13.04.1967
Neðri deild: 65. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í C-deild Alþingistíðinda. (2009)

168. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Við hv. 5. landsk. þm. flytjum nú aftur frv. til stjórnarskipunarlaga um breyt. á stjórnarskránni. Það er nokkurn veginn sama frv. og við fluttum einnig á síðasta þingi. Mér sýnist að vísu þar ekki vera mikill grundvöllur fyrir — og það var ekki heldur í fyrra — að fá slíkt samþ., en ég skal þó örstutt gera grein fyrir höfuðatriðunum í þessu frv.

Í 1. gr. felst að breyta til viðvíkjandi kosningarréttinum, þannig að það megi lækka kosningarréttinn með lögum, þannig að hann verði lægri en 21 árs. Það hefur nú legið fyrir Alþ. brtt. við stjórnarskrána viðvíkjandi kosningarréttinum, þar sem mælt er svo fyrir, að hann skuli lækka niður í 20 ár. Ég held, að það væri miklu praktiskara að afgreiða þetta á þann máta að gera þær breyt. á stjskr., að kosningarrétturinn skuli vera 21 ár, en það megi lækka kosningaaldurinn með lögum. Við tókum það fram, að það megi lækka hann, en ekki breyta honum, vegna þess að við viljum ekki, að það sé mögulegt með lögum t.d. að svipta þá menn kosningarrétti, sem eru kannske 21—25 ára.

Þá eru í 3. og 4. gr. sérstök fyrirmæli, sem ég í fyrra gerði ýtarlega grein fyrir, að það sé hægt að skjóta undir þjóðardóm ákveðnum frv. eða þál., þegar svo og svo margir menn í landinu eða svo og svo margir þm. krefjast þess. Það, að þessi brtt. við stjskr. er flutt, stafar af því, að þegar lýðveldisstjskr. var sett, voru skapaðir möguleikar á því, að hægt væri að skjóta undir þjóðardóm vissum l., sem ætla mætti að væru það óvinsæl hjá þjóðinni t.d., að það mundi vera hægt að fella þau við þjóðaratkvgr., og þá var forseta lýðveldisins gefið valdið til þess að geta skotið slíkum l. undir þjóðardóm með því að synja þeim ella um gildi, um sína undirskrift.

Þar sem það hefur sýnt sig öll þau ár, sem lýðveldið hefur starfað, að forseti lýðveldisins hefur aldrei notað þetta vald, en þó var ákvæðið um, að hann skyldi vera þjóðkjörinn, sett i stjskr. einmitt með tilliti til þess, að hann fengi þetta vald, þá virðist nauðsynlegt, að það séu skapaðir á annan máta möguleikar fyrir því, að þjóðin geti sjálf fengið að dæma um viss lög. Þess vegna höfum við sett þarna inn, að þegar ákveðin tala þm. eða ákveðinn hluti kosningabærra manna í landinu fari fram á slíkt, að slík lög eða slík þál. sé lögð undir þjóðardóm, þá skuli það gert. Þetta er m.ö.o. til þess að fullkomna lýðræðið í okkar landi, þannig að það geti verið beint lýðræði, lýðræði, þar sem þjóðin sjálf ákveður með lögum, hvað vera skuli lög, og skyldi maður mega ætla, að þeir, sem ella segjast vera miklir vinir lýðræðisins, hefðu eski á móti þessu.

Þá er í 5. gr. mælt svo fyrir, að Íslendingar skuli einir eiga fasteignir og náttúruauðæfi hér á landi, með vissum undantekningum, sem þar greinir, og það stendur allt saman í sambandi við það, sem nú er svo mikið um rætt, aðstöðuna, sem verið er að gefa útlendingum til þess að fá ítök í íslenzku atvinnulífi. Á þetta að hjálpa til þess að tryggja, að Íslendingar eigi einir og sjálfir öll þau auðæfi og atvinnutæki, sem á Íslandi eru.

