21.02.1967
Neðri deild: 44. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í C-deild Alþingistíðinda. (1935)

126. mál, launaskattur

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Við vitum það nú, sem erum vanir víðáttunni, að það liggja leiðir í fleiri áttir en eina. En í atvinnumálum okkar virðist vera stefnt aðeins í eina átt, og það er að láta afurðaverð hækka og allan kostnað við framleiðslugreinar þjóðfélagsins. Þetta hefur gengið þannig — það má segja kannske í marga áratugi, og þegar atvinnuvegirnir hafa verið hættir að bera sig, það hefur kostað of margar krónur að framleiða hlutina, hefur verðgildi krónunnar verið breytt, hún hefur verið lækkuð, og þetta byrjaði 1950, það endurtók sig 1960, og allt stefnir í þá átt, að sagan muni endurtaka sig í þriðja sinn.

Það er náttúrlega ýmislegt, sem veldur því, að þetta gengur svona. Fólkið, sem að framleiðslunni vinnur, heimtar fleiri krónur. Stéttasamtökin, sem ná eiginlega til allra stétta þjóðfélagsins orðið, gera yfirleitt kröfur um sífellt fleiri og fleiri krónur í vinnulaun, og þess er ekki gætt nægilega, að það er ekki til neins að fjölga krónunum, ef verðgildi þeirra minnkar. Mér virðist, að það hafi einkennt stjórnarfarið síðustu ár, að það eru sífelldar skattahækkanir og ótal aukaskattar, sem hafa hlaðizt á atvinnuvegina til þess að auka kostnaðinn enn meir. Ég held, að þm. geri sér þetta ekki nægilega ljóst, og e.t.v. er það af því, að þeir reka ekki sjálfir þessa atvinnu, nema einhver hluti af þeim. Ég efast um, að þeir fylgist með því, hve búið er að hlaða mörgum sköttum á atvinnuvegina og einkanlega sjávarútveginn.

Við leyfum okkur því hér tveir þm., ég og hv. 4. þm. Reykn., að flytja till. um það að breyta ákvæðum um launaskatt, sem lagður er nú á alla vinnu, sem framkvæmd er í landinu, að undanskildum störfum við landbúnaðinn. Það er mikið talað um, að það sé verðlækkun á sjávarafurðum og það sé vá fyrir dyrum þess vegna. Rétt er það, að á vissum framleiðsluvörum í sjávaraflanum hefur orðið verðlækkun, en sú verðlækkun er einkum á frystum fiski, sem fluttur er til Ameríku, og sú verðlækkun er ekki meiri en verðhækkunin, sem hefur orðið árin 1964 og 1965. Spurningin er því, hvort hér sé um nokkuð annað en bara heilbrigt ástand að ræða í viðskiptamálum, þessi mikla verðhækkun, sem var í Ameríku, hafi ekki verið á einhvern hátt óeðlileg og við hefðum alltaf getað gert ráð fyrir því, að um lækkun yrði að ræða aftur. Saltfiskur, stærri tegundirnar eða stórfiskurinn, hefur eiginlega ekkert lækkað í verði. Skreiðin er í svipuðu. Dálítil lækkun er á fiski, sem fer til Rússlands, 6—7%, er mér sagt. En þetta er ekki nema það, sem við gátum búizt við. Einhver verðlækkun varð á lýsi og síldarmjöli, en var ekki bara verðið óeðlilega hátt s.l.1—2 ár, því að það er þannig, að þegar verð hækkar á vöru, er farið að draga úr notkun hennar og eftirspurnin minnkar, og af því kemur verðlækkunin m.a.? Ég held því, að við verðum að gera okkur þetta ljóst, að við getum ekki byggt upp okkar atvinnulíf þannig að búast alltaf við hækkunum ár frá ári. Það er ekki hægt. En það er ekkert við það að athuga, þó að fólkið, sem vinnur að atvinnugreinunum, njóti þess, ef verð hækkar á vöru, en það verður þá líka að gera sér ljóst, að ef verðið lækkar, verður það að taka þátt í lækkuninni. Ef það er ekki gert, er leiðin sú, sem farin hefur verið undanfarið, að verðmæti hverrar krónu minnkar og það leiðir af sér gengislækkun.

Það eru tvær leiðir til í þessum launamálum, og það er, að atvinnurekendurnir semji við launþegana eða ríkið sjái um þessa samninga, i raun og veru allar stéttir. Ríkisstj. þarf ekki endilega að gera það sjálf, heldur gætu verið einhverjir ákveðnir starfsmenn, sem önnuðust það. Ef þetta væri athugað af yfirleitt glöggum mönnum, hvað eðlilegt væri, að atvinnuvegirnir gætu borgað í hvert sinn, væri vafalaust hægt að jafna þetta. En ég held, að það sé alveg ófær leið, að ríkisvaldið sé að skipta sér af launamálum, vissum greinum þeirra, án þess að annast um það allt saman. Og yfirleitt, þegar ríkisvaldið hefur verið að grípa inn í launamálin, hefur það ævinlega verið til óþurftar fyrir atvinnuvegina. Þetta er oftast nær gert í þeim tilgangi að vinna atkv. á því, og það ern atkvæðaveiðarnar, sem eru hættulegastar fyrir stjórnarfarið í landinu, menn eru að gera ýmsa hluti og framkvæma ýmsa hluti til að veiða á því atkv., án þess að það sé eðlilegt og heilbrigt. Það er svo með þá, sem ekki reka atvinnuvegina, að þeir gera sér þetta ekki fyllilega ljóst.

