14.12.1966
Efri deild: 26. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

88. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er engum vafa bundið, að þessar 20 millj. verða veittar sem óafturkræft framlag, og nefndin, sem samdi frv., hafði þann skilning á málinu, og bréf það, sem hv. þm. vitnaði í áðan, hef ég skrifað með vitund og samþykki ríkisstj. allrar, og það hefur alltaf verið ákveðið, að þetta væri óafturkræft framlag. Þetta vita fulltrúar bænda í sex manna nefndinni, og þetta veit stjórn Stéttarsambands bænda og efast ekkert um, að við það verður staðið. Í rauninni er það ekki meira, sem ég þarf að segja í tilefni af því, sem hv. þm. sagði.

Það má segja, að þetta frv. sé til orðið vegna samninga fulltrúa bænda í sex manna nefndinni við ríkisstj. á s.l. hausti, enda þótt í júlímánuði hafi verið um þetta mál rætt og drög að frv. fyrir framleiðnisjóð hafi þá verið samin, eða tveimur mánuðum áður en farið var að semja um verðið. En mér þykir það ágætt, að þetta frv. sé tengt við samninga í haust við fulltrúa bænda í sex manna nefnd og stjórn Stéttarsambandsins. Mér finnst það alveg ágætt. Það sýnir, að ríkisstj. og fulltrúar bænda ræða saman um þessi mál. Og það er fjarri mér að eigna ríkisstj. eða mér frekar heiðurinn af því, sem vel er gert, heldur en að bændur sjálfir geti talið sér það. Ég tel það aðalatriðið, ef gott samkomulag tekst og að koma góðum málum áfram, og ég er ekki í vafa um það, að framleiðnisjóður landbúnaðarins er eitt af þeim málum, sem sanna ágæti sitt og gildi strax og þó sérstaklega í framtíðinni.