03.11.1966
Efri deild: 11. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í C-deild Alþingistíðinda. (2072)

45. mál, Búnaðarbanki Íslands

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Þm. Framsfl., sem sæti eiga í þessari d., eru allir flm. að frv. því, sem hér er til 1. umr., um breyt. á 1. um Búnaðarbanka Íslands. Ég mun leyfa mér að gera nokkra grein fyrir efni frv. með nokkrum orðum.

Atvinnurekstri í nútímaþjóðfélagi verður naumast haldið uppi nema með lánastarfsemi. Atvinnuvegirnir þurfa bæði á að halda stofnlánum og rekstrarlánum. Þetta hefur verið viðurkennt í löggjöf og settar á fót stofnanir til þess að veita öllum aðalatvinnuvegum þjóðarinnar fyrirgreiðslu á þessum sviðum. Stofnlánadeild landbúnaðarins gegnir því hlutverki að lána til bygginga í sveitum, bæði íbúðarhúsa og útihúsa. Einnig veitir stofnlánadeildin lán til ræktunar, og þessar framkvæmdir, framræslan, ræktunin og íbúðarhúsabyggingar í sveitum, njóta einnig óafturkræfs framlags, sem miðar að því að gera auðveldara að koma upp mannvirkjum í landbúnaði, auka ræktunina og bæta þannig búskaparskilyrðin á jörðunum. Það hefur einnig verið mörkuð sú stefna í löggjöfinni að stefna að því, að á hverju býli verði eigi minna en 25 ha. tún að skömmum tíma liðnum. En þegar þessu marki hefur verið náð, að koma upp varanlegum byggingum á sveitabýli og rækta þar a.m.k. 25 ha. tún, er mikið verðmæti bundið í slíkri jörð og þeim mannvirkjum, sem á henni eru.

Vitanlega vilja þeir, sem bera hag landbúnaðarins fyrir brjósti, að sem mest festa sé í búsetu í sveitum. En það er samt sem áður ekki hægt að loka augum fyrir því, að eigendaskipti hljóta alltaf að eiga sér stað á nokkrum jarðeignum ár hvert. Það verður ekki hjá því komizt, að menn, sem eru orðnir aldraðir eða af öðrum ástæðum verða að hætta atvinnurekstri, láti eignir sínar af hendi í hendur annarra, sem vilja annast þar atvinnurekstur. Þessi eigendaskipti gerast með tvennum hætti: annars vegar, að jarðeignir ganga kaupum og sölum milli fjarskyldra eða vandalausra aðila, og hins vegar á þann hátt, að yngri kynslóðin tekur við eignum úr höndum hinnar eldri í sambandi við erfðaskipti, og þarf þá oft sá, sem tekur við fasteigninni, að leysa út hluta samarfanna og hafa til þess handbært fjármagn.

Veðdeild Búnaðarbankans á að gegna því hlutverki að veita lán til jarðakaupa. En því miður hefur veðdeildin um langt skeið átt við fjárskort að stríða, svo að hún hefur alls ekki í fullum mæli getað sinnt því hlutverki, sem henni er ætlað. Það eru ekki mörg ár síðan hámark þeirra lána, sem veðdeildin veitti til jarðakaupa, var 35 þús. kr. út á hverja jarðeign, sem gekk kaupum og sölum. Fyrir nokkru mun þetta hafa verið hækkað upp í 100 þús. kr. En jafnframt vex verðbólgan sí og æ, svo að 100 þús. kr. nú eru ekki að verðmæti meira en 35 þús. kr. voru fyrir nokkrum árum. Það er því alveg augljóst, að sú fyrirgreiðsla, sem veitt er að þessu leyti, er alls kostar ófullnægjandi.

Skýrt hefur verið frá því, að í sambandi við samninga um afurðaverð í septembermánuði s.l. hafi verið um það samið af hálfu fulltrúa bænda í 6 manna n. annars vegar og ríkisstj. hins vegar, að stefnt skyldi að því nú þegar á næsta ári, að lán, sem veðdeildin veitti, yrðu hækkuð að nokkrum mun, þannig að hámark þeirra lána yrði 200 þús. kr., og veðdeildinni yrði séð fyrir fjármagni til að standa straum af þessu. Þetta er mjög góðra gjalda vert, svo langt sem það nær. En þetta sýnir í fyrsta lagi áhuga bændastéttarinnar á því að fá lausn á þessu máli, og í öðru lagi sýnir það viðurkenningu ríkisstj. á því, að hér sé úrbóta þörf. En jafnvel þó að þessi lán yrðu hækkuð upp í 200 þús. kr., nær það allt of skammt, og það er augljóst, að ef verðbólguvöxturinn heldur áfram með þeim hraða, sem verið hefur og eins og horfir nú á þessum tíma, verður þessi fjárhæð ekki nægileg til þess að létta verulega undir í því efni, sem hér um ræðir. Frv. það, sem hér liggur fyrir, miðar að því að efla veðdeild Búnaðarbankans og leggja með því grundvöll að eðlilegri lánastarfsemi á þessu sviði.