Eitt af því, sem var verið að veiða atkv. á hér á þingi, var að fara að lögbjóða, að kaup kvenna og karla væri jafnhátt. Ég efa, að þetta hafi ekki orðið hreinlega vinnu kvenna til skaða. Var ekki hægt að semja um þetta? Það voru ákvæði um þetta hjá verkalýðsfélögunum. Ég vissi, þegar ég hafði með þetta að gera í frystihúsi, að fyrir hliðstæða vinnu fengu konur jafnt, þegar þær voru við flökun, fengu þær jafnt kaup og karlmenn. Hitt er annað mál, að þetta hefur ekki orðið eins mikið tjón fyrir frystihúsin og á horfðist, vegna þess að það var horfið við stærri frystihúsin inn á bónuskerfi, og það sagði mér maður, sem rekur frystihús. að það hefði orðið meira en tvöföldun á vinnuafköstum, þannig að það var í raun og veru borgað miklu minna. Frystihúsin græddu líka á þessu, en fólkið fékk ekki minna í heild út á styttri vinnutíma. Og það er ekkert nema gott um þetta að segja. Hagræðing vinnunnar er eitt af því jákvæða, sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir. Það ber að meta það, sem vel er gert. En viðvíkjandi sjávarútveginum er búið að hlaða á hann ýmiss konar gjöldum, sem þeir, sem utan við hann standa, hafa ekki hugmynd um. Við þetta bætist, að það er ekki tekið minnsta tillit til þess við hlutaskiptin, hvort viðbótargjöld koma á bátana eða ekki. Það kemur eingöngu á þann hlutann, sem bátnum er ætlaður, og verður þess vegna í raun og veru tvöfalt.

Það liggur hérna fyrir frv. um breyt. t.d. á lögum um útflutningsgjöld. Þið getið litið á þá liði. Það er 4.2% af útflutningsverðmætinu, sem er tekið. Það þýðir 8.4% af þeim afla, sem báturinn leggur í land, því að yfirleitt tvöfaldast verðmæti vörunnar, frá því að útgerðarmaðurinn selur fiskvinnslustöðvunum hann og þangað til hann er fluttur út. Við þetta bætist 1.2% í aflatryggingasjóð. Ég hef ekki gert þetta að umtalsefni í frv., sem við Jón Skaftason flytjum, við höfum ekki rætt það, vegna þess að megnið af þessu er þannig vaxið, að mér finnst eðlilegt, að útvegurinn standi undir því. Þetta 1.2% fer í aflatryggingasjóð. Við látum það vera. Mér finnst það eðlilegt og heilbrigt, að þeir, sem betur gengur, hjálpi hinum, en ég álít líka, að hjálpin eigi ekki að vera meiri. Ég álít ekki heilbrigt, að það sé búið þannig að atvinnuvegunum með löggjöf eða samningum eða hvernig sem það er, að þeir geti ekki borið sig fjárhagslega, aðalatvinnuvegir þjóðarinnar, án þess að ríkið borgi stór fjárframlög til þeirra. Það er ekki eðlilegt. Og það er ekki heilbrigt að leggja mikla skatta á þjóðina, sem varið er til uppbóta á framleiðsluvörurnar, því að allir hækkaðir skattar hækka verðlagið í landinu, auka kaupkröfur, og það er því að elta sitt eigið skott að fara þá leið. Sá hluti af þessum 4,2%, sem er tekinn af útflutningsframleiðslu sjávarafurða, fer að allmiklu leyti í tryggingar skipanna, og það er ekki nema eðlilegt og gott um það að segja. Það er auðveldara að taka það þannig heldur en útgerðarmenn eigi að borga þetta sjálfir, því að í sumum tilfellum geta þeir ekki staðið í skilum. Svo fer líka í fiskveiðasjóð sem svarar 1%. Við látum það vera. Útgerðarmenn hafa yfirleitt ekki kvartað mikið undan því, því að við vitum, að fiskveiðasjóður þarf að vera til. En jafnframt því, að við eflum fiskveiðasjóð á þennan hátt og gerum hann starfhæfan, höfum við rétt til þess, að það séu ekki mjög háir vextir. Og þetta 1% jafngildir 2% vöxtum. Og nú eru vextirnir 6 1/2% í fiskveiðasjóði, og ef tekið er tillit til þessara framlaga, sem útvegurinn leggur í hann, er það orðið 8 1/2%, og það eru hærri vextir en það, að bolfiskveiðarnar geti staðið undir því. Svo er ýmsum liðum bætt hér á, sem vafamál má teljast, t.d. framlagi til fiskimálasjóðs, sem ríkið á, og það væri kannske ekkert um það að segja, ef öllum þeim lánum væri vel og hyggilega varið, sem þaðan væru veitt. En ég hygg, að það sé nú í sumum tilfellum ekki allt lán, sem koma að hagkvæmum notum, sem þaðan fara. Hluti af þessu gjaldi fer í rannsóknaskip sjávarútvegsins. Það er raunar ekki mikið, en dálítið þó. Ég álít, að það sé dálítið vafamál, að útvegsmenn eigi að borga það, og það væri sannarlega ekkert of mikið, þó að þjóðfélagið í heild tæki þátt í því, þegar við vitum, að sjávarútvegurinn stendur undir svo að segja allri gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Svo er það bygging haf- og fiskirannsóknaskips. Ég tel það líka dálítið vafasamt, að útgerðarmenn eigi að borga slíka hluti. Þarna eru liðir, sem í raun og veru er ósanngjarnt, að sjávarútvegurinn borgi beint, sem þjóðin ætti frekar að kosta úr sameiginlegum sjóði og til margs annars verr varið fé ríkisins heldur en til þess. En í þessum liðum er ekki um stórfé að ræða.

En það er ekki allt upp talið, þegar við erum búnir með þetta, enda hef ég ekki gert þetta að umtalsefni í grg., sem ég tala um.

