27.02.1967
Neðri deild: 46. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í C-deild Alþingistíðinda. (1931)

125. mál, utanríkisráðuneyti Íslands

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vildi segja örfá orð um það atriði, sem hæstv. utanrrh. leiddi að mestu hjá sér í sinni ræðu, till. um það, að þingflokkar skuli hafa rétt til þess að tilnefna einn fulltrúa hver í sendinefnd Íslands á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.

Eins og ég hef vikið að í umr. um annað mál nú á þessu þingi, má segja, að það sé fyrst og fremst Sósfl., sameiningarflokkur alþýðu, sem ber ábyrgð á því, að sá háttur komst ekki á, að allir þingflokkar tækju þátt í sendinefnd á þing Sameinuðu þjóðanna. Þegar þangað var í fyrsta skipti send nefnd, haustið 1946, er Íslendingar höfðu ákveðið að gerast aðilar og áttu á því kost, var það ætlan þáv. hæstv. utanrrh., Ólafs Thors, að fulltrúar allra þingflokka tækju þátt í n. En því var hafnað af hálfu Sósfl., sem þá var í ríkisstj., þó að ríkisstj. hefði verið búin að segja af sér, — því var hafnað nema gegn því skilyrði, að hver einstakur þingflokkur hefði algert neitunarvald um ákvörðun, sem tekin væri í n. Það leiddi til þess, að jafnvel þó að utanrrh. væri nefndinni sammála, gat meiri hl. n. ekki tekið ákvörðun um mál, hvorki verið með því né móti, heldur varð að sitja hjá, ef einhver einn fulltrúanna var andvígur ákvörðun bæði n. og utanrrh. Að vísu er rétt, að það komi fram, að þá var ráðgert, að n. mundi yfirleitt sjálf taka ákvarðanir um afstöðu til mála og það yrði sjaldnast borið undir utanrrh. Hv. 3. þm. Reykv., sem átti verulegan þátt í þessari afstöðu Sósfl., hefur að vísu ekki vefengt þessa frásögn, en segir, að afstaða Sósfl. hafi byggzt á því, að þá hafi setið stjórn, sem var búin að segja af sér og hafði því ekki venjuleg pólitísk völd. Þetta er nú ekki nema hálfur sannleikur, því að vitanlega verður hver ríkisstj. að taka ákvarðanir um aðkallandi mál þann tíma, sem hún situr, svo að þarna skiptir í raun og veru engu máli, hvort það var stjórn, sem var búin að segja af sér, sem sat, eða ekki. En aðalatriðið var einnig það, að ætlun Sósfl. á þessum tíma var sú að koma á svipaðri varanlegri skipan í þessum efnum, eins og bezt lýsti sér, þegar gerð var tilraun til þess að endurreisa nýsköpunarstjórnina, sem sagt hafði af sér haustið 1946, eftir áramótin 1947. Þá strandaði sú tilraun á því, að Sósfl. krafðist þess, að utanríkismálin yrðu fengin í hendur ópólitískum embættismanni, þá væntanlega með það fyrir augum, að teknar væru ákvarðanir um það, hvað gera skyldi í utanríkismálum, á stjórnarfundum, og eftir fordæminu frá því um haustið, að engar ákvarðanir yrðu teknar, nema allir í ríkisstj. yrðu sammála. Hér var því síður en svo um það að ræða, eins og hv. 3. þm. Reykv. hefur viljað vera láta, að þetta ætti að vera bráðabirgðaástand, sem byggðist einungis á því, að ekki var þingræðisstjórn í landinu þessa mánuði, heldur var það þá ætlan flokksins að fá með þessu algert synjunarvald um ákvarðanir bæði fulltrúa þjóðarinnar á þingi Sameinuðu þjóðanna og í ríkisstj. um utanríkismál. Slíkt gat auðvitað aldrei komið til greina, enda varð það til þess, að ekki var fallizt á það haustið 1946, að Sósfl. fengi fulltrúa í n., úr því að þessi skilyrði voru sett. Það er nauðsynlegt, að menn hafi þetta í huga nú, þegar einmitt fulltrúar þessa sama flokks, að því er manni skilst, bera fram till. um, að það skuli ætíð vera skylt, að fulltrúar allra þingflokka taki sæti í þessari n. Þar er sem sagt mjög brugðið frá því, sem áður var, ef þeir ætla þá ekki enn sem fyrr að heimta algert synjunarvald, en svo virðist ekki vera, bæði af ummælum hv. 1. flm. og því, sem segir í grg., því að þar er sagt, með leyfi hæstv. forseta :

