16.12.1966
Efri deild: 30. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

88. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég var eiginlega alveg undrandi á því, hvað hæstv. landbrh. var reiður í ræðustólnum. Af hverju reiddist ráðh.? Ég held, að hann hafi ekki komið að því, sem hann raunverulega reiddist af, og vil ég ekki endurtaka þau ummæli, sem hafa sjálfsagt orðið þess valdandi. Hver talar um smánarlega upphæð í þessu sambandi? Það hefur bókstaflega enginn gert hér í þingsölum, ekki í þessari d., nema hæstv. landbrh., ekki nokkur maður. En svona hefur hann rétt eftir öðrum, að það er ekki trúandi einu einasta orði, sem hann fer með.

Hæstv. ráðh. spurði: Hvað hafa framsóknarmenn gert fyrir landbúnaðinn? Hvað hafa þeir gert? Ekki nokkurn skapaðan hlut, segir hæstv. ráðh. En úr því að hæstv. ráðh. minntist á þessa hluti, vil ég minna hann á það, að hann á metið í því að hafa skattlagt bændastéttina. Núverandi hæstv. fjmrh. og landbrh. eiga metið í því að hafa skattlagt bændastéttina. Þeir láta Búnaðarbankann lána það fé, sem þeir hafa skattlagt hjá bændum. Þetta hefur engum hugkvæmzt fyrr. Þannig mætti lengi telja. Og hæstv. núverandi fjmrh. skattleggur bændur landsins miklu meira í beinum og óbeinum sköttum heldur en nokkur annar ráðh. hefur gert. Þessar tölur tala sínu máli, og þeir vita og mega gjarnan vita sín afrek í þessum efnum.

Um það, hvað Framsfl. hefur gert fyrir bændastéttina, tel ég ekki þörf á að ræða hér, því að það er íslenzku þjóðinni svo vel kunnugt, að óþarft mun upp að telja, því að það er vart það málefni og sú löggjöf varðandi landbúnaðinn, sem framsóknarmenn eru ekki upphafsmenn að og Framsfl. hefur komið heilu og höldnu í höfn hér í þingi og það jafnvel í stjórnarandstöðu. Hæstv. núv. landbrh. hefur þó þrátt fyrir allt tínt upp okkar mál og gert að sínum málum. Eftir að hann hefur verið búinn að láta drepa þau eða láta þau liggja í þinginu, hefur hann gert þau að sínum málum og þannig ýtt þeim fram, af því að hann hefur talið þau vinsæl. Annars hélt ég nú, að þessi hæstv. ráðh. ætti ekki að vera að tala um yfirborðsmennsku eða yfirboðstill. Ég veit ekki, hver hefur á Alþ. í stjórnarandstöðu flutt yfirborðskenndari till. en þessi hæstv. ráðherra.