Í fyrsta lagi er það, sem mest hefur þyngt fyrir okkur róðurinn, vextirnir. Þeir voru hækkaðir úr 4 og í 6 1/2%. Ég ætla bara að taka meðalbát, ég ætla ekki að taka stærstu bátana. Það má vel vera, að þau skipin, sem mest veiða af síldinni, — kannske upp undir 100 þús. tunnur, — þau geti borið þessa vexti, jafnvel þó að þau séu dýr. En þau bera það ekki, nema á meðan vel veiðist og verðlag er sæmilega hagstætt. Við skulum taka meðalskip og reikna verðið 10 milljónir, og við verðum að reikna, að þau þurfi að borga vexti af allri upphæðinni, því að flest skip eru rekin sem hlutafélög, og þó að einstaklingur geti lagt eitthvað fram, getur hann reiknað sér vexti af þeirri upphæð, en í flestum tilfellum verður að taka það að láni, og það eru 250 þús. Þetta kemur einhliða á útgerðina. Reiknum afla þessa báts 7—8 millj., og það verður þá að vera á síld og vel að ganga, til þess að það sé mögulegt, að hann beri það, og hlutur útgerðarmannsins af því er svona 3 1/2—4, — já, við skulum segja 4 millj., þá koma þessar 250 þús. á þessar 4 millj., og eru teknar af þessum 4 millj. þessar 250 þús., og það eru 4—5%. Það munar um minna. Og ef hægt væri að nota þetta í afborgun af skipinu, haldið þið ekki, að það væri munur? En með þessum skatti, sem á er lagður til fiskveiðasjóðs, eru vextirnir raunverulega orðnir 8 1/2%, sé það reiknað sem vextir, og útgerðin á ekki þá peninga, eftir að það er komið í fiskveiðasjóð, heldur á ríkið þá. Þetta álít ég, að hafi ekki verið athugað nógu vel, og vextirnir hafa átt drjúgan þátt í því við sjávarútveginn að gera erfitt fyrir útgerðina. Verðið hefur alltaf verið að hækka. Nú lofar ríkisstj. 8% hækkun á fiskverði. Í fyrra mun það hafa hækkað eitthvað um 17%. Undanfarin ár, árið 1965 og 1964, fór fiskurinn hækkandi, en þá bara hirtu fiskvinnslustöðvarnar ágóðann. Og reynsla útgerðarmannanna er þessi : Það er ekki hægt að reka skip, eins og hlutaskiptin eru núna og útgjöldin, sem hlaðið er á sjávarútveginn, nema hafa hagnað af aflanum. Og þeir skera sig algerlega úr, þeir útgerðarmenn, og hafa gert undanfarin mörg ár, sem hafa baslað við að salta sinn fisk sjálfir og herða, og þeir hafa náð þetta 50 aurum til 1 kr. af kg, og það hefur bjargað þeim, þannig að sumir þeirra eru orðnir vel efnaðir menn og jafnvel ríkir. En með þeim hlutaskiptum, sem eru, og með þeim útgjöldum og vaxtagreiðslum, sem hefur verið hlaðið á útveginn, er ógerlegt að láta fiskibát bera sig nema verka fiskinn sjálfur. Fiskurinn hefur hækkað núna úr ca. 3 kr., sem hann var í hittiðfyrra, og meðaltal af netafiski, og tala ég þar af eigin reynslu, verður sennilega um kr. 3,80 í ár. En ég hygg, að ef allir þeir pinklar, sem er búið að hlaða á útveginn, og án þess að mig langi til að vera neitt að sverta núverandi ríkisstjórn, — ef útvegurinn væri losaður við alla þá pinkla, sem á hann var hlaðið á þessu tímabili, væri hann jafnvel stæður, þó að hann hefði ekki fengið þessa hækkun. Og þannig hefur skriðan haldið áfram, þó að fiskurinn hafi hækkað þetta, — og þetta er geysilegt stökk, úr 3 kr. í kr. 3,80 meðaltalsverð, skulum við segja, þetta er náttúrlega dálítið misjafnt eftir því, hvernig hann flokkast, — þá er þetta mikið stökk, en þó hefur skriðan fylgt þannig eftir, að útvegsmenn eru ekkert betur stæðir nú en þeir voru fyrir tveimur árum. Við vitum það, að L.Í.Ú. hefur alltaf reiknað þannig út afkomu báta, að það hefur verið stór rekstrarhalli, og ef það væri nákvæmlega rétt reiknað, væru allir bátar eða bátaútvegur dauðadæmdur fyrir löngu, þannig að við verðum náttúrlega að gera okkur það ljóst, að þegar verið er að gera slíkar áætlanir, reyna menn að hafa sem mest út, þegar farið er að ganga í ríkissjóðinn og heimta þaðan peninga. En staðreyndin er samt þessi, að þeir, sem ekki hafa hagnað af fiskvinnslu, hafa ekki getað rekið útveginn. En þetta er nú bara fyrsti liðurinn, það eru þessir vextir, og raunar hefur hann mest að segja gagnvart bátunum.

