02.03.1967
Neðri deild: 48. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í C-deild Alþingistíðinda. (1972)

143. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. til l. um breyt. á 1. nr. 6 frá 17. febr. 1959, um breyt. á 1. nr. 5 18. maí 1920, um bann gegn botnvörpuveiðum. Ég hef verið að athuga þetta mál mörg ár, þó að ég hafi ekki flutt frv. um þetta fyrr, og hef ráðfært mig við lögfræðinga um það, og þeir töldu, að ekki væri heimilt að veita leyfi til botnvörpuveiða innan við fjögurra mílna mörkin, sem ákveðin voru 1952, nema heimild sé fyrir því í lögum. Og þetta frv. er aðeins heimild fyrir ráðh. að veita bátum, sem eru 40—100 lestir, leyfi til togveiða innan þeirra marka, sem ákveðin eru í reglugerð nr. 21 19. marz 1952, ef eftirfarandi skilyrði eru fyrir hendi: a) Hafrannsóknastofnunin og Fiskifélag Íslands mæla með því að heimila togveiði og hafa gert till. um takmörkun veiðisvæða og tölu þeirra fiskibáta, sem veita á undanþágu. b) Sveitarstjórnir og bæjarstjórnir þeirra kauptúna og kaupstaða, sem að veiðisvæðunum liggja, mæli með að veita slíkar undanþágur og lýsi yfir því, að vöntun sé á hráefni vegna atvinnuástands viðkomandi staða. c) Að ákveðið sé, þegar bátum er veitt undanþága til togveiða, hvar afli skuli lagður upp til vinnslu, og við það miðað, að verkun aflans fari fram þar, sem um atvinnuskort er að ræða.

Eins og þið heyrið, er þarna aðeins um heimild að ræða, og jafnvel þó að sveitarstjórnirnar óski þess og fiskifræðingarnir mæli með því og rannsóknastofnunin, er ráðh. ekki skylt að gera það, hann ræður því, þannig að lögin geta á engan hátt skaðað í framkvæmd. Það er hægt að bremsa þetta hvenær sem er.

Við útfærslu landhelginnar 1952 og svo aftur 1958 varð erfitt fyrir báta innan við 100 tonn að stunda togveiðar, vegna þess að dýpið var það mikið, þegar fjær kom landinu. Og fyrir Norðurlandi og Suðurlandi voru jafnan togveiðar áður hjá bátum, út af Vestfjörðum lítið, vegna þess að þar er botninn ójafn og þeir stóðu betur að vígi hvað línuveiðar snerti, en fyrir Suðurlandi voru togveiðar stundaðar mikið. Um Austfirðina er ég ekki eins kunnugur, en ég hygg, að þar hafi ekki verið talið neitt sérstaklega gott togveiðisvæði fyrir báta. Togveiðisvæði bátanna voru því einkum fyrir sunnan land og norðan. Með útfærslu landhelginnar misstu þeir þessa aðstöðu, sem þeir höfðu. Ég hygg, að Norðlendingar hafi ekki brotið þessar reglur og þessi lög, sem um þetta voru sett. Mér vitanlega hafa bátar ekki gert það fyrir norðan, enda lögðust þeir flestallir niður, nema þá allra stærstu bátarnir, sem eru töluvert á annað hundrað tonn. En eftir því sem mér hefur skilizt, veiða þeir Sunnlendingarnir eftir sem áður, hvað sem öllum lögum og reglum líður. Ég veit ekki, hvað oft er búið að sekta fyrir landhelgisbrot, og einu sinni var hóp af þeim gefnar upp allar sakir. Ég býst við, að það sé þannig enn, að ýmsir. skuldi sektir, sem þeir hafi orðið fyrir. En mér vitanlega hafa þeir ekki borgað neinar sektir.

