.

Það er rétt að fara nokkrum orðum um þennan samning, svo þýðingarmikill og umdeildur sem hann hefur verið í íslenzkum stjórnmálum undanfarin 16 ár, og vil ég rifja nokkuð upp, hvernig hann er til kominn.

Að mínu álíti var þessi hernámssamningur, þegar hann var gerður 1951, liður í þeirri fyrirætlun Bandaríkjanna að gera Ísland að hernaðarbækistöð sinni til langs tíma, þáttur í þeim fyrirætlunum, sem einkennt hafa Bandaríki NorðurAmeríku eftir styrjöldina, að safna sér herstöðvum víða um heim og reyna með því mótí að ná eins konar drottinvaldi yfir jarðkringlunni. Við urðum fyrst varir við þessa viðleitni, Íslendingar, hinn 1. okt. 1945, þegar tilkynnin barst frá stjórn Bandaríkjanna til ríkisstjórnar Íslands um,. að Bandaríkin óskuðu eftir því að fá hér herstöðvar til 99 ára, þrjú tilgreind íslenzk landssvæði sett undir ameríska stjórn. Það var landssvæðið, þar sem Keflavíkurflugvöllur er, landssvæði við Skerjafjörð og partur af Skerjafirði og ákveðinn hluti af Hvalfirði. Þá var meiningin eftir þeim tilmælum, að þetta yrðu raunverulega algerlega amerísk yfirráðasvæði, sem Íslendingum væri óheimilt að koma inn á nema með amerísku leyfi, svo sem er um þær herstöðvar, sem Bandaríkjamenn hafa þannig víða úti um heim. Og það var tilgáta okkar margra, að með þessu væri verið að framfylgja þeim samningi, sem gerður var 1941, þar sem Bandaríkin fengu herstöðvar hér, meðan á stríðinu stóð, og Englendingar um leið létu opinberlega af því að krefjast hér herstöðva, og við litum ýmsir svo á, að þetta væri þáttur í þeirri viðleitni Bandaríkjastjórnar, sem áður hafði fram komið, að knýja Englendinga til að afhenda sér herstöðvar í nýlendum Breta í Vesturheimi til 99 ára, þetta væri viðleitni í þá átt að tryggja sér ítök, sem brezka heimsveldið sumpart hafði haft áður eða öðlazt, á meðan á stríðinu stóð, og svo til viðbótar allt það, sem Bandaríkin síðan hafa reynt að ná.

Það var vitað, að samningurinn 1941 rann út að áliti okkar Íslendinga, þegar stríðinu lauk. En Bandaríkjastjórn hélt fram öðrum skilningi á því máli og ætlaði auðsjáanlega þá að færa sig upp á skaftið og tryggja sér hér herstöðvar til 99 ára. 1. okt. 1945 var enn ekki um neitt að ræða, sem hét Atlantshafsbandalag, ekki neitt, sem átti að heita að verja eða vernda lýðræði eða vestræna menningu eða neitt slíkt. Till. frá Bandaríkjastjórn 1. okt. 1945 voru einberar yfirdrottnunartilhneigingar frá hálfu Bandaríkjastjórnar, þar sem sú stjórn seildist eftir því að ná hernaðarlegum ítökum á Íslandi til heillar aldar. Það kom svo greinilega fram, að ekki verður um villzt, hver tilgangurinn var með þeirri stefnu, sem Bandaríkjamenn síðan hafa fylgt. Það var kannske ljósara en ýmsir forustumenn Bandaríkjanna á ýmsum stigum höfðu kært sig um að láta það verða, hver þeirra raunverulegi tilgangur var: að tryggja sér herstöðvar á Íslandi án tillits til alls annars en að hér væru herstöðvar Bandaríkjamanna, án tillits til alls, sem þýddi annars þróun í Evrópu eða samstarf við þjóðirnar í Vestur-Evrópu. Það voru einmitt höfð þau orð af þáverandi forsrh., Ólafi Thors, eftir að þessu samningstilboði var neitað, að þjóðin hefði litið svo á, að með þessu væri tilætlunin að stjórna okkar gamla landi frá þeirra nýja landi og þess vegna hefði þjóðin risið upp. Og þess vegna var þessum tillögum neitað þá. 1946 fengu Bandaríkin því hins vegar framgengt, þegar herinn opinberlega séð átti að fara héðan burt, að þeim var leigður Keflavíkurflugvöllur til 5 ára, og mátti framlengja það til 1 árs í senn, er sá tími væri útrunninn. Þá var svo látið heita, að það skyldi ekki vera herlið, sem væri á Keflavíkurflugvelli, en við ýmsir, sem andstæðir vorum þeim samningi úr þrem flokkum þingsins, héldum því fram hins vegar, að það væri aðeins verið að klæða þá hermenn í borgarlegan búning, sem verið höfðu þar í berstöðinni áður. Og með Keflavíkursamningnum náðu Bandarfkjamenn fyrstu opinberu ítökunum í íslenzku landi, eftir að stríðinu lauk, og var þó sá samningur opinberlega látinn heita: Samningur um brottför ameríska hersins af Keflavíkurflugvelli eða af Íslandi.

