16.03.1967
Neðri deild: 55. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í C-deild Alþingistíðinda. (1918)

116. mál, uppsögn varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs í þessu máli fyrir alllöngu í tilefni af árásum frá hæstv. forsrh. á mig m.a. Ég þykist eiginlega þurfa að tala við hann talsvert langt mál í tilefni af því, sem hér hefur frá honum komið. Nú eru hins vegar eftir aðeins 5—6 mínútur af fundartíma, og ég hef gengið út frá því að mæta á öðrum fundi kl. 4, svo að það er spurning, hvort það tekur því að byrja á ræðu sinni, úr því sem komið er nú. Vildi ég sem sagt fara fram á það við hæstv. forseta, að mér gæfist nú kostur á því, áður en annar mánuður liði, að komast að og fá að bera af mér sakir í þessu máli, jafnvel þó að það takist ekki á þessum fundi. Ég vildi spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forseta, hvort það gæti ekki verið, að hægt væri að fresta þessum fundi. En hægt væri að taka þetta mál fyrir, áður en langt um liði, eigi að síður.