24.10.1966
Efri deild: 6. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í C-deild Alþingistíðinda. (2069)

21. mál, framleiðnilánadeild við Framkvæmdasjóð Íslands

Flm. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Á þskj. 21 flyt ég ásamt öðrum hv. þm. Framsfl. í þessari deild frv. til laga um framleiðnilánadeild við Framkvæmdasjóð Íslands. Efnislega er þetta frv. sams konar og frv., sem við höfum flutt á undanförnum árum tvivegis, með tveim breytingum þó, sem leiðir af því, að Framkvæmdabanka Íslands hefur nú verið breytt í Framkvæmdasjóð Íslands. Það er gert ráð fyrir því, að stofnuð sé sérstök lánadeild við framkvæmdasjóðinn, sem hafi þann tilgang að veita fyrirtækjum atvinnuveganna lán umfram þau, sem fáanleg eru hjá stofnlánasjóðunum, í því sérstaka augnamiði að bæta framleiðnina og auka véltækni, koma á fullkomnara framleiðsluskipulagi og hagræðingu.

Þegar talað er um framleiðni, er venjulega átt við vinnuframleiðnina, sem skilgreind er sem hlutfallið milli þess nettó-vinnsluvirðis, sem fram kemur, og þeirrar vinnu, sem í viðfangsefnið er lögð, og framleiðnin er þannig mælikvarði á verðmætið, sem skapast fyrir hverja vinnueiningu. Það er alkunna, að framleiðsluaukning okkar Íslendinga á undanförnum árum hefur ekki nema að nokkru leyti átt rót sína að rekja til framleiðniaukningar og fólksfjölgunar og að sú framleiðniaukning, sem hefur orðið, er á allt of takmörkuðum sviðum, og þannig hefur skapazt misvægi milli framleiðni hinna ýmsu atvinnugreina, sem í ýmsum tilvikum getur verið mjög óæskilegt. Orsakir þeirrar framleiðsluaukningar, sem við höfum haft á undanförnum árum, eru þess vegna öllu frekar óvenjuleg aflabrögð og svo hitt, að vinnuframlagið hefur aukizt mun meira en svarar til fólksfjölgunarinnar, þar sem vinnutíminn á undanförnum árum hefur verið stórum lengri en eðlilegt verður talið, og þó að sú þróun virðist nú vera í hámarki, þar sem nýjustu skýrslur virðast benda til þess, að þessari sífelldu aukningu vinnutímans sé nú lokið og kannske sé heldur að breytast í hina áttina, þá er það nú svo lítið, að það verður varla greint, en hámarki virðist þó þessi þróun hafa náð í bili. En það er nauðsynlegt að stytta vinnutímann, svo að um munar, í framtíðinni, og til þess að það geti gerzt án verulegs tekjumissis, verður að leggja áherzlu á aukna framleiðni.

Þær breytingar, sem á undanförnum árum hafa verið gerðar á tollalöggjöfinni, hafa minnkað mjög tollvernd innlends iðnaðar, enn fremur hefur verðbólgan hér innanlands sömu áhrif : að rýra þá tollvernd, sem framleiðslugreinarnar hafa á innlendum markaði. En í sambandi við þessar tollabreytingar voru boðaðar ráðstafanir til þess að efla samkeppnisgetu iðnaðarins, en það hefur því miður orðið bið á því, að þær hafi komið til framkvæmda af nægilegum krafti.

Fyrir nokkrum árum starfaði hér á vegum Efnahagsstofnunarinnar sérfræðingur ásamt fulltrúum ríkisstj. og hagsmunasamtaka iðnaðarins að athugun á þeim vandamálum, sem leiddi af minni tollvernd og aukinni samkeppni. Niðurstaða þeirra athugana varð sú, að það þurfti að gera öflugt átak til að auka framleiðni þessara atvinnugreina, og þessi sérfræðingur og þeir, sem með honum unnu, bentu á ýmsar ráðstafanir, sem gera þyrfti af hálfu hins opinbera til þess að greiða fyrir því. Sumt af því hefur að einhverju leyti komið til framkvæmda. Má nefna eflingu iðnlánasjóðsins frá 1963 og áætlun félmrn. um menntun hagræðingarsérfræðinga frá 1964. Slíkar ráðstafanir eru að sjálfsögðu góðra gjalda verðar, svo langt sem þær ná, en það þarf miklu fleira til. Ég vil vitna hér í tvo vitnisburði um þann drátt, sem orðið hefur á því, að þessar ráðstafanir kæmu til framkvæmda. Forstjóri Efnahagsstofnunarinnar, Jónas Haralz, hélt fyrir nokkru erindi í Félagi íslenzkra iðnrekenda, þar sem hann gerði grein fyrir þessum tillögum og hvernig gengi að framkvæma þær. Þetta erindi hans hefur verið prentað í tímariti Félags íslenzkra iðnrekenda, og ég leyfi mér, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í nokkrar setningar úr því. Þar segir, þegar lýst hefur verið þeim ráðstöfunum, sem gera þurfi i þessu tilefni: „Upphaflega var að sjálfsögðu ætlunin, að reynt væri að fylgja eftir þeim tillögum, sem hann (þ.e. sérfræðingurinn) gerði, sem allra fyrst. Það má segja, að tvennar ástæður séu fyrir því, að lítið hefur orðið úr þessu enn sem komið er.“ Í fyrsta lagi er gerð grein fyrir þróuninni á alþjóðavettvangi í sambandi við tollalækkanir, að þær hafi orðið hægari en menn vonuðust eftir, og skal ég ekki rekja það, sem um það er sagt, en síðan segir: „Hin ástæðan, sem er enn veigameiri, er það ástand, sem skapaðist í efnahagsmálum hér á landi á sumrinu 1963. Það má segja, að síðan hafi ekki verið nein skilyrði til þess fyrir stjórnarvöld í landinu, hvorki ríkisstjórn né embættismenn, að sinna framtíðarverkefnum af því tagi, sem hér um ræðir. Athyglin hefur orðið að beinast að aðkallandi vandamálum á kostnað skipulegs undirbúnings og áætlunargerðar vegna þýðingarmikilla framtíðarverkefna.“ Síðan segir: „Á þessu hefur nú aftur orðið nokkur breyting og betri skilyrði skapazt til þess að sinna verkefnum af þessu tagi.“