Því næst tóku Bandaríkin að reyna að tryggja sér efnahagsleg ítök á Íslandi og áhrif á íslenzka löggjöf. Það gerðist með Marshall-samningnum, sem öllum er í fersku minni. Það mun upphaflega hafa verið tilgangur þeirrar ríkisstjórnar, sem að þeim samningi stóð, að með þeim samningi væri Ísland aðeins að taka þátt í samhjálp við önnur lönd í Evrópu, og ég man eftir, að núv. hæstv. forsrh. hafði þau orð um, þegar sá samningur var lagður hér fram, að Ísland mundi verða veitandi, en ekki þiggjandi í sambandi við það, sem þá var kallað Marshall-aðstoð. Það reyndist öfugt. Ísland varð meir og meir háð Bandaríkjunum og lánastofnunum, sem þau réðu yfir, á næstu árum, og gekk svo langt þá t.d. um afskiptin af löggjöf okkar hér á Alþingi, að eftir að helmingastjórnin gamla hafði sett frv., sem bannaði Íslendingum að byggja nema með sérstöku leyfi nefndar í Reykjavík, tókst okkur nokkru seinna hér í Nd. að fá samþ. lagafrv., þar sem ákveðið var að hnekkja þessu banni, þá var það lagafrv. stöðvað í Ed. með hótunum frá hinum efnahagslega fulltrúa Bandaríkjamanna hér á landi þá um, að það yrði ekki veitt leyfi frá hálfu Bandaríkjanna og þeirra stofnana, sem þau hefðu með að gera, til að veita lán úr mótvirðissjóðnum, svo framarlega sem ætti að samþ. svona lög. Gengislækkunin 1950 var einnig samþ. einmitt eftir kröfum samsvarandi aðila, þannig að áhrif Bandaríkjastjórnar á íslenzka löggjöf og íslenzka ríkisstj. voru orðin mjög rík á þessu skeiði.

Síðan var Kóreustríðið 1951 notað sem átylla til þess að krefjast hér herstöðvar, til þess að hernema Ísland á ný opinberlega. Þetta var gert þrátt fyrir það að við hefðum það skýrt og skorinort í yfirlýsingum, ekki aðeins frá þeirri ríkisstj. Íslands, sem stóð að Atlantshafssamningnum 1949, heldur og frá samningamönnum hennar við Bandaríkjastjórn og frá utanrrh. Bandaríkjanna, að hér yrði ekki farið fram á herstöðvar á friðartímum, og ef ég man rétt, sagði meira að segja sá forsrh., sem var, þegar Atlantshafssamningurinn var samþykktur, ef verið væri að ræða um herstöðvar í sambandi við þetta mál og það væri meiningin, þyrfti maður ekki að ræða þetta mái meir, þá væri það úr sögunni. Og ég þóttist finna á öllu, að það væri raunverulega með samvizkunnar mótmælum, sem þeir menn, sem samþykktu hernámssamninginn 1951, gerðu það, ríkisstj. líka, bæði vegna þess, að þeim þótti raunverulega undir niðri gengið á þau loforð, sem Bandaríkjastjórn hafði gefið, og hins, að þeir höfðu sjálfir gefið svo ákveðnar yfirlýsingar áður, að þeim þótti nú vera nokkuð út frá þessu öllu brugðið. Þessar efasemdir, mér liggur við að segja samvizkubit, valdamannanna komu fram í því, að þeir treystu sér ekki til þess að kalla Alþ. saman og láta Alþ. fjalla um þetta mál. Það var gert að Alþ. fornspurðu í maí 1951 að hleypa Bandaríkjaber hér inn í landið. Án löglegra aðgerða af hálfu Alþ. var erlendur her látinn taka sér bólfestu í landinu. Og þegar Alþ. kom saman um haustið, var búið að stilla Alþ. frammi fyrir fullgerðum staðreyndum. Landið var hersetið, og Alþ. átti síðan að fara að ræða um þetta mál í hersetnu landi, sem þýddi það náttúrlega, að þorri þm. vissi, að ógæfan var skeð, og tók meira eða minna máske af hollustu gagnvart sínum flokksforingjum og ríkisstj. afstöðu með því að samþykkja þau lög, sem nú er lagt til að afnema.