Annar liðurinn, sem ég tala um í þessari grg., er launaskatturinn. Í raun og veru er það algerlega furðulegur skattur, sem ekkert kemur útgerðarmönnum við, að fara að safna peningum til að byggja fyrir íbúðarhús í Reykjavík, og svo gleypir dýrtíðin allan þennan skatt gersamlega, því að húsaverð hefur hækkað þar svo á tveimur árum, að menn eru ekki nokkurn hlut betur stæðir fyrir þetta. Samið var um það auk þess, að það yrðu vísitölulán, sem þýðir í raun og veru, að borið saman við önnur lán, sem tekin eru, eru þessi lán ótakandi, þannig að það gátu báðir aðilar verið óánægðir, útvegsmenn yfir að fá þennan þokka yfir sig, þennan launaskatt, og þar að auki hækkað orlof, og þeir, sem lánin taka, að fá vísitöluálag á lánin, þannig að öllum var þetta til óþurftar. Þetta átti að vera einhver óskapa happasamningur, þessi júní-samningur. Skriðan hefur aldrei verið óskaplegri en síðan. Það hafa verið tekin hrein heljarstökk bæði í verðlagi á landbúnaðarvörum og í sjávarútvegi, það vitum við ósköp vel, hrein heljarstökk. Það hefur nefnilega ekkert verið hugsað um það að reka atvinnuvegina á hagkvæman og ódýran hátt, heldur bara látið hækka og hækka. Þetta gat gengið, á meðan það var ör hækkun á vörunum erlendis, en þegar það breytist, erum við bara í sjálfheldu eins og hverjir aðrir kjánar. Þið segið kannske, það eru alltaf svörin, þegar maður talar um þessa nýju skatta: Þetta munar engu. — En þegar annaðhvort er ekkert eftir eða lítið, munar töluvert mikið um 1%. Þetta er 1% af kaupi sjómanna. En svo verða fiskvinnslustöðvarnar að borga líka. Svo þurfa netagerðir og vélaverkstæði að borga, og þetta jafngildir 0.85% af brúttóaflanum, og á bát, sem veiðir fyrir 8 millj., eru það 70 þús. Orlofið er mjög svipað, og það er nú eitt það fáránlegasta við löggjöfina, að fyrst varð að fá vit í orlofið, það varð að miða við venjulegt kaup og dagkaup, síðan var það hækkað, og síðast endar það með því, að það var af öllu, hvað hátt launaðir sem menn væru. Nú vitum við, að sumir skipstjórar eru komnir á aðra milljón og eru algerlega í vandræðum með að borga skatt af þessu öllu saman. Hverjir eru það, sem safna auði? Það eru þeir, sem flytja inn vörur á fölskum faktúrum og fá há umboðslaun og telja þau ekki, og skipstjórar og svona milliliðir, sem selja vörur út og safna auði í landinu. Morgunblaðið er alltaf að spyrja, hvað verði af peningunum. Þarna eru þeir. Ef menn græða á síldarútvegi, eins og þeir hafa gert, sem mest hafa aflað, þeir hafa grætt og það verulegar fjárhæðir, eru þeir undireins komnir í það að kaupa nýtt skip. Nú eru þau farin að verða á fjórða hundrað tonn, kosta yfir 20 millj. kr., og þessu halda þeir áfram, því að engin bremsa er hjá ríkisstj., það vantar alveg hemilinn, vökvann á hann. Svona halda þeir áfram, þangað til annaðhvort veiðist ekki síld eða hún verður hálfverðlaus, og þá getur enginn borgað neitt, og verður þetta bara smáskrækur núna hjá því ópi, sem þá kemur.

Ég er ekki á móti því, að það séu keypt skip. En það verður að vera hóf á öllu. Og með því að æða með fjármagnið alveg einhliða inn í síldarútveginn, eru náttúrlega fiskveiðarnar algerlega vanræktar og umbætur á því sviði, þannig að það þarf að vera einhver bremsa. Við höfum ekki nema takmarkað fjármagn og takmarkaðan mannkraft, og það þarf að vera einhver bremsa á hlutunum. Það var hert á ákvæðunum viðvíkjandi skipakaupunum, þannig að það ætti að skapa útveginum í fyrsta lagi stórar fjárhæðir. Ég held, að það séu eitthvað 3 millj. fyrir þessi stóru skip, útborgun, og auk þess trygging fyrir gengislækkun í bönkunum, — þó að ríkisstjórnin segi, að það eigi engin gengislækkun að verða, trúa bankarnir því ekki, — þannig að alls verða þetta 6 millj. Og þetta geta vitanlega ekki nema stórauðugir menn útvegað, tryggingu fyrir 6 millj. kr., það sjá allir, þannig að það er orðið útilokað fyrir menn að kaupa núna þessi stærri skip nema hreina auðmenn, enda eru það skipstjórar og síldarverksmiðjur, sem eru að kaupa þetta allt. (Gripið fram í.) Byggja á Akureyri? Nei, það er nú af fátækt, sem menn byggja þar, og ekki víst, að það verði dýrara en hjá öðrum, um það er lýkur.

En viðvíkjandi þessu orlofi er nefnilega fáránlegt, að Alþingi samþykkir, að ofan á þetta fáránlega kaup, sem engin þjóð hefur nú efni á að greiða, og allir vita það, þá á að borga 7%.

Þingið hefur ekki kjark til að gera neitt. Þeir eru alltaf hræddir við að missa atkvæði, þessir þm. Auðvitað er ekkert vit í því að greiða skipstjórunum jafnvel þrjá hásetahluti. Háseti þarf nefnilega að borða alveg eins og skipstjóri og fæða börn sín og klæða. En hvað hafa þeir? Á síldveiðum hafa þeir 8%, 7% orlof ofan á það, fast kaup í viðbót ofan á það og kaup allan tímann, sem báturinn liggur við bryggju bundinn, því að þá vilja þeir hafa dagkaup og segjast vera að lita eftir bátnum, þannig að þetta verða um það bil þrír hásetahlutir, sem þeir hafa upp úr krafsinu í heild. Ef þingið vildi nú gera eitthvað af viti í launamálunum, þá náttúrlega settu þm. einhverja bremsu á þetta. Á fiskveiðum hafa þeir minna. Þar hafa þeir tvo hásetahluti fyrir utan smávegis fríðindi. Og við skulum segja, að það væri hóflegt, ef þeir hefðu svipað á síldinni, því að vitanlega á skipstjórinn að hafa hærra, ber meiri ábyrgð og vinnur vel, og við eigum þessum mönnum mikið að þakka. Ég hef aldrei séð eftir kaupinu til hásetanna, þeim veitir ekki af því, og ég er á því, að þeir megi fá orlof á sitt kaup, og við eigum að borga fólki orlof á hæfileg laun. En hitt er bara fáránlegt, ef menn hafa margföld laun, hvort það er heldur fyrir mörg störf eða hafa margfalt fyrir eitt starf, að fara að borga orlof á allt það og láta þá borga, sem ekki geta borgað þær skuldir, sem þeir eiga að borga. Það er til að mynda auðsöfnun í landinu. En þingið hefur ekki kjark til að taka á þessu.