Ég hef oft átt tal við þessa menn, sem hafa stundað þessar veiðar, spurt þá að, hvort þetta væri nauðsynlegt fyrir þá, og þeir segjast ekki veiða neitt að ráði utan landhelgislínu, þ.e.a.s. ytri línu, og það sé því nauðugur einn kostur vegna atvinnuástandsins og afkomu bátanna að brjóta þessar reglur. Jafnframt hafa þeir sagt mér, — þetta er ekkert leyndarmál, því að þetta vita allir, þýðir ekkert að bera á móti þessu, að þetta tefði ákaflega mikið fyrir veiðiskapnum, því að þeir eru alltaf að forðast að láta nappa sig, eftir því sem þeir geta.

Nú sjá það allir lifandi menn, að það eru ekki réttlát lög, það er eitthvað bogið við það, ef lög og reglur eru þverbrotnar. Þá er það annaðhvort, að þeir gera rangt, sem brjóta lögin, eða það er rangt hjá þeim, sem sett hafa lögin, að haga þeim þannig, þannig að breytingar er þörf á annan hvorn veginn. Ástandið er náttúrlega misjafnt, og þetta eru dálítið sérstakar ástæður hjá okkur í Norðurlandskjördæmi vestra. Kauptúnin, sem lifa aðallega á sjávarútveginum, liggja það innarlega með fjörðunum. Kauptúnin í Norðurlandskjördæmi eystra liggja meir út á við og það er því styttra fyrir þá að fara á miðin. En að vetrinum og jafnvel fleiri tíma árs er erfitt fyrir litla báta, kannske 10—15 tonna báta, að fara mjög langan veg og alls ekki hættulaust. Það hefur komið fyrir oftar en einu sinni, að menn hafa drukknað á þessum litlu bátum, og t.d. hafa tveir farið í Húnaflóa fyrir ekki mörgum árum, og það eru ekki mörg ár síðan það urðu talsverðir skaðar á þessum litlu bátum á Skjálfanda og Eyjafirði, þannig að þetta hefur sína annmarka, að veiða á þessum litlu bátum að vetrinum.

Nú eru þannig ástæður, eins og ykkur er öllum kunnugt, að síldin hefur legið við Austurlandið, og eftir því sem vestar dregur, eftir því minnkar vinna við síldina, og þegar komið er vestur fyrir Siglufjörð, hefur hún nær engin verið undanfarin ár og mjög takmörkuð á Siglufirði. Atvinnuástandið hefur því farið versnandi. Og þó að maður eigi ekki að hugsa eingöngu um sitt eigið kjördæmi, og ég geri það í raun og veru ekki nema öðrum þræði hér, er það, sem einkum hvetur mig til þess að hreyfa þessu máli, atvinnuástandið í því kjördæmi, sem ég er fulltrúi fyrir, og þess vegna álít ég, að mér sé sérstaklega skylt að hreyfa þessu máli. Ég hef rætt þetta mál bæði við fiskifræðinginn Jón Jónsson og eins hef ég rætt það við forstöðumann Efnahagsstofnunarinnar, Jónas Haralz. Ég bar frv. undir þá ásamt grg., áður en ég lagði það fram, og ég gat ekki skilið annað en þeir væru samþykkir frv. eins og það er, þó að ég telji vist, að þeim verði sent það til umsagnar, og má vel vera, að þeir geri einhverjar aths. við það við nánari athugun. En a.m.k. drógu þeir ekki úr mér að flytja frv.