Sú hugmynd, sem ég fékk um afstöðu margra þeirra manna, sem annars voru þessum samningi fylgjandi á yfirborðinu, var sú, að þeir væru mjög efins í, hvort það væri rétt, sem þeir gerðu. Mér er það enn þá minnisstætt, að 9. ágúst 1951, nokkrum mánuðum eftir að herinn gekk hér á land, gerðist það þennan dag, sem var 100 ára afmæli þjóðfundarins eða réttara sagt þjóðfundarslitanna, þess atburðar, þegar Íslendingar í fyrsta skipti sameinuðust þjóðlega gegn þeim danska yfirgangi, stóðu allir sem einn maður að þeim mótmælum, sem þá voru gerð, og það þó að danskur her væri þá í landinu, — þennan dag minntist Morgunblaðið, málgagn Sjálfstfl., ekki á þetta 100 ára afmæli. En sú þögn talar hærra en mörg orð, sem hefði verið hægt að segja. Ég held þess vegna, að þeir, sem stóðu að hernámssamningnum 1951, hafi sjálfir verið margir hverjir mjög efins í, að það væri rétt, sem þeir gerðu. Hins vegar var vitanlegt, að andrúmsloftið var erfitt, kalda stríðið í algleymingi, Kóreustríðið byrjað, og það var máske ekki mjög erfitt fyrir þann volduga vestræna heim að hafa slík áhrif á valdamenn hér á Íslandi þá, að þeir gengju inn á að kalla þennan her inn í landið.

Við fulltrúar Sósfl., sem þá áttum sæti á Alþ., mótmæltum þessum samningi, þegar Alþ. kom saman, og lýstum því yfir, að við álitum hann ólöglega til kominn og vera þvingaðan upp á þjóðina og það hefði verið okkar álit allan tímann á þessum samningi hvað form hans snertir.

Síðan þessi samningur var gerður, eru nú liðin 16 ár. Bandaríkin hafa á þessum tíma nokkuð fært sig upp á skaftið hér á Íslandi, og það er auðséð, að þau eru nú í sambandi við það, sem er að gerast í Hvalfirði, að búa sig undir það að vera hér til alllangs tíma, ef þau fá því sjálf ráðið. Þau hafa líka á þessum tíma verið að reyna að ná sterkari og sterkari ítökum í okkar innanlandsmálum og reyna að hafa vaxandi áhrif á landsmenn. Sjónvarpsmálið allt saman er gott dæmi um slíkt. Það hefur verið svo mikið rætt um þá menningarlegu hættu, sem af hermannasjónvarpinu stafi, og þau áhrif, sem Bandaríkin og Bandaríkjastjórn geti með því haft, að ég skal ekki fjölyrða um það hér. Ég skal aðeins minna á, að einn af þeim mönnum Sjálfstfl., sem ákveðnast hafa um þessi mál talað til að gagnrýna þau áhrif, Sigurður Líndal, sagði í þeirri ræðu, sem hann flutti 1. des. 1965 á vegum stúdenta og útvarpað var þá, þessi orð, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér er í rauninni um að ræða mjög freklega íhlutun Bandaríkjamanna um innanlandsmál Íslendinga og vægast sagt ótrúlega ögrandi framkomu. Sá tvískinnungur Bandaríkjamanna, sem hér birtist, að telja sig vera verndara smáþjóðar, en reyna um leið að grafa undan tilveru hennar innan frá, er vægast sagt heldur ógeðfelldur.“

Ég veit ekki og skal engum getum um það leiða, í hve ríkum mæli þeir valdamenn, sem hleyptu ameríska sjónvarpinu inn í landið, hafa gert sér ljóst, hver hætta var þar á ferðum. Margir þeirra hafa vafalaust fyrst áttað sig á því eftir á, hvílíkt ógæfuspor þeir voru að stíga, og jafnvel minnir mig, að yfirlýsingar liggi fyrir frá sumum þeirra um það, að þeir mundu aldrei hafa leyft þetta, ef þeir hefðu gert sér grein fyrir. hvað af því leiddi. En eitt er víst, að þetta ameríska sjónvarp er búið að skapa slíkt þýlyndi á meðal þeirra Íslendinga ýmissa, sem á það hafa horft, að meira að segja sjálfir valdamenn þjóðarinnar eru nú orðnir hræddir við þetta þýlyndi þegna sinna, að menn eru farnir að óttast kosningaleg áhrif af því t.d. að loka umsvifalaust fyrir ameríska sjónvarpið.