Þá fann þessi ríkisstjórn upp á því, til þess að þessir útgerðarmenn og fleiri aðilar, sem reka atvinnu, gætu ekki dregið undan og svikizt um að borga útgjöld, að fara að leggja á útgjaldaliðina hjá fyrirtækjunum. Og það sjá nú allir, hvort það er sanngjarnt, ef maður tapar 1 millj., að hann eigi að borga sérstaklega útsvar af því. Það væri eðlilegra, að menn borguðu útsvar af tekjum sínum og eignum en af töpum. Við mig sagði einn af stærstu útgerðarmönnum landsins, hann sagðist hafa tapað allt að 4 millj. eitt árið, og hann sagði, að aðstöðugjaldið á sér hefði verið upp undir 1 millj., þetta er einn dyggur stuðningsmaður ríkisstj., því að menn, sem velta svo miklu, styðja hana yfirleitt, ef hún er athafnasöm. En þannig er nú þetta, að þetta er bara hrein vitleysa. Þið vitið það ósköp vel, að fiskibátarnir halda algerlega uppi atvinnulífinu í sjávarþorpunum og allt verðmæti aflans gengur til fólksins. Það kaupir fyrir það fæði og klæði og borgar sín útgjöld og alls konar skatta, þannig að óbeint stendur þessi hráefnisöflun undir tekjum fólksins og þar með öllum útgjöldum. En ef þessir bátar eru reknir með tapi, er ekki sanngjarnt að leggja á töpin. Þess vegna á vitanlega að breyta þessu aðstöðugjaldi. Það á ekki að leggja útsvör á báta eða útgerðarfélög, sem hvorki eiga eignir né hafa neinar tekjur og tapa jafnvel, það er bara vitleysa. Og er sama, hvaða atvinnuvegur er. Við eigum að líta eftir því, að það sé rétt talið fram, og svo eiga menn að borga eftir sanngjörnum og skynsamlegum reglum af tekjum sínum og eignum, en ekki af því, sem ekki er raunhæft. Þannig er það nú, það er lagt á þessa báta, og þeir geta ekki borgað.

Ég býst við, að í flestum tilfellum hlífist sveitarstjórnirnar við að biðja lögmenn um að innheimta, enda reyna þeir sjálfsagt að borga, ef þeir geta. En það er ekkert vit í þessari álagningarreglu.

Svo þurfum við að borga í atvinnuleysistryggingasjóð, og það er kroppað af bæjarfélögunum líka. Svo koma sósíaldemókratar og hæla sér yfir tryggingum, að þær séu óskaplega þarfar, og ég skal játa, að þær eru þarfar. En þær geta gengið út í öfgar. eins og aðrir hlutir. Það er ákaflega vafasamt með þessar fjölskyldubætur. Þær hafa kannske átt rétt á sér 1961 og 1960, en ég tel dálítið vafasamt, að þær eigi rétt á sér núna. Svo eru nú þessar blessaðar atvinnuleysistryggingar þar fyrir utan. Öll atvinnufyrirtæki þurfa að greiða til þeirra og bæjarfélögin líka og svo ríkissjóður á móti. Þetta er ekki lítil fjárhæð, og þetta er að verða einn mesti sjóður í landinu. Það er ágætt að hafa atvinnuleysistryggingasjóð, en hann er bara orðinn núna allt að því milljarður, og það er meira virði fyrir þennan góða sjóð, að verðmæti krónunnar sé haldið nokkurn veginn stöðugu, heldur en þjóðfélagsþegnarnir séu skattpíndir til að greiða í hann, eins og gert er, því að þetta kemur allt frá þegnum þjóðfélagsins, og m.a. þurfa útgerðarfyrirtækin að borga í þennan sjóð, þrátt fyrir það að þau geti ekki borgað vexti og afborganir af sínum skuldum. Ég álit, að það sé alveg tímabær ráðstöfun að losa atvinnutæki og bæjarfélög við þennan skatt, og ríkið hefur víst nóg með sína peninga að gera — og reyna að láta krónuna ekki falla ákaflega ört. Það væri mesti gróðinn fyrir sjóðinn, og þá nægðu vextirnir, en vonandi þurfum við ekki að búa við atvinnuleysi í bráð.

Þá þurfa útvegsmenn að borga innflutningsgjald af veiðarfærum. Ég skal játa, að sá skattur er ekki ýkjahár, hann er 4%, en það dregur sig saman, og af varahlutum miklu hærri. Það væri eðlilegra að fella niður þessi aðflutningsgjöld á varahlutum og veiðarfærum heldur en að borga beint úr ríkissjóði til þeirra aðila, sem reka fiskverkunarstöðvarnar, einkum þegar það er gert á þann hátt, sem nú er, að þeir fá mest, sem sízt þurfa þess, eins og er um þau frystihúsin, sem mest hafa hráefni og hafa verið rekin allmörg undanfarin ár með allgóðri afkomu, þó að það liti ekki vel út á þessu ári. Og þannig er það, þegar ríkið er að borga stórar fjárhæðir, að þeir fá vanalega mest, sem sízt þurfa þess. Það er ekki nokkur sönnun fyrir því, að allir þeir aðilar, sem fá greiddar þessar fjárhæðir, þurfi þeirra með. Þess vegna er það eina eðlilega og heilbrigða að reyna að búa þannig að atvinnuvegunum, að það þurfi ekki að styrkja þá beint úr ríkissjóði. Og svo nægði þetta ekki. Ef þetta gjald væri afnumið, mundi það létta á útvegsmönnum a.m.k. sem svarar 1 % af brúttóaflamagni. En svo er ný ráðstöfun núna, því að alltaf má bæta við þetta. Það er það, að þegar ekki komst í gegnum þingið að hækka innflutningsgjöldin á veiðarfærum, þá var farið að setja innflutningshömlur, til þess að Hampiðjan gæti selt netateina með framleiðslukostnaðarverði. Þetta er óvinsælt hjá útgerðarmönnum, sem von er. Við erum ekkert á móti því, að Hampiðjan þrífist, en við viljum ekki láta það verða til þess að hækka veiðarfærin. Við álítum, að við séum ekki færir um að greiða það. Og ef þarf að styðja Hampiðjuna, á náttúrlega þjóðfélagið í heild að gera það eða ríkissjóðurinn, en ekki gera tvennt í einu, hækka verðið á veiðarfærunum, þeim hluta veiðarfæranna, sem Hampiðjan framleiðir, og hindra það, að eðlileg samkeppni verði um gæði vörunnar. Og það er alls ekki í samræmi við þá yfirlýsingu, sem ríkisstj. gaf.

