07.03.1967
Neðri deild: 50. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í C-deild Alþingistíðinda. (1989)

146. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þó að ég telji þetta mál allþýðingarmikið fyrir mörg byggðarlög, marga hafnarstaði á landinu, held ég, að óþarft sé að hafa langa framsöguræðu fyrir því. Frv. fjallar um það, að ríkið leggi fram meira fé til hafnargerða og lendingarbóta en það nú gerir og að byrðar sveitarfélaganna, sem að hafnarframkvæmdum standa, séu að sama skapi léttar.

Samkv. gildandi hafnarl. er öllum höfnum landsins, sem eru löggiltar hafnir, skipt í tvo flokka eftir því, að hve miklu leyti ríkið stendur undir kostnaði af hafnargerðum. Í öðrum flokknum skal ríkið leggja fram 40% af kostnaði við hafnargerðir, en hins vegar veita ríkisábyrgð fyrir 60% af kostnaðinum. Þetta er miðað við viðurkennda samþykkta kostnaðaráætlun. Hins vegar eru þær hafnir í öðrum flokki samkv. hafnarl., sem ríkissjóður greiðir 50% af kostnaði við lendingarbætur og hafnargerðir og ber hins vegar 50% ríkisábyrgð af hinum hlutanum. Nú má segja það, að nokkrar einstakar hafnir á landinu búi við sæmilegan fjárhag, hafi mikla tekjumöguleika, og sker Reykjavíkurhöfn sig þar að sjálfsögðu algerlega úr. Nokkrar aðrar hafnir kunna að hafa allrúma tekjumöguleika, en samt hygg ég, að þær hafnir séu fáar, sem ekki eru nú í mjög mikilli fjárhagsþröng og gengur illa að rísa undir sínum lögboðna kostnaði við hafnargerðir. Þær hafnir eru áreiðanlega miklu fleiri, yfirgnæfandi meiri hluti íslenzkra hafna, sem búa við hin mestu fjárhagsvandræði, ef þær hafa orðið að standa í einhverjum framkvæmdum, sem að marki eru, á síðustu árum eða áratugum, því að þar duga engir smápeningar til. Það eru ekkí miklar hafnarframkvæmdir, sem kosta nú tugi millj., og í sumum tilvikum verður ekki hjá því komizt að leggja í jafnvel 100 millj. fjárfestingu við uppbyggingu hafna, og þá hrekkur geta hafnarsjóðanna skammt. Slíkir tekjumöguleikar, sem til þess nægja, eru ekki fyrir hendi. Höfnunum er yfirleitt um megn að rísa undir sínum hluta af hafnargerðarkostnaði samkv. hafnarlögum, og mér er fullkunnugt um það, að svo er nú komið, að margir af blómlegustu útgerðarstöðum landsins eru á gjaldþrotsbarmi vegna þeirra skulda, sem á þá hafa hlaðizt á undanförnum árum vegna bráðnauðsynlegrar og brýnt aðkallandi hafnarmannvirkjagerðar.

Fjárhagsvandræði hafnanna koma aðallega fram með þrennu móti. Sums staðar, þar sem bráð nauðsyn er að ráðast í framkvæmdir, dregst það árum saman, að hægt sé að hefjast handa með gerð bráðnauðsynlegra hafnarmannvirkja. Á öðrum stöðum er að vísu haldið af stað, en skuldirnar færa þá allt í kaf. Og á nokkrum stöðum stöðvast mannvirkin í miðjum klíðum og liggja jafnvel árum saman undir skemmdum, og orsökin er féleysi og annað ekki.

Ég held, að þetta ástand sé þjóðinni dýrt og verði úr því að bæta. Og þá verð ég að játa, að ég sé ekki aðra leið færa en ætla ríkinu sem hinum getumeiri aðila meiri hlut í þessari nauðsynlegu uppbyggingu í þjóðfélaginu og léttar séu að sama skapi byrðar sveitarfélaganna, sem fé eiga að leggja á móti til hafnargerða. Frv. þetta er í fáum orðum sagt um það að breyta hinu lögbundna hlutfalli um þetta, að í staðinn fyrir, að ríkið leggi fram 40% í öðru tilvikinu og 50% í hinu, komi það og verði lögfest, að ríkið leggi til hins fyrri hafnaflokks 75% og beri síðan 25% ábyrgð í því tilviki, og í hinu tilvikinu, að ríkisframlagið verði 85% og ríkisábyrgðarhlutinn þannig 15%. Ef byrðum sveitarfélaganna og hafnarsjóðanna væri þannig skipt, geri ég mér vonir um, að ástandið kynni að batna í hafnarmálum okkar. En óneitanlegt er, að af þessu mundi leiða miklar, auknar byrðar fyrir ríkissjóð. Það þýðir ekki að dyljast þess. En hafnir eru alger undirstaða í okkar aðalatvinnuvegi, sjávarútveginum. Hafnirnar verða að skapa útgerðaröryggi og skapa skipunum öryggi og vinnuaðstöðu í sambandi við þann atvinnuveg. Ef hafnirnar eru lélegar, dregur úr möguleikum til þess að sækja sjóinn og sækja gullið í greipar Ægis, og undir því eigum við allar okkar þjóðartekjur að kalla má, eins og allir vita.

Það, sem hægt er að hafa á móti þessu frv., er það, að ríkissjóður sé líka vanmegnugur þess að standa undir þessum byrðum og þá því síður, ef þær væru þyngdar. En annað úrræði sé ég ekki, það játa ég, og þess vegna er till. mín sú, að hafnarl. verði breytt á þann veg, að ríkisframlögin verði í öðrum flokki hafnanna 75% og í hinum flokki hafnanna 85% í stað 40% og 50%, eins og hafnarl. nú ákveða.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.