28.02.1967
Neðri deild: 47. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í C-deild Alþingistíðinda. (1946)

126. mál, launaskattur

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég hef nú þegar talað tvisvar í þessu máli og hef því ekki rétt til þess að gera hér annað og meira en hreyfa aths. við málflutning hv. 3. landsk. þm. (EðS). Það er aðallega eitt atriði, sem mig langar til þess að víkja nokkrum orðum að, sem hann vék sérstaklega að áðan, og það er, að hann lét í ræðu sinni að því liggja, að samþykkt þess frv., sem hér er verið að ræða, mundi teljast brot á lögum. Og af hverju taldi hann það brot á lögum? Jú, vegna þess að ef það yrði samþ., mundi það þýða, að húsbyggingarsjóður missti einhverra tekna við. Út af fyrir sig skal ég ekki neita því, að svo yrði, ef ekkert annað yrði gert. En svo vill til, að í síðustu ræðu minni, þegar þetta mál var til umr., benti ég m.a. á, að mér fyndist það einkennileg hagspeki, að fyrst væri verið að leggja á atvinnuveg gjöld, sem hann fengi ekki undir risið, þannig að verja yrði stórum fjárfúlgum úr ríkissjóði til þess að styrkja hann, svo að hann stöðvaðist ekki, og teknanna í ríkissjóð yrði svo að afla með því að leggja skatta á almenning í landinu. Ég sagði þá, að ég teldi miklu eðlilegra, að úr ríkissjóði sjálfum yrði veitt það fé, sem húsbyggingasjóðurinn kynni að tapa við samþykkt þessa frv., og ef svo yrði gert, held ég, að erfitt sé að halda því fram með nokkrum rökum, að húsbyggingarsjóðurinn yrði fyrir tekjumissi, ef þannig yrði að málum staðið eins og ég hef bent á.

En úr því að hv. ræðumaður var að fárast út af því, að hér væru flutt mál, sem mundu leiða til þess, ef ekkert fleira yrði gert, að byggingarsjóður yrði fyrir einhverju smátekjutapi, þá vil ég minna á, að ég fæ ekki annað séð en einmitt hv. 3. landsk. þm. hafi gert á þessu þingi nákvæmlega sama hlut og hann er að ásaka mig um og hinn flm. þessa frv., þ.e.a.s. að flytja frv., sem, ef samþ. yrði og ekkert annað yrði gert, mundi leiða til þess, að byggingarsjóður ríkisins tapaði nokkru fé. Hv. þm. hefur flutt ásamt, að mig minnir, tveimur flokksbræðrum sínum till. um það, að vísitöluákvæði lána úr byggingarsjóði yrðu afnumin. Þetta vísitöluákvæði, held ég, að fullyrða megi, að hafi verið tekið upp í júnísamningunum 1964, sem hv. þm. sjálfur stóð að. Hann leggur nú til, að þetta ákvæði sé fellt niður, með frv.-flutningi á þinginu. Ekki einasta samkv. því, sem hann sagði um frv. það, sem hér er verið að ræða, er hann með þessu að leggja til, að tekjur byggingarsjóðsins séu skertar, heldur skilst mér, að með svipuðum röksemdum og hann hér flutti áðan megi segja, að hann sé að leggja til, að sá samningur, sem gerður var í júní 1964, sé að þessu leyti rofinn.

Ég skal svo ekki eyða fleiri orðum um þessi atriði. Ég vil aðeins til viðbótar mótmæla því, að samþykkt þessa frv. mundi leiða til þess, að kaup yrði lækkað á lögbundinn hátt, eins og hv. þm. lét orð falla um. Ég held einmitt, að ef frv. verður samþ., mundi frekar vera hægt að segja hið gagnstæða, að laun mundu hækka, því að eins og hv. ræðumaður gat um áðan, má segja, að á vissan hátt sé þetta 1% gjald skattur, sem launþegar þurfa að greiða af launum sinum.