Þetta hefur nú gengið svona, og 1960 lýsti ríkisstj. því yfir, að nú ættu atvinnurekendur að semja við launþegana. En í framkvæmd hefur þetta bara orðið allt öðruvísi, og þar að auki hefur þingið veríð að grípa inn i með ýmiss konar lagaákvæði, sem hafa verið til hreinnar óþurftar. Þetta er nú þannig fyrir utan þessa skatta, sem ég taldi upp fyrir ykkur, sem flestir eru réttlætanlegir, sem eru í útflutningsgjaldinu, þá er nú búið að bæta á útveginn, aðallega í tíð þessarar ríkisstj., í fyrsta lagi vöxtunum, í öðru lagi hækkuðu orlofi, í þriðja lagi launaskatti, í fjórða lagi aðstöðugjaldi af útgjöldum. Þetta er bara komið núna. Auk þess er svo sjúkrasamlagsgjald, við eigum að borga hásetunum sjúkrasamlagsgjald samkv. lögum, öllum skipverjunum. Mér finnst dálítið hlægilegt, að útgerðin sé að borga sjúkrasamlagsgjaldið fyrir skipstjórana. En svo koma fleiri liðir. Svo eru þeir með sjúkrasjóði, 1% af laununum í það, sumir, en aðrir leggja það í samkomuhús, eins og er hjá okkur á Skagaströnd, því að alltaf má bæta á útgerðina. Ég hygg, að þetta geri allt saman, ef miðað er við það, hve mörg prósent það gerir af aflanum, öll þessi heildarútgjöld, þá kæmi í hlut útgerðarinnar alltaf 20%, ef þetta væri allt talið saman. Svo eru ýmsir fleiri liðir, smáliðir, þetta er nefnilega að verða nærri óteljandi. M.a. voru það einhverjir, sem áttu skip, sem báru sig og stóðu í litlu verði, þeir vildu fara að leggja í síldarleitarskip og buðu það, og því var náttúrlega tekið með þökkum. En það, sem ríkisstj. ætti að gera, væri að ganga bara að því að afnema þessi gjöld, sem búið er að hrúga á þennan atvinnuveg, afnema þau, — þetta er bara lítið brot, sem við komum með, flm. þessa frv, — og segja svo við útgerðarmennina: Nú bjargið þið ykkur bara sjálfir. — Svo yrðu þeir að gera upp við launþegana, hvað hægt væri að borga, og það yrði að jafna sig. Það væri alveg sjálfsagt, að launþegarnir nytu þess, þegar vel gengi, og tækju þátt í því, þegar verr gengi, og það yrðu hreyfanlegir samningar. En að stefna alltaf einhliða í sömu áttina, hvaða torfæra sem er á leiðinni, hlýtur að enda með því, að maður kemst að ófæru, eins og við erum raunar komnir að núna.

Ég hef athugað, að þessir viðbótarpinklar, sem á er bætt, fyrir utan útflutningsgjaldið, muni vera á meðalbát 400—600 þús. kr., þannig að það mundu allmargir bátar geta greitt afborganir sínar núna, ef þeir þyrftu ekki að greiða þetta fé í vexti, launaskatt, hækkað orlof, aðstöðugjald af töpum, aðflutningsgjald af veiðarfærum o.s.frv., fyrir utan ýmislegt, bæði til samkomuhúsa og sérstök sjúkrasamlög og eitthvað fleiri kúnstir, því að alltaf má bæta við nýjum og nýjum pinkli, að ógleymdum þessum nýja pinkli til að halda Hampiðjunni við. Og þannig lítur út fyrir, að þetta eigi að halda áfram, það eigi alltaf að. koma 1—2 nýir póstar á hverju ári. Það er ekki undarlegt, þó að menn fari að reka í tærnar og hlutirnir hætti að bera sig.

Þetta er dálítið alvörumál. Menn gera sér bara alls ekki ljóst, hvað búið er að hlaða miklu á þennan eina atvinnuveg. Viðvíkjandi iðnaðinum, ég hef minna vit á því, en það er náttúrlega hlægilegt, að það skuli vera, — einhver sagði mér um daginn, að það væri verið að flytja inn rúgbrauð frá útlöndum til landsins. Þetta er náttúrlega skoplegt. Við ættum alltaf að geta búið til brauð, það þyrfti ekki að vera að flytja brauð inn til landsins. Og það er búið að ganga allt of langt í þessu, að vera að flytja inn alls konar iðnaðarskran, ekki sízt ef það er ekki alveg hárrétt tollafgreitt, þannig að samkeppni yrði óeðlileg við innlendan iðnað. Það er hægt að ganga of langt í öllum hlutum. Ég er með því að hafa alltaf frelsi, sem er eðlilegt og hægt er að veita fólkinu. En það er hægt að ganga of langt. Ég held nefnilega, að þeir, sem eru á þessu þingi, geri sér þetta ekki nægilega ljóst.