Þá er í 6. gr. lagt til, að öll núverandi óbyggð, öll hveraorka, vatnsorka og auðæfi í jörðu, sem þar eru, séu ævinleg eign íslenzku þjóðarinnar. Þetta er mál, sem nokkrum sinnum áður hefur komið til umr. hér og ég vil alveg sérstaklega undirstrika nauðsynina á að fara að setja lög um. Hvað eftir annað er það svo nú, að þegar um er að ræða ýmis réttindi á löndum, sem eru í óbyggð, þá koma upp mál, sem hæstiréttur verður að úrskurða um. Við skulum segja t.d., að ákveðinn hreppur hefur haft afrétt í ákveðnum óbyggðum, m.ö.o. réttinn til að beita þar fé hreppsbúa, eða að samsvarandi réttur hefur tíðkazt viðvíkjandi veiði í vötnum uppi í óbyggðum. Það er ákaflega óöruggt, hvernig nú er skýrt, hve víðtækur slíkur réttur er. Sumir halda, að afréttur, það þýði um leið raunverulegt eignarhald, t.d. viðkomandi jarða eða viðkomandi hreppa, á þessu landi. Og eins og nú er, þá koma slík mál, ef að deilumálum verða, og það hafa þau hvað eftir annað orðið nú, koma þau undir hæstarétt að dæma um. Á meðal hæstaréttardómara og beztu lögfræðinga landsins hafa verið mjög skiptar skoðanir um þessi mál. Sumir hafa aðhyllzt, að einstaklingsrétturinn skuli vera útfærður sem viðast í slíku sambandi og ná sem víðast út. Aðrir hafa aðhyllzt það, að sá gamli, almenni réttur þjóðarinnar til landsins skuli hafður í heiðri og það skuli líta svo á, að það, sem ekki hefur verið séreign einhverra aðila áður, skuli vera sameign þjóðarinnar í heild. Þetta er slíkt atriði, að um það á að vera ákvæði í stjskr., og þess vegna höfum við lagt til, að á eftir 68. gr. komi grein, sem hljóðar eins og segir í 6. gr. Um leið viljum við hins vegar tryggja með lögum, að beitarréttur, veiðiréttur og annar hefðbundinn afnotaréttur á þessum svæðum sé tryggður áfram með lögum til handa þeim, sem hann hafa að réttu, en honum fylgi ekki réttur eða vald til t.d. hveraorkunnar, vatnsorkunnar og auðæfanna í jörðu.

Ég vil alveg sérstaklega ítreka það við hv. þm., hvað þetta gæti orðið mikið deiluatriði. Ég kom inn á það nýlega í öðru sambandi, í sambandi við hveraorkuna, en í sambandi við vatnsorkuna hefur þetta orðið alveg stórkostlegt deiluatriði, þó að það hafi aldrei komið verulega til kasta Alþ. síðan 1923. En þarna er mál, sem er alveg nauðsynlegt að útkljá. Ég vil minna á, að það eru ekki nema 20 ár liðin síðan íslenzka ríkið keypti Þjórsá, og það eru vafalaust fleiri stórár í landinu að nafninu til í eign, kannske hálfdauðra, en um leið hálfútlendra félaga. Þjórsá var keypt þá fyrir 3 millj. Hún þótti ekki mikils virði vegna þeirra ákvæða, sem sett eru um, að ríkið eitt geti hagnýtt vatnsorku hennar. En ég vil bara vekja athygli á, hvílík hætta því er samfara, þegar erlent auðvald kemur inn í landið í stórum stíl og allir þessir hlutir eru eins óklárir og þeir eru, hvers konar brask kann að koma upp. Ég vil bara benda á, ef það kynni að gerast, að viss útlend fyrirtæki færu að seilast eftir að eignast heilar ár á Íslandi, fossorkuna í heilum ám, og þessi sömu fyrirtæki eignast kannske fjórðunginn eða þriðjunginn af öllum íslenzkum iðnaði og fara síðan að beita sínu stjórnmálaáhrifavaldi til að reyna að knýja það t.d. fram, að þau fái sjálf að hagnýta vatnsorkuna í slíkum ám, og við vitum, hvers konar breytingar er verið að gera núna á l. eins og raforkulögunum, hve mjög er verið að gera slappara allt vald ríkisins. Þá er alveg greinilegt, hvílík hætta þarna kann að vera á ferðum.