En ég vildi benda ykkur á eitt, sem kemur fram í Norðurlandsáætluninni. Ég fékk að sjá yfirlitið yfir Húnaflóa, og ég sé ástæðu til að taka það fram og í raun og veru þakka ríkisstj. fyrir það, að hún sendi n. manna til að ferðast um Norðurland í sumar. Þeir kynntu sér hagi fólksins, ræddu við sveitarstjórnirnar, kynntu sér atvinnuástand og samgöngumál og yfirleitt alla hluti, sem fólkið snertir, og ég er sannfærður um það, að þetta voru mætir menn, og ég er sannfærður um, að það var mjög nauðsynlegt fyrir þá, ef þeir ætluðu að gera skynsamlegt yfirlit yfir ástandið, einmitt að gera þetta, og ég er viss um, að þeir hafa sjálfir þroskazt á því að kynnast fólkinu og gera sér ljóst, hvar skórinn kreppti að, og það gefur þeim gleggri yfirsýn yfir, hvað nauðsynlegast er að gera. Í þessu sambandi vildi ég benda ykkur á það, að árið 1963 er allt aflamagnið á Húnaflóasvæðinu 3546 tonn, 1964 er þetta komið ofan í 2802 tonn og 1965 er þetta komið ofan í 1536 tonn. Þetta eru Hólmavík, Drangsnes og Skagaströnd. Það hlýtur því öllum að vera ljóst, að þetta getur ekki lengur gengið. Það ber auðvitað að játa, að frá Skagaströnd hafa fleiri bátar verið gerðir út, sem hafa lagt upp annars staðar, og allmargir menn unnið þar, en það er bæði að fólkið hefur farið burt til að leita sér atvinnu og eins að það hefur dregið stórkostlega úr róðrum heima, sem kemur að miklu leyti af því, að fólkið hefur ekki aðstöðu til þess að stunda þá atvinnu heima, sem gefur því viðunanlegar tekjur, og það álit ég, að sé m.a. af þessu, að það má ekki leyfa togveiðar báta innan landhelginnar. Stærri togararnir hafa fengið undanþágur að vorinu þarna fyrir utan Húnaflóann, og þá hafa þeir veitt yfirleitt ákaflega vel um tíma a.m.k. En minni bátarnir hafa ekki stundað togveiðar. Ég hef fengið að sjá veiðikort frá Bretum yfir veiðisvæðin, hvar aflamagnið er mest í kringum landið, og þar sá ég, að út af Húnaflóa og einkum Skaganum eru einhver allra beztu veiðisvæði fyrir brezku togarana. Því ættum við ekki að geta veitt þarna líka í tog eða með togbátum? Og það ætti ekki að minnka veiðimagnið, þegar nær drægi landinu. Þetta er eitthvert allra bezta svæði fyrir brezku togarana. Mér finnst það því vera ákaflega aumt að útiloka okkar eigin báta frá að veiða þarna, en Bretar moka að sér fiskinum. En hitt gefur auga leið, að það fæst enginn maður til þess að kaupa bát, búa hann út á togveiðar og ætla sér að stunda þarna togveiðar upp á aðra skilmála en þá að mega vera nær landi og fara inn fyrir línuna, ef þörf gerist vissa tíma ársins. Það eru einkum sumarveiðarnar, vor og sumar, sem ég hygg að gæti verið hagkvæmast að veiða þarna, stunda þessar togveiðar. Um háveturinn, í janúar, febrúar, jafnvel eitthvað fram í marz, geri ég ekki ráð fyrir, að sé mikil veiði þarna. Meðan stærri bátarnir stunduðu togveiðar fyrir norðan, gerðu þeir yfirleitt lítið að því þann tímann, en yfir sumartímann, haustið og vorið má yfirleitt stunda togveiðar, þannig að þarna væri hægt að stunda veiðiskap 8—10 mánuði á ári með togveiðum. En línuveiði er ekkert lakari úti fyrir Húnaflóa en annars staðar á tímabilinu frá því í október og fram í febrúar. Ég hef tekið eftir því, að núna síðustu tvö árin hafa yfirleitt verið góðir róðrar, þegar hægt hefur verið að komast út. En hitt er annað mál, að tíðin hefur verið þannig í vetur, að það hefur veiðzt lítið bæði fyrir norðan og sunnan og yfirleitt verið ákaflega óhagkvæmt tíðarfar.