Ég skal ekkert fjölyrða um það andlega, siðferðilega og menningarlega tjón, sem við höfum beðið af þessari 16 ára hersetu. Í öllu falli er tími til kominn, frá hvaða sjónarmiði sem það er skoðað, að þessari hersetu linni, og því er þetta frv. flutt. Við álítum, að það megi ekki lengur við svo búið standa, en Alþingi Íslendinga kveði á um, að þessum samningi verði upp sagt. Það er rétt að athuga í þessu sambandi nokkuð þau rök, sem verjendur hernámsins komu með á árunum eftir að það hófst og hafa jafnvel stundum verið með síðan. Þeirra fyrstu og höfuðrök voru, að árás á Ísland gæti orðið gerð hvenær sem væri og þess vegna væri Íslandi þörf á því sér til varnar að hafa hér amerískan her.

Í fyrsta lagi hvað snertir árásina, sem yfirvofandi væri, var það alltaf blekking. En jafnvel þó að menn hafi greint á um það, hvort það hafi verið blekking, á þeim tíma, sem þetta mál var notað mest, mun þó svo komið nú, og kem ég betur að því síðar, að vart mun sá maður finnast, sem leyfir sér að halda því fram nú, að árás á Ísland sé yfirvofandi og þess vegna sé nauðsynlegt að hafa herinn. Í öðru lagi: Íslandi hefur aldrei verið vörn í því að hafa hér amerískan her. Í kjarnorkustríði, og slíkt stríð var raunverulega það eina hugsanlega, ef til vopnaviðskipta hefði komið á milli þeirra stórvelda, sem þá var um rætt, — í kjarnorkustríði er í fyrsta lagi engin vörn til og sízt af öllu fyrir okkur hér. Herstöðvarnar voru ekki til þess að verja Ísland. Þær voru í raun og veru til þess að draga að sér fyrstu skeyti, fyrstu eldflaugar, ef styrjöld hefði hafizt, þær eru nokkurs konar hlífiskjöldur fyrir Bandaríkin. Það var þess vegna vitað, að herstöðvar á Íslandi voru aldrei nein vörn, heldur buðu þvert á móti hættunni heim. Það hefur verið afstaða okkar hernámsandstæðinga allan tímann gagnvart því spursmáli, hvort við þyrftum að hafa hér amerískan her, vegna þess að það tryggði að einhverju leyti Íslendinga.

En hvernig svo sem við höfum á undanförnum 1 1/2 áratug deilt um þessi mál, og mikið af þeim deilum heyrir nú sögunni til, er ástandið þannig í dag, að við ættum nokkurn veginn að geta komið okkur saman um, hvernig ástandið sé í dag á þeim svæðum, sem snerta Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, og hvort þessara hervarna hér og herstöðva sé meira að segja frá sjónarmiði þeirra, sem álíta einhverja vörn í þeim, en ekki hættu, að einhverju leyti þörf. Herstöðvarnar voru settar hér á einu erfiðasta tímabili kalda stríðsins. Kalda stríðinu er lokíð nú. Þær þjóðir og þau stórveldi, sem menn þá bjuggust við ýmsir hverjir að mundu fara að berast á banaspjót, hafa nú tiltölulega vinsamleg samskipti sín á milli. Verzlunar- og menningarviðskipti aukast milli þeirra í mjög ríkum mæli, og mjög almennt er meira að segja farið að ræða það, hvort ekki þurfi að stefna að því að leggja niður bæði Atlantshafsbandalagið og Varsjárbandalagið. Ástandið í Evrópu er orðið gerbreytt frá því, sem fyrr var. Meira að segja sá aðili, sem hvað erfiðastur hefur verið venjulega í þessum viðskiptum, sem sé ríkisstj. Vestur-Þýzkalands, er sjálf farin að lýsa yfir, að hún álíti kalda stríðinu lokið og það verði að taka upp alveg nýja stefnu í utanríkismálum. Og það land Atlantshafsbandalagsins, sem löngum var skoðað sem hornsteinninn að öllum hugsanlegum hernaðarframkvæmdum Atlantshafsbandalagsins á meginlandi Evrópu, sem sé Frakkland, það land er ekki lengur með. í þeirri hernðarsamvinnu, sem Atlantshafsbandalagið sem slíkt skipuleggur, þannig að raunverulega er grundvöllurinn undir þeirri hugsanlegu hernaðarlegu samvinnu Atlantshafsbandalagsríkjanna á meginlandi Evrópu brott fallinn. Frakkland hefur vísað öllum amerískum herstöðvum burt frá sér, og þegar einn sterkasti bandamaður Bandaríkjanna í Evrópu gerir slíkt, hvaða þörf er þá fyrir Ísland að hafa slíkar herstöðvar áfram? Það eru þó vissulega aðilar, sem vita, hvað þeir eru að gera í þessum efnum, og alveg greinilegt, hvernig þeir meta þetta ástand. Mér þætti það satt að segja mjög hart, ef kalda stríðið og allur þess hugsunarháttur ætti að lifa lengur á Íslandi en í nokkru öðru ríki, sem Atlantshafsbandalaginu tilheyrir.