Frv. gerir ráð fyrir því, að það verði meginregla, að lán, sem veðdeildin veitir vegna jarðakaupa, megi nema allt að 70% af virðingarverði fasteignarinnar. En þá er miðað við, að í framkvæmd verði tekið tillit til lána úr stofnlánadeild Búnaðarbankans, sem á hlutaðeigandi jörð hvíla og veitt hafa verið til bygginga eða ræktunar, þannig að lán úr veðdeild megi lækka miðað við þetta hlutfall virðingarverðs, sem stofnlánadeildarlánum nemur. Er þá haft í huga, að venjulega mun það vera svo, þegar um viðskipti af þessu tagi er að ræða, að kaupandi eða viðtakandi fasteignarinnar yfirtaki þau lán, sem á jörðinni hvíla og veitt hafa verið til bygginga og ræktunar. Ég vil vekja eftirtekt á því, að með því að taka upp þá reglu, sem hér er lagt til að fylgt verði framvegis, að lánshæðin sé viss hundraðshluti af virðingarverði fasteignarinnar, á að vera tekið tillit til þess, að verðlag breytist, á að vera gengið út frá því, að virðingarverð fasteignarinnar á hverjum tíma sé í samræmi við raunverulegt verðmæti hennar og virðingarverðið hljóti að hækka, eftir því sem verðbólgan eykst, þannig að með því að binda ekki lánsfjárhæðina við visst hámark í krónutölu á að vera auðið að veita hæfilega og nauðsynlega fyrirgreiðslu í þessu efni, ef fylgt er því hlutfalli virðingarverðs fasteignarinnar, sem hér er gert ráð fyrir.

Lánstími á samkv. frv. að vera 40 ár, en nánar er þó ákveðið um lánstíma í reglugerð eftir því, hverrar tegundar veðið er. Lán vegna jarðakaupa skulu vera afborgunarlaus fyrstu tvö árin og vextir af slíkum lánum eigi hærri en 4%, svo sem kveðið er á í frv. Til þess að veðdeildinni yrði fært að standa við þær skuldbindingar, sem þannig yrðu ákveðnar samkv. frv., er gert ráð fyrir því að afla henni nýrra og stóraukinna tekna. Það er gert ráð fyrir því, að til veðdeildarinnar renni árlegt framlag úr ríkissjóði, 20 millj. kr., enn fremur verði veðdeildinni greiddar 10 millj. kr. árlega, sem heimilt er samkv. núgildandi l., að stofnlánadeildin leggi fram í þessu skyni. Í þriðja lagi hefði svo veðdeildin þann hluta, sem henni er ætlað af stóreignaskatti samkv. 1. um það efni frá 1957. Og í fjórða lagi eru vaxtatekjur. En til viðbótar þessu á að gera Seðlabanka Íslands skylt, ef ríkisstj. óskar þess, að lána veðdeildinni allt að 100 millj. kr. vegna starfsemi hennar. Veðdeildin skal endurgreiða Seðlabankanum lán þetta með jöfnum afborgunum á 20 árum, og ríkissjóður ábyrgist allar skuldbindingar veðdeildarinnar gagnvart Seðlabankanum. Lánin, sem veðdeildin veitti, yrðu a.m.k. að 3/5 hlutum greidd í peningum, og ef veðdeildin hefði næg fjárráð til þess að greiða alla lánsupphæðina í peningum, er það heimilt samkv. þessu frv. En ef svo færi, að þær tekjur, sem frv. ráðgerir að veðdeildin fái, nægðu ekki til þess að greiða lánsupphæðina að fullu í peningum, er veðdeildinni heimilað samkv. frv. að gefa út nýjan flokk bankavaxtabréfa og þau bankavaxtabréf skuli eingöngu nota til að greiða fyrir viðskiptum á þessu sviði, en þá er heimild til að greiða allt að 40% lánsfjárhæðarinnar í slíkum bankavaxtabréfum. Það er skoðun okkar flm., að þetta yrði til þess að greiða fyrir eðlilegum viðskiptum á þessu sviði, ef þörf þætti að grípa til þessarar heimildar.

Frv. samhljóða því, sem hér er nú til 1. umr., var borið fram í þessari hv. d. á síðasta þingi, og það var, að því er mig minnir, lagt fram á fyrri hluta þingtímans. Því frv. var vísað til hv. fjhn. þessarar d., en ég ætla, að frá n. hafi ekki komið nál. um málið. Ég vil nú vænta þess, að þar sem m.a. málið er deildinni kunnugt og þess eðlis, að það á ekki að vera neinum vandkvæðum bundið að átta sig á efni þess, og enn fremur þegar þess er gætt, að a.m.k. sumir, sem í hv. fjhn. sitja, hafa sérþekkingu á sviði hagfræði og fjármála, vil ég nú eindregið vænta þess, að hv. fjhn. vinnist tími til að átta sig á þessu máli og afgreiði frá sér álit um það, áður en margar vikur líða, svo að d. fái þó að skera úr um afgreiðslu málsins. Í trausti þessa leyfi ég mér enn að leggja til, eins og gert var á síðasta þingi, að frv. þessu verði vísað til hv. fjhn.