21.02.1967
Neðri deild: 44. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í C-deild Alþingistíðinda. (1950)

128. mál, Vestfjarðaskip

Flm. (Steingrímur Pálsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja hér fram frv. til l. um kaup og rekstur á Vestfjarðaskipi. Í 1. gr. þess segir:

Ríkisstj. er heimilt að láta smíða nýtt strandferðaskip fyrir reikning ríkissjóðs. Skipið skal vera 600—700 rúml. brúttó, byggt aðallega til fólksflutninga, en þó að nokkru til vöruflutninga, og skal hluti af farrými þess búinn kælitækjum.“

Í 2. gr. segir. „Skip það, sem um ræðir í 1. gr., skal ríkissjóður reka á leiðinni Vestfjarðahafnir — Reykjavík. Heimahöfn skipsins skal vera Ísafjörður.

3. gr. Rekstur skipsins er ríkisstj. heimilt að fela Skipaútgerð ríkisins eða hverjum þeim aðila öðrum, sem treysta má til þess að annast góða flutningaþjónustu á siglingaleið skipsins með sem hagkvæmustum hætti.

4. gr. Til framkvæmda samkv. 1. gr. er ríkisstj. heimilt að taka allt að 35 millj. kr. lán.

5. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Allir, sem ferðazt hafa um Vestfirði, vita, að vegna hárra heiða og fjalla er þetta landssvæði eitt hið erfiðasta yfirferðar og Vestfirðingar búa enn þá við erfiðari samgöngur á landi en íbúar annarra landshluta, og reynslan hefur sýnt, að þrátt fyrir allvel uppbyggða vegi, tryggja þeir ekki nema að litlu leyti eðlilegar samgöngur að vetri til milli byggðarlaga á Vestfjörðum. Hitt hefur ávallt verið ljóst, að ekkert annað en samgöngur á sjó, góðar og greiðar skipaferðir, getur fullnægt þörfum Vestfirðinga að vetrinum varðandi flutninga milli Vestfjarða og annarra landshluta. Samgöngur á sjó eru því og verða lífæðin í þessum málum, að því er Vestfirði varðar. Þá vitum við, að mikil afturför hefur átt sér stað í sjósamgöngum við Vestfirði, en það er bein afleiðing þess samdráttar, sem orðinn er í rekstri Skipaútgerðar ríkisins. Við það hefur skapazt óviðunandi ástand í samgöngumálum Vestfirðinga, og bitnar þetta allra harðast á Strandamönnum. Núna hafa t.d. flóabátasamgöngur frá Hólmavík og norður í Árneshrepp verið felldar að mestu leyti niður, vegna þess að akvegasamband skapaðist við Árneshrepp á s.l. ári, en þessi nýi vegur lokaðist í fyrstu snjóum og mun lítt verða farinn fyrr en með vorinu.

Það var þó sameiginlegt álit Vestfirðinga, meðan Skipaútgerð ríkisins var ólömuð, að nauðsyn væri á bættum Vestfjarðasamgöngum á sjó. Á þingi Fjórðungssambands Vestfjarða hafa mörg hin síðari ár verið gerðar einróma áskoranir á þm. Vestfjarða um að hefja baráttu fyrir sérstöku Vestfjarðaskipi, ef ekki fengist breyting á strandferðum til Vestfjarða í hagkvæmara horf. Margar sveitarstjórnir á Vestfjörðum hafa einnig hvað eftir annað gert sams konar ályktanir. Vart er því um annað að ræða, ef málið á að fá viðunandi lausn, en að byggt verði nýtt strandferðaskip til að annast farþega- og vöruflutninga milli Vestfjarðahafna og Reykjavíkur, og í þessu frv. er lagt til, að svo verði gert. Talið er við hæfi, að slíkt skip væri 600—700 brúttólestir að stærð og hefði farþegarými fyrir 50—60 manns. Þá þykir eðlilegt, að rekstur skipsins yrði falinn Skipaútgerð ríkisins, en þó er þeim möguleika haldið opnum í frv., að rekstur þess megi fela hverjum þeim aðila, sem treysta megi til að annast góða flutningaþjónustu á siglingaleið skipsins á sem hagkvæmastan hátt.

Fyrir nokkrum árum var horfið að því að smíða nýtt skip, Vestmannaeyjaskip, til að annast fólks- og vöruflutninga milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Misjafnlega hafði fyrir þessu fyrirtæki verið spáð, en nú hefur reynslan skorið úr. Vestmanneyingar hafa fengið öruggar, reglulegar og hagkvæmar sjósamgöngur við Reykjavík, og rekstur skipsins ber sig betur en nokkurs annars skips Skipaútgerðar ríkisins. Heimahöfn Vestmannaeyjaskipsins er Vestmannaeyjar. Á sama hátt er lagt til, að Ísafjörður verði heimahöfn hins fyrirhugaða Vestfjarðaskips. Þó að ekki sé nákvæmlega vitað, hvað slíkt skip kunni að kosta, er hér lagt til, að ríkisstj. verði heimilað að taka allt að 35 millj. kr. lán vegna byggingar Vestfjarðaskipsins. Þetta mál er nú flutt í fimmta sinn í frv.-formi að ósk Fjórðungssambands Vestfjarða og fleiri aðila í héraði, og er þess að vænta, að Alþ. líti á brýna þörf þessa landshluta til bættra sjósamgangna og taki tillit til eindreginna óska Vestfirðinga um sérstakt Vestfjarðaskip. Á þann hátt telja kunnugir, að málið verði bezt leyst.

Herra forseti. Ég leyfi mér að óska þess, að frv. verði vísað til samgmn., eftir að þessari 1. umr. verður lokið.