Ég álít þess vegna, að þeir, sem hafa verið fylgjandi herstöðvunum hér á Íslandi út frá hernaðarlegum sjónarmiðum og með tilliti til bandamanna Íslands í Evrópu og Norður-Ameríku, ættu að geta á það fallizt nú, að allar þær forsendur frá hernaðarlegu sjónarmiði, sem þeir hafa haft áður, séu nú brott fallnar. Ef menn virkilega eru inni á því að fara að halda herstöðvum á Íslandi lengur, fæ ég ekki varizt þeim grun, að í því felist, að þessar herstöðvar eigi að geymast, meira að segja þó að Atlantshafsbandalagið liði undir lok, handa þeim aðila, sem upphaflega reyndi að ná sér í þær hér fyrir sig einan, sem sé fyrir Bandaríkin. Ég fæ ekki betur séð, ekki sízt með þeim fordæmum, sem Frakkland hefur gefið, en það sé orðið sjálfsagður hlutur fyrir þá menn, sem þótti nauðsynlegt 1951 að kalla ameríska herinn hér inn í landið út frá því ástandi, sem þá var í Evrópu, út frá þeirra eigin sjónarmiði sé það orðið sjálfsagt mál að láta þennan her nú fara. En önnur og vissulega allmikilvæg rök, sem oft hefur verið beitt í sambandi við þetta herstöðvamál, eru þau, að herstöðvarnar hér á Íslandi séu nauðsynlegur þáttur Íslands í verndun vestrænnar menningar, í svo að segja samvinnu þjóða um að varðveita vestræna menningu. Það er því miður oft svo með þetta orð, vestræn menning, að það er notað þannig, að maður skrifar það varla án þess að setja um það gæsalappir. En ef við hins vegar viljum tala um vestræna menningu gæsalappalaust, vil ég segja, að hernámið og vestræn menning eiga að mínu áliti ekkert skylt. Og í þeim umr., sem óhjákvæmilega koma til með að fara fram á næstu árum hér á Íslandi um þessi mál, held ég, að sé frá upphafi nauðsynlegt, að við sláum því föstu, hvorum megin sem við annars stæðum í þeim umr., hvernig við lítum á vestræna menningu út af fyrir sig, allt svo hvað snertir hennar stjórnmálaþátt. Ég ætla ekki að fara hér að ræða um vestræna menningu hvað snertir skáldskap, tækni, vísindi og annað slíkt. En það er tvennt fyrst og fremst, sem ég hef alltaf litið á sem það stóra framlag vestrænnar menningar til heimsmenningarinnar hvað stjórnmálin snertir. Annað er þjóðfrelsis- og lýðræðiskenningin. Hitt er sósíalisminn, marxísminn.

Sjálf þjóðfrelsis- og lýðræðiskenningin, bæði eins og hún hefur verið framkvæmd í VesturEvrópu á sínum tíma og með byltingunni og uppreisninni í Norður-Ameríku á sínum tíma, hefur verið einn hornsteinn vestrænnar menningar hvað stjórnmálakenningar hennar snertir, og út frá öllum þjóðfrelsiskenningum vestrænnar menningar er ekkert fjær lagi en að knýja smáþjóð eins og Íslendinga til þess að ljá stórveldi eins og Bandaríkjunum herstöðvar í sínu landi, fyrst að heygja þau til þess með ofbeldi undir sérstökum kringumstæðum 1941, síðan að knýja þau, fyrst með Keflavíkursamningnum, af því að þau sögðust ekki fara burt með herinn, nema sá samningur væri gerður, og síðan með hernámssamningnum 1951, þegar herinn er látinn ganga á land, áður en Alþingi hefur samþykkt þann samning, og þannig stillt frammi fyrir fullgerðum staðreyndum, þá er ekkert meira í mótsetningu við allt það framferði, sem Bandaríkin þannig hafa sýnt, heldur en hernám Bandaríkjahers hér á Íslandi.

