27.02.1967
Neðri deild: 46. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í C-deild Alþingistíðinda. (1932)

125. mál, utanríkisráðuneyti Íslands

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Mér fannst mjög ánægjulegt að heyra það, að hæstv. utanrrh. skyldi þó vera eins jákvæður gagnvart því frv., sem hér liggur fyrir, og fram kom í hans ræðu. Þar kom það m.a. fram., að hann gæti vel fallizt á að flytja Alþ. árlega skýrslu um meðferð á utanríkismálum og um meðferð mála hjá Sameinuðu þjóðunum. Ég held, að það væri mjög mikilvægt, ef Alþ. gæti komið sér saman um að taka upp þá nýbreytni. Hitt var aftur á móti að heyra á hæstv. utanrrh., að hann ætti erfiðara með að fallast á, að þingflokkar og stjórnarandstöðuflokkar tilnefndu menn í sendinefnd á þingi Sameinuðu þjóðanna. Hæstv. utanrrh. sagði að vísu, að þetta þyrfti að athuga betur, og er það að sjálfsögðu ekki óeðlilegt. Þetta mál verður athugað í n., og þar ætti að gefast gott tækifæri til þess að íhuga, hvort menn gætu ekki fallizt á svo sjálfsögð lýðræðisréttindi fyrir stjórnarandstöðuflokkana.

Aftur á móti talaði hér hæstv. forsrh., og það var á honum að heyra, að hann væri ekki í neinum vafa að þessu leyti. Hann virtist vera því beinlínis mótfallinn, að þessi skipan yrði á höfð, og virtist ekki þurfa að athuga það neitt betur eða hugsa sig frekar um. Nú var það mjög einkennilegt hjá hæstv. forsrh., að þrátt fyrir alllanga þingsetu virtist hann ekki átta sig á því, hvaða þingflokkar ættu sæti hér á Alþ. Mér þótti það mjög einkennilegt af þó þetta rosknum manni. Ég kannast ekki við það, að hér sé í þinginu neinn flokkur með nafninu Sósfl., og mér þykir því mjög einkennilegt, að hæstv. forsrh., sem hlýtur að ætlast til þess, að mark sé tekið á orðum hans, skuli þó ekki reyna að haga orðum sínum í einhverju samræmi við sannleikann. En það er annað mál.

Hæstv. forsrh. sagði, að Sósfl. bæri ábyrgð á þeim ólýðræðislegu vinnubrögðum, sem viðhöfð eru, og tilnefndi ákveðna atburði, sem áttu að hafa gerzt fyrir 20 árum. Ég hef ekki þekkingu til að rökræða við hæstv. forsrh. um sannleiksgildi þessara orða hans, enda sé ég ekki, að mér beri nein skylda til þess. Þetta eru atburðir, sem gerðust fyrir æðimörgum árum, og hér hagar hæstv. forsrh. sér með svipuðum hætti og hæstv. utanrrh., sem hér er alltaf að reyna að afsaka lögbrot sin og fyrrv. utanrrh. með einhverjum atburðum, sem áttu að hafa gerzt fyrir 9 árum. Hann er stöðugt að refsa þinginu og þingflokkunum fyrir einhverja atburði, sem gerðust fyrir næstum áratug, en treystir sér samt ekki til að leggja fram neinar skjallegar sannanir fyrir þessum atburði. Og það er eins með hæstv. forsrh., að hann kemur á eftir og fer að bera við einhverjum pólitískum atburðum, sem gerðust ekki fyrir 9 árum, heldur 20 árum. Sú staðreynd, að Sósfl. vildi ekki eiga mann í sendinefndinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fyrir 20 árum, það á að vera ástæðan til þess, að Alþ. á ekki fulltrúa í n. í dag. (Gripið fram í.) Því miður átta ég mig ekki á, hvaða rokk hæstv. ráðh. á við.