Ég álít, að það þurfi að taka landbúnaðinn alveg sömu tökum og ég er búinn að minnast á núna í sambandi við sjávarútveginn. Það er farin alveg sama leiðin, alltaf hækkað og hækkað. Bændurnir eru ánægðir með þetta í bili, en það er svo einkennilegt, að það er eins og þeir séu ekkert betur stæðir eftir allar þessar hækkanir, og kaupfélögin bera sig aldrei verr en núna, segjast aldrei hafa verið í meira rekstrarfjárskorti. Svo eykst rekstrarfjárskorturinn, eftir því sem kaupið hækkar, skattarnir hækka líka, og þannig er það núna í bönkunum, að það er ómögulegt að fá smávíxil, það er allt farið í söluskattinn. Söluskatturinn er nefnilega orðinn svo hár, að hann tæmir bankana, þegar menn þurfa að borga. Það er hægt að ganga of langt, bæði með tolla og beina skatta. Ég held, að það ætti að taka líka þannig fjárl., það ætti að fara rækilega yfir þau og athuga, hvað hægt er að spara. Það þýðir ekki að láta undan öllum vitleysiskröfum, það er náttúrlega ríkisstj., sem á að hafa vit fyrir þjóðinni. Nú er búið að taka völdin yfirleitt af þinginu. Í raun og veru höfum við sama og ekkert gert hér í vetur nema samþykkja einhver þýðingarlaus frv., sem við höfum eiginlega engu fengið að ráða um, því að það kemst ekkert gegn, nema sem stjórnarflokkarnir eða ráðh. eru búnir að semja um uppi í stjórnarráði og bera undir Jóhannes Nordal og Jónas Haralz. Við vitum, að ef þm. hafa komið með frv., er það bara svæft í n., yfirleitt ekki afgreitt úr n. Ég kom með þáltill. í fyrra um að lækka dráttarvexti hjá útgerðarmönnum. Það mál komst aldrei úr n. Mér skildist, að það hefði enginn nm. verið á móti, þeir þori bara ekki að skila áliti. Þetta er of mikið kjarkleysi. Og það er nú þannig með fiskveiðasjóðinn, að það eru 12% dráttarvextir, eins og ég gat um áðan. Þetta bætist ofan á þá, sem erfiðast eiga með að borga. Svo er ráðstöfunin núna, að skipum undir 120 tonnum, það á að veita þeim gjaldfrest með vexti og afborganir og ekki innheimta þessa 12% dráttarvexti, sem ég var nú auðmjúklegast að fara fram á, að yrðu lækkaðir niður í 9%, en þingið mátti ekki láta í ljós álit sitt. Það er orðið mikið vald Seðlabankans. Og þetta á að bætast við það, sem við eigum að borga næstu 5 árin. Þið sjáið, að það er bara að fresta hengingunni til næsta dags, það verður að smeygja snörunni á aftur. Það er viturlegra að búa þannig að atvinnuvegunum að hlaða ekki á þá svo háum vöxtum og afborgunum, að þeir geti ekki staðið í skilum, því að ef menn hætta að geta staðið í skilum, hirða þeir ekki um að geta staðið í skilum. Og ef menn byrja á því að þurfa ekki annað en fara í ríkissjóðinn og annaðhvort heimta vissa tölu af aurum á hvert fiskkg. o.s.frv. og einhvern hluta af laununum, eins og mér skilst, að eigi að borga frystihúsunum núna, — það á að borga þeim töpin eða verðlækkanirnar, því að það er allt búið að miða við þetta háa verð, — þá hætta menn að hafa áhuga á því að standa í skilum. Það er nefnilega ekki rétt að leggja svo þunga bagga á hestinn, að hann leggist. Ég var vanur lestamaður og reyndi þetta, því að ef hesturinn kemst upp á að leggjast, þá bara reynir hann ekki að bera þá og það verður að taka baggana af honum, og hann vappar þá laus. Það þóttu ekki lagnir lestamenn, sem höfðu þetta svona.

Ég held, að þetta, sem við bendum hér á, þessi launaskattur, sé einn allra ósanngjarnasti og vitlausasti skattur, sem nokkurn tíma hefur verið á útgerðarmenn lagður, því að okkur kom þetta ekkert við, þó að verð húsa hækkaði og menn þyrftu að fá meiri lán. Bankakerfið átti að sjá fyrir þessu eða ríkisstj. á einhvern annan hátt. Það á að lána fólki, en það á líka að stilla því i hóf. Það er náttúrlega ekkert vit í þessu, hvað byggingarnar eru dýrar. Það væri rétt að taka þetta föstum tökum og byggja heil hverfi sameiginlega og gera þetta eins ódýrt og mögulegt er, lána fólkinu þetta með skaplegum kjörum, heldur en láta einn og einn mann vera að fikta við þetta, fyrst að kaupa lóðirnar okurverði, svo að nota alls konar milliliði, eins marga og hægt er, til þess að hækka sífellt verðið, og svo gat fólkið ekki borgað náttúrlega nema með einhverjum hörmungum og lifað í þeirri von sem venjulegir launamenn, að krónan minnkí, enda er áhuginn þannig. Ég býst við, að það sé meiri hluti þjóðarinnar farinn að hafa áhuga á því, að gengið haldi áfram að lækka. En þetta er ekki heilbrigt.

Þetta er ástæðan fyrir því, að við komum með þessa till., að afnema þennan launaskatt á þá báta, sem erfiðasta aðstöðu hafa, sem eru minni bátarnir, — bátar innan við 150 tonn hafa miklu lakari aðstöðu til síldveiða, — og frystihúsin, við leggjum til, að hann sé afnuminn líka þar, því að við vitum, að þau segjast ekki bera sig. Það þarf þá bara að borga minna úr ríkissjóði, og það væri þá miklu nær, að ríkissjóður legði eitthvert fé fram í þennan húsnæðismálasjóð, heldur en leggja þetta á útvegsmenn — það er fáránlegt — og frystihús, sem geta ekki staðið undir rekstrarkostnaði. Svo efast ég um, að menn geti borgað þetta. Þarna eru farnar að safnast stórar fjárhæðir hjá þeim, sem innheimta eiga þessa skatta. Bátarnir geta ekki borgað sín gjöld.

