28.02.1967
Neðri deild: 47. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í C-deild Alþingistíðinda. (1967)

139. mál, skipulagslög

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leyfa mér, áður en þetta frv. fer til n., að benda á, að það er ekki langt síðan skipulagslögum var breytt hér á hv. Alþ. Það mun hafa verið árið 1964, sem það var gert, og þá var l. einmitt breytt í það horf, að fulltrúi sveitarfélaga fékk aðstöðu til að hafa áhrif á yfirstjórn þessara mála, og siðan er einn fulltrúi skipaður í stjórnina eftir tilnefningu Sambands ísl. sveitarfélaga. Ég held, að ég muni það rétt, að þegar þessi breyting var á döfinni, þá hafi komið fram svipaðar óskir og þær, sem koma fram í 1. gr. þess frv., sem hér liggur fyrir, þ.e. að stjórnin yrði skipuð eitthvað svipað og þar er ráð fyrir gert. En það taldi hv. frsm., að ætti þannig að vera, vegna þess að húsameistari og vitamálastjóri og vegamálastjóri, sem nú eiga sæti í skipulagsstjórn, hefðu ekki tíma til að sinna skipulagsmálunum. Mér er þá spurn, hvort það er til þess ætlazt, að þeir aðilar, sem gert er ráð fyrir að komi þarna af hálfu Arkitektafélags, Verkfræðingafélags o.s.frv., hafi þá engin önnur aðalstörf með höndum? Ég held, að það geti varla verið ætlun flm., og ég hygg, að þá mundi útkoman verða nokkurn veginn sú sama, þ.e.a.s. að þeir aðilar, sem þessi félagssamtök tilnefndu, væru alveg jafnuppteknir af sínum aðalstörfum og vegamálastjóri, vitamálastjóri og húsameistari ríkisins. Ég tel það vera mjög eðlilegt vegna þeirra starfa, sem þessir embættismenn, sem ég nefndi, leysa af höndum, að þeir séu aðilar að yfirstjórn skipulagsmálanna, því að þeirra aðalstörf eru einmitt að öllu leyti á sviði skipulagsmála. Aftur á móti er vafasamt, að þeir menn, sem yrðu tilnefndir af þeim félagssamtökum, sem nefnd eru í 1. gr. frv., hefðu slík störf með höndum sem aðalstarf. Ég tel, að það sé ekki æskilegt, að það séu gerðar tíðar breytingar á l. um skipulagsmál, nema einhverjar sérstakar ástæður komi til, og ég get ekki séð, að það sé nein sérstök ástæða til þess að breyta því fyrirkomulagi á stjórn skipulagsmála, sem ákveðin var hér á hv. Alþ. 1964. Og ég gat ekki fundið, að í ræðu hv. frsm. kæmu fram nein sérstök rök fyrir því.

Þá var það annað atriði, sem frv. hefur inni að halda. Það er um hækkun skipulagsgjaldsins. Ég get ekki heldur séð, að það séu rök fyrir því að hækki skipulagsgjaldið, meðan svo er, eftir því sem frsm. frv. sjálfur upplýsti, að skipulags­ gjaldinu, sem nú er innheimt, hefur ekki öllu verið varið til þessara mála. Það er einmitt talið af flm. þessa frv., að það sé geymd af skipulagsgjaldinu allveruleg upphæð í ríkissjóði, og þá minnist ég þess, að þegar þetta mál var fyrir þessari hv. d. 1964 og ég hafði framsögu fyrir því af hálfu heilbr: og félmn., þá túlkaði ég þá skoðun n. í minni framsöguræðu, að ríkinu bæri að verja öllum tekjum, sem það hefði af skipulagsgjaldinu, til skipulagsmála. Það getur auðvitað komið fyrir, að það sé ekki aðhafzt svo mikið í þessum málum eitthvert árabil og þá safnist fyrir einhver afgangur af gjaldinu í ríkissjóði. Ber því tvímælalaust að ráðstafa þeim afgangi, eftir því sem við skildum þetta mál, þegar við fjölluðum um það 1964, til skipulagsmála, þótt síðar verði en á þeim tíma, sem gjaldið fellur til til innheimtu. Og annað atriði má benda á í þessu sambandi. Það er það, að á ríkissjóði hvílir sú skylda að greiða kostnaðinn af skipulagsmálum, hvort sem skipulagsgjöldin hrökkva til eða ekki. Ég get þess vegna ekki heldur séð, að þessi breyting, sem þarna er lögð til, sé til neinna bóta eða nein frambærileg ástæða fyrir henni.

Þessar aths. vildi ég aðeins, herra forseti, láta koma fram, áður en þetta mál fer til n., en að sjálfsögðu hef ég ekkert við það að athuga, að það fái athugun í n. eins og önnur þingmál.