Það er þess vegna eðlilegt að gá í hinn nýjasta vitnisburð um það, hvernig gengið hafi að sinna verkefnum af þessu tagi, og ég vil í beinu framhaldi af þessu leyfa mér að vitna í skýrslu

Efnahagsstofnunarinnar til Hagráðs, þar sem um þetta er fjallað, og vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa nokkrar setningar úr því plaggi, þar segir:

„Ljóst er, að iðnaðarframleiðsla hlýtur að verða meginuppistaða í þróun atvinnulífsins hér sem í öðrum þróuðum löndum. Til þess að sá iðnaður geti svarað þeim vaxandi tekjukröfum, sem til hans eru gerðar, verður að eiga sér stað mikil umsköpun til lífvænlegri skipulagshátta og rekstrar. Undanfarin ár hafa verið gerðar athuganir á aðstöðu iðnaðarins við skilyrði vaxandi samkeppni við iðnað annarra þjóða og framkvæmt talsvert undirbúningsstarf að aðlögun að þess konar skilyrðum. Í þeirri aðlögun felst, að iðnaðurinn mundi starfa á opnari vettvangi, sem virkari þátttakandi í alþjóðlegri verkaskiptingu með áherzlu á útflutning jöfnum höndum við sölu á innlendum markaði. Fyrirtækin þyrftu að verða stærri og hvert þeirra að einbeita sér að færri tegundum, svo að unnt sé að beita aðferðum stórframleiðslu og hagræðingu. Jafnframt hefðu fyrirtækin samvinnu um sókn inn á erlenda markaði og önnur verkefni, sem hverju þeirra fyrir sig væri um megn að valda. Ekki hefur enn gefizt ráðrúm til að hrinda aðgerðum af þessu tagi í framkvæmd nema að litlu leyti. Bæði fyrirtæki og stjórnarvöld hafa verið of önnum kafin við að glíma við afleiðingar tekju og verðlagsþróunar, jafnharðan og þær hefur að höndum borið, til þess að geta látið verkefni af þessu tagi sitja í fyrirrúmi. Hefur þessi þróun gengið svo nærri iðnaðinum, að mjög örðug skilyrði hafa skapazt til þeirrar umskipulagningar og endurbóta, sem hér um ræðir. Til þess að iðnrekendur hafi í senn nokkra hvatningu og getu til þess háttar ráðstafana, þarf umfram allt að ná betra efnahagsjafnvægi og öðlast þar með nokkra tryggingu fyrir því, að tekjuþróunin kollvarpi ekki þeim árangri, sem beztur getur orðið af slíkum endurbótum.“

Þetta er nýjasti vitnisburðurinn um, hvernig gengið hefur að vinna að þessum málum, og það verður að láta í ljós von um það, að á þessu geti nú skjótlega orðið breyting og fari að miða meira í áttina. Og það frv., sem hér liggur fyrir, er framlag af okkar hálfu í því skyni. Það hefur sérstaklega verið bent á það af hálfu iðnrekenda, að mikil þörf sé aukinna lána til þess að koma þeirri umfangsmiklu skipulagningu iðngreina og fyrirtækja fram, sem nauðsynleg er, fullkomnari framleiðsluháttum og aukinni véltækni og hagræðingu.