Því var einu sinni haldið fram af ýmsum, að einmitt Atlantshafssamningurinn og þar með herstöðvarnar hér á Íslandi væru alveg sérstakar aðgerðir á móti sósíalismanum yfirleitt. Sósíalisminn er hins vegar snar þáttur í vestrænni menningu, skapaður af vestrænum þjóðum. Stofnar marxismans voru á sínum tíma sú enska hagfræði, þýzka heimspeki og sá franski hugsjónasósíalismi. Sósíalisminn er eitt af því, sem einmitt vestrænar þjóðir telja með sínum framlögum til heimsmenningarinnar, og ekkert væri fjær eðli vestrænnar menningar en að fara að mynda hernaðarbandalag á móti þeirri stefnu. Hernámið hér á Íslandi hefur aldrei átt neitt skylt við vestræna menningu, og það hefur verið í algerri andstæðu við allar þær beztu hugsjónir, sem vestræn menning hefur lagt stjórnmálakenningum heimsins til. Þess vegna, þegar við ræðum þessi mál, skulum við ekki vera að blanda slíkum málum þar inn í, heldur halda okkur við það eitt, — hvernig sem menn hafa viljað líta á þau mál fyrir 10—15 árum, og það er ég líka vissulega reiðubúinn í dag til að taka upp deilur um, — þá sé hitt aðalatriðið, hvort menn líta þannig á, að í dag séu nokkrar þær forsendur til, sem heimili lengur Alþingi Íslendinga að láta þjóðina búa við það að hafa erlendan her og herstöðvar í sínu landi. Þetta eru þau rök, sem við Íslendingar ættum að taka tillit til. Okkar þjóðernislegu rök, okkar menningarlegu rök og þau rök, sem styðjast við alþjóðaástandið, eins og það nú er orðið, mæla þess vegna með því, að herinn sé látinn fara af landi burt. Ef það kemur fram tregða í þessu máli, ef menn vilja ekki skýrt og skorinort, ekki sízt áður en næstu kosningar fara fram í sumar, segja til um sínar skoðanir í þessum efnum og hver flokkur gera hreint fyrir sínum dyrum, leitar sá grunur á menn, að hætta sé á, að á komandi kjörtímabili eða á komandi árum kunni að verða leitað eftir að halda hér herstöðvum áfram, hvernig svo sem þróunin verður í Evrópu.

Ég vil minna á það, að Bandaríkjastjórn fór fram á herstöðvar hér á Íslandi 1945 og það til 99 ára, áður en Atlantshafsbandalagið var myndað. Þær herstöðvar áttu ekki að vera neinn þáttur í að vernda lýðræði og frelsi o.s.frv., eina og svo fagurlega er að orði kveðið í sáttmálanum um Atlantshafsbandalagið. Bandaríkjastjórn er því uppvís að því að vilja tryggja sér herstöðvar hér á Íslandi án alls tillits til þess, hvað núverandi bandamenn hennar í Evrópu, England, Frakkland eða aðrir slíkir, kunna að álíta. Sá grunur leitar því á mann, að skyndilega kynni svo að fara, ef aðstæður halda áfram að breytast eins ört í Evrópu og þær hafa gert á undanförnum árum, að Bandaríkin reyndu aftur að tryggja sér herstöðvar hér á Íslandi fyrir sig ein, fyrir Bandaríkin ein, án tillits til Atlantshafsbandalagsins, án tillits til ríkja á meginlandi Evrópu. Ég styðst þar við eins og ég held ég hafi vitnað hér í áður, ummæli eins af hernaðarsérfræðingum de Gaulle, sem hefur skrifað um það, að Bandaríkin hygðu á það, þegar Atlantshafabandalagið liði undir lok, að tryggja sér herstöðvar á Íslandi, Englandi og, ef ég man rétt, Spáni, — ég held, að ég fari rétt með það, Ísland og England man ég örugglega rétt, en ég held, að þriðja landið hafi verið Spánn. M.ö.o.: þeir herfræðingar og stjórnmálafræðingar i Evrópu, sem reikna með friðsamlegri þróun þar og þar af leiðandi smátt og smátt upplausn þeirra tveggja hernaðarbandalaga, sem þjóðir Evrópu hafa skipzt í, ganga út frá því, að hjá Bandaríkjunum mundi vera rík tilhneiging til þess að tryggja sér með sérsamningum við Ísland, England og Spán sérstakar herstöðvar sér til handa á þessum stöðum. Það mundi þýða að gera Ísland, England og Spán að eins konar — ég veit ekki, hvað það mundi vera kallað, herstöðvamálið, framvarðaherstöðvum fyrir sig. Við sjáum, að Bandaríkin hafa auðsjáanlega hugsað sér einhverja svipaða framvarðarstöðu í Asíu hvað snertir bæði