Ég hef ekki aflaskýrslu yfir Skagafjörðinn, en ég hugsa, að það sé mjög svipað. Þar hefur farið minnkandi veiði, ekki af því að fiskurinn hafi gengið til þurrðar, heldur af því að aðstaðan er þannig á þessum minni bátum, að fólki finnst það ekki borga sig. Svo er línuútgerðin svo dýr, að það er ekki hægt að láta bát bera sig. Það verður að kaupa beituna að, hún verður orðin ofsalega dýr, þegar bátarnir fá hana. Það er svo mikil vinna við þetta, að það er útilokað að fá nægan mannskap á marga báta og jafnvel erfitt að koma hvað fáum bátum sem er af stað á línuveiðar, og yfirleitt fást menn ekki til að beita, eftir að kemur fram á vorið og að sumrinu. Þetta er ekki nema tími úr vetrinum, sem hefur yfirleitt verið hægt að stunda línuveiðar þarna. Mín skoðun er því sú, að ef við ætlum að láta þessi byggðarlög, sem lifa þarna á sjávarútvegi, þrífast í framtíðinni, sé óhjákvæmilegt að gera breytingu í þessa átt. Hvort hún er gerð nú í ár eða næsta ár, skiptir kannske ekki öllu máli, en það er bara þeim mun lakara sem það dregst lengur.

Við höfum verið að stinga upp á ýmsum atvinnuframkvæmdum, og það hefur ekki orðið mikið úr hlutunum. Ríkið hefur þarna mikil atvinnutæki á Siglufirði og ofurlítið á Skagaströnd, þar sem verksmiðjan er, en þau hafa ekki verið nýtt. Við höfum gert ítrekaðar tilraunir til þess að fá síldina flutta til Skagastrandar, og það hefur ekki orðið úr því neitt að ráði. Jafnvel s.l. .vetur, þ.e. ekki í vetur, heldur hinn veturinn, hafði bæði ráðh. og verksmiðjustjórnin góð orð um, að þetta yrði gert, og lá við, að mætti kalla það loforð, en það varð mjög lítið úr framkvæmdum. Ég held, að það hafi verið fluttir tveir bátar til Skagastrandar og minna til Siglufjarðar heldur en þeir höfðu óskað eftir. Og ég er ekki í vafa um, að það voru þeir, sem um framkvæmdirnar sáu, sem drógu úr þessu. Þeir töldu, að þetta væri til skaða fyrir afkomu verksmiðjanna, og drógu úr því, jafnvel framkvæmdu ekki þann vilja, sem var fyrir hendi hjá ráðh. og verksmiðjustjórn. Það skal játað, að í þessum kauptúnum leita menn nú annarra leiða, eftir því sem þeir geta. Þeir eru að reyna að veiða grásleppu og selja hrognin, og það er búskapur dálitið með, en þó er það þannig með ýmis kauptún þarna, ég get nefnt t.d. Hofsós, og það er hægt að nefna Hólmavík, Drangsnes og Skagaströnd, þar er aðalundirstaðan sjávarútvegur og verður að vera. Og það er alveg lífsskilyrði að afla meira hráefnis, því að ef það er gert, opnast ótal leiðir og þá eru fyrst möguleikar á því, að fólkinu fjölgi, og þá er auðveldara að efla iðnaðinn. Iðnaðurinn er raunar kominn dálítið af stað á Skagaströnd og Hólmavík. Blönduós, Hvammstangi og Sauðárkrókur hafa aftur meira uppland, og það er miklu meiri þjónusta í kring

um landbúnaðinn í þeim kauptúnum og bæjum og ástæður þess vegna betri með atvinnuástandið. En annaðhvort verðum við einhvern veginn að sjá hínum bæjarfélögunum fyrir meira hráefni eða fólkið verður þar ekki til lengdar, því smáfækkar, og það verður duglegasta fólkið, sem fer fyrst. Víð verðum að hjálpa ungu mönnunum af stað, skapa þeim lífvænleg atvinnuskilyrði, ef fólkinu á að fjölga og það á að una sér þarna. Þetta verðum við að gera okkur ljóst. Og hvaða leiðir eru þá til? Ég er búinn að ræða þetta mál tvisvar—þrisvar, t.d. við forstöðumann Efnahagsstofnunarinnar, og hann er inni á þessari leið, og þeir koma inn á þetta f tveimur eða þremur stöðum, held ég, í yfirlitinu, sem þeir gera um Húnaflóa, þó að þeir geri það ekki beint að till. sinni. Og ég er sannfærður um, að þessi leið verður farin og óhjákvæmilegt að fara hana.

