07.03.1967
Neðri deild: 50. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í C-deild Alþingistíðinda. (1991)

146. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Þegar frv. til l. um að gera Þorlákshöfn að landshöfn var til umr. hér í hv. d. á síðasta þingi, beindi ég þeirri fsp. til hæstv. sjútvmrh., hvað liði endurskoðun þeirri, sem á orði hefur verið höfð á hinum almennu hafnarlögum. Jafnframt lýsti ég þeirri skoðun minni, að ekki færi vel á því, að sett yrðu lög um nýja landshöfn, áður en hafnarl. í heild hefðu verið tekin til rækilegrar endurskoðunar. Í framhaldi af þessari fsp. minni lýsti þá hæstv. sjútvmrh. því yfir, að hafnarlög mundu verða endurskoðuð á árinu 1966 og frv. til nýrra hafnarl. lagt fyrir næsta reglulegt Alþ., þ.e.a.s. það Alþ., sem nú stendur yfir.

Mér er kunnugt um það, að á s.l. ári og fram á þetta ár hefur staðið yfir heildarendurskoðun hafnarl. Veit ég ekki betur en þessari endurskoðun sé nú að mestu lokið, og ég vil lýsa því yfir i framhaldi af því, sem fór fram á milli mín og hæstv. sjútvmrh. á síðasta þingi, að ég treysti því eindregið, að hæstv. ríkisstj. flytji þetta nýja frv. að endurskoðuðum hafnarlögum á þessu þingi og að það verði afgreitt sem lög. Ég segi þetta af tilefni þess frv., sem hér liggur fyrir, og þess frv., sem hv. 3. þm. Norðurl. e. minntist á, að hann og nokkrir flokksmenn hans hefðu lagt fram á þessu þingi. Ég tek fyllilega undir þá skoðun, sem kom fram bæði hjá hv. 5. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Norðurl. e., að núgildandi hafnarlög eru orðin úrelt að ýmsu leyti og ekki hvað sízt að því er snertir þau hlutföll, sem þar er gert ráð fyrir um þátttöku ríkissjóðs og hinna einstöku byggðarlaga í kostnaði við hafnargerðirnar. Sú staðreynd blasir líka við, að fjárhagur margra hafna í öllum landshlutum er svo bágborinn, að hafnirnar eru algerlega að sliga fjárhag byggðarlaganna og þetta ástand þeim að mörgu leyti fjötur um fót.

Ég skal ekki taka málefnalega afstöðu til þeirra frv., sem hér um ræðir og hér liggja fyrir, en ég tel fullvíst, að hin endurskoðuðu hafnarlög, sem væntanlega verða lögð fyrir hv. Alþ. á næstunni, stefni að verulegu leyti í svipaða átt. En kjarni málsins er, að núverandi ástand í þessum efnum er óviðunandi. Hafnirnar eru að sliga fjárhag byggðarlaganna. Hafnirnar eru hins vegar lífæð útgerðar og sjósóknar í þessu landi. Þess vegna er óhjákvæmilegt að gera nýjar og í einstökum tilfellum allvíðtækar og róttækar ráðstafanir til þess að rétta við fjárhag þeirra og til þess að tryggja það, að áfram verði haldið að byggja upp nýjar hafnir og endurnýja eldri hafnir í samræmi við þarfir og kröfur tímans.

Að svo mæltu leyfi ég mér að ítreka þá ósk mína og láta í ljós fullvissu mína um það, að hæstv. sjútvmrh. muni örugglega standa við það fyrirheit, sem hann gaf í fyrra, að frv. til nýrra hafnarlaga yrði lagt fyrir næsta þing.