þær eyjar, sem þeir hafa haldið síðan í stríðslok, Okinawa og aðrar slíkar, og svo norður til dapans og suður til Víetnams, tryggja sér eins konar framvarðarstöðu, sumpart við eyjaklasa, sumpart á útnesjum þeirrar álfu. Og við Íslendingar sjáum það bezt nú í dag af því, hvað gerist í Víetnam, hvað það getur kostað að gerast slík framvarðarstöð.

Ég vek máls á þessu vegna þess, að það er ekki ráð nema í tíma sé tekið. Fyrir okkur er nauðsynlegt að mínu áliti að losna við þessar herstöðvar sem allra fyrst og koma í veg fyrir það og gera öllum aðilum ljóst, að við ættum ekki aftur að ljá neinum aðila herstöðvar í okkar landi. Vissulega fléttast afstaðan um Norður-Atlantshafsbandalagið nokkuð inn í þetta mál, og því miður eru í því efni nokkrir óljósir punktar eða óljós atriði einmitt í þeim samningi, sem hér er fjallað um.

Hernámssamningurinn er gerður út frá því sjónarmiði, að við séum í Atlantshafsbandalaginu, og um þær herstöðvar, sem þar um ræðir, annaðhvort í 6. eða 7. gr., ég hef hann ekki hjá mér, tekið fram, að þær skuli vera Norður-Atlantshafsbandalaginu til ráðstöfunar, þótt samningnum sé sagt upp. Nú er það að vísu dálítið einkennilegt atriði, að í samningnum sjálfum er ákveðið, að honum megi segja upp og hann megi falla úr gildi, en samt er í samningnum ákvæði, sem þýðir, að atriði úr honum eigi að halda gildi, þó að hann falli úr gildi og þessi atriði þar með. Það er máske skiljanlegt, að mönnum hafi ýmislegt á orðið, þessi samningur hefur verið gerður í skyndi, hugsaður undir byssustingjunum og þess vegna vart von, að lögfræðileg snilli hafi þar haft ráðrúm til að komast að. Hins vegar ber á hitt að líta, að Norður-Atlantshafssamningurinn var gerður undir þeim forsendum, að ekki yrðu herstöðvar hér á friðartímum, og þess vegna hlaut það ástand að vera hugsanlegt og var gengið út frá því og var þannig tvö fyrstu árin, sem sá samningur stóð, að hér voru engar herstöðvar. Það gat því ekki verið sjálfsögð afleiðing af Norður-Atlantshafssáttmálanum, að hér yrðu herstöðvar, heldur þvert á móti. Það átti að geta verið hugsanlegt út frá Norður-Atlantshafssamningnum einum saman, að Ísland væri herstöðvalaust. Þegar varnarsamningurinn svokallaði væri þess vegna felldur úr gildi, átti þar með að vera fellt úr gildi líka allt um það, að hér væru nokkrar herstöðvar. Það hlaut að vera algerlega á valdi Íslendinga sjálfra þar eftir. Við hlutum að hafa rétt til þess að eyðileggja þær herstöðvar eða láta þær eyðileggjast eða segja þeim aðilum, sem þær höfðu, að fara burt með allt sitt.