En þessi sjónarmið, sem hér hafa verið sett fram, eiga að sjálfsögðu ekki við eingöngu á sviði iðnaðarins. Það er öðru nær. Þau eiga við á flestum sviðum okkar efnahagslífs og atvinnulífs. Sú tæknibylting, sem oft er talað um að hafi átt sér stað í fiskveiðum undanfarinn áratug, hefur í rauninni aðeins náð til síldveiðanna eða nær eingöngu. Hlutur annarra greina fiskveiðanna er eftir, en það er ljóst, að þar verður ný tækni að koma til, ef sumar þeirra a.m.k. eiga ekki að dragast aftur úr og hverfa. Á undanförnum árum hefur hraðfrystihúsunum verið veittur styrkur af opinberu fé, sem nefnt hefur verið hagræðingarfé, enda í orði kveðnu ætlað til hagræðingar, þó að því hafi í framkvæmd verið úthlutað eftir fiskmagni frystihúsanna og því í rauninni verið beinar uppbætur á fiskverð. Það er líka vitað, að þó að sum hraðfrystihúsanna hafi haft nægilega góða afkomu til þess að geta notað þetta fé í hagræðingarskyni, þá eru önnur, sem hafa ekki getað það og hafa orðið að nota það sem uppbætur á fiskverðið, og þau eru áreiðanlega ekki fá. Það hefur komið oftsinnis fram af hálfu forsvarsmanna fiskiðnaðarins, að þeir telja mikla þörf á auknu lánsfé í þessu skyni.

Hagræðingar- og framleiðnivandamál landbúnaðarins hafa einnig verið mjög á dagskrá undanfarna mánuði, og víst er um það, að þar eiga í ýmsum efnum svipuð sjónarmið við. Ég skal ekki eyða tímanum í að rekja það, þau mál verða sjálfsagt sérstaklega til umræðu hér á hv. Alþingi, en ég vil á það benda, að þessi sjónarmið, sem ég hef sett fram í sambandi við aðrar atvinnugreinar, eiga að mörgu leyti við um þær, sem ég hef ekki sérstaklega nefnt.

Þess ber að geta, sem gert er i þessu sambandi, að á s.l. ári var lögunum um iðnlánasjóð breytt á þann veg, að heimilað var, að tekið væri 100 millj. kr. lán til þess að endurlána í þessu skyni. Þetta tel ég algerlega ófullnægjandi lausn á þessu stóra vandamáli. Hér þarf að koma til annað og meira en ein lántaka einu sinni. Hér þarf að stofna til varanlegrar sjóðsmyndunar í þessu skyni.

Enn fremur hefur það upplýstst, að í sambandi við viðræður bændasamtakanna við ríkisstj. á s.l. hausti munu þeir hafa fengið loforð um það, að ríkisstj. beitti sér fyrir aðgerðum í þessa stefnu á sviði landbúnaðarins. Um það er það sama að segja, það er óljóst, hvernig því eigi að haga, það liggur enn ekki fyrir. Og jafnvel þó að fyrir lægi, að einhverju fé ætti að veita til þeirrar starfsemi í eitt skipti fyrir öll í landbúnaði, eiga þar við sömu sjónarmið og ég nefndi áðan. Hér þarf að koma til varanlegrar sjóðstofnunar, sem að mínum dómi mundi nýtast bezt og ná bezt tilgangi sínum með því að vera í einu lagi fyrir alla atvinnuvegi, þannig að tilfærsla fjár á milli þeirra gæti átt sér stað á einstökum árum og einstökum tímabilum, eftir því sem vandamálin, sem fyrir lægju, segðu á hverjum tíma. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, miðar að því að skapa fjárhagsgrundvöll fyrir þeim miklu umbótum, sem nauðsynlegar eru hjá atvinnuvegunum í þessum efnum.

Það er gert ráð fyrir því í 3. gr. frv., að fjár til þessarar lánastarfsemi verði aflað með fernu móti: Með framlögum ríkisins, sem ættu að nema 10 millj. kr. á ári næstu 10 ár. Þá er gert ráð fyrir því, að Seðlabankinn annist sölu á skuldabréfum að upphæð 40 millj. kr. á ári næstu 10 árin. Það er gert ráð fyrir, að framkvæmdasjóður leggi deildinni til hluta af tekjuafgangi sínum. Og að endingu er gert ráð fyrir lántökum upp að vissu marki, eftir því sem þörf krefur. Nauðsyn aðgerða af þessu tagi er að dómi okkar flm. brýnni en nokkru sinni fyrr. Dýrtíðin leggst með vaxandi þunga á allan rekstur og fyrirtæki landsmanna, og það verður að styrkja þau og efla til þeirra viðbragða, sem þau eiga kost, við þeim vanda, nefnilega að bæta vinnubrögð sín, bæta tækni sína, aðferðir og skipulag til að mæta þeim búsifjum, sem dýrtíðin veldur.

Ég skal, herra forseti, ekki orðlengja meira um frv. þetta, nema tilefni gefist til, en vil leyfa mér að leggja það til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.