En sjómenn verða ekki til á nokkrum dögum. Það þarf að þjálfa mennina. Það er allmikið af sjómönnum á Hofsósi og Skagaströnd, Siglufirði líka talsvert, en þeir hafa ekki æfingu í togveiðum, þannig að það tekur alltaf nokkur ár að koma þessu í gott horf. Annaðhvort verða ungu mennirnir að fara að læra togveiðar eða við verðum að fá skipstjóra, sem kunna þetta, og ég er ekkert viss um nema það væri hægt að fá slíka menn, ef þeir væru studdir til þess að kaupa báta. Atvinnujöfnunarsjóður, það ætti að vera hlutverk hans að vinna að slíkum hlutum. Þetta eru menn, sem ekki eiga fjármagn. Hvort sem væru heimamenn, sem væru ungir, eða aðkomumenn, þá mundu fæstir þeirra eiga fjármagn, þannig að það yrði að lána þeim til viðbótar úr atvinnujöfnunarsjóði, þar sem þeir gætu ekki fengið lán úr fiskveiðasjóði. Ef þetta yrði gert, hygg ég, að það yrði ekkert óhagkvæmara að stunda sjávarútveg frá þessum stöðum en annars staðar á landinu, því að ég hef séð þessar upplýsingar, þær eru á kortum, sem Bretar hafa gert, að það eru einhver beztu togveiðimið þeirra þarna norður af þessum svæðum. Í Norðurl. e. er ég ekki eins kunnugur. Þeir hafa, eins og ég tók fram áðan, betri aðstöðu til þess að stunda veiðar á minni bátunum og hafa aðallega gert það, en þar fyrir er ég sannfærður um það, að þeir gætu veitt miklu meira, ef þeir hefðu 50—70 eða jafnvel upp í 100 tonna báta. Þegar þessi 250 lesta skip komu til landsins, voru þau keypt til Þórshafnar, held ég, og ég man ekki, hvort það var Raufarhöfn, — það var þarna einhvers staðar austur frá, — tvö þeirra, en þau virtust ekki bera sig vel. Annars hefur það nú gengið þannig með þau skip, að þau hafa fæst þeirra verið borguð. Menn hafa borgað vextina, en litlar afborganir. Vafalaust hefði verið hagkvæmt fyrir okkur þarna á vestursvæðinu að fá eitt slíkt skip, en við reiknuðum bara ekki með því, að það mundi ekki þurfa að borga höfuðstólinn.

Ég skal ekkert segja um það, ef væri farið að gera út þarna 100 tonna báta, hvort það yrði hægt að borga þá auðveldlega, en það er út af fyrir sig ekki aðalatriðið. Það eru svo margir, sem ekki borga skipin sín, og það getur farið þannig með síldarbátana, þessa stóru, sem eru keyptir núna fyrir 20 millj., að það er alveg ótryggt, að þeir verði borgaðir, því að ef síldin hættir að veiðast nema eitthvert takmarkað magn, verður erfitt um greiðslur. Aðalatriðið er þetta, að ef við getum stundað þarna þær veiðiaðferðir, sem gefa afla, verður sá rekstur hagkvæmur fyrir þjóðarbúið í heild, og þá er hann jákvæður.

Fólkinu hefur fækkað á Húnaflóasvæðinu. Eftir því sem kemur fram í yfirliti um Norðurlandsáætlunina, þá hefur því fækkað um 155 manns, aðallega í Strandasýslu, og þessi fækkun er nær eingöngu í þremur kauptúnunum, það eru Drangsnes, Hólmavík og Skagaströnd, þannig að það er auðséð, hvert stefnir, ef þessu heldur áfram. Fólkinu á Drangsnesi hefur fækkað um 43, Hólmavík um 28 og Skagaströnd 47 á þremur árum, frá 1962—1965.