Það kom fram í ræðu hæstv. forsrh., að hann furðaði sig á því, að í grg. fyrir þessu frv. segir skýrt, að hæstv. utanrrh. skuli hafa úrskurðarvald um afstöðu Íslands til einstakra mála á allsherjarþinginu, og hann spurði: Til hvers að hafa slíkt skipulag? Hvers vegna eiga pólitískir andstæðingar utanrrh. að vera í n., úr því að hann á sjálfur að hafa úrskurðarvald um afstöðu n. til einstakra mála? Ég verð að segja, að það er ekki lítil einræðishneigð, sem lýsir sér í þessum orðum. Við vitum, að ráðh. landsins skipa margar nefndir, og þeir ætlast til þess, að þessar n. veiti þeim ráðleggingar í ýmsum málum, en það hefur engum dottið í hug að taka upp það fyrirkomulag, að eingöngu pólitískir samherjar ráðh. skuli vera í slíkum opinberum n. Reyndar er rétt, að það vill brenna við, að ráðh. skipi nefndir, sem séu anzi einlitar. Ég skal að vísu viðurkenna það. En ég held að það megi ekki verða fordæmi í þessu máli. Ég vil taka það fram, sem hverjum manni hlýtur að vera ljóst, að spurningin er ekki um það, hvort einstakir nefndarmenn kynnu að lenda í þeirri aðstöðu að greiða atkv. gegn sannfæringu sinni, eins og hæstv. forsrh. var að orða. Við vitum, að það er utanrrh., sem á að taka ákvörðun um afstöðu n. til einstakra mála. Í 5 manna sendinefnd þurfa ekki allir að rétta upp hendurnar. Það er einn maður, sem kemur fram af hálfu landsins á allsherjarþinginu, væntanlega formaður n., og hann greiðir atkv.

Hæstv. forsrh. var að bera því við, að hér á Íslandi væru flokkarnir svo ósammála í utanríkismálum og þá sérstaklega væri svo mikill munur á afstöðu eins flokksins og afstöðu hinna flokkanna, að það væri ógerlegt að hafa sömu vinnubrögð hér og í öðrum löndum, þar sem stjórnarandstöðuflokkar eiga fulltrúa í sendinefndum hjá Sameinuðu þjóðunum. Ég held, að þessi mótbára sé algerlega fráleit satt að segja, ef reynt er að bera það við að athuga, hvaða háttur er hafður á í þessum efnum í öðrum löndum. Við vitum, að í Danmörku snerist Radikali flokkurinn gegn þátttöku Danmerkur í Atlantshafsbandalaginu, og við vitum líka, að Sósíalíski þjóðarflokkurinn eða Sósíalíski alþýðuflokkurinn í Danmörku hefur alla tíð verið mjög ósammála stjórnarflokkunum dönsku i utanríkismálum. Ég held, að þar sé um alveg hliðstæðan skoðanaágreining að ræða og hér hefur ríkt. En þar hefur auðvitað verið talið sjálfsagt, að bæði Radikali flokkurinn og Sósíalíski alþýðuflokkurinn ættu fulltrúa í sendinefndinni. Það hefur þótt sjálfsögð lýðræðisskylda.

Í sambandi við fyrsta atriði frv., sem fjallar um skyldu hæstv. utanrrh. til að hafa samráð við utanrmn., vil ég taka það fram, að ég hefði ekkert við það að athuga, að í ákvæðið væri sett mgr. þess efnis, að þagnarskylda hvíli á nm., ef utanrrh. óskar eftir því. Hitt er svo annað mál, að ég held, að það sé engin sérstök knýjandi þörf á þessu ákvæði. Hæstv. utanrrh. getur ekki afsakað háttalag sitt og fyrirrennara sins með því, að þetta ákvæði hafi vantað. Hæstv. utanrrh. hefur alltaf getað óskað eftir því við nm., að þeir virtu þá ósk sína að gæta þagnarskyldu um ákveðin mál. Slíkt kemur sjálfsagt ekki oft fyrir. En ef þeir vildu fallast á það, var ráðh. nákvæmlega eins settur og ef ákvæði um trúnaðarskyldu væri i lögum. En ef þeir neituðu að fallast á að verða við óskum ráðh., lá það ljóst fyrir, að hann þurfti ekki að nefna þetta trúnaðarmál við nm.

Það kom fram mjög athyglisvert atriði í ræðu hæstv. utanrrh. hér áðan. Hann viðurkenndi, að um lögbrot hefði verið að ræða af hálfu utanrrh. Alþfl. Hann sagði að vísu, að lögbrotin hefðu aðeins átt sér stað milli þinga. Ég tel, að það sé út af fyrir sig rétt, að ekki hafi verið um bein lögbrot að ræða nema milli þinga. En hitt er svo annað mál, að lögbrotin verða ekkert saklausari, þó að þau séu framin á sumrin, heldur en á öðrum tíma ársins.