„Að sjálfsögðu er eðlilegt, að n. komi fram í umboði utanrrn. og lúti ákvörðunum þess um afstöðu til einstakra mála á þinginu. Eins er það ekki óeðlilegt, að ráðh. ákveði fjölda nm. og undirriti skipunarbréf þeirra. En hitt er fráleitt, að ráðh. velji í n. á sitt eindæmi og geti algerlega sniðgengið stjórnarandstöðuflokka. Í flestum nágrannalöndum okkar er reynt að skipa sendinefndir á allsherjarþinginu á sem breiðustum grundvelli, m.a. með því að velja fulltrúa frá stjórnarandstöðuflokkum. Þar sem utanrrh. hér á landi hafa ekki séð ástæðu til þess að fylgja svipaðri reglu, virðist rétt að binda ákvæði um þetta efni í lögum.“

Þetta stendur í grg. En ég spyr: Ef það er svo, sem það óhjákvæmilega hlýtur að eiga að vera, að utanrrh., ef hann vill skipta sér af málum, hljóti að hafa úrskurðarvaldið og menn verði að koma þarna fram í umboði hans, af hverju er þá sjálfsagt og eðlilegt, að hans andstæðingar taki þátt í starfinu sem hans umboðsmenn? Nei, úr því, eins og hér er viðurkennt, að utanrrh. á um þetta að hafa úrskurðarvaldið, leiðir þar af, að hann hlýtur sjálfur að velja þá, sem eiga að verða hans umboðsmenn. Það er algjörlega rökrétt og í raun og veru hvorugum gerður neinn greiði, hvorki utanrrh. að verða að hafa menn,. sem eru honum í meginatriðum andstæðir sem hans umboðsmenn, né heldur þeim að þurfa að vera umboðsmenn manns, sem þeir eru algerlega andstæðir. Lágmark þess, að á slíkt væri hægt að fallast, er það, sem hæstv. utanrrh. vildi gera að skilyrði varðandi lögfestingu efnisákvæðisins í 1. mgr., að a.m.k. væri þagnarskylda lögð á þessa menn um þau efni, sem þeir fara með í trúnaði fyrir hönd ráðh. En það er ekki heldur sett í 2. mgr. frekar en 1. mgr. þessa frv. En efasamt má telja, hvort þetta sé nóg. Menn hljóta að varpa þeirri spurningu fram og velta fyrir sér: Er eðlilegt, að mönnum sé falið að vinna starf og greiða atkv. þvert ofan í þeirra eigin sannfæringu? Ég tel slíkt vera ákaflega hæpið og vafasamt, sannast að segja. Og þegar hér er vitnað til annarra landa, er rétt að hafa þann fyrirvara á, að þar eru þeir, sem farið hafa á þessa fundi yfirleitt, a.m.k. í höfuðatriðum sammála þeirri utanríkisstefnu, sem utanrrh. fylgir. Og ég man með vissu eitt dæmi frá Norðurlöndum, það var frá Svíþjóð, þegar þáv. utanrrh. neitaði að útnefna formann eins andstöðuflokksins, vegna þess að hann taldi einmitt hann persónulega vera sér svo andstæðan um stefnu í utanríkismálum, að hann taldi ekki fært að gera hann að sínum umboðsmanni. Þetta átti sér stað fyrir nokkrum árum, þegar þáv. formanni íhaldsflokksins sænska var hafnað sem fulltrúa á þing Sameinuðu þjóðanna. Þetta varð töluvert deilumál í Svíþjóð, vegna þess að flokkarnir vildu vera frjálsir að því að tilnefna þann, sem þeim leizt, en utanrrh. hélt fast við sitt og sagði: Ég tel eðlilegt að tilnefna þá eina, sem í höfuðatriðum eru mér sammála. — Við vitum það, að á Norðurlöndum hafa allir meginflokkar verið mun meira sammála um utanríkisstefnu heldur en a.m.k. Sameiningarflokkur alþýðu, Sósfl. hefur verið sammála öðrum stjórnmálaflokkum hér á landi. Ég hygg, að Sósfl. hafi í meginatriðum verið ósammála þeirri utanríkisstefnu, sem fylgt hafi verið af lýðræðisflokkunum þremur. Það er annað mál, að þá hefur einnig greint innbyrðis á um nokkur atriði, en varðandi meginstefnuna hefur Sósfl. ætíð skorið sig úr og verið hinum algerlega ósammála, og ég verð að telja mjög vafasamt, að það sé eðlilegt, meðan svo stendur, að fulltrúar þessa flokks eigi rétt á því að senda fulltrúa á þing Sameinuðu þjóðanna. Það getur vel staðið þannig á, að slíkt sé eðlilegt, en að það sé tvímælalaus lagaskylda, tel ég vera ákaflega hæpið. Og tilvitnanir til annarra landa eiga ekki við í þeim efnum, eins og ég hef nú sýnt fram á, að því ógleymdu, sem ég taldi sjálfsagt að hér kæmi fram, að það var einmitt þessi flokkur, sem í fyrstu hindraði það, að þeirri reglu væri í upphafi fylgt, að fulltrúar allra þingflokka færu á þetta þing.