Ég veit, að fyrir Suðurlandi er þeim það áhugamál að fá eitthvað liðkað til um reglurnar viðvíkjandi togveiðum. Hugmynd mín er, að það verði ákveðin svæði og ákveðin tala báta, sem stunda þessa veiði, og það ætti að vera miklu hagkvæmara en hafa það eins og nú er, að menn veiði bara þar, sem þeir geta. Það yrði að setja skynsamlegar reglur um þetta, og það yrði að sjá um, að þeim yrði þá framfylgt. Ég hef rætt um þessar veiðiaðferðir við fiskifræðinginn Jón Jónsson, og hann telur ekkert óhagkvæmara að veiða í tog heldur en veiða á önnur veiðarfæri, möskvastærðin sé orðin það mikil, að það ætti ekki að drepa smáfiskinn. Mikið af veiðiskapnum fer nú fram í net á vertíðinni, sem við köllum, þ. e. í marz og apríl, byrjun maí. Hún stendur í 2—3 mánuði, og við vitum, að mikið af þessum fiski, sem veiddur er í netin, er mjög slæmur og óhætt að segja, að hann sé orðinn stórskemmdur, sumt af honum. Við höfum verkað þetta í skreið og selt negrum. En getur ekki rekið að því, að negrarnir verði matvandari en þeir eru nú, ef þeir eiga kost á betri fæðu, og vildu þá ógjarnan kaupa þessa vöru af okkur, þannig að þó að við veiðum nú í netin, er ekkert víst, að það verði hagkvæm veiði eftir 10—20 ár? Þá verðum við búnir að finna upp einhverja aðra veiðiaðferð, þannig að við getum náð fiskinum án þess að hann skemmist eins mikið og gerist nú í netunum. Ef við fengjum meira hráefni, mynduðust möguleikar í kauptúnum Norðurlands til að verka þetta hráefni kannske á annan og verðmætari hátt en nú er gert. Það er t.d. eitt, þ.e. að herða fiskinn, herða ýsu, sem er veidd annaðhvort í tog eða á línu og þá vitum við, að það er alveg sérstaklega ljúffeng fæða. Ég veit, að þeir gera töluvert að þessu í Hafnarfirði, og bátsskipstjóri, sem hefur lagt þar upp, sagði mér, að hann hefði selt á 2 kr. hærra kg á þennan hátt, með því að selja hann til herzlu, heldur en á hinn veginn. Þetta hefur nær eingöngu verið borðað hér innanlands. En væri það ekki vegur að gera þessa vöru að útflutningsverðmæti? Ef við getum unnið markað fyrir herta ýsu og jafnvel þorsk, sem væri fyrsta flokks vara úr sjónum, er ég alveg sannfærður um, að það er ekki hægt að fá í raun og veru hollari og betri mat, ef við getum kennt öðrum þjóðum að borða slíkan mat. Og þannig gætu ýrasar leiðir myndazt, ef bara hráefnið væri fyrir hendi. Sama er að segja um nýtingu ufsa. Ef við hefðum skip og útbúnað til þess að veiða ufsa, er það oft hægt fyrir Norðurlandi í stórum stíl, en það verður ekki gert á þessa litlu báta, sem eru ekki nema 10—15 tonn, hefur verið gert talsvert að því, en gæti vafalaust orðið miklu meira. Frumskilyrðið er því, að við högum okkar atvinnurekstri þannig, að við fáum sem mest og bezt hráefni og vinnum úr því á þann hátt, sem við teljum hagkvæmast á hverjum tíma.

Það má vel vera, að það væri eitthvað hægt að gera í því, t.d. með niðursuðu á sjávarafurðum, og það hefur nú verið að fást við það, og það rýmkaðist eitthvað markaðurinn nú í bili. Rússar ætla að kaupa eitthvað meira en búizt var við í byrjun, en salan virðist ótrygg, og í yfirliti um Norðurlandsáætlunina kemur það fram hjá þeim, að þeir álíta, að það sé ákaflega valt að treysta á slíkt og ógerlegt að leggja út í frekari framkvæmdir á því sviði, nema markaður sé nokkuð öruggur. Þetta hefur verið rekið á Siglufirði talsvert, niðurlagningarverksmiðja, en eftir því sem mér hefur skilizt, er það rekið með halla. Á Akureyri hefur það víst gengið sæmilega, enda eru þar vanir menn og hafa verið varkárir að framleiða ekki meira en þeir væru tryggir um að geta selt. Í Hafnarfirði vitum við allir, að hefur gengið illa, og vera má, að opnist einhverjar leiðir þarna. En ástandið er þannig núna, að það er gersamlega útilokað, að menn geri eitthvað í þessum málum. Ef hægt er að benda á aðrar og hagkvæmari leiðir til atvinnubóta á Norðurlandssvæðinu, er það allt í lagi. En eitthvað verður að gera. Það gefur alveg auga leið, að það er ekki hægt fyrir þrjú kauptún að lifa á afla, sem t.d. árið 1965 var 1536 lestir. Þetta er eins og sæmilegur afli eftir tvo báta, og tveir togbátar af hæfilegri stærð mundu geta fiskað þennan afla. Ég hef verið að hugsa um, að það mundi verða mikil bót og jafnvel nægjanlegt núna í byrjun, að það væru gerðir út svona tveir bátar frá hverju kauptúni, og þá yrðu það á vestursvæðinu norðanlands 10 togbátar. Þetta mundi vera mikil bót og gæti séð fólkinu fyrir vinnu miklu lengur en það hefur vinnu núna við fiskvinnslu.

Afstaða mín til stóru togaranna er önnur. Við vinnum yfirleitt ekkert við að hafa stór togskip, nema þau geti sótt á fjarlægari mið og þar sera meira dýpi er. Ef þau geta það ekki, er ódýrara að afla fisksins með minni skipum. Það er mikið talað um skuttogara og að frysta fiskinn og vinna um borð og því um líkt, og það er vafalaust ekkert nema gott um það að segja. Hitt verðum við Íslendingar að gera okkur ljóst, að ef við ætlum að láta þessi nýju og dýru tæki, sem þeir kalla skuttogara, bera sig, verðum við að geta selt fyrir svipað verð og nágrannaþjóðir okkar, því að við höfum í raun og veru ekkert betri aðstöðu til að fiska á þau skip heldur en þeir, þannig að meðan það er 17% tollur á slíkum fiski í Þýzkalandi og um 10% í Bretlandi, höfum við ekki aðstöðu til þess að keppa við þá með slík skip. En við höfum betri aðstöðu til þess að fiska hér á báta heldur en aðrar þjóðir, og þess vegna getum við lengur keppt við þær með bátunum heldur en með slíkum skipum. Myndist eitthvert viðskiptasamband þannig, að við þurfum ekki að borga þennan toll, eigum við vitanlega eins góða aðstöðu til að reka slíka togara eins og þeir. En staðreyndin er, að það verður eitthvað í þessu máli að gera. Það má náttúrlega leita að nýjum leiðum, og þeir hafa fundið rækjumið á Húnaflóa. Það er gert ráð fyrir, að það séu 160—200 tonn, sem megi veiða þar árlega af rækju. Ef rækjan er pilluð, er mikil vinna í kringum það, en það hefur bara verið of dýrt að gera þetta þarna fyrir norðan, hún hefur verið seld ópilluð. Vera má, að með meiri vélakosti verði hægt að vinna hana til fulls þar, en þetta gefur aldrei næga atvinnu, því að til þess að afla þessarar rækju er ekki talið að þurfi nema 4—5 litla báta, þannig að ég álit, að eina leiðin til þess að afla meira hráefnis þarna sé að veita frekari undanþágur en nú er gert með togbáta og hjálpa ungum og efnilegum sjómönnum, hvort sem þeir eiga þarna heima nú eða ekki, fá aðkomumenn að, ef með þarf, hjálpa þeim til þess að eignast skip, sem henta til þessara veiða. Það er hægt að takmarka þetta alveg eftir vild. Þetta er aðeins heimild, sem ráðh. hefur í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir og fiskifræðingana, og þá er hægt að breyta þessum reglugerðarákvæðum og hafa þetta allt í hendi sér, ef það reynist hagkvæmt.