Ef það var skoðun þeirra manna, sem stóðu að Norður-Atlantshafssamningnum 1949, eins og þeir lýstu yfir þá, að Ísland gæti verið í Norður-Atlantshafsbandalaginu, án þess að hér væru herstöðvar, ef það var ærleg meining þeirra, ber þeim mönnum líka, ef þeir sjálfir sannfærast um, að hér sé ekki sérstök þörf fyrir herstöðvar, að sjá svo um, að enginn geti gert þær kröfur á okkar hendur, að hér séu herstöðvar, þ.e. að þau atriði, sem eru í 6. og 7. gr. varnarsamningsins, þegar hann er felldur úr gildi, þá séu þau atriði öll þar með úr gildi fallin. Ef einhver efi væri á um þetta, þá a.m.k. fyndist mér frá sjónarmiði þeirra manna, sem væru t.d. inni á því, að það ætti að framlengja Atlantshafssamninginn 1969, að þá ætti að knýja það fram, að Ísland væri algerlega óháð í þeim efnum og ekki bundið á neinn hátt með að hafa hér herstöðvar, eins og var, þegar sá samningur var gerður. Þessu vil ég skjóta hér fram, til þess að þeir menn íhugi það, sem eru með Norður-Atlantshafssamningnum eða voru með honum og væru með því að framlengja hann, en álitu, að hann ætti að vera á sama máta og hann var tvö fyrstu árin, sem sé án þess að herstöðvar fylgdu honum, því að mér sýnist, að þetta atriði, sem svona óljóst er smeygt inn í 7. gr. varnarsamningsins, geti flækt þetta mál fyrir okkur upp á framtíðina. Og við erum áður búnir að upplifa það í sambandi við samninginn 1941, hvernig slík mál hafa verið flækt, mál, þar sem stóð í okkar samningi, að Bandaríkin ættu að fara burt að stríðslokum, en Bandaríkin skýrðu það með því, að þar með væri átt við það, sem þau kölluðu hættuástand. Þetta vildi ég aðeins benda á viðvíkjandi því máli. Hitt aftur á móti vil ég taka fram, að Atlantshafssamningurinn fellur úr gildi eða það er hægt að segja honum upp 1969, og með þeirri þróun, sem orðið hefur í Evrópu, álít ég alveg sjálfsagt, að honum verði sagt þá upp. Og við munum, þm. Alþb., flytja um það þáltill.

Í því sambandi vil ég hins vegar ítreka það, sem ég sagði áðan, að samstarf á milli þjóða, t.d. Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, er alveg jafnt hugsanlegt á ýmsum þeim sviðum, sem það er framkvæmt, þó að það samstarf sé ekki hernaðarlegs eðlis, og það ber að mínu álíti mjög stranglega að aðgreina slíkt. Ég álít, að Atlantshafssamningnum eigi að segja upp 1969 og ef það reyndist, sem ég held, ef alþýða manna í landinu fengi að greiða atkv. um það, líka skoðun meiri hl. þjóðarinnar, þá er tími til kominn, að ráðstafanir til þess að segja varnarsamningnum svokallaða upp séu gerðar um leið. Það þarf 18 mánaða raunverulegan uppsagnarfrest í þeim efnum, 6 mánuði til hinnar svokölluðu endurskoðunar og síðan, þegar hún leiðir ekki til þess, að samkomulag takist um að fella samninginn úr gildi, sem ég vart býst við, að Bandaríkjastjórn mundi ganga inn á, þá einhliða uppsögn af Íslands hálfu, sem þá yrði gerð með 12 mánaða fyrirvara. Það er þess vegna álit okkar, að nú sé tími til kominn að Alþ. segi þessum varnarsamningi upp og hafður sé að öllu sá háttur þar á, sem lög mæla fyrir um. Um leið og endurskoðunarfresturinn væri útrunninn og samningnum sagt upp, væru stöðvaðar þær hernaðarframkvæmdir, sem nú er verið að gera í Hvalfirði, til þess að það komi strax greinilega í ljós, að Íslendingar ætla sér ekki að láta herstöðvarnar halda hér áfram í neinu formi.

Ég vil mega vona, að það takist að fá á þessu þingi, sem er síðasta þing, áður en kosningar fara fram, sem að mjög miklu leyti hljóta að snúast um, hvaða afstöðu þjóðin kemur til með að taka viðvíkjandi annars vegar herstöðvum hér á Íslandi og hins vegar uppsögn Atlantshafssamningsins, — ég vil leyfa mér að vona, að hér á Alþ. geti orðið umr. um þetta mál, þannig að hinir ýmsu flokkar þingsins láti koma fram sína skoðun ótvírætt, hver hún er. Ég hef orðið þess var, að það er þegar farið að ræða af ýmsum stjórnmálaflokkunum, sem áður hafa verið allákveðnir hernámssinnar, um ýmist uppsögn eða vissar breytingar á hernámssamningnum, og ég kann satt að segja ekki meira en svo við það, að farið sé fyrst og fremst að ræða þessa hluti eingöngu utan veggja Alþ. Það er gott, að það sé gert og sem mest að því gert, en ég held þó, að hér á Alþ. sé fyrst og fremst sá vettvangur, þar sem stjórnmálaflokkarnir eigi skýrt og ótvírætt að móta sína afstöðu og færa fram sín rök í þessum málum. Ég vil vona, að svo megi verða og þessu máli, þegar það hafi fengið sína eðlilegu meðferð nú við 1. umr., verði því vísað til 2. umr. og hv. allshn. og það megi þaðan koma, þannig að sú afstaða komi skýrt og greinilega í ljós, sem stjórnmálaflokkarnir vilja taka í þessum efnum nú, áður en kosningarnar fara fram í sumar.