21.03.1967
Neðri deild: 57. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í C-deild Alþingistíðinda. (2001)

167. mál, sala Holts í Dyrhólahreppi

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 360 er um heimild fyrir ríkisstj. til að selja eyðijörðina Holt í Dyrhólahreppi í VesturSkaftafellssýslu, selja hana Jóhönnu Sæmundsdóttur, sem búsett er í Nykhól í Dyrhólahreppi. Frv. er flutt skv. beiðni hennar, en jörð þessi var í mörg ár í eigu og ábúð þessarar konu og manns hennar, sem nú er látinn. Fyrir mörgum árum var Hafursá veitt úr fyrra farvegi sínum vegna brúargerðar á þjóðvegi þarna um Mýrdalinn, og þá var talin mikil hætta á því, að það yrðu spjöll á landi jarðarinnar vegna þessara framkvæmda, og þá keypti ríkið þessa jörð. Jóhanna hefur haft afnot jarðarinnar síðan, og sem betur fór, urðu ekki nein veruleg spjöll á landi jarðarinnar. Nú hefur þessi kona mikinn hug á því að ná jörðinni aftur í eigu ættar sinnar, og þess vegna fór hún fram á það við hv. þm. Ragnar Jónsson og mig, að við flyttum frv. um sölu jarðarinnar til hennar.

Ýmis gögn þessu máli viðvíkjandi eru i höndum Ragnars Jónssonar, og mun hann fús til þess að afhenda landbn., sem mun fá þetta mál til meðferðar, þessi skjöl til athugunar.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta mál, en leyfi mér að leggja til, að því verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni og til hv. landbn.