Í 7. gr. er hins vegar verið að ákveða í stjskr. viss mannréttindi, sem nú þegar eru að miklu leyti viðurkennd. Í 7. gr. er kveðið á um rétt manna til atvinnu, að ríkið skuli stefna að því að tryggja öllum atvinnu og það skuli með lögum skipa fyrir um öryggi manna við vinnu, hæfilegan vinnutíma og ráðstafanir gegn ofþjökun. Nú sem stendur er í okkar stjskr. ekkert af þessum ákvæðum. Allrar þeirrar mannréttindabaráttu, sem háð hefur verið á Íslandi í upp undir heila öld með allmiklum árangri, má hvergi finna stað i sjálfri stjskr. Það, sem við þarna leggjum til, er raunverulega að festa í stjskr. þau mannréttindaákvæði, sem sérstaklega verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur barizt fyrir og meira eða minna knúið fram í áratugabaráttu sinni.

8. gr. er um að orða 70. gr. stjskr. öðruvísi, eða fer í þá átt að tryggja mönnum læknishjálp og ókeypis sjúkrahúsvist og rétt til styrkja úr almennum sjóðum. Þessi gr. kemur í staðinn fyrir gömlu gr. um aðstoð við þá fátæku, gömlu styrkþegagreinina, sem lengi vel var í „praksis“ og er enn þá í orði blettur á stjskr. Alþ. hefur þegar fyrir löngu afnumið það, sem ljótast var í þeirri gr., sem sé ákvæði um það, að með l. skyldi ráðstafa um rétt þeirra manna, sem yrðu að þiggja styrk af því opinbera, og eru þó ekki nema rúm 30 ár síðan ákveðið var, að þeir menn, sem styrk þáðu af því opinbera, skyldu hafa mannréttindi eins og kosningarrétt, og kostaði langa baráttu og harða að fá það fram. Með þessari gr. eru hins vegar öll þau réttindi, sem nú eru ákveðin með almannatryggingunum, fest í stjskr., og þess vegna væri það mjög eðlilegt að ákveða þá breyt. á stjskr., sem þar er farið fram á.

Þá er 9. gr. breyt. á 71. gr. stjskr., þar sem eru þan mjög almennu og gamaldags ákvæði viðvíkjandi skyldu til að uppfræða þau börn, sem foreldrarnir geta ekki sjálfir séð um að uppfræða, m.ö.o. aðeins staðfesting í stjskr. á sjálfum þeim lögum, sem nú gilda um alla skólafræðslu í landinu.

Í 10. og síðustu gr. er breyt. á þeirri gr. stjskr., sem tekin var á sínum tíma upp úr dönsku stjskr., gr. um herskyldu. Og engum manni, a.m.k. ekki innan Alþ., hefur dottið í hug að ætla að fara að framkvæma þá grein, og er sannarlega tími til kominn, að henni sé kippt burt. Hins vegar er orðalagið á henni þannig hjá okkur hér, að það er gert meira en að gera slíkt. 75. gr. stjskr. orðist svo: „Ísland er friðlýst land. Herskyldu má aldrei í lög leiða.“ Þar er því bæði verið að afnema gamla og úrelta gr. stjskr., en um leið verið að stíga spori lengra í því að friðlýsa landið og ákveða, að herskyldu megi aldrei í lög leiða.

Ég veit, að eins seint og nú er komið á Alþ., þá fær þetta frv. auðvitað ekki afgreiðslu, en við vildum samt flytja það á ný, þótt við fyndum það strax á s.l. þingi, að það mundi ekki eiga upp á pallborðið. En það vildi ég mega vona, að þm. íhuguðu þessi mál, ekki sízt vegna þess að menn eru farnir að finna til þess, og það fleiri en hjá okkur í Alþb., hve mannréttindaákvæðin eru orðin gamaldags og hve mikil þörf er á að breyta þeim. Og við gerðum það af ráðnum hug, flytjendur þessa máls, að snerta ekki við þeirri gr. stjskr., sem oftast hefur verið breytt, en mesta baráttan stendur alltaf um, og það er gr. viðvíkjandi kjördæmaskiptingu og kosningum til Alþ.

Ég vil svo leyfa mér að æskja þess, að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.