07.03.1967
Neðri deild: 50. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í C-deild Alþingistíðinda. (1992)

146. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Norðurl. e., Gísla Guðmundssyni, fyrir góðar undirtektir við málið, og er það rétt hjá honum, mér hafði fallið það úr minni, að annað frv. væri fyrir þinginu um breyt. á hafnarl. En það er á ýmsan hátt öðruvísi upp byggt en þetta frv., en fer í sömu átt að því er það snertir að hækka framlög ríkissjóðs til hafnarmannvirkjagerðar og létta hinar ofurþungu byrðar á hafnarsjóðunum. Ég tel auðvitað sjálfsagt, að hv. sjútvn. fjalli um þessi mál hið bráðasta og sjái um, að það dragist ekki úr hömlu, að þessi mál fái afgreiðslu á þessu þingi.

Þegar hv. 2. þm. Vestf. (SB) kvaddi sér hér hljóðs, þóttist ég þess fullviss, að hann stæði upp vitandi um þá brýnu nauðsyn, sem er á því, að hafnarl. verði breytt, — hann stæði upp til þess að lýsa fylgi sínu við þetta frv., sem hér er til umr. En þó að hann mælti hlýlega í þess garð, held ég, að honum hafi láðst að tjá fylgi sitt við frv. En ég efast ekki um það, að hann sé því fylgjandi. Hins vegar upplýsti hann, að hæstv. ríkisstj. hefði hafnarl. til endurskoðunar eða hefði sett menn í að endurskoða þau og þessari endurskoðun væri nú að verða lokið og væri nú bráðum von á stjfrv. um þetta mál. Víst er gott, að stjfrv. komi um þau mál, sem þm. hreyfa ekki, en þegar þm. hafa flutt tvö frv. á einu þingi um eitt mál, er ekki beint brýn þörf á þriðja frv., svo að málinu er borgið, þó að stjfrv. komi ekki, ef málið bara fæst afgreitt úr n. Hv. 2. þm. Vestf. sagði, að það frv., sem væntanlega kæmi og væntanlega yrði gert að lögum á þessu þingi, stefndi í svipaða átt, og finnst mér það næsta sennilegt, það yrði mjög svipað þeim frv., sem fyrir þinginu liggja, um að létta byrðar hinna fátæku hafnarsjóða, sem rísa ekki undir þeim byrðum, sem gildandi lög leggja á þá, og varla annar kostur fyrir hendi en að þyngja hlut ríkisins í sambandi við þessar nauðsynlegu undirstöðuframkvæmdir okkar aðalatvinnuvega. Hins vegar er síður en svo, að ég sé því mótfallinn, að stjfrv. komi um þetta mál. Það má vel vera, að athugun n. hafi leitt einhver atriði í ljós, sem gætu orðið til verulegra bóta á gildandi hafnarl., og þykir mér þá í raun og veru alveg víst, að þessi mál öll verði tekin til sameiginlegrar athugunar í sjútvn. og það bezta úr þeim öllum saman tekið og endurbætur fáist þannig á gildandi hafnarl., og tel ég það, eins og ég áðan sagði, brýna nauðsyn. En hitt get ég ekki látið vera að segja, að mér finnst hæstv. ríkisstj. vera nokkuð síðbúin með sitt hafnarlagafrv., ef það er ætlun hennar, að það verði afgreitt sem lög frá þessu þingi, því að nú tekur mjög að líða á þingtímann. Þó er vonandi, að þetta frv. komi, ef það er endilega það, sem verður að afgreiða, en ekki þmfrv., sem fyrir liggja, svo að kostur gefist þá á að athuga það og fá málið a.m.k. afgreitt.