Viðbót við öll þessi blessuð gjöld, sem ég hef nú talið, eru öll tryggingagjöldin, sem eru nú heil halarófa. En það er ekkert um það að segja, því að það er ekki nema eðlilegt, að við tryggjum mannskap og skip.

Ég hef stundum gert það hér fyrr, staðið hér upp og bent á ýmislegt í fjárl., — ég er hættur því á seinni árum, ég sé, að það er þýðingarlaust, — sem mér fannst vera hægt að spara. En ég hef viljað vekja eftirtekt á þessu atriði, að þetta væri þó alltaf hægt að afnema.

Viðvíkjandi því, hvað þetta er há fjárhæð, reikna ég með, að það verði 12—16 millj., það er ekki hægt að segja nákvæmlega um það. En það er líklegt, að það, sem fiskibátarnir fá fyrir afla, sem þeir leggja á land, verði miðað við það verð, sem nú er, ef maður reiknar með 300 þús. tonnum og meðalverðið verði um 4 kr., því að netafiskurinn verður ekki nema kr. 3,80, — þá er líklegt, að þetta verði nálægt 1200 millj. kr. Af því er launaskattur, ef við reiknum kaupið tæplega helming, um 5 millj. hjá bátunum og svo yrði það sennilega eitthvað svipað eða heldur meira hjá frystihúsum, því að þar kæmi fleira inn í e.t.v., og hjá fiskvinnslustöðvunum yfirleitt. Þetta yrðu 10—15 millj. Ég skal játa, að það eitt er ekki nóg til að bátar beri sig, en hitt vil ég fullyrða, að ef það væru afnumdar allar þessar óþarfaálögur á báteigendur, hefðu þeir ekki þurft neina 8% hækkun á fiskinum, því að þið athugið, að allt að því helmingur af þessari fiskhækkun fer í kaup, en ekki til bátsins. Svo bara hefur skriðan alltaf fylgt á eftir, allt mögulegt, og það er ekkert gert til að halda þessu kaupi niðri. Ég get sagt ykkur um nótaviðgerðir yfirleitt, að við fáum enga vinnu, enga þjónustu fyrir skipið innan við 200 kr. á tímann. Viðgerð á nót kostaði í ríki Lúðvíks Jósefssonar í tímavinnu 170 kr. á tímann í sumar, reikninginn get ég sýnt, hvenær sem er, meðalkaup, og var mest unnið við þetta að deginum. Við vitum það, að hér hjá vélsmiðjunum og yfirleitt við alla þjónustu, sem óhemjufé fer í hjá bátunum, þá er það frá 100—200 kr. á tímann, og þar að auki er náttúrlega misjafnlega vel unnið, og sumir halda því jafnvel fram, að það sé ekki alltaf unnið þann tíma, sem talinn er, og vanti mikið á. En ef ríkisstj. vildi nú gera eitthvað til þess að lækka þessa liði, t.d. með lánum, — netagerðarmennirnir og nótagerðarmennirnir þurfa töluvert mikið pláss, þeir segjast ekki geta fengið lán, þeir segjast verða að ná þessu af vinnunni til þess að geta byggt þessi hús sín, keypt lóðir og annað því um líkt, þær kosta mikið, og þá verði þeir að selja okkur þetta svona dýrt, — en ef ríkisstj. hlutaðist til um það, að þessum aðilum væri lánað með skaplegum kjörum, þannig að þeir gætu byggt eða skapað sér vinnuskilyrði viðunanleg, án þess að leggja allt of mikið fram af fé, er ég sannfærður um, að það mætti reyna að þrýsta þessum kostnaði niður. Ég get vel fallizt á það, að útvegsmenn eru ekki nógu miklir félagshyggjumenn og mynda ekki nógu mikil samtök um framkvæmdir í þessum málum. En þeim hefur heldur ekkert verið hjálpað til þess. Þeim hefur ekki verið boðið upp á neina fyrirgreiðslu með þetta, ef þeir vildu fara að láta setja upp nætur sameiginlega, eða neitt slíkt. Það þarf að endurskoða allan þennan atvinnurekstur i landinu, bæði landbúnað, sjávarútveg og iðnað. Það þarf að endurskoða hann, finna leiðir til að gera þetta hagkvæmara og ódýrari reksturinn og láta það bera sig, án þess að þurfa alltaf að vera að minnka verðmæti krónunnar á 10 ára fresti.

Það er náttúrlega hægt að halda svona áfram, eins og við höfum haldið áfram. Þetta getur gengið, meðan hækkar. Svo þegar lækkar, fer ríkið að greiða með atvinnuvegunum. Þegar það er búið að ganga í nokkur ár, fer allt að komast í hálfgerð vandræði, og þá er gengið lækkað og tekin stór stökk, eins og t.d. var síðast, þegar dollarinn fór úr 16 kr. og í tveimur stökkum upp í 43 kr. Og hvað verður næsta stökkið mikið? Svona er hægt að halda áfram náttúrlega, eins og Frakkar gerðu, og taka svo bara eitt eða tvö núll aftan af, þegar peningarnir eru orðnir það fyrirferðarmiklir í veskjunum, að þeir komast ekki fyrir. Vitanlega er hægt að halda svona áfram. Við þurfum ekkert að vera hræddir um, að við sveltum eða við lifum ekki. En þetta er bara flónska, og þetta er hrein flónska, hvernig er búið að haga sér við sjávarútveginn, hlaða á hann útgjöldum, gera ekkert til að gera reksturinn ódýrari og fara svo að borga stórar fjárhæðir úr ríkissjóði, til þess að hann geti starfað.