02.03.1967
Neðri deild: 48. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í C-deild Alþingistíðinda. (1973)

143. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að þm. minnist þess, að ég hef a.m.k. einu sinni, ef ekki tvisvar, flutt hér frv. til l. á Alþ. um breyt. á þeim l., sem hér um ræðir, og einnig mun varamaður minn í Suðurlandskjördæmi, Sigfús J. Johnsen, hafa flutt frv. til l. um sama efni á síðasta þingi. Um þetta mál, auknar veiðiheimildir innan fiskveiðimarkanna, hafa verið mjög skiptar skoðanir, bæði innan þings og utan, og í þau skipti, sem þessar till. hafa áður verið fluttar hér, hafa þær ekki fengið hljómgrunn. En ég er alveg sannfærður um það nú eins og ég hef alltaf verið, að að því kemur, að Alþ. mun fallast á það að breyta l. um togveiðar þannig, að bátar af tiltekinni stærð fái auknar veiðiheimildir. Hörðust andstaða, a.m.k. utan þings, hefur yfirleitt komið fram frá Norðlendingum. Ég hlýt því að fagna því, að einn af þm. Norðurl. v. skuli nú hafa flutt þetta mál hér inn í Alþingi.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni, að það sé tvennt, sem Alþ. þurfi að gera í sambandi við fiskveiðar okkar. Það er að nýta svæðið innan fiskveiðitakmarkanna á þann hátt, sem hagkvæmast er og bezt verður við komið á hverjum tíma og hverjum stað, og í annan stað að gera ráðstafanir til þess að vernda þau hrygningarsvæði, sem vitað er um og menn hafa fulla ástæðu til að óttast að séu að ganga til þurrðar meira en eðlilegt er. Ég tel, að þessi tvö sjónarmið hljóti að koma til umr. og fyrirgreiðslu hér á Alþ., áður en langt um líður.

Það var alveg rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, þetta er ekki einasta áhugamál útgerðarmanna, þetta er kannske fyrst og fremst áhugamál þeirra aðila í sjávarþorpunum, sem atvinnu sína eiga undir því, hversu mikið hráefni berst til fiskvinnslustöðvanna, sem þar eru. Þetta er því að mínum dómi áhugamál og fjárhagsmál bæði fyrir sjómenn og verkafólk ekki síður en fyrir útgerðarmenn. Það verður að sjálfsögðu og hlýtur að koma til athugunar, á hvaða hátt og eftir hvaða leiðum verður eðlilegast að fara, ef Alþ. fellst á að veita auknar heimildir til togveiða innan fiskveiðimarkanna. Það liggur ljóst fyrir, að sums staðar við strendur landsins kann þetta að koma að minna gagni en annars staðar og sums staðar verður að taka tillit bæði til hrygningarsvæða og annarra aðstæðna, þar sem annars staðar eru þær aðstæður ekki fyrir hendi. En ég vildi ekki láta hjá líða að minna á það, hvaða afstöðu ég hef haft til þessa máls hér áður, tvisvar flutt um það frv. til l. um breyt. á þeim l., sem hér um ræðir, og einnig við fleiri tækifæri hef ég látið koma í ljós þá skoðun mína, að ég tel, að að þessu bæri að stefna. En ég vil mjög undirstrika einnig það, sem ég hef áður látið koma í ljós, að samhliða auknum veiðiheimildum, hvort það er með botnvörpu, dragnót eða nót, þarf að gera ráðstafanir til þess að tryggja það, að hrygningarsvæðin við strendur landsins verði ekki ofnýtt. Ég flutti um það till. til þál. hér á sínum tíma, að athugun yrði látin fara fram á því, hvort ástæða væri til þess að ætla, að við værum komnir í sambandi við hrygningarsvæðin út á hálan ís, ef svo má segja, hvort við værum farnir að stunda þar rányrkju eða ofveiðar, og var sú till., að mig minnir 1962, samþ. að efni til, að litlu leyti breytt að orðalagi, en samþ. að efni til, eins og ég hafði lagt hana hér fyrir. Þess er að vænta, að frá fiski­ fræðingum heyrist innan tíðar um það, hvort ástæða er til að vera með nokkurn ótta í því sambandi. Það kom fram 1962, ég minnist bréfs, sem þeirri þn. barst, sem hafði með þetta mál að gera, að þeir töldu þá, að það væri ekki ástæða til beinnar skerðingar á veiðunum í sambandi við hrygningarsvæðin. En margt hefur breytzt síðan. Það eru liðin 5 ár og hlýtur að koma að því, að þeirra álits verður aftur leitað, og ég tel nauðsynlegt fyrir Alþ., að það fái á ný grg. um málið, hvort álit fiskifræðinga hefur nokkuð breytzt í þessu sambandi, þannig að það geti þá síðar meir hagað aðgerðum sínum í samræmi við það.