Ég efast ekkert um það, að fiskifræðingar okkar eiga eftir að komast að ýmsu viðvíkjandi fiskveiðum og rekstri sjávarútvegsins, sem þeim er ekki ljóst nú. Það gefur þess vegna auga leið, að breytingar geta verið nauðsynlegar. En ástandið, eins og það er núna, er ekki viðunandi. Sunnan við land veiða menn í landhelgi, alveg eins og engin ákvæði séu til um það eða allt að því. Norðanlands brjóta menn ekki lög, en þeir eiga bara ekki að gjalda þess, að þeir hafa ekki gert það. Ég veit ekki, hvað gert verður, hvort þetta heldur áfram, aflinn að minnka og fólkið að fara í burtu til þess að vinna, ef ekki fæst nein leiðrétting á þessu, eða hvort Norðlendingar taka upp sömu aðferð og Sunnlendingar að brjóta þessar veiðireglur og fá sér togbáta og fara að veiða að einhverju leyti í landhelgi. Vitanlega yrði veiðin ekki nema að nokkru leyti innan þeirrar línu, sem nú er, því að marga tíma væri hægt að veiða utan við hana og sérstaklega fyrir norðan. Það virðist eftir þessu korti, sem ég sá um veiði Breta, að þeir veiði ákaflega lítið sunnan við land að sumrinu. Veiðin er þarna norðan við land aðallega og norðaustan. Ég hygg, að mönnum sé þetta ljóst í aðalatriðum. Ég skal líka játa, að ég hef sérstaklega haft áhuga á þessu máli vegna þess, að ég tel það svo mikla nauðsyn fyrir það byggðarlag, sem ég er fulltrúi fyrir. Hitt efa ég ekki, að það er í rauninni óviðunandi ástand fyrir Suðurlandi, og ég er sannfærður um það, að fyrir Norðausturland væri hagkvæmt að hafa stærri togskip, sem væru af þessari meðalstærð, 70—100 tonn.

Í yfirliti því, sem kemur fram um Norðurlandsáætlunina fyrir Húnaflóasvæðið, geta þeir um það, að hentugasta stærðin muni vera um 70 tonn. Þeir halda, að ef það fer mikið yfir það, sé hætta á, að bátarnir fari á burt. Ég hygg, að dómar manna séu dálítið misjafnir um þetta. Mér hefur skilizt á þeim hér sunnanlands, að allt að 100 tonna togbátar séu hentugir, og þess vegna set ég í þessa heimild 40—100 lestir. Það er ekkert aðalatriði fyrir mér. Fyrir mitt leyti er ég fús á að ganga inn á breytingar, bæði á orðalagi og efni. Aðalatriðið er þetta, að undanþágurnar séu leyfðar, þannig að hægt sé að fara að stunda togveiðar norðanlands á þessum bátum, sem eru af meðalstærð og þess vegna viðráðanlegir fyrir einstaklingana, og það sem allra fyrst.

Ég óska eftir því, að þessu frv. verði vísað til sjútvn. Ég geri ráð fyrir, að það verði sent til umsagnar þeim aðilum, sem bezt hafa vit á þeim málum, og þá er náttúrlega ekki nema eðlilegt að komi fram ýmsar aths. og kannske nýjar hugmyndir. En ég álit ekki verjandi að hreyfa þessu máli ekki. Verði það svæft, bera þeir ábyrgð á þeim drætti, sem honum valda. Ég get ekki betur gert